Greinasafn fyrir merki: Jesús Kristur

Myndin af Jesú Kristi

Kristnir menn leyfa eftirmyndir af Jesú. Því er til fjöldi mynda af Jesú frá öllum öldum. Þær eru misgóðar. En besta myndin af Jesú er ekki til heldur verður Jesús aðeins séður og skilinn á forsendum hverrar tíðar. Mynd Jóhannesarguðspjalls er ein margra Jesúmyndanna, mynd Ágústínusar kirkjuföður önnur og rissa Jóns Vídalíns af Jesú Kristi enn önnur. Fólk sem hrífst af Jesú Kristi eða lætur hann sig einhverju skipta gera sér mynd af honum. Myndirnar eru margvíslegar og spretta fram af mismunandi ástæðum og forsendum. Sumar eru túlkun á trúarreynslu, aðrar vörpun á pólitískri draumsýn hóps og enn aðrar eru siðferðisfordæmi.

Upphafnar Jesúmyndir draga fram himneskt eðli hans og samkvæmt þeim verður Jesús aðallega andleg, upphafin vera. Þetta eru guðhverfu Jesúmyndirnar.

Á hinum vængnum eru mannhverfar myndir og vegna þess að augum er frekar beint til jarðar en himins verður Jesús fremur mannafrömuður en himinfrelsari.

Hver kynslóð lyftir þeim myndum af Jesú sem gefa aðstæðum tímans einhverja túlkandi merkingu. Hin eina og sanna mynd af Jesú er því ekki til nema í veruleika Guðs. En menn leita þess að lifa með hinum guðlega elskhuga, skilja hann og ímynda sér veru hans og eðli. Í samlífinu opinberar Guð ásjónu sína og gefur innsýn í eigindir sínar. Það kalla kristnir menn opinberun. Myndagerðin er gagnvirk því kristnir menn leggja til myndagerðarinnar með lífi sínu og líka með því að segja söguna um Jesú með þeim besta hætti sem menn kunna að tjá. Saman verða myndirnar af Jesú marglaga mósaíkmynd kynslóðanna. Við sjáum það sem við höfum þörf á, forsendur til að skilja og löngun til að tjá öðrum.

Að búa til Jesúmynd er ekki aðeins það að draga upp portrett með línum eða orðum. Myndin af Jesú er ekki aðeins mynd ásjónu eða líkama hans. Jesús er persóna sem á sér raunverulega sögu sem er skráð í guðspjöllum Biblíunnar. Kristnum manni er saga hans lykill að sögu mannkyns, sögu heimsins af því að í honum er sögð saga Guðs. Í kirkjuárinu tjá textar og helgihald söguna og við höfum aðlagað margt í dagatali Vesturlanda að þeirri sögu. Meginhátíðir okkar eiga sér túlkun á sögu Jesú og gildir einu hvert er upphaf þessara hátíða. En af því að þarfir manna eru ólíkar á mismunandi tímum og einstaklingar og hópar eiga sér mismunandi lífsglímur þarf stöðugt að endursegja Jesúsöguna. Menningarlegar aðstæður og hefðir kalla á mismunandi túlkunarferla. Menningarsaga Rússa á miðöldum er allt önnur en Ítala á þriðju öld og Jesúmyndir þessara menningarhefða því mismunandi. Andóf Þjóðverja á sextándu öld ýtti við Lúther og löndum hans í nýtúlkun. Nítjándu aldar Þjóðverjar gerðu sér svo nýjar hugmyndir og Jesúmyndir ungra Reykvíkinga á okkar öld eru enn aðrar.

Stundum hefur sektarkennd einstaklinga eða hópa haft mótandi áhrif á hvernig hinn frelsandi Jesús hefur verið skýrður. Einu sinni varð Jesús e.k. sósíalistískur byltingarsinni. Á aðkrepptum tímum hafa trúmenn séð í honum kaghýddan píslarbróður. Sagan af Jesú á sér grunnþætti en þarfir trúmanna beina sjónum að einu eða fáum þáttum fremur en heild. Þá hafa kirkjudeildirnar hreinsað eða fjarlægt sumt og lyft á kostnað annars í Jesúsögunni. Í hefðum eru síðan meginlyklar og mörk varðandi leyfilega og mögulega túlkun. Vestræn menning er samtvinnuð sögu kristninnar. Þegar sagan um Jesú er sögð er unnið með grunngildi lífsins, gildi menningar, frumsögu þess að vera maður, á hvaða forsendum og til hvers. 

Hver er þín Jesúmynd og úr hverju bjóstu þá mynd?

Pútínlandið – ferðir á föstu

Friður sé með þér og ég segi aftur: Friður sé með þér. Nú höldum við brátt inn í föstuna. Þessi dagur er kallaður sunnudagur í föstuinngangi. Fastan í kirkjunni er tími sem hefur texta, skilaboð og umræðuefni. Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíuálmunum. Hvað var það nú aftur? Ferð Jesú til Jerúsalem, sem alltaf er líka um líf og ferðir allra einstaklinga og kynslóða. Ferðlag Jesú er okkar ferð. Okkar ferðir ganga upp í ferð Jesú til Jerúsalem. Við erum samferða Jesú. Jesús á undan og ég á eftir. Það er ferðastíll passíusálma, Nýjatestamentisins og kristninnar.

En þessi ferð var óvissuferð með mög ef, spurningar og til hvers. Lærisveinar og vinir Jesú voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til, að hún yrði ferð til sigurs, að þeirra lið ynni og Jesús yrði þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi, að hlutverk hans væri annað en það, sem margir aðdáendur hans vonuðu og klapplið vildi. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum var ætlað að þjóna. Það var hans vandi að vinna úr. Ferð Jesú var ekki túristaferð, heldur upp á líf eða dauða, líf veraldar eða enda. Hann hefði getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Helförin

Ferðir eru mismunandi og tilgangurinn alls konar. Það vitum við og þekkjum úr okkar eigin lífi. Við verðum líka vitni að alls konar ferðum og sumar ferðir eru alls ekki góðar og enda með skelfingu. Þessa dagana hefur heimsbyggðin fylgst með skelfilegri innrás Rússa inn í Úkraínu. Það er viðburður, sem fæstir áttu von á í Evrópu 21. aldar. Úkraínumenn hafa það eitt til saka unnið að hafa aðra skoðun en einræðisherrann í nágrannalandi þeirra ætlast til að þeir hefðu. Úkraínumenn vildu auka tengsl vestur á bóginn og ganga í samtök Vestur-Evrópu og NATO. Það vildu Rússar ekki. Skoðanafrelsi er ekki virt eða viðurkennt í Rússlandi, nema menn hafi sömu skoðun og valdaklíkan sem öllu ræður. Tugir milljónir líða vegna árásar Rússa. Fjölskyldum er splundrað, konur og börn eru á vergangi. Á næstu vikum geta milljónir orðið landflótta. Hver vill stríð? Einræðisherrann í Moskvu hefur einangrast frá þjóð sinni og dælt falsfréttum í æðar stór-Rússlands. Nú hefur hann við föstuupphaf tekið ákvörðun að fara til sinnar Jerúsalem, til Kiev, og kremja réttkjörna stjórn nágrannaríkis. Hvers konar föstuferð er það? Rússar kunna að sigra einhverjar orustur, en þeir munu tapa þessu stríði því það er röng afstaða sem liggur að baki.

Réttlætanleg?

Í byrjun vikunnar kom sonur minn til mín og sagði mér frá því, að hann hefði fengið það verkefni í Menntaskólanum í Reykjavík að skrifa röksemdarritgerð. Hann mátti velja efnið og hann ákvað að meta kröfur Rússa til Úkraínumanna. Sonur minn sagðist þurfa að skilja Pútínlandið og líka afstöðu Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt, að hann veldi svo hápólitískt mál sem væri viðfang allra fjölmiðla heimsins. Svo byrjaði hann að skoða sögu Rússa og Úkraínumanna og smátt og smátt komu rökin fram með og móti. Yfirskriftin og viðfangsefnið var: Er innrás Rússa í Úkraínu réttlætanleg? Hann skilaði ritgerð sinni á miðvikudagskvöldi og nokkrum klukkutímum síðar réðust tugir þúsunda Rússa yfir landamærin og mikill fjöldi vígvéla skaut á skotmörk, sem ekki voru bara hernaðarleg heldur líka borgaraleg. Það var ljóst að lama átti innviði Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt að íhuga ritgerð sonar míns og horfa svo á stríðsmyndir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni sá ég að saga Rússa og Úkraínumanna fléttaðist saman í meira en þúsund ár. Kiev var um tíma helsta borg á svæði RUS-ættbálkanna á sama tíma og Moskva var eiginlega þorp. Enda hefur Pútín og margir Rússar talað um Kiev, höfuðborg Úkraínu, sem krúnudjásn Rússa. En þessa dagana er krúnudjásnið löðrað blóði úkraínsku þjóðarinnar. Rússar hegða sér sem illmenni er ráðast á heimili ættmenna sinna, skjóta þau og níðast á þeim. Sonur minn skoðaði rök Rússanna og hafnaði þeim og benti í ritgerð sinni á, að Úkraínumenn hafi verið fullvalda ríki, með réttkjörna stjórn, vel virkt og réttlátt stjórnkerfi og hafi gert marga alþjóðlega samninga um samskipti við Rússa. Rússar hafi brotið þessa samninga með því að ráðast inn á Krímskagann og síðar inn í austurhluta Úkraínu. Innrás væri ólögleg og brot á samningum. Ég er sammála honum og bæti við að hún er ósiðleg. Rússar hafa framið afbrot og Pútín er sekur um glæpi gegn mannkyninu.

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda og aðeins hann gat gert það. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Hann var tilbúinn að fórna lífinu fyrir sannleika og réttlæti sem pólitískt vald getur aldrei nokkurn tíma tryggt eða skapað. En Pútin telur sig hafa vald til að skilgreina frelsi fólks, jafnvel fullveðja nágranna sinna. Pútínferðin er leiðangur dauðans og opinberar allt það versta í spillingu og sjálfsdýrkun manna sem hafa tapað tengslum við gildi, fegurð og frelsi fólks. Við getum skýrt Pútínatferlið með því að skoða sögu Rússlands, Sovétríkjanna og fall þeirra. Í þessari pútínsku heljarslóð er sorg og reiði en það réttlætir ekki helförina. Fall Sovét er fortíð sem Úkraína lifði líka. En Úkraína vann að sjálfstæðri framtíð sinni þrátt fyrir fortíðina. Að reyna að endurheimta fortíð leiðir oft til glæpa. Það er hin djúpa harmsaga helfarar Pútíns um lendur Úkraínu og að krúnudjásninu. Pútínæðið þarf að stoppa. Pútínlandið þarf að horfast í augu við að Sóvét er fallið. Einræði hentar ekki nútíma, allra síst óupplýst einræði. Fortíð er fortíð en framtíðin kallar á algerlega nýja lífshætti og stjórnunarhætti. Fólk Pútínlandsins og nágrannar þeirra eiga að fá að ráða lífi sínu, lifa í frelsi og taka nýja stefnu. Föstuferð Jesú er andstæða Pútínplágunnar. Jesús vildi líf en Pútín velur dauða.  

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Þessa föstu verða margar sögur sagðar. Föstuferð Jesú til Jerúsalem sem var svo sannarlega dapurleg. En niðurstaða Jerúsalemferðarinnar var að dauðinn dó en lífið lifir. Svo er harmsaga Úkraínu. Hvaða ferð ferð þú þessar næstu viukur? Fasta er dramtísk. Jesús var opinn og þorði. Hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Hann vissi að kjarni lífsins er ekki að hafa vald til að stjórna fólki, menningu og hugsun. Lífsskilningur Jesú var að gefa fólki frelsi frá mistökum, syndum og öllu sem gæti hindrað fólk til þroska, friðar og hamingju. Af þessu getum við lært. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Jesús á undan og ég á eftir, stíll guðspjallanna, andi Passíusálma, fyrirmynd fyrir okkur. Jesúreisan er til lífs. Jesúafstaðan er eflir lífið.

Á svona dramatískum tíma er gott að geta á ný gengið að borði Drottins. Þar er veisla himins og jarðar. Guð býður til þeirrar veislu og þar er allt rétt og gott. 

Lexían; Jes. 50. 4–10. Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25. Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Sunnudagur á föstuinngangi, 27. febrúar, 2022. Myndin er af litríku bænatré Hallgrímskirkju og að baki er verndarengill á íkón Kristínar Gunnlaugsdóttur. Ljósmynd SÁÞ

Barnið í garðinum

Við prestarnir lifum ekki bara frá degi til dags heldur líka frá sunnudegi til sunnudags. Í byrjun vikunnar förum við gjarnan að skoða texta næsta sunnudags, þrennuna sem eru lexía, pistill og guðspjall. Í samráði við organistann veljum við svo sálma næsta helgidags. Þegar við Björn Steinar vorum búnir að ræða saman um sálmana á mánudeginum fór ég að lesa textana. Sumum vinum mínum þykja föstutextarnir leiðinlegir og rökin eru að í þeim væru svo dapurlegar hörmungarsögur! En mér fannst lexía þessa annars sunnudags í föstu úr Orðskviðunum vera heillandi. Þar er talað af skáldlegri visku og elsku um hjartað, munninn og fæturna, sannleikann og framtíðina. Hrífandi texti. Pistillinn er fermingarlegur því þar kemur kórónan við sögu eins og í fermingarávarpinu. Þar er líka áminning til ævigöngunnar um staðfestu og trúmennsku. Góður og gefandi texti. En svo er í guðspjallinu furðusaga af dreng sem var illa leikinn. Hann var mállaus, fékk svo hroðaleg köst að hann skókst til, froðufelldi og afskræmdist. Þegar verst lét hljóp hann líka í vatn og eld og var því í lífshættu. Guðspjallið segir frá því að faðirinn kom með drenginn sinn til Jesú Krists. Það er ljóst að ekki bara Jesús heldur fólkið í kringum hann stundaði lækningar. Þetta var lýðheilsuhreyfing. Lærisveinarnir gegndu heilsueflingarhlutverkum. Þeir voru fengnir til að lækna, voru taldir hafa eitthvað af mætti meistarans. Í þessu tilviki og í samræmi við trú samtíðar áttu þeir að reka út illan anda sem rændi drenginn máli og friði. En þessi illi vágestur hafði náð svo algeru valdi á persónumiðju drengsins og líkama að hann fékk engu ráðið. En lækningin tókst ekki. Drengurinn var eftir jafn illa kominn, skekinn, málllaus en froðufellandi. Miklar tilfinningar flæddu og háværar deilur geisuðu þegar Jesús kom að. En þeir náðu að tala saman – ráðalaus faðirinn sem bæði trúði og efaðist og Jesús sem notaði tækifæri til að kenna en líka færa drenginn til heilsu.

Þetta er undarleg saga og mér þótti hún tyrfin og minna laðandi en lexían og pisitlllinn. Ég renndi yfir söguna nokkrum sinnum á mánudeginum áður en ég brá mér á skíði í Bláfjöllum og hélt svo áfram að íhuga söguna meðan ég puðaði í fjallageimnum. Eftir kvöldmantinn hélt ég svo áfram að lesa nýja bók í handriti sem mér var send fyrir síðustu helgi. Hún heitir Barnið í garðinum og er uppvaxtarsaga Sævars Þórs Jónssonar. Ég lauk lestri bókarinnar um kvöldið og sagan sat í mér.

Svo fór ég að sofa og guðspjallstexti Markúsarguðspjalls og saga Sævars Þórs fléttuðust saman í draumum næturinnar. Ég rumskaði tvisvar um nóttina. Í bæði skiptin voru sögurnar saman í undarlegri draumaflækju í hálfsofandi meðvitund. Þær blönduðust saman sögurnar um mállausa drenginn í guðspjallinu og málhefta drenginn Sævar Þór. Undirmeðvitundin vann sitt fléttustarf og þegar ég vaknaði á þriðjudeginum voru þessar sögur mannabarna tengdar, gamall og nýr tími – tveir drengir í djúpum vanda. Þegar ég vaknaði fannst mér sögurnar speglast, tvö þúsund ára saga guðspjallsins og samtímasaga okkar.

Barnið í garðinum

Fyrst um sögu Sævars Þórs, Barnið í garðinum. Þetta er nístandi frásögn um barn sem farið var illa með, naut ekki elsku og verndar við hæfi. Sagt er frá uppvexti Sævars á alkóhólíseruðu heimili og frá líðan og viðbrögðum hans og systkinanna við drykkju foreldranna. Svo fylgjumst við með Sævari Þór átta ára gömlum sem var narraður inn í dimma byggingu þar sem vondir menn misnotuðu hann. Sagt er frá félagslegri einangrun í kjölfarið, erfiðleikum í skóla, kækjum, líðan og innri baráttu, sjálfsskaða, englum sem björguðu og studdu, vansælli fjölskyldu og hvernig hæfileikaríkur strákur tók ákvörðun um að lifa þrátt fyrir dauðaógnir allt í kring og hið innra einnig. Þetta er uppvaxtarsaga, áfallasaga, fíknisaga, bisnissaga og menntasaga. Þetta er samtímasaga Íslands síðustu fjörutíu ára sögð frá sjónarhóli lemstraðs drengs sem lifði af. Það er ekkert minna en kraftaverk að drengurinn skyldi lifa, menntast og verða að öflugum lögmanni og réttargæslumanni fólks, líka þeirra sem hafa lent í rosalegum aðstæðum og eiga fáa málsvara. Þetta er nútíma kraftaverkasaga. Hvernig eigum við að túlka þessa sögu? Það bíður um stund.

Mállaus til heilsu

Og þá sveiflum við okkur í tímarólunni yfir í guðspjallssöguna. Það er nístandi frásögn af ráðþrota föður og fjölskyldu. Við vitum ekkert um hvort þetta var ofbeldisfjölskylda eða lemstruð af fíkn eða hvort þetta var venjulegt fólk sem varð fyrir því skelfilega áfalli að efnilegi drengurinn veiktist. Við vitum ekki hvort drengurinn varð fyrir misnotkun eða veikindin væru geðræn, félagsleg eða vefræn. Það var eitthvað mikið að. Hann var fárveikur. Allt var því gert til að reyna að afla honum lækninga. Farið var með hann til hóps af mönnum sem vildu vel, reyndu að gera það sem þeir kunnu til að reka út meinið. Túlkun ástvina og hjúkrunarfólks var að drengurinn væri bugaður af einhverju sem ylli málleysi, flogaköstum og sjálfskaða sem gæti dregið hann til dauða. Því reyndi fólkið lækningu en án árangurs. Þá töluðu Jesús og faðirinn saman um vandann. Og faðirinn sagði svo eftirminnilega og tjáði togstreituna: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“

Sjúkdómar og heilsa

Hin almenna skýring fólks á þessum tíma var að þegar engar sýnilegar ástæður fundust fyrir svona einkennum væri líklegast að illur andi hefði flutt inn í viðkomandi. Illir andar voru forðum taldir valda veikindum, fötlun, andlegum kvillum og ófélagslegri hegðun þeirra sem hýstu þá. Þegar slíkt gerðist tæki þessi líkamsleitandi viljavera yfir stjórnstöðvar persónunnar. Andsetning var illvíg yfirtaka. Til að hið veika fólk næði heilsu yrði að reka andann út með særingum. Þessi gerð af sjúkdómsgreiningu og lækningum var útbreidd víða um heim, líka meðal Gyðinga og í nágrannaríkjum þeirra og hefur verið meginviðhorf um víða veröld fram á síðustu aldir.  Kraftaverkasögurnar sem eru sagðar í Biblíunni verður að skilja í þessu forvísindalega samhengi.

Tilgangur og innri rök

Þegar nemendur og vinir Jesú gátu ekki læknað drenginn var komið að meistaranum. Hann talaði, framkvæmdi, fræddi og upplýsti. Sagan endaði vel. Drengurinn fékk mál, faðirinn fylltist trú, lærisveinarnir nutu þjálfunar og fræðslu og mannfjöldin fékk innsýn í eðli guðsríkisins og mátt Jesú. Hið mikilvæga er að virða að áhersla sögunnar er ekki á kraftaverk, furðuverk, töfra eða sértæka þekkingu Jesú. Kraftaverkasögur Biblíunnar á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Það merkir að við – rétt eins og Biblíufólk fyrir tvö þúsund árum – leitum að merkingu viðburða fremur en að glepjast af ásýnd þeirra. Við lesum ekki kraftaverkasögur Biblíunnar eins og jarðskjálftagröf Veðurstofunnar eða fréttafrásagnir stórviðburða í fjölmiðlum. Lækningar og læknisfræði fornaldar er merkilegt viðfangsefni en er þó alls ekki erindi eða mál guðspjallstextans. Frásagnir um lækningar í Biblíunni eru ekki textar í uppflettiriti um sjúkdóma. Biblían kennir ekkert um hvað sé rétt læknisfræði, stjörnufræði, jarðeðlisfræði eða önnur vísindi. Biblían er ástarsaga sem beinir sjónum að ástgjöf Guðs, Jesú Kristi, og segir gleðitíðindin, þetta margnefnda fagnaðarerindi til hvers hann hafi komið, hvaða líftengsl hann skapi og hvaða möguleika hann gefi. Tilgangur guðspjallanna er að tala um að Guð elskar og kemur og hefur jafn mikinn áhuga á froðufellandi málstola dreng og okkur hinum.

Mein í lífi mannabarna

Og þá er það barnið sem var rekið út úr Paradísargarðinum. Uppvaxtar- og átakabók Sævars Þórs rífur í og hrífur. Hann var illa leikinn. Drykkja foreldranna varð til að börnin nutu ekki ástar, umönnunar, eflingar, næringar, hróss og viðurkenningar. Það eru frumefni og byggingarefni heilbrigðrar persónugerðar. Svo voru illir anda í mannsmynd sem réðust á hrekklausan dreng og tóku yfir persónudýptir hans, rændu hann frelsi, sjálfstæði og rugluðu hann svo hann varð málstola og gat ekki sagt frá. Kækir skóku drenginn rétt eins og hann væri haldinn. En englarnir í lífi Sævars Þórs björguðu því sem bjargað varð. Það voru amma, konur í viðkomuhúsum Sævars og konurnar í skólanum sem sáu þurfandi dreng og studdu. Svo varð Lárus Sigurður eins og lærisveinn Jesú sem alltaf hlúði vel að sínum manni, læknaði og studdi til lífs. Sævar Þór segir svo mikla og áhrifaríka sögu að það er eins og hún sé kraftaverkasaga. Hann lýsir brenglun Reykjavíkur samtímans, segir frá illum öndum í skólum, kerfum og bisniss. Þetta er svo stór saga að það er ástæða til að skoða hana í sem víðustu samhengi. Hún er ekki bara saga um kynferðismisnotkun eða fíknifræði. Hún er ekki heldur bara karlafræði eða happy-ending-saga. Þetta er saga um líf okkar margra. Saga um að líf nútímafólks er baráttusaga og að alls konar andar eru á ferð. Siðblinnt fólk er illt, kerfi geta verið helsjúk og fíknir eru vondar. Illska kemur fram í ástskertu fólki og óuppgerðum fíknum. Barnagirnd er alvarlegt mál, ofdrekkandi foreldrar líka, misnotkun vímuefna í mörgum hópum og lögum samfélags okkar er risamál. Og það er fólk sem verður fyrir barðinu og líður fyrir. Barnið í Garðinum segir okkur það. Að vera andsetinn er ekki bara það að forvísindalegur andi kemur heldur líka þegar eiturefni hafa yfirtekið stjórn fólks eða óstillt og óheft girnd af einhveruu tagi eða einhver illvígur sjúkdómur. Fórnarlömbin eru lemstruð jafnvel þó takist að greina veilurnar og hrekja hið vonda út, hvort sem það er hjá AA hreyfingunni, sálfræðingum, læknum eða prestum. En það verður að lækna, opna og reka út hið illa. Kraftverkið varð. Bókin Barnið í Garðinum er upprisubók, um nýtt líf. Að Sævar Þór og maki hans tóku við litlum dreng er eins himinljós í bókinni. Og minnir okkur á spennuparið Guð og barn í jólaguðspjallinu. Barn í heimi og á ábyrgð fjölskyldu minnir á dýpstu köllunarmál okkar í lífinu. Ástarsaga.

Jesús læknaði, hið illa fór, drengurinn lifði. Við sjáum kraftaverkin enn gerast. Tilveran er opin af því hún er þannig gerð. En guðspjallssagan, saga Sævars Þórs og saga fólks um allar aldir sýnir okkur að við erum öll í hættu. En Guð er nærri sem býður okkur að vera heil og rísa upp til lífsins. Guð laðar, biður og styður. Og við megum gjarnan vera í hópi hans. Fagnaðarerindi á tíma þegar allt skelfur og veirurnar trylla.

Prédikun í Hallgrímskirkju 28. febrúar 2021. 2sd. í föstu. Þriðja textaröð.

Lexía: Okv 4.23-27
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru 
því að þar eru uppsprettur lífsins. 
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum 
og vörum þínum fjarri lygamálum. 
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er. 
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum. 
Víktu hvorki til hægri né vinstri, 
haltu fæti þínum frá illu.

Pistill: Op 3.10-13
 
Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Guðspjall: Mrk 9.14-29
Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“ En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“ Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“ Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“ Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“ Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur. 
Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“

Dekraðu nú við ástina!

„Það er gott að elska.“ syngur þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar. Í dag er Valentínusardagur og auglýsendur heimsins magna upp ástarbrímann og hvetja alla að dekra ástina. Tilboðunum rignir yfir, gistitilboð á hótel Sigló eða góðgæti á Forréttabarnum og dekur á Hópkaup til að koma elskunni á óvart. Já, Valentínusardagurinn er alls konar. En þetta er góður dagur og fyrir ástina. Hvaða ást? Alla ást; til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs, náttúrunnar og líka Guðs. Og kannski eru einhver hér í hópnum sem bara hugsa um konudaginn og mæðradaginn sem ástardaga – og sjá engan tilgang í að bæta amerískum Valentínusardegi í ástardagasafnið. En raunar eru allir dagar fyrir ástina.

Þær góðu fréttir bárust nú í vikubyrjun að nú mætti opna kirkjur. Við sungum dásamlegan sálm í byrjun þessarar guðsþjónustu. „Opnið kirkjur allar …“ Nærri hálft ár er liðið frá því að Hallgrímssöfnuður kom til sunnudags-guðsþjónustu. Það er því hátíð í dag. Hallgrímskirkja hefur vissulega verið opin. Helgistundir hafa verið í kirkjunni í hádeginu, síðustu mánuðina, lengstum sex sinnum í viku hverri. Við höfum gætt vel að sóttvarnarreglum og tryggt að þrátt fyrir stærð kirkjunnar hafi fjöldinn ekki verið meiri en reglur hafa sagt til um. Við höfum gætt fjarlægðarmarka og hætt að faðmast og kyssast. Við signum hins vegar og krossum hvert annað úr hæfilegri fjarlægð. Og við höfum beðið saman. Guð er óbundinn af sóttvarnarreglum og hefur blessað samfélag safnaðarins. En nú megum við koma saman í stærri hópum en áður. 150 manns mega vera við helgiathafnir í kirkjunni þessar vikurnar og vonandi fleiri þegar á líður. Haffi Haff, tónlistarmaður og messuþjónn kom í vikunni og hvatti til að á þessum degi minntum við okkur á kærleikann, ástina, tengslin í öllum myndum. Það er ekki bara forsetafrú vestur í Ameríku sem undirbýr Valentínusarhjörtu heldur undirbjó Haffi Valentínusarhjörtun fyrir Hallgrímskirkju og lagði Kristnýju og Kristínu lið í undirbúningi barnastarfsins. Nýr opinn tími. „Fyllum kirkjuna af ást“ sagði Haffi. Já, það er svo sannarlega opinn tími. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi.

Biblíutextar dagsins eru margræðir og fjölþættir. Yfirskrift þessa sunnudags og textanna á vef kirkjunnar er: Krossferill – vegur kærleikans. Og vissulega er það ein útgáfan af Valentínusardegi. Lifið betur og með ábyrgð er merking lexíunnar. Bætið vegi lífsins. Það er ekki verið að tala um Sundabraut eða Borgarlínu – heldur leiðir hjartans og hamingjuleiðir samfélagsins. Og pistillinn: Gætum að samfélagsmótun, uppeldi og sjálfsvirðingu. Það er ekki aðeins verið að tala í anda hinnar splunkunýju heimildarmyndar Hækkum rána sem var sýnd á sjónvarpsstöð Símans nú í vikunni heldur um hið stóra uppeldissamhengi allra manna, helgi lífsins og helgi alls sem Guð hefur gert. Uppeldi stelpna og stráka fellur undir það og hlutverk okkar allra er að vera meðskapendur Guðs, samverkafólk. Svo er texti Jóhannesar í þeim anda. Ég staldraði við eitt stef: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Það er ljóst að Jesús hafði áhyggjur. Hann óttaðist. Það eru djúpir skuggar sem hann uppteiknar í ræðu sinni um veginn, ljósið og leiðina. Og það er ástæða til að hugsa um lífið á Valentínusardegi, í ástarbríma á föstu.

Ástalífið á sér skugga og birtustundir rétt eins og lífið í öllum myndum. Þó heimsbyggðin hafi ákveðið að mannréttindi skuli virða, samþykkt barnasáttmála og sett í lög alls konar hvata, stefnur og bætur brengla fjársókn, hluthyggja, valdasókn, fíknir og aðrar útgáfur illskunnar líf einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga, mannkyns og lífheims. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Þessa síðustu daga hafa réttarhöld staðið yfir í þinghúsinu í Washington yfir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ég hef verið hugsi yfir stöðu lýðræðis í heiminum eins og milljónir um allan heim. Lýðræði er æfintýraleg tilraun til félagslegs samkomulags um að allir megi koma að stjórn ríkis. En slíkt samkomulag er ekki gefið og getur auðveldlega þokað fyrir ofbeldisfullu valdi sem hrifsar taumana til sín, vill meira og helst allt. Lífið sækir fram en það mætir alltaf fyrirstöðu og lífverur þurfa að hafa fyrir lífinu. Lýðræði þarf að rækta til að það lifi. Réttarhöldin í Washington eru aðeins dæmi um lýðræðisskaða í þessu mikla lýðræðisríki og að nú er vetur lýðræðis þar vestra. Tekst að hreinsa og bæta? Kemur vor? Vonska mannanna er ekki bara í röðum Trumpistanna heldur í öllum mönnum, kennir kristnin. Okkur öllum.

„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Ég minnist úr eigin lífi hvernig líf mitt lenti haustfrostum, fræ féllu, veturinn varð skeliflegur en svo voraði að nýju. Ekkert er sjálfgefið og hamingjan er engin fasteign sem er bundin af eignarhaldi og einkarétti. Lífið þarfnast alúðar, umhyggju, ræktunar. Við verðum að gangast við þroskaverkefnum okkar, áföllum og vaxtartímum.

Hvernig er með þitt líf? Hefur einhvern tíma gefið á? Hefur þú misst, tapað, týnt? Hefur vetrað í líf þínu. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Lífssögurnar eru alls konar og ástarsögurnar þar með líka. Á föstunni erum við minnt á að lífið er ekki sjálfgefið heldur barátta. Og við megum líka minna okkur á anda og boðskap Passíusálma og höfundar þeirra. Passíusálmarnir draga upp þá mynd að himinkonungur kom til að þjóna og að lokum með svo róttæku móti að hann lét líf fyrir aðra. Það er íhugandi hlið ástalífsins. Fastan og píslarsagan dregur upp skuggahliðar lífsins. Við erum minnt á baráttu, brenglun, illskuna sem beyglar jafnvel deyðir. Píslarsaga er ekki bara saga Jesú heldur alls lífs. Jesúsagan dregur saman alla þætti mannllífs og veraldar.

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.Við getum ímyndað okkur margt um Guð með því að skoða vel ástarsögur. Við getum skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa liðna árs, COVID-tímans? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Nú er dagur ástar, dagur á föstu. Við megum næra ástina okkar. En það merkir ekki bara að dekra við fólkið okkar heldur líka okkur sjálf. Þora að horfa inn á við og huga að dýptunum.

Í Biblíunni er sagt frá lífinu í öllum myndum. Þar eru sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig. „Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“ Kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Líf okkar er köflótt en saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Viltu ástarsögu eða sorgarsögu? Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um þig.

Amen.

Lexía: Jes 57.14-15
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Pistill: Heb 12.9-13
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

Guðspjall: Jóh 12.23-36 
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist. 

Prédikun SÁÞ 14. febrúar 2021.

Lifandi vatn

Hér að neðan er styttur fyrirlestur minn um vatn, vatnssókn kvenna í heiminum og samversku konuna sem Jesús talaði við. Lesturinn birtist einnig sem grein í 51. hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar og hægt er að nálgast greinina að baki þessari smellu

Lifandi vatn

Vatn er þungi kvenna veraldar. Konur og stúlkubörn sækja vatn í 80% tilvika á hinum fátækari svæðum heims þar sem brunnar eru ekki nærri híbýlum fólks.[1] Yfir tveir milljarðar manna hafa ekki aðgang að vatnsveitu í húsum sínum og njóta þar með ekki góðrar hreinlætisaðstöðu. Um aldir og um allan heim hefur verið hlutverk kvenna að afla vatns. Því fjær sem vatnsból hafa verið frá heimilunum, þeim mun lengri tími hefur farið í vatnsburðinn. Tímafrek vatnssókn hefur verið á kostnað skólagöngu. Góðir brunnar eru vinir kvenna og forsenda þess að þær geti menntast. En þegar vatnið þrýtur eru þær oftast teknar úr skóla til að bera vatn. Vatnssókn er erfið, oft heilsuspillandi og afar tímafrek. Á hverjum degi nota konur heims um tvö hundruð milljón klukkutíma til að bera vatn heim fyrir sig og sína. Þann tíma vildu flestar þeirra fremur nýta með börnum, á heimilum, til gleðimála og menntunar.[2] Vatns­streita heimsins bitnar á konum. Vatnsbætur eru í þágu kvenna og lífsgæða fólks.

Konan og vatnssamtalið

Biblíukonur sóttu vatn. Sagan um samversku konuna við Jakobsbrunn sem Jesús Kristur talaði við er ein af ástsælustu sögum Biblíunnar. Sagt er frá fundinum og samtali þeirra í fjórða kafla Jóhannesarguðspjalls. Jesús var á ferð og var þyrstur. Hann ávarpaði konuna og bað um vatn. Af hverju náði hann ekki í það sjálfur? Samtalið varð kostulegt. Guðspjallshöfundurinn hafði greinilega gaman af að segja söguna og rita, því að hún er á mörgum plönum, þvers og kruss og upp og niður. Konan og Jesús töluðu í kross. Einföld beiðni þyrsts manns varð mikið drama, sem endaði með því að konan rauk öskrandi inn í nærliggjandi þorp. Í sögunni um Jesú og konuna flæðir yfir allar brúnir. Það er ofgnóttin í frásögunni sem er áhrifarík. Í sögunni er merkingarplús.

Kona utan hrings?

Hvað merkir þessi frásaga um konuna og Jesú við brunninn? Kirkjufeðurnir töldu að konan hefði verið vafasöm kvenpersóna. Ástalíf hennar hefði verið ansi skrautlegt því að hún hafði átt marga menn. Strax þegar safaríkar sögur eru sagðar fer ímyndun tilheyrenda af stað. Var konan daðurdrós á karlaveiðum? Hún sótti ekki vatn á sama tíma og hinar konurnar sem notuðu kælu morguns eða kvölds til vatnsburðarins. Af hverju? Varð hún að fara á öðrum tímum en hinar siðsömu? Vildu þær ekki leyfa henni að vera í kvennahópnum? Fékk hún ekki að fara með þeim? Eða var skömm hennar svo mikil að sjálf vildi hún ekki vera í samfloti með öllum hinum? Var hún úrhrak samfélagsins? Var henni hafnað af því hún var brotleg kynferðislega og hafði lent utan við ramma þess vegna? Það eru þessi stef eða þættir sem höfundar og prédikarar aldanna hafa einkum staldrað við, útmálað og skrifað um með mörgum orðum og litríkum hætti.

Samkvæmt forsendum hins gyðinglega samfélags var konan talin útlensk. Hún var samversk. Hún átti ekki aðild að hinum viðurkennda hópi innvígðra og réttborinna Gyð­inga. Hún var því sniðgengin af öllum rétttrúuðum og rétthugsandi — nema af Jesú. Hann hlýddi ekki alltaf reglunum og oft, jafnvel óþægilega oft, gerði hann ýmislegt sem var öðruvísi en fólk átti von á og óskrifaðar reglur sögðu að væri rétt hegðun. Hann vann með fordóma í orðum og hegðun. Svo var þessi kona búin að eiga fimm eigin­menn og var með sjötta karlinum. Það er flóð í ástarsögum konunnar, nánast efni í heila sápuþáttaröð. Biblíulesendur aldanna hafa undrast og furðað sig á ístöðu­leysi hennar og reynt að finna hliðstæður í dramatískum konum eigin samtíðar. Þessi undar­lega kona var teiknuð upp sem „öðruvísi“ og óútreiknanleg, femme fatale. Sam­kvæmt föstum samfélagsviðmiðum var hún neðar í goggunarröðinni, að minnsta kosti í vatnsburðar­röðinni, en hinar konurnar. Það var ekki gæfuleg staða sem hún var í þegar hún kom að brunninum og hitti Jesú sem þekkti allar samfélagsreglur brunnasóknar og vatns­mála þjóðar sinnar og nágranna líka. Hann vissi að kona sem kæmi á þessum tíma að brunninum væri utan við heiminn. Hún væri vondum málum.

Hún saurug en hann hreinn

Beiðni Jesú Krists var einföld: „Gefðu mér að drekka.“ Svo fóru þau að skiptast á orðum og setningum sem ekki tengdust. Þau töluðu þvers og kruss. Þegar Jesús bauð konunni lifandi vatn brást hún við með tæknilegri ábendingu. Hann hefði ekkert til að ausa með. Brunnurinn væri djúpur. Hvaðan fengi hann þetta lifandi vatn? Konan skildi ekki orð og merkingu Jesú, allt þar til þetta með lifandi vatnið skvettist inn í vitund hennar. Hvað átti maðurinn við? Gat verið að þetta væri hann? Hann vissi svo margt. Gæti verið að loksins, loksins væri eitthvað að gerast?

Konan vissi auðvitað að brunnurinn var kenndur við Jakob, sem var erkihetja hebreskrar sögu og hálfguðlegur forfaðir íbúanna í Palestínu. Brunnurinn hafði því mikilvægu táknrænu hlutverki að gegna. Í konunni kviknaði neisti, spratt fram hugsun, spurning, kenning, grunur. Gæti verið að þetta væri framtíðarleiðtoginn sem beðið væri eftir? Messías? En hvað um mig?

Um aldir var þessi biblíutexti túlkaður sem tvennutexti, saga með andstæðum. Jesús var túlkaður sem lausnari. Hann bauð vatn lífsins, hafði öll svör á hreinu, vissi allt um konuna og las hana eins og opna bók. Hann gat allt og olli uppnámi hjá henni, sem var öðruvísi en hinar konurnar, fór á skrítnum tíma að brunninum, á versta tíma og í mesta hita dagsins. Sem sé, þarna voru, samkvæmt túlkun aldanna, hinn mikli og hin aumkunarverðasta. Hann gat fært konunni vatn lífsins en hún honum aðeins skítugt brunnvatn. Þau voru á sitt hvorum enda gilda- og virðingarstigans. Hann á toppnum og hún á botninum. Konan var eins og tæki til að sýna hvað Jesús væri klár. Hún var sorinn en hann sonur Guðs. Er þetta það sem textinn segir okkur? Eða er kannski eitthvað meira í þessum texta en tjáning á að karlar eru toppmenn og konur á botninum? Er eitthvað sem við sjáum ekki og getum kannski ekki séð vegna þess að gleraugu okkar, fordómar, brengla?

Skilningur á textum breytist — túlkun

Klassískir textar hafa löngum verið túlkaðir í samræmi við viðurkenndar skýringar­reglur. Þannig hefur það verið með flesta bókmenntatexta, heimspekitexta og að sjálf­sögðu einnig biblíutexta. Á tímum ólæsis var Biblían ekki á allra færi. Því voru sögur Biblíunnar oft myndgerðar. Fólk hafði í guðshúsunum aðgang að myndum af biblíu­atburðum, biblia pauperum. Í öllum hefðum skapast menning og kenningakerfi sem stýra hvernig eigi að tjá hið mikilvæga, megi túlka og þar með skilja. Túlkunar­lyklarnir stýra og flokka. Biblíutúlkun var með slíku móti og mótaði hvernig ætti að skilja og miðla. Svo komu reglulega fram öflugir greinendur sem bentu á veilur og hvað væri betri skilningur og hvað væri rangt. Marteinn Lúther var einn slíkra rýn­enda Biblíunnar. Hann hafði lagt á sig að læra klassísk mál, las texta Biblíunnar á frummálum og gat því borið saman upprunatextann, þýðingar og túlkanir. Í tilviki Lúthers og fjölda annarra kom í ljós að stöðugt þyrfti að rýna í textana því að forsendur síðari tíma voru gjarnan til hindrunar og leyfðu ekki Biblíu­textunum að hljóma eða skiljast í samræmi við eigin forsendur. Síðari tíma forsendur eru oftast grisjandi fordómar og skilningurinn sem fæst er rangur miðað við forsendur biblíutextanna.

Biblíurannsóknir, eins og aðrar rannsóknir fornra texta, breyttust á tuttugustu öld. Fræðimenn nýttu fornleifarannsóknir, bætta þekkingu á menningu, náttúru, trúar­brögðum og pólitík Rómaveldis og þjóðanna sem þeir drottnuðu yfir. Þar með breyttust hugmyndir þeirra um merkingu margra biblíutexta og stundum opnuðust þeir. Með textatúlkun síðustu ára hefur m.a. verið hægt að greina hvernig fólk hefur lesið og skilið textana með mismunandi móti á mismunandi tímum. Viðbrögð almennra lesara og viðbrögð þeirrahafa fengið gildi í nútímatextafræði. Hlutverk biblíufræðanna er ekki aðeins það að kreista fram einhverjar staðreyndir og óumbreytanleg algildi eða stórasannleika úr ritum eða af blöðum Biblíunnar. Sandra M. Schneiders skrifaði með þessa þróun í huga: „… frá átjándu öld til miðrar tuttugustu aldar var nálgun og túlkun sögu og texta fyrst og fremst hlut-túlkun (e. object-centered). Lesendur texta voru sjaldnast spurðir. Og ef viðtakendur biblíutextans komu í ljós urðu ritskýrendurnir tortryggnir.“[3] Þá var eins og þeir yrðu hræddir við að biblíufrásögurnar yrðu ekki eins trúverðugar og vera ætti, ekki eins hlutlægar og keppt væri að. Hvernig getur vitni sagt satt? Er tilveran minna trúverðug í frásögn vitnis? Hvað er satt, hvernig og frá hvaða sjónarhóli?

Lifandi fólk, hagsmunir og afstaða

Biblíufræðin hafa safnað þekkingu og skilningi á fjölmörgum menningarkimum Biblíunnar. Á síðari áratugum hafa biblíufræðingar þorað að skoða betur upplifun og túlkun fólksins sem kom við sögu í ritum Biblíunnar, hópum þeirra og hvernig menningarforsendur stýrðu upplifun þeirra og nálgun. Hvaða hagsmunum var þjónað í þessum textum og við ritun þeirra? Hvaða hópar tókust á? Hvaða hug­myndir urðu ofan á og hverjar voru bældar eða strokaðar út? Biblíulestur fræði­manna breyttist. Ekki var lengur reynt að kreista út kjarnann sem væri hið guðlega aðalatriði og gilt fyrir allar aldir, alla menn og alltaf. Nálgunin varð opnari þegar textar Biblíunnar voru skoðaðir sem marglaga, textar sem segja margar sögur, túlka alls konar tilfinningar einstaklinga, fordóma, visku, tengsl, hagsmuni, vonir og hópa sem koma við sögu. Fortíð kemur við sögu hvers texta, sem og samtíð. Framtíðin kyssir þá líka. Í stað einhæfrar túlkunar hafa nútímabiblíufræði opnað fyrir marg­ræðni og ýmsa túlkunar­möguleika. Í Biblíunni eru margar uppsprettur, uppsprettur margra alda. Í henni er sí­rennsli merkingar og líka ástarkossar eilífðar. Einstakir hópar, kirkju­deild­ir og fræði­menn hafa haft skoðanir á því að ákveðin kvísl flóðsins væri hin eina nytsamlega og heilnæma og því hafnað öðrum. Það sem ekki var valið vék í skugg­ann eða hvarf. Biblían hefur líka verið notuð sem vopn í baráttu og því verið túlkuð til að berja á þeim sem hafa farið aðrar leiðir en valdhafar — andlegir eða veraldlegir — hafa boðað og skipað.

Biblían er stór og frá henni flæða margar merkingarkvíslar en þær geta þó tengst á mismunandi tímum og í samræmi við þarfir tímanna. Á einum tíma tók Lúther eftir að Guð Biblíunnar er Guð elsku og gleði. Á öðrum tíma uppgötvuðu vitrir menn í kirkjum Suður-Ameríku að í Biblíunni er mikið talað um réttlæti. Síðar fóru æ fleiri, t.d. kvennaguðfræðingar, að heyra raddir kvenna í þessu mikla safni. Sagan um konuna við Jakobsbrunn hefur verið opnuð og ritskýringarforsendurnar hafa breyst. Konan hafði rödd og Jesús Kristur hlustaði og talaði við hana.

Á tali við konuna við brunninn

Sagan um samtal konunnar og Jesú um vatnið er dæmi um marglaga og margvíðan texta, sem nálgast má með ólíku og margbreytilegu móti. Flestir ritskýrendur aldanna hafa túlkað konuna sem kynlífsveru fremur en manneskju. Hvernig samfélagið skil­greindi ástalíf, stöðu og samskipti kynjanna stýrði nálguninni. Tvíhyggja réð oftast túlkun og Jesús Kristur var fyrst og fremst teiknaður upp sem andlegur snillingur — en konan var túlkuð sem jarðbundin holdgerving lostans. Andstæður túlkunarinnar, tvenndirnar, voru:

andi — fýsnir

lifandi vatn — brunnvatn

karl — kona

yfirstétt — undirstétt

hinn réttborni — útlendingurinn

við — þið

Hvað gerist ef þessir lyklar eru teknir út og geymdir? Hvað gerist ef sagan er skoðuð með nýjum hætti og án þessara túlkunarforsendna og fordóma? Hvað ef konunni er gefinn séns? Getur verið að við heyrum kannski líka í Jesú með nýjum hætti? Verður hann nær okkur en handan við tvö þúsund ára hljóðtjöld fordóma?

Hið eftirtektarverða er að konan reyndi Jesú. Hún lagði próf fyrir hann. Hún hlýddi honum yfir, þorði að spyrja hann lykilspurninga og gaf ekki færi á klisjum og gervi­lausn­um. Hún þorði að hlusta, hrífast og bregðast við. Hún greindi að mál og við­fangs­efni með greind hins skarpa hugar, raðaði síðan saman öllum brotunum og komst að viturlegri niðurstöðu. Hún dró ályktanir út frá forsendum og rökum. Hún þorði að treysta lífsreynslu sinni og gáfum. Hún þorði að hugsa og komst að niður­stöðu um það sem hún sá, heyrði og upplifði. Niðurstaðan var sú að hún skildi Jesú eftir við brunninn og hljóp inn í bæ til að segja fréttir. Hún var kannski ekki í þeirri stöðu í samfélaginu að mega hafa miklar skoðanir eða tjá þær opinberlega. En þegar hún komst að niðurstöðu um stærstu mál lífs síns og samfélags þá var ekki neitt hik. Konan gat ekki þagað um stórmál. Hún hljóp inn í bæ og varð boðberi Jesú og lærisveinn, kona sem þorði jafnvel að fara gegn öllum fordómum, valdaaðilum og hæðni samfélagsins. Þegar hún sagði fáheyrð tíðindi var hlustað.

Tilfærsla — ný staða

Ef sagan um konuna við brunninn er skoðuð með þessum hætti verður boðskapur­inn dramatískur. Útlend kona af lægstu stétt, úrhrak úrhrakanna, naut boðskapar um lífið í heiminum. Hún, sem allir töldu óverðuga, var verðug að heyra, skilja, trúa og síðan bera fram boðskapinn. Hún, en ekki einhver karl, varð postuli Samverja. Læri­sveinn Jesú kom úr hópi kvennanna, hinna lægstu meðal lágra. Konan sem þorði. Hún mótmælti ekki aðeins Jesú, heldur benti honum á staðreyndir brunnmálanna. Hún þorði líka að segja tortryggnu fólki ótrúlega sögu. Hún talaði þar sem hún vildi, brást við, hugsaði og notaði skýra dómgreind.

Sagan um samversku konuna lýsir konu í ómögulegum aðstæðum sem varð að nýrri mannveru, færðist úr því að vera týnd og fávís yfir í að finna og fara síðan áfram með unna sögu, skýra merkingu og boðskap. Þetta var tilfærsla konunnar úr heimi fordóma, fortíðar og lágkúru til konu með hlutverk himins í heimi. Hún er í sögunni rétt við úr lægð og túlkuð sem skilningsríkari og vitrari en flestir aðrir í návist Jesú. Hún var ekki bara þögguð og falin heldur lyft upp sem guðhetju.

Engin gunga!

Áhugavert er að skoða samhengi sögunnar í guðspjallinu. Í kaflanum á undan var sagt frá öðrum fundi Jesú. Yfirstéttarmaður kom til meistarans til að ræða við hann. Hann hét Nikódemus og var innvígður og innmúraður Gyðingur og vildi ræða trú­málin. Hann naut sömu athygli Jesú, nándar og djúpsamtals og konan við Jakobs­brunn. Hann hafði svipuð tækifæri og hún til að greina og tengja. En hann þorði ekki. Hann var gunga sem hætti ekki stöðu sinni og orðspori. Hann fór og hvarf og kom ekki fram að nýju í Jesúsögunni fyrr en hann lagði til gröf fyrir hinn kros­sfesta. Hann var maður grafar og dauða. Afstaða gungunnar Nikódemusar skapar andstöðu við kjark og þor konunnar. Milli hans og hennar er innrím andstæðu. Lærisveinar Jesú voru stundum flónslegir, skildu ekki speki eða meiningu Jesú Krists. Í samanburð­inum við þá var samverska konan fljót að greina hismi frá kjarna. Hún átti ekki í vandræðum með að skilja. Hún var klók og skörp. Þau Jesús töluðu ekki lengi í kross. Það var bara í byrjun. Þau tengdu fljótt og skildu hvort annað.

Trú og ljós

Myndmálið í sögunni um konuna við brunninn er merkilegt. Hún kom um hádegisbil, sem var ekki brunntími kvenna í þorpinu. Þessi hádegisferð segir líklega minna um stund og tíma en um innri getu og trú. Konan kom til að taka við ljósi lífs. Ferðir hennar voru ekki bara hefðbundnar. Hún hafði getu til að fara og sækja í lífsgæði sem aðrir áttuðu sig ekki á, höfðu ekki döngun í sér til að nýta og njóta. Konan hafði getuna til að taka við lífsvatninu en ekki bara gamla, fúla brunnvatninu.[4] Konan ræddi opinskátt við Jesú, hlustaði, bar fram andmæli og benti á staðreyndir. Hún heyrði rök, greindi víddirnar, komst sjálf að merkilegri niðurstöðu og tjáði hana öllum sem vildu heyra. Það varð síðan til þess að allt þorpið hitti Jesú. Samverska konan varð eins og samtímaútgáfa af Móse sem barði í steininn og fram spratt vatn til að gefa hinum þyrstu að drekka. Hún var sem Jóhannes skírari sínu fólki, spámaður, lærisveinn og postuli!

Þegar fordómum er sleppt og ekki reynt að strípa samversku konuna getur saga og texti opnast. Þá kemur í ljós að það er flóð í þessum biblíutexta.[5] Grunur vaknar um að kannski hafi konan alls ekki verið úrhrak. Kannski var hún klár og vissi hvað hún söng og sagði? Kannski var hún jafnvel skarpari en hinir lærisveinarnir, betri guð­fræð­ingur og kunnáttusamari manneskja en flestir, með himin í hjarta? Kannski var hún frjálsari, opnari, styrkari og meiri leiðtogi en aðrir? Er kannski næring í þessu flóði textans sem konan býður okkur? Lifandi vatn hennar og lifandi vatn Jesú?

Vatnið í Jóhannesarguðspjalli

Vatn kemur víða við sögu og er stef í guðspjalli Jóhannesar. Tengja má þessa brunn­sögu og samtalssögu við frásögnina um þorstann í krossfestingunni. Í dauðastríðinu þyrsti Jesú og bað um vatn. Öllu var snúið við og teygt í krossfestingarfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn, Andi, þarfnaðist hins lága og ónóga, brunnvatns, sem er andhverfa þess sem guðspjallið annars kennir. Frá krossþorstanum er fólki beint til sögunnar um lífsvatnið. Báðar kvíslarnar eða flaumarnir renna saman. Hið andlega þarfnast hins efnislega. Og öfugt líka: Hið efnislega þarfnast hins andlega í lífi fólks í heiminum. Manneskjur lifa ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. En allt það sem er að auki lifir ekki án vatns. Vatn heldur lífi í lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatísk eru vatnsmál veraldar.

Vatn og þungi kvenna

Samverska konan fór að brunninum um miðjan dag. Margar konur eru í samtíð okkar á ferð við brunna og lindir á öllum tímum dagsins af því þær hafa ekkert val. Þær eru kven­kyns og í menningu þeirra er það að sækja vatn skilgreint sem kvennaverk. Vand­inn er félagslegur, menningarlegur og kerfislegur. Hafði samverska konan val? Gat hún sagt við sjálfa sig að hún nennti ekki að fara og færi bara seinna? Nei, hún varð að sækja vatn því að annars væri lífi ógnað. Var þessi kona stödd þarna við brunninn til að leita að körlum? Var það ástæðan fyrir tímasetningu vatnssóknar­innar? Nei, það er ólíklegasta skýringin. Að vera ein á ferð á óeðlilegum tíma stofnaði aleinni konu í hættu. Reynsla kvenna af slíkum ferðum var — og er — skelfileg. Á konur sem eru fjarri öðrum er ráðist. Villidýr merkurinnar leita uppi konur einar á ferð en líka villidýr mannheima sem leita uppi þær konur sem eru utanveltu, standa höllum fæti og njóta ekki stuðnings annarra. Á einsömul stúlkubörn er ráðist, unglingsstúlkur og konur sem eru einar á ferð. Þeim hefur verið — og er —  misþyrmt og nauðgað. Í samtímanum höfum við lært að kenna ekki þolendum um ofbeldisverk. Þegar konur ná í vatn hefur það sjaldnast verið til að tæla aðra. En það hefur oft verið ráðist á slíkar konur. Það er ekki þeirra sök. Konur eru í hættu í vatnsleit og í vatnsferðum. Sagan um Jesú og konuna við Jakobsbrunn er mögnuð saga, sem varðar vatnssókn, vit og trú. Lifandi vatn og gott brunnvatn er kröftugur kokteill.

 

[1] „Facts and Figures“, UN Water, ódagsett, sótt 21. september 2020 af https://www.unwater.org/water-facts/gender/.

[2] „UNICEF: Collecting Water Is Often a Colossal Waste of Time for Women and Girls“, UNICEF, 29. ágúst 2016, sótt 21. september 2020 af https://www.unicef.org/media/media_92690.html. Sjá einnig „The Water Crisis“, Water.org, ódagsett, sótt 21. september 2020 af https://water.org/our-impact/water-crisis/.

[3] Sandra M. Schneiders, „The Gospels and the Reader,“ The Cambridge Companion to the Gospels, ritstj. Stephen C. Barton, New York: Cambridge University Press, 2006, bls. 97.

[4] Jerome Neyrev, The Gospel of John: The New Cambridge Bible Commentary, New York: The Cambridge University Press, 2007, bls. 87–88.

[5] Sandra M. Schneiders, Written That You May Believe: Encountering Jesus in the Fourth Gospel, New York: Herder and Herder, 1999, bls. 143–144.