Greinasafn fyrir merki: Jesús Kristur

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.

Guð er í endurvinnslunni

Blámessa – vatnið – lífandi vatn

Fyrir skömmu var kínversk fjölskylda í verslunni Nettó að stafla plastflöskukippum, fullum af vatni, í innkaupakerrur. Þetta var undarlegur gjörningur og öllum var ljóst, að fjölskyldan væri að byrgja sig upp fyrir langferð um Ísland. Kona, sem ég þekki, horfði á fólkið og sá, að þau voru búin að setja sextíu plast-vatnsflöskur í kerrurnar. Hún hugsaði sig um: „Á ég að fara og skipta mér af þessu?“ En svo tók hún ákvörðun og sagði fólkinu, að það væri óþarfi að kaupa vatn því alls staðar væri jafnhreint vatn á Íslandi – og líklega betra vatn en í þessum plastflöskum. Hér væri vel væri gætt að hreinlætinu í vatnsveitum. Flöskuvatnið væri bara sóun. Þau kínversku spurðu hvort vatnið á hótelunum væri í lagi. „Já“ svarði hin íslenska. Og ferðamennirnir skiluðu öllu vatninu og þökkuðu fyrir sig. Það er engin ástæða til að blekkja erlenda ferðamenn. Það á ekki að fleygja fjármunum í vatnskaup og auka þar með plastmengunina líka. Og það er líka orðin umhverfissiðfræðileg köllun, að minna fólk á mikilvægi hreins vatns í búðum, kirkjum, þingsölum, veislum og samtölum. Hreint vatn úr er ekki sjálfgefið í veröldinni.

Vatnið og Jesús Kristur

Það gutlar í textum dagsins og það er niður vatns í þeim. Í Hallgrímskirkju eru fimm sunnudagar helgaðir íhugun um gildi, mikilvægi og verndun lífríkis jarðarinnar. Þetta eru ekki bara grænir sunnudagar heldur afar litríkir því allir litir náttúrunnar tjá fjölbreytni sköpunarverksins. Og í dag er messan ekki græn heldur blá. Í blámessu fjöllum við um vatn. Frá skrælþurrum Ísrael hljómar þetta fagra: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Jesús var heillaður af vatni. Hann fór gjarnan að lækjum og vötnum og hjálpaði vatnsleitandi fólki. Hann var vatnamaður og óð út í Jórdan til að laugast og helgast köllun sinni. Kristnir menn fortíðar ályktuðu, að vegna Jórdanviðburðarins hefði Jesús Kristur helgað öll vötn veraldar. Vatnið er heilagt af því Jesús blessaði það með því að metta það veru sinni. Og svo mælti Jesús Kristur næsta hraustlega og sagðist sjálfur vera vatn lífsins. Hvað þýðir það?

Vatnið í stefnu Guðs

Lifandi vatn er annað en þetta venjulega vatn og verður að skiljast í ljósi lífs hans alls og allt til enda. Í baráttu Jesú Krists síðustu klukkustundirnar á krossinum þyrsti Jesú áfaflega. Hann bað um að fá að drekka. Öllu er snúið við í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.[i] Krossþorsti Jesú vísar til allra vatnssagna sagna Biblíunnar. Allir vatnstextar helgiritasafnsins eru flaumar merkingar, sem renna saman og sameinast á krossinum. Og hið eftirtektarverða er, að hið andlega þarfnast hins efnislega. Hið efnislega þarfnast líka hins andlega í lífi fólks í heiminum. Í beiðni Jesú nærri dauðastund á krossinum er gríðarlegt merkingarþykkni. Drykkjarbæn hans varðaði meira en að þorsta eins manns. Þessi krossbæn Jesú tengdi ekki aðeins við aðstæður eða fólk á Golgatahæð, heldur við alla sögu Gyðinga og Hebrea, við allar aldir, við alla sköpun heimsins. Þessi bæn Jesú endurómar gjörning, verðandi, Guðs við sköpun veraldar. Í orðum Jesú á krossinum endurómaði rödd Guðs við sköpun heimsins. Í þorstagjörningi Jesú var allur lífsvilji Guðs fram settur því vatn í lífi Jesú var ekki bara efni fyrir líkama lífvera heldur guðlegt efni, sem tjáði alla elsku Guðs, vilja Guðs og erindi. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. Allt það, sem er að auki, lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það, að vernda vatnið í veröldinni. Á mannamáli segjum við að vatn sé einstakt. Guð gaf því hlutverk í sköpun og Guð minnti á vatnið á hinum veraldarástnum, föstudeginum langa. Á máli trúarinnar merkir það, að vatnið er heilagt því Guð hefur fengið því einstakt hlutverk fyrir líf. Og það eitt er nægilegt trúmönnum til að verða vatnsverndarfólk.

Vatnið alls staðar

Vatn er gamalt, eldra en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Guð endurvinnur vatn í það óendanlega. Guð er í endurvinnslunni. Í okkur öllum er vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Vatnið í þér varð ekki til rétt áður en þú fæddist. Vatnið sem er núna hér í kirkjunni, í ykkur öllum, líka þér, hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Gvendarbrunnavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar, ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda. Vatn er dýrmæti heimsins og við erum öll vatnsfólk. En vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum plantna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Stefna Sameinu þjóðanna, Evrópusambandsins og reynslan af vatnsbaráttu tuttugustu aldar hefur opinberað að vatn sé frumgæði, sem allir eigi að eiga fá að nýta án þess að borga fyrir annað en aðveitukostnaðinn. Og að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Og kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Hnötturinn okkar er blár, vatnið er alls staðar á og í  þessari lífkúlu okkar, lofti, láði og legi. Vatn er í möttli, í jörðu, í vötnum, öllum sprænum veraldar, í sjó og ofar höfðum okkar og flugvélunum líka. Ekkert líf lifir á þessari kúlu okkar nema vegna vatns. Án þess myndi allt deyja.

Hvað var í kringum þig og var þitt nærsamhengi þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Það er ekki einkennilegt, að vatn er í báðum sakramentum kirkjunnar – því allra heilagasta, í skírn og í altarisgöngu.

Heilsa og ábyrgð

Engill Guðs hrærir í vatni veraldar. En nú er það lífríkið allt sem er veikt. Og við menn sjáum, að við berum ábyrgð á sjúklingnum. Markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi vatn eru alvöru ábyrgðarmál okkar kristinna manna. 6. markmiðið um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fólks í heiminum og 14. markmiðið um líf í vatni, auðlindir og allan hinn stórkostlega lífvefnað í höfum og vötnum. Viltu verða heill? Það er spurning Guðs til okkar og varðar hvort við lifum með ábyrgð eða bara af grimmilegri sjálfsást. Tak til starfa, verði ljós, hreinsaðu vatn, stattu vörð um vatnið. Það er trúarleg köllun okkar og ljúf skylda.

Engill vatns

Kínversku ferðamennirnir, sem skiluðu vatnsflöskunum í Nettó hlupu til konunnar út á plan til að þakka enn og aftur. Þau sögðu við hana: „Þú ert engill.“ Okkar hlutverk í veröldinni er að verða vatnsverndarfólk, englar vatnsins og þjónar lífsins.

Amen

Hallgrímskirkja 22. sept 2019. Blámessa – tímabil sköpunarverksins.

Afhent skjal um framlag Hallgrímskirkju til Hljóðbókaverkefnisins Biblíufélagsins. Til minningar um dr. Sigurð Pálsson, fyrrum sóknarprest Hallgrimskirkju og framkvæmdastjóra HÍB.

[i]Sjá t.d. Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman.“ 13 kafli í The Interpretation of John, 2nd ed., ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).

Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.

 

Klopp og Kristur

Hefur það áhrif á líf fólks að trúa á Guð? Fólk er mismunandi og þau sem eru kristin eru ekki eins heldur alls konar. Sumir nota trú eða meðhöndla hana að eigin þörfum en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. Knattspyrnustjóri í Englandi er áhugaverður maður sem veitir Jesú Kristi aðgang að búningsklefanum. Hann var valinn til starfa í Liverpool af því hann umgekkst ekki leikmenn sem gæja með töfra í tánum heldur sem manneskjur. Þessi lífsafstaða hefur þjónað liðinu vel.

Knattspyrnulið Liverpool er að nýju að verða eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum var og þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Eftir nokkurra ára baráttu ákvað stjórnin að ráða Jürgen Klopp sem stjóra liðsins. Hann var undraþjálfari í heimalandi sínu í Þýskalandi og náði lengra með liðum sínum en flestir höfðu átt von á. Sem sé toppmaður. Og síðan hefur hann umbreytt liði Liverpool á stuttum tíma, gefið leikmönnum nýja djörfung, blásið þeim trú í brjóst, endurnýjað liðsandann og smitað gleði og von til stuðningsmanna Liverpool. Og Liverpool er að nýju orðið eitt af bestu liðum í Evrópu. Í síðustu viku sundurspilaði liðið Roma og í vikunni komst það í úrslit í bestu deild veraldar, meistaradeild Evrópu. Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Vegna þessa hefur knattspyrnupressa heimsins verið með augun á Klopp þessum og Liverpool. Í skemmtielgu viðtali við hann var spurt um liðið, andann, leikmennina, tæknina og skipulagið. Þegar hann hafði svarað öllu greiðlega var spurt um hans eigin persónu og nálgun: „Hvað með sjálfan þig? Nú ertu orðinn frægur þjálfari. Hvaða máli skiptir það þig persónulega?“ Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Og það þýðir að ég sé sjálfan mig í ljósi heildar. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið og ég er í liðinu.“

„Ég er kristinn.“ Það var svarið. Þekkt er að Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega. Hann er sjálfsagt ekki fullkominn frekar en við hin en skilur og tekur afleiðingum af hvað trú merkir. Allir sem fylgjast með fótbolta Liverpool hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk, af virðingu, með hlýju og til að stykja. Hann byggir upp liðsheild hóps sem vinnur saman og til stuðnings öðrum. Ég er kristinn. Það merkir að ég er hluti af heild, ég styð aðra, ég lít ekki á sjálfan mig sem einstakan snilling heldur sem einn af mörgum í stóru teymi fólks. Það er heildin sem er samhengi einstaklinga og þegar við skiljum það skiljum við betur eðli kirkjunnar. Þegar við skiljum eðli kirkjunnar sem samfélags skiljum við mikið um þarfir og eðli einstaklinga. Og þegar við höfum náð því stóra samhengi skiljum við betur afstöðu Guðs til manna og veraldar.

Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist varðar að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari, klárari en allir aðrir. Við erum aðeins einstök í tengslum við fólk, lífsamhengi okkar og Guð. Við megum gjarnan spyrja okkur: Hvaða lífsafstöðu hef ég? Hvað skilgreinir mig og tengsl mín við fólk? Ertu kristinn? Og púlarar, stuðningsmenn Liverpool, syngja hástöfum: „You will never walk alone.“ Í því er ljómandi áhersla sem rímar vel við meginstef kristninnar. Hvort Liverpool vinnur meistaradeildina eða ekki á eftir að koma í ljós. En kristin trú virkar vel í tengslum, í fótbolta og í meistaradeildum hversdagslífsins.

Hefur það áhrif á líf fólks að trúa á Guð? Fólk er mismunandi og þau sem eru kristin eru ekki eins heldur alls konar. Sumir nota trú eða meðhöndla hana að eigin þörfum en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. Knattspyrnustjóri í Englandi er áhugaverður maður sem veitir Jesú Kristi aðgang að búningsklefanum. Hann var valinn til starfa í Liverpool af því hann umgekkst ekki leikmenn sem gæja með töfra í tánum heldur sem manneskjur. Þessi lífsafstaða hefur þjónað liðinu vel.

Knattspyrnulið Liverpool er að nýju að verða eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum var og þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Eftir nokkurra ára baráttu ákvað stjórnin að ráða Jürgen Klopp sem stjóra liðsins. Hann var undraþjálfari í heimalandi sínu í Þýskalandi og náði lengra með liðum sínum en flestir höfðu átt von á. Sem sé toppmaður. Og síðan hefur hann umbreytt liði Liverpool á stuttum tíma, gefið leikmönnum nýja djörfung, blásið þeim trú í brjóst, endurnýjað liðsandann og smitað gleði og von til stuðningsmanna Liverpool. Og Liverpool er að nýju orðið eitt af bestu liðum í Evrópu. Í síðustu viku sundurspilaði liðið Roma og í vikunni komst það í úrslit í bestu deild veraldar, meistaradeild Evrópu. Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Vegna þessa hefur knattspyrnupressa heimsins verið með augun á Klopp þessum og Liverpool. Í skemmtilegu viðtali við hann var spurt um liðið, andann, leikmennina, tæknina og skipulagið. Þegar hann hafði svarað öllu greiðlega var spurt um hans eigin persónu og nálgun: „Hvað með sjálfan þig? Nú ertu orðinn frægur þjálfari. Hvaða máli skiptir það þig persónulega?“ Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Og það þýðir að ég sé sjálfan mig í ljósi heildar. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið og ég er í liðinu.“

„Ég er kristinn.“ Það var svarið. Þekkt er að Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega. Hann er sjálfsagt ekki fullkominn frekar en við hin en skilur og tekur afleiðingum af hvað trú merkir. Allir sem fylgjast með fótbolta Liverpool hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk, af virðingu, með hlýju og til að stykja. Hann byggir upp liðsheild hóps sem vinnur saman og til stuðnings öðrum. Ég er kristinn. Það merkir að ég er hluti af heild, ég styð aðra, ég lít ekki á sjálfan mig sem einstakan snilling heldur sem einn af mörgum í stóru teymi fólks. Það er heildin sem er samhengi einstaklinga og þegar við skiljum það skiljum við betur eðli kirkjunnar. Þegar við skiljum eðli kirkjunnar sem samfélags skiljum við mikið um þarfir og eðli einstaklinga. Og þegar við höfum náð því stóra samhengi skiljum við betur afstöðu Guðs til manna og veraldar.

Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist varðar að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari, klárari en allir aðrir. Við erum aðeins einstök í tengslum við fólk, lífsamhengi okkar og Guð. Við megum gjarnan spyrja okkur: Hvaða lífsafstöðu hef ég? Hvað skilgreinir mig og tengsl mín við fólk? Ertu kristinn? Og púlarar, stuðningsmenn Liverpool, syngja hástöfum: „You will never walk alone.“ Í því er ljómandi áhersla sem rímar vel við meginstef kristninnar. Hvort Liverpool vinnur meistaradeildina eða ekki á eftir að koma í ljós. En kristin trú virkar vel í tengslum, í fótbolta og í meistaradeildum hversdagslífsins.

Pabbar eru líka fólk

 

Hvenær byrjar eilífa lífið? Í þessu lífi. Þegar barn er vígt himninum í skírn kyssir eilífðin tímann. Skírn og trúaruppeldi hafa verið töluð niður í samfélagi okkar en ekkert er of gott fyrir börnin. Og börnin þurfa að læra margt og eflast að þroska. Sálarþroski og trúarþroski er einn veigamesti þáttur þess að verða manneskja. Börnin þurfa að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfum sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan aðstoðar við trúarlega mótun en heimilin eru afgerandi um hvort börnin fá notið trúarþroska. Guðmæður og guðfeðgin hafa líka hlutverk við uppeldið. Við erum öll kölluð til að blessa börnin. Karlarnir hafa líka hlutverk; feður, afar, bræður – já heilu karlahóparnir.

Leyfið

Við allar skírnir á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín…” – segir hann – “…varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir fara gjarnan með textann við skírnirnar en stundum lesa foreldrar, guðfeðgin eða aðrir ástvinir. Sjaldan er fyrirstaða með að afla lesara og það er gaman að sjá og heyra ástvinina flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum að koma til Jesú. Þegar bræður eða pabbar lesa hef ég stundum hugsað um vilja karlanna til uppeldis. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna

Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og ræktun kærleikans. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru að ræða þessi mál. Fæst hiksta þegar spurt er um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum í þeim efnum. Og þær eru margvíslegar og alls konar.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu eða geti verið á öllum sviðum. Frjálsir pabbar samtíðans eru tilbúnir til góðra verka. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna

Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldi. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu trúarlegu mótunarhlutverki. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Ástæðurnar voru menningarlegar. Atvinnuhættir og samfélagsgerð bundu marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum, svo sem út á sjó. Í heimi þar sem karlar áttu að bíta á jaxlinn í sorgum og áföllum áttu sumir þeirra í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Og konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun.

Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun. En hörkunaglarnir detta úr tísku. Feður samtíma okkar eru mun virkari í uppeldi ungviðisins nú en fyrir þremur áratugum. Þáttaka kvenna og karla er jöfn í atvinnulífinu og eðlilegt að karlarnir axli jafna ábyrgð í heimilislífinu.

Gæði fæðingarorlofs

Kynhlutverkin hafa breyst. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) höfðu góð áhrif á íslenska feður. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við mæður. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að flestir karlarnir eru afar barnvænir. Þeirra hlutverk er ekki lengur bara á kafi í að byggja eða nota feðraorlof í puð. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem nýta sér ekki orlofið. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar. Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar heimilisbragur og líðan heimilisfólksins þar með.

Margir feður hafa nýtt tímann vel og notið þessa tíma. Einn faðir setti þá athugasemd á netið, að föðurorlof hans hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld”skrifaði hann.

Vilja vera heima en verða að vinna!

Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en atvinnusamhengi feðranna þarf að bæta. Það kemur í ljós að of margir feður telja sér ekki fært að taka sína orlofsmánuði. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfi ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta þegar þeir koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barn stefni vinnu í voða. Of margir feður telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Það er skaði því það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnum og fjölskyldum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur að börnin fái notið alls hins besta í lífinu – líka feðra sinna. Þeir eiga að fá næði til tengjast börnum sínum og vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með barni sínu, fær betri möguleika á að leggja traust í sál þess og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði “leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi.” Skírnin er mikilvæg og Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Foreldrarnir báðir hafa trúarhlutverki að gegna.

Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf – þá blessum við börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Hallgrímskirkja, 8. janúar 2017, 1. sunnudag eftir þrettánda.