Greinasafn fyrir merki: Jesús

Sjónskerpa og Biblían

Nú er orðið hægt að kaupa nýja og bætta sjón. Mörg hafa kastað gleraugunum og sum endanlega, losnað við að hreinsa kámug glerin og sleppa við að fálma eftir gleraugunum í morgunmyrkrinu eða missa þau á mikilvægum stundum. Leysiaðgerðir hafa stórbætt sjón margra síðustu árin. Sögurnar um augnbætur sem ég hef heyrt eru kraftaverkasögur. Auðvitað eru mörg sem hafa ekki fengið þá sjón sem þau þráðu. En þó er árangur aðgerðanna augljós. En framfarir í augnlækningum eru miklar og margir njóta. Leysiaðgerðir byggja á tækni sem á sér langan aðdraganda í fræðaheiminum, ekki aðeins hinum læknisfræðilega heldur líka í eðlisfræði og verkfræði. Tæknilegar uppgötvanir hafa verið nýttar á sviði læknisfræði til að hægt verði að samtengja þekkingu og þar verður hinn nýji skilningur og þegar best lætur hin nýja sjón.

Í dag er Biblíudagur. Af hverju skyldi klerkur vera að tala um augnlækningar? Hvað hafa undur í læknisfræði að gera með slíkan dag? Jú, sjónbótatæknin er dæmi um hvernig þekking á einu sviði er færð yfir á annað og getur skapað nýja tilveru ef einstaklingurinn notar hana rétt. Rétt og góð fræði geta gert kraftaverk. Það er einmitt það sem gildir í biblíumálunum líka.

Árnalestur

Ég var svo lánsamur að kynnast manni í frumbernsku sem las Biblíuna sína reglulega og af alúð. Hann hét Árni Þorleifsson og bjó á Sjafnargötu hér sunnan kirkjunnar. Hann var vinur foreldra minna og vann við smíðar hjá föður mínum. Hann bað móður mína meira að segja að láta kútinn bera nafn hans þegar ég fæddist. Foreldrum mínum var annt um Árna og urðu við beiðni hans. Báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist og hann kom í þeirra stað. Við urðum nánir og ég heimsótti hann reglulega. Þegar ég var komin á unglingsaldur missti hann sjónina og þar með gat hann ekki lengur smíðað, lesið blöð eða bækur og ekki heldur Biblíuna. En við sömdum um að ég skyldi verða honum augu. Ég fór til hans vikulega og las fyrir hann. Stundum vildi hann að ég læsi úr dagblöðum eða tímaritum en oftast að ég læsi upp úr Biblíunni. Þetta var ekki einhliða þjónustustarf gagn vart honum. Ég fékk innsýn í líf merkilegs manns og líka trúarlíf, afstöðu og biblíusýn hans. Þetta varð okkur báðum til góðs. Svo féll Árni frá og ég tapaði honum en áfram lifði vitundin um trúarlíf manns sem hafði mótast af glímunni við stórritningu veraldar. Hann hafði leyft Biblíunni að móta sig og ég fékk innsýn í að öflug glíma við Ritninguna getur áorkað miklu og mótað persónudýptir fólks. Árni var heilagur maður. Ég uppgötvaði að öflugur biblíulestur getur skapað engla.

Fjölbreytileiki Biblíu og lestrarlykill

Árni hafði lesið allar sextíu og sex bækur Biblíunnar margoft og skildi hversu ólíkar bókmenntir þær voru. Hann vissi að Biblían væri bókasafn, að ritin þjónuðu mörgum og mismunandi hlutverkum og að Biblían hefði sprottið úr og slípast í ólíku samhengi á nærri tvö þúsund árum. Hann leit ekki smáum augum á spádómsbók Habakúk eða Dómarabókina. Hann bað mig stundum að lesa úr Mósebókum eða Jesaja. En honum þótti vænna um Davíðssálmana en Orðskviðina. Helst vildi hann að ég læsi guðspjöllin því hann vildi vera sem næst Jesú. Ég lærði hjá Árna Jesúfestuna og skildi betur síðar að allir biblíulesarar eiga sér hlið og líka leið inn í ritasafn Biblíunnar. Allir eiga sér jafnframt ramma um túlkun og biblíunálgun sem er með mjög ólíku móti. Sumir leita að siðferðisboðskap í Biblíunni. Aðrir leita að huggunarorðum. Enn aðrir hrífast helst af spekinni og flestir hafa þörf fyrir bróður, vin og frelsara. Biblían er um allt fólk og hentar öllum en talar misjafnt til fólks.

Biblíusýn – túlkandi afstaða

Afstaða einstaklings eða hóps til hvernig lesa eigi Biblíuna hefur gjarnan verið kölluð bíblíusýn. Nálgun fólks er alltaf tengd forsendum. Skilningur er aldrei forsendulaus. Við skiljum aldrei án túlkunar. Forsendur eiga sér rætur t.d. í hugðarefnum, lífsafstöðu, aldri, reynslu, varnarháttum líka og í hvaða hefð eða menningu við lifum. Eitt er biblíutúlkun presta í einhverri kirkjunni og annað hvernig trúboðsstöð notar Ritninguna. Aðventistar túlka með einu móti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum með sínu móti. Því er þarft að staldra við og skoða hvað ræður afstöðu okkar til Biblíunnar og hvaða augu eða gleraugu við notum sem lestrarhjálp. Eru þau til hjálpar eða henta þau illa til að skilja Biblíuna?

Bókstafshyggjan

En fyrst um bókstafshyggju sem hefur breiðst út í nútímanum. Það er skaðlegur lesháttur gagnvart Biblíunni og vert er að vara við. Bókstafshyggjan leggur áherslu á einfaldan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan leitar ávallt að óskeikulli leiðsögn og hefur afar takmarkaðan áhuga á táknrænum boðskap. Bókstafshyggjan hefur skert umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi breytast og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Bókstafshyggjumenn halda fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þeir telja að Biblían sé óskeikul eða ákveðinn túlkunarháttur hennar sé hinn eini rétti. Þegar einhver dregur það í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð og bregðast ókvæða við og jafnvel með ofbeldi og stríðsaðgerðum. Bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Oftast er að baki henni ótti við þekkingu og rannsóknir og að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags. Þá óttast bókstafshyggjumenn fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir. Þeir óttast oft útlendinga og gera þá tortryggilega, hræðast rökræður, ósættanlegar kenningar og breytingar. Það sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar eru einhver grunnatriði sem á ensku eru gjarnan nefnd fundamentals hvort sem það er nú meyjarfæðing, ákveðin skýring á upprisunni, afstaða til hjúskaparstofnana eða kynlífs eða að Biblían sé vísindarit um sköpun heimsins.

Hvað sjón gefur bókstafshyggjan? Það er svart-hvít sjón. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni og sér bara svart, hvítt en stundum líka grátt. Bókstafshyggjan hefur haft gríðarleg og víða skelfileg áhrif í pólitík. En það er líka þarft að muna eftir að svipaðar áherslur og svipuð einhæfni er til í öllum kimum heimsins, meðal allra menningardeilda og átrúnaðar og líka trúleysi. Bókstafshyggjan tengist gjarnan hræðslu, valdabaráttu og jafnvel hernaði. Menn læsast í hinni litblindu heimssýn, lífs- eð trúar-afstöðu, öllum til ills, heimsbyggðinni til skelfingar, trú til skaða og Guði til djúprar hryggðar. Guðsríkið er litríkt en bókstafshyggja er litblind.

Þekkingarbreytingar – sjóntækjabreytingar

Bókstafshyggjan er úrelt sjóntruflandi lestrargleraugu sem við eigum að kasta. Háskólafræðin eru okkur í trúarlífinu sem leysiaðgerðir í sjónmálum. Við ættum að taka fagnandi því sem vísindin hafa opinberað og veita okkur varðandi biblíuskilning og lestrarhátt. Biblíufræði og öll þau fræði sem menn hafa stundað við rannsókn Biblíu og trúarlífs hafa fært okkur dásamleg tæki til skýringar á flestu í heimi Biblíunnar. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra en formæður og forfeður okkar og mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um félagslegt, menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists nú en nokkru sinni áður. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblía sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt og trúa á einn máta og túlka á einn veg. Mörgum biblíulesurum ógna þessi fræði. En trúðu mér hvorki kirkja né kristindómur þurfa að að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni að það eru menn sem komu að gerð og skrifum Biblíunnar. Góð fræði ógna ekki Guði heldur aðeins ímyndum okkar um Guð, fordómum okkar og hugsanlega eigin sjálfsmynd. Fólk sem horfir með augum trúarinnar þarf æfa sig stöðugt í að spyrja um rök eigin skoðana, kirkju og trúfræði. Það er margt í arfinum sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar. Við megum muna að trú kristins manns beinist að Guði en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar.Kristinn maður trúir á Guð en ekki á Biblíuna.

Hvernig getum við lesið Biblíuna?

Ef rannsóknir á Biblíunni hafa breytt sýn manna á uppruna, eðli og merkingu Biblíutextanna verðum við að spyrja hvort sýn okkar standist og það sem við sjáum sé sködduð mynd og molnuð Biblíumynd í þúsund brotum. Þegar sjónin breytist þarf auðvitað að fara horfa með nýjum hætti. Það tekur líka tíma að aðlagast betri sjón. Mér hefur lærst að það er hægt að lesa með nýjum hætti sem dýpkar og skerpir mynd hins guðlega. Góð saga grípur og verður oft til að hjálpa fólki við að endurskilja líf sitt og sjá það í nýju ljósi. Þær bókmenntir sem við köllum klassískar þjóna slíku hlutverki. Saga Guðs í samskiptum við fólk og glíma fólks við Guð hefur verið meginsaga í okkar menningarheimi í þúsundir ára. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í þeim skjá, túlkað drauma, vonir og vonbrigði í þeim ramma. Sem slík er Biblían enn fullgild í dag. Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns og er hægt að nota til að túlka líf okkar manna á þessum tíma sem öðrum. Smásögur okkar verða hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi.

Hvernig er biblíusjón þín?

Það var einhvern tíma prestssonur sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun og spurði hann hvernig hann vissi hvað hann ætti tala um í kirkjunni. Pabbinn svaraði að Heilagur Andi segði honum það. Strákurinn spurði þá að nýju: „En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?” Guðs góði andi starfar í og með dómgreind okkar. Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé missýn. Árni nafni minn og afi varð blindur en sá með innri augum. Hann hafði fullkomna sálarsýn til þess sem er miðjan í Biblíunni sem er Jesú Kristur. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat sleppt gömlum gleraugum og jafnvel sjóninni og samt séð hið dýrmætasta í Ritningunni. Ertu háður eða háð gömlu gleraugunum? Geturðu ekkert lesið nema hafa þau á nefinu? Stýra fordómarnir þér? Biblían er heillandi heimur sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þú mátt njóta. Ný sýn er í boði, ný túlkun og ný biblíusjón. Má bjóða þér ný augu?

Biblíudagurinn. Jes. 55.6-13. 2Kor. 12.2-9. Lúk. 8.4-15.

 

Jesús í lit

Hver er mynd þín af Jesú? Hvaða mynd hefur verið dregin upp í huga þér af Jesú Kristi? Er hún dapurleg eða gleðileg? Í bernsku minni þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni. Það var eins og trúin væri í bakkgír. Af hverju þessi dapurlegi stíll, dempandi og jafnvel kæfandi drungi?

Jesúsaga föstunnar er ekki beinlínis til að efla trú okkar á mannkynið. Góðmenni framselt í hendur níðinga. Jesús á leið frá heimahögum og undir hramm spillts valds. Vald fer oft illa með hið fagra og góða, einlægni og ást. “…krossfestur, dáinn og grafinn. Steig niður til heljar.” Sorgleg frásögn með gott upphaf en nístandi framhald.

Og svo hafa Passíusálmarnir hljómað eða verið lesnir, sálmar sem segja passíu – píslarsögu Jesú. Sálmarnir færðu yfirskilvitlegan drunga – að mér fannst fyrrum – yfir trúarlífið, mannlíf og kirkjuhúsin. Og ég spurði: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu og hvaða gleðifrétt er það?

Þjáningin

Þjáning hittir alla menn – þig líka. Enginn flýr sorgina. Þroskað fólk glímir við endanleika sinn og annarra. “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum. Er trú og kristni einkum meðal gegn dauðaógn eða er trú eitthvað annað og jafnvel stórum meira?

Á föstunni fléttast saga Hallgríms og í kirkjulífið og hluta þjóðlífsins. Við höfum líklega oftúlkað Hallgrím sem píslarmann. Hann málaði harmsögur heims og fólks svo vel að líðandi Íslendingar hafa um aldir fundið til samsemdar boðbera Guðs og sjálfs sín. Sjónum hefur gjarnan verið beint að dapurlegum þáttum í lífi Hallgríms sjálfs. Hann lenti visslega í klandri og klúðraði ýmsu. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina sem ekki ætti að leggja á nokkuð foreldri. Svo varð hann fyrir þeim skelfilega sjúkdómi að rotna lifandi.

Hallgrímur í lit

En hvað um hitt? Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím, trú og kirkju? Nei, hann var í lit. Hallgrímur var skemmtilegur, eldhugi, fjölmenntaður, líklega góður pabbi og líflegur maður. Píslarmaðurinn var líka elskhugi og eftirlæti allra, sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús – sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni, gjósandi listamaður.

Og hvað svo? Passíusálmarnir fimmtíu lýsa síðustu dögum Jesú. Myndin af Jesú er af himinkonungi sem er allt annað en upphafinn. Hann er himinkonungur, en kemur til að þjóna án allrar upphafningar. Það er ástin en ekki dauðinn sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana. Jesús gekk inn í hlutverk menna til leysa þá frá vonleysi, þjáningu, lífsharmi. Áherslan er ekki á þjáningu heldur á hvað og hver megni að leysa vanda mannanna. Og það er elskandi Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Jesú er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu, heldur hetjunnar, sem mætir, er og fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu. Hann er ekki ofurkóngurinn heldur lífsþjónninn.

Að baki myrkrinu er ljós, að baki depurðinni er gleði. Sagan er ekki um pínu heldur um lífgjöf. Passíusálmar eru ekki sjálfspíslarsálmar heldur ástarsaga – margþætt og lífstrú saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi sálmanna heyrist grunnstefið:

Guð elskar, Jesús elskar, Guð elskar – alla menn – þig.

Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er gott, lífið er elskulegt, að Guð er alltaf nærri þér – og að eftir dauða kemur líf.

Kristin trú? Er hún þér slíkt fagnaðarerindi að þú finnir gleðina ólmast innan í þér? Eða tjáir þú og upplifir trúna með einhverju öðrum og hófstilltari hætti?

Þú mátt skipta út svörtu myndinni af Hallgrími og sjá hann í lit. Hver er mynd þín af Jesú? Er hún í sauðalitunum eða laðandi litum? Klisjumyndum af svart-hvítum Jesú má henda. Og svo er það þín eigin mynd af trú. Er kominn tími til að uppfæra? Ástarsagan er sögð og lifuð vegna þín.

Hvers virði ertu?

Eru sumir dýrmætari en aðrir? Er verðmiðinn mismunandi? Eru einhverjir dreggjar samfélagsins og verðminni en hin sem eru mikils metnir borgarar. Fólk er vissulega flokkað í hópa eftir stöðu, efnahag, menntun og samkvæmt ýmsum stöðlum. En getur verið að við þurfum að gera okkur grein fyrir að manngildi er allt annað en verðgildi. Þú ert svo dýrmætur og dýrmæt að gildi þitt verður ekki metið til fjár. Gildi hjá Guði eru ofar peningagildi manna.

Samtalið

Jesú var boðið í mat. Símon gestgjafi var líklega góður karl, sem vildi tala um pólitíkina og trúmálin við Jesú Krist. Þetta var opið boð, svipað hádegisfyrirlestri og allir voru velkomnir. Fólk í nágrenninu mátti koma og hlusta á það, sem gesturinn hafði að segja.

Fundarstíllinn var af því tagi, sem Sókrates var kunnur fyrir. Þetta var algengur samkomuháttur í þessum heimshluta á þessum tíma, ekki aðeins meðal grískra menntamanna heldur líka gyðinglegra. Gestgjafinn og pallborðsfólk spurði og meistarinn svaraði. Síðan var rökrætt, dæmi tilfærð eða gátur lagðar fyrir. Sögur voru sagðar og gagnspurningar flugu og það sagt sem gæti þjónað málstað eða glætt skilning.

Hið einkennilega var að Jesús brá út af öllum venjum og siðum samfélagsins. Hann leyfði mellu að koma nærri sér, sem þótti ekki bara illt afspurnar, heldur siðferðilega og samfélagslega rangt. Hann leyfði henni líka að þrífa fætur sína, smyrja og nudda. Símon hefur örugglega orðið pirraður yfir að Jesús skyldi leyfa þessari borgarskömm að þjónusta sig og varpa þar með skugga á samkvæmið. Vegna tilfinningaviðbragðanna sagði Jesús Símoni sögu um tvo skulduga menn, sem fengu skuldaniðurfellingu. Annar fékk niðurfelldar “fimm milljónir” en hinn “fimmtíu.” Hvor ætli hafi verið þakklátari? Símon kunni hlutfallsreikning og svaraði því augljósu dæminu.

Í svona sögum af Jesú er oftast dramatískur viðsnúningur. Í þessari sögu beinir Jesús athyglinni að partískandalnum, að konunni alræmdu og byrjar að tala um mál hennar og stöðu, að hún hafi verið stórskuldug við Guð en hún iðrist einlæglega. Henni sé því fyrirgefið. Því sé hún þakklát og bregðist við með svona látum og yfirfljótandi þakklæti í fótanuddinu. Jesús gengur lengra og bendir Símoni veislustjóra á, að hann hafi lítið þakkað, gert lítið fyrir boðbera himins, lítils vænst, verið algerlega innan marka hins venjulega. Hann sé því ekki auðmjúkur gagnvart gjöfum lífsins og Guðs.

Auðvitað var þetta hastarlegt og rosalegt af Jesú. Símoni var vorkun. Hann var bara venjulegur maður sem vildi gera vel, efna til settlegra viðræðna sem gætu orðið til að bæta og efla fólk. Hann vildi siðsemi og vildi forðast að alræmd kona flekkaði heimili hans og blettaði æru hans. En Jesús bar hann saman við konuna á botni samfélagsins og hún fékk betri dóm! Hvers konar réttlæti er það? Og að baki er spurningin um manngildi og mannsýn.

Að tortryggja og endurmeta

Við getum haft alls konar skoðanir á að heimili sé flekkað af liði sem kemur utan af götunni óboðið? En aðalmálið er hvort við erum tilbúin að endurmeta hið mikilvæga og verðmæta.  

Jesús þorði að spyrja erfiðra spurninga og fór stundum út fyrir hefðbundin mörk til að fá menn til að opna augu, eyru, hjörtu og líf gagnvart hinu mikilvæga. Og spámenn og skapandi hugsuðir þjóna hinu sama. Uppskurður fordóma er eitt, en hvað kemur svo í kjölfarið er annað og líka mikilvægt. Paul Ricoeur, franski heimspekingurinn, minnti á að meistarar tortryggninnar kenndu okkur að sjá fólk og málefni með nýjum hætti. Meistarar tortryggninnar eru þau, sem þora að efast um viðtekin sannindi, andmæla því, sem ekki stenst skoðun og leggja til aðrar log betri túlkunarleiðir en hinar hefðbundnu. Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullri einurð. En aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar.

Fólk í plús og fólk í mínus 

Og þá aftur til hórunnar, Símonar og Jesú á tali um afstöðu og fólk. Í samtali gestgjafans og Jesú opinberar meistarinn, að Símon er á villigötum í afstöðu sinni því hann skilur ekki að jafnvel bersyndug kona er heilög. Símon var háður ákveðnum hugmyndum um hvernig tilveran ætti að vera og hvernig ekki. Kona, sem væri á kafi í sukkinu og saurlifnaðinum væri einfaldlega ekki þess verð að vera í samfélagi heiðarlegs og venjulegs fólks. Hún átti sér engrar bjargar von í þjóðfélaginu. Konan væri fyrir neðan mennskuna, ekki þess verð að vera boðið og allra síst þess verð að fá að nálgast þá félaga, trúarleiðtogana og guðsmennina. Þar kom í ljós að Símon aðhylltist mínus-mannskilning.

Jesús bendir hins vegar á að einmitt vegna þess, að konan hefði verið í hræðilegum málum og iðraðist væri hún meðtekin – henni væri fyrirgefið mikið af því hun hefði iðrast gerða sinna. Í þessari afstöðu Jesús kemur plús-mannskilningur Jesú berlega fram. Í hans huga, í afstöðu hans og ræðu kemur í ljós að manneskjan er heilög og á alltaf möguleika ef hún vill vaxa og breytast. Engu máli skipti hvað konan hafi gert ljótt af sér, hún eigi séns gagnvart Guði. Manngildið er grunnatriði og ef fólk tengir sig við líf og Guð sé mál þess endurskoðað og fólkið náðað, sem heitir réttlætt á máli Biblíunnar. Og það er þessi mannsýn í plús, sem er afgerandi. Fólk er guðdómlegt og hefur eilíft gildi. Manneskjur eru stórkostlegar, líka þau sem hafa hrapað á botninn, þau sem eru lítilsvirt, hötuð og hræðileg. Af því að fólk er heilagt á það alltaf að eiga séns og við eigum að skipa málum svo það geti fengið að rísa upp og ná að gera sín mál upp.

Þegar við förum að skoða með augum trúarinnar, með augum Jesú breytist sýn. Við megum gjarnan vera tortryggin um samfélag og tískur þess en við verðum framar öllu að halda í markmið og leiðir ástar Guðs. Öll, sem þú mætir, eru guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér, handan við fordóma og grillur. Allar mannverur eru ásjóna Guðs í þessum heimi. Manneskjan er heilög og við þurfum alltaf að æfa okkur í þessu partíi, sem mannlífið er, að sjá Guð birtast á óvæntan hátt.

Guð sér þig og elskar. Hvernig horfir þú á fólk – er það með mínus eða í plús? Eigum við að setja verðmiða á fólk eða sjá strikamerki Guðs í sál allra manna?

Amen.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 32.1-7 (-11)

Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda. Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela) Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela) Biðji þig þess vegna sérhver trúaður meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi nær það honum eigi. Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Verið eigi sem skynlausar skepnur, hestar og múldýr; með beisli og taumi þarf að temja þær, annars koma þær ekki til þín. Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)

Pistill:  1Jóh 1.5-10

Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

Guðspjall:  Lúk 7.36-50

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

Lygi eða sannleikur?

vitringarSagan um vitringana er ekki goðsaga heldur helgisaga. En er helgisagan lygi eða sannleikur?

Jólatímanum er að ljúka og við jólalok er sagan um vitringana gjarnan íhuguð. En hvers konar saga er hún og hvað merkja vitringar og atferli þeirra? Er saga þeirra goðsaga, helgisaga, dæmisaga eða eitthvað annað – eða kannski bara lygisaga, bull og vitleysa?

Það skiptir máli hvernig lesið er til að fólk greini með viti og skilji þar með. Í Biblíunni – og líka í trúarbrögðum og menningarhefðum – eru margar sögur sem kallast kallast helgisögur. Þær eru oft nefndar með slanguryrðinu legendur því þær kallast á ensku legends og eru ólíkar og gegna öðru hlutverki en svonefndar goðsögur um uppruna heimsins.

Helgisögur eru gjarnan um efni á mörkum raunveruleikans. Þær eru oft sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á nákvæma rás viðburða og söguferlið sjálft, staðreyndir eða ytra form atburðanna, heldur fremur á dýpri merkingu og táknmál. Svona greining á formi og flokkum skiptir máli til að merking sögunnar sé rétt numin og skilin. Bókmenntafræðin, þjóðfræði og greinar háskólafræðanna eru hjálplegar til að skilja svona sögur. Inntak og form verður að greina rétt. Inntakið kallar alltaf á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Reglan er einföld: Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og skilja þær í ljósi eigin forsendna. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Og vitringasagan er helgisaga en ekki goðsaga.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa vitringa sem komu til Jesú? Af hverju var sagan sögð af þeim? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir margir?

Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir taldir allt að tólf. Ekkert í guðspjöllunum er heldur um nöfn þeirra.

Voru þetta konur eða karlar – eða bæði? Um það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesús myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit margra kristinna manna í Kína, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magos (μάγος) og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Líklega ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið fræðimenn, kunnáttumenn í stjörnufræði og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna. Kannski hafi þeir verið úr þeim væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu hins guðlega.

Víkkun – fyrir alla

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni sem lesin er á aðfangadegi úr Lúkasarguðspjalli. Af hverju sagði Matteus aðra útgáfu jólasögunnar? Ástæðan varðar stefnu og tilgang rits hans. Í guðspjalli Matteusar er áhersla á opnun hins trúarlega. Matteus taldi að Jesús Kristur og kristnin ætti ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð væri ekki smásmugulegur heldur stór. Guð veldi ekki aðeins litinn hóp heldur hugsaði vítt og útveldi stórt. Guð léti sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Vegna þessa er eðlilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega. Hrepparígur og bókstafstrú passar ekki við trú þessarar gerðar, trúin er fyrir alla. Guð starfar í þágu allra. Guð er alveg laus við snobb og er ekki hrifnari af sumum en síður af öðrum. Guð er ekki bara Guð einnar þjóðar heldur allra manna.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmál vitringasögunnar, stækkað hana og lesið í hana. Kóngavæðing sögunnar er einn þáttur flókinnar túlkunarhefðar. Þegar veraldlegir konungar fóru að trúa á Jesú Krist var að vænta, að kóngarnir vildu koma sér að í guðssríkinu – valdið vill alltaf meira. Sögur fengu byr um að hinir vitru og gjafmildu ferðalangar hlytu að hafa verið konungbornir. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan skrifað (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið kóngar og eðli og tilgangur gjafa þeirra breyttist þar með. Danska biblíuhefðin var í anda þessarar konungatúlkunar. Á dönsku er t.d. talað um þrettándann sem helligtrekongersdag. En ég held þó að ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum en magos og magoi í Biblíunni.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir berlega að komumenn hafi verið “Austurvegskonungar.” En hins vegar þýddi Guðbrandur Þorláksson orðið magos með orðinu vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar en ekki kóngar í núgildandi Biblíuþýðingu. 

Hvenær?

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldinu í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir, sem við setjum upp t.d. helgileikur Melaskólans sem sýndur hefur verið í marga áratugi hér í kirkjunni. En ekkert er sagt í guðspjallinu um, að vitringarnir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt að þeir hafi opnað hirslur sínar og gefið góðar gjafir.

Lestur helgisögunnar

Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að sagan er kennslu- eða mótunarsaga. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér hugsanlega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo er eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við verðum ekki að trúa þessari sögu frekar en við erum neydd til að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og aðrar mikilvægar sögur mannkyns. Helgisaga er ekki lygi heldur opnar möguleika í lífinu, varðar sannleik viskunnar. Hlutverk helgisagna – eins og annarra klassískra sagna og þmt skáldsagna – er ekki að lýsa staðreyndum eða segja nákvæma frétt á vefnum heldur segja segja sannleikann á dýptina, lýsa því sem er mikilvægt og hjálpa fólki við að lifa vel.

Að lúta barninu með vitringunum

Hin táknræna merking helgisögunnar um vitringana er m.a. að menn séu – og það á við okkur öll – ferðalangar í tíma. Lífsferð allra manna er lík langferð vitringanna til móts við barnið. Aðalmál lífs allra manna er að fara til fundar við Jesú. Okkar köllun eða hlutverk er að mæta honum og gefa það, sem er okkur mikilvægt, af okkur sjálfum, okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu og lífsstefnu í veganesti.

Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa og helgisöguna að okkar hætti, en tilvera þeirra er eins og tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Engin nauðsyn knýr að þú trúir að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra og með þeim.

Þegar þú íhugar og innlifast helgisögunni um vitringana er þín eigin saga endursköpuð. Þegar þú lýtur Jesú í lotningu – eins og þeir – breytist líf þitt með þeim. Helgisaga er utan við lífið og lygi – ef hún er skilin bókstaflega – en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu – veruleika Jesú Krists – verður þú einn af vitringunum. Þá verður lífið töfrandi – ekki bull eða lífsflótti – heldur undursamlegt. Helgisagan er til að efla fólk til lífs – skapa farveg fyrir heill og hamingju.

Hugleiðing við lok jóla.

Málmhaus

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár.“ Er það svo – læknast andleg sár fólks þegar einhver tími er liðinn frá áföllum? Í kvikmyndinni Málmhaus segir pabbinn í sögunni þessa setningu: „Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helbert kjaftæði.”

Hvaða skoðun hefur þú á sorg og tíma? Er alveg öruggt að þegar einhverjir x-mánuðir eða x-ár eru liðnir sé allt orðið gott og heilt að nýju. Reynsla mín, reynsla fólks sem ég hef þjónað og boðskapurinn í Málmhaus er að lífið er ekki svo einfalt.

Málmhaus, mynd Ragnars Bragasonar, er ný. Og þar sem kvikmyndir hans eru á dýptina röltum við hjónin í vikunni í heimabíóið okkar, Háskólabíó. Svo sátum við djúpt snortin. Og þrátt fyrir annir hefur myndin vitjað mín aftur og aftur þessa vikuna? Myndin byrjar með sjokki, sýnir Heru Karlsdóttur, áhyggjulaust barn að leik í sveit. Hún verður vitni að bróðir hennar, eina systkinið, deyr í dráttarvélaslysi. Hera kennir sjálfri sér um dauða bróðurins og líf hennar umpólast. Sorgin nístir og tíminn læknar ekkert. Foreldrarnir tala ekki saman og myrkur voðans lamar alla. Í sorginni hellir Hera sér í metalmúsík, kafar í textana, áfengi, drunga og lendir á jaðri samfélags og heilbrigði.

Andstæðutvenna yndisleika og hryllings í upphafi myndarinnar grípa. Myndin stiklar á stóru stefjunum; ást, dauða, líf, trú, tengslum og samfélagi. Og það eru meginstef lífs okkar allra. Hera og fjölskylda hennar er gott fólk sem verður fyrir stórkostlegum missi. Hvernig geta þau haldið áfram og hvernig er hægt að lifa við óbærilega minningu?

Í jarðarför bróðurins horfir Hera á altaristöflu kirkjunnar sem er lík töflu Dómkirkjunnar (tafla SG í Strandarkirkju). Hún sér hinn sigrandi Krist með sigurveifu og spurningin seitlar inn: Af hverju leyfðir þú þetta? Hvers konar Guð ertu, hvers konar kirkja er það sem leyfir drápið? Og Hera hleypur út úr kirkjunni og vesalings faðirinn á eftir – sem sé uppákoma í átakanlegri jarðarför. Síðan verðum við vitni að sálargrípandi þrautagöngu Heru, móður hennr sem er líka uppgefin og ráðlausum föður sem höndlar ekki aðstæður.

Nei, tíminn læknar engin sár. Hera er fangi í eigin sorgarveröld og engar útleiðir eru henni færar. Hvað er til ráða? Þá kemur nýi presturinn og húsvitjar. Sá prestur er ólíkur öðrum prestum í fyrri íslenskum kvikmyndum sem hafa oftast afskræmt þá sem skrítlinga eða þrjóta. Hera gefur skít í klerkinn en hann kemur henni á óvart. Henni til mikillar furðu skilur hún að presturinn hefur ekkert síðri innsýn í metalrokkið en hún – hann skilur mannlíf, sjálfan sig og hana. „Guð býr líka í myrkrinu“ segir presturinn og Jesús verður – í túlkun hans – samferðamaður fólks en ekki miskunnarlaus kvalari. „Hann skuldar mér“ segir Hera sem kann betur að varpa þjáningunni yfir á umhverfi, samfélag og Guð en að vinna með hana.

Sorgarvinna

Hvað gerum við í sorg og gagnvart missi? Þegar ástvinir okkar eru slitnir úr fangi okkar, þegar við sjálf erum rifin upp „á hárinu“ eru kostirnir jafnan tveir. Annað hvort að vinna með áfallið eða áfallið vinnur á okkur. Annað hvort að rísa upp og horfast í augu við og vinna með vandann eða að meinið vinnur sigur. Í kvikmyndinni var áfallið yfirgengilegt, áfallahjálpin takmörkuð og fólki svo orða vant að allir urðu sjúkir. „Guð býr líka í myrkrinu“ sagði presturinn.

Málmhaus getur opnað augu þeirra sem hafa misst en höndla úrvinnsluna illa. Tíminn læknar enginn sár. Lækning verður ekki með því að bíða nógu lengi heldur að viðurkenna, opna og vinna með. „Við höfum aldrei talað um það sem gerðist – ekki af alvöru,“ segir pabbinn. Og þegar fólk byrjar að tala þá er von um upprisu. Orð eru líka tæki kraftaverkanna.

Traust

Textar dagsins varða traust og hverju við treystum. Jesús minnir á að trú er það sem varðar núið. Guð er ekki bara tengdur því sem var eða verður seinna heldur varðar Guð okkur nú og í raunaðstæðum samtímans. Við, kirkjufólk, megum gjarnan taka til okkar þá áherslu. Kirkjan er fyrir lifandi fólk og þarfir þess, guðfræðin er fyrir raunverulegar spurningar fólks á öllum aldri. Boðskapur Guðs er ekki aðeins fyrir engla eða menningarkima heldur alla. Guð er ekki hrifnari af hinum flekklausu en spellvirkjum. Guð er jafn nálægur hinum dyggðugu og mistæku, jafn áhugasamur um trans, homo og hetero. Og Guð elskar málmhausinn jafn mikið og klerkinn. Þetta er afstaða Jesú. Það verkefni kirkjunnar að endurnýjast og koma til móts við fólk í raunverulegu lífi. Því er boðskapurinn í kvikmyndinni Málmhaus í samræmi við eðlilega guðfræði og kirkju sem tikkar.

Kirkjubruninn

Málmhaus er rífandi, hvetjandi mynd, ein sú besta sem ég hef séð í langan tíma. Landslið leikara fer á kostum og ungstirni er fætt. Við lærðum að tíminn læknar enginn sár heldur verður að meðhöndla sorgina.

En svo var önnur vídd í kvikmyndinni sem ég staldraði við. Hera hljóp frá sorgarvinnunni og að kirkjuhúsinu. Hún gekk berserksgang og kveikti í helgidóminum. Fallega kirkjan – sem er blanda af Strandarkirkju og Búðakirkju – brann til ösku. Með kirkjubrunanum urðu önnur skil í kvikmyndinni. Allt samfélag sveitarinnar brást hart við enda eru kirkjuhús á Íslandi táknstaðir sögu hvers samfélags. Kirkjur eru ekki aðeins hlið himins heldur einnig samfélagsleg helgihús. Þar hefur fólk átt hlé fyrir stærstu stundir sínar, gleðistundir æfinnar og sorgaratburði fjölskyldu og samfélags. Og Ragnar Bragason spinnur vel efnið og kirkjan er tákn lífs og gæða.

Kirkjubruninn varð mér til íhugunar um hlutverk kristinnar kirkju á Íslandi. Hera höndlaði ekki eigin angist og tók út reiði sína á Guði með því að brenna kirkjuna sem pabbi og mamma hennar sungu í, bróðir hennar var jarðsunginn frá og þar sem myndin af sigrandi Kristi horfði á hana (altaristaflan er kopía af Wegenertöflunni í Dómkirkjunni). Kirkjubruni Heru missti marks en samfélagið brást við, hún misskildi en samfélagið náði áttum.

Þar sem ég sat í Háskólabíó læddist að mér hugsun. Hera málmhaus fékk útrás fyrir reiði og sorg vegna bróðurmissis með því að brenna kirkju. Getur verið að íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins hafi ekki megnað að vinna með áfall og sorg og beint reiði sinni að kirkjunni?

Þegar þjóðkirkjan hefur gert mistök og einstaklingar í þjónustu hennar hafa brugðist trausti og erindi sínu er bæði eðlilegt og mikilvæg að gagnrýnt sé og tekið á málum. Kirkjunni er það nauðsyn. En mér virðist að margir í íslensku samfélagi hafi fengið útrás fyrir hrunreiði eða annars konar reiði með því að kveikja sína kirkjubruna á facebook, í samtölum og í fjölmiðlum. Sumt er réttmætt gagnrýni en annað er vitnisburður um getuleysi fólks til að vinna með áföll – þá verður til vörpun eigin sorgar yfir á stofnun, sem var veikluð af skammsýni og ekki í takt við samfélag sitt.

Málmhaus veltir ýmsum steinum og sýnir trú, prestsþjónustu og kirkjulíf með jákvæðari hætti en oftast hefur verið gert í íslenskum kvikmyndum. Sorg verður ekki sigruð með reiði og eyðilegging kirkjunnar er skaði alls samfélagsins. Með sorg, reiði og samfélagsskaða þarf að vinna með raunhæfum hætti. Kirkjubruni í mynd hatursáróðurs gegn trú og kristni verður öllum til tjóns. Hin hliðin er að íslensku samfélagi verður til ills ef kristin kirkja verður eyðilögð. Nú er kominn tími til að byggja upp kirkju og samfélagsstoðir eftir fárið. „Það er ekki hægt að lifa í sorg endalaust því hún étur mann upp“ segir mamman í myndinni. Það er rétt.

Presturinn var ekki trúður eða aðskotavera í samfélaginu heldur persóna í þjónustu þess Guðs sem er líka í myrkrinu. Þar með varð hann til lífs og góðs fyrir stúlkuna og eflingar sveitungum hennar. Trúin er ekki fyrir fortíð eða framtíð heldur núið. Jesús var í núinu. Kristin kirkja er samfélag Jesú Krists og það merkir að hún er útrétt hönd hans, hún á koma til móts við raunverulegar þarfir, spurningar, tilfiningar og bregðast við til góðs fyrir fólk.

Kirkjubrunar, eiginlegir og táknrænir, eru engum til góðs heldur fremur tákn um einhvers konar sturlun. Hamfarir á netsíðum gegn hinu trúarlega líka. En raunhæf og raunsönn trú er einstklingum og samfélagi nauðsyn til lífs. Verkefni okkar allra, hvort sem við erum vígðir prestar eða ekki, er að lifa trú okkar og með ábyrgð í tengslum við fólk, Guð, samfélag og náttúru. Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Það eru ekki akrar til dauða heldur lífs.

Hugleiðing í Neskirkju 20. október, 2013

21. sd. eftir þrenningarhátíð – B

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.

Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.

Guðspjallið: Jh. 4. 34-38

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.