Greinasafn fyrir merki: Jerúsalem

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Ísrael

„Viltu koma með mér til Ísrael?“ spurði ég konu mína. Ég fór til Ísrael fyrir nær hálfri öld síðan og hef haft heimþrá síðan. Svo ég spurði reglulega mína ferðaglöðu konu um Ísraelsferð en alltaf hindruðu vopnaskak eða aðrar ástæður – þar til nú. Vinafólk okkar ætlaði til Jerúsalem í lok maí og var svo vinsamlegt að hvetja okkur til að koma með. Við slógum til. Ég hafði rýmri tíma en samferðafólk mitt og ákvað að verða undanfari, skoða aðstæður og staði og gera áætlun til að hámarka gæði ferðar okkar. Svo sótti ég námskeið hjá græna rabbíanum í Jerúsalem og sinnti fræðistörfum. Mér hefur löngum reynst best að skoða borgir með fótunum og gekk um Tel Aviv og Jerúsalem í nokkra daga og andaði að mér sögu, menningu og mannlífi.

Andstæður og mennska

Ísrael er land andstæðna. Togstreitan er mikil milli hópa bæði í Ísrael og líka á vesturbakkanum. Allar klisjur um Ísrael eru rangar en hafa þó flestar eitthvað til síns máls. Ísrael er hvorki algott né alvont heldur stórkostlegt land þar sem undursamlegt fólk býr en líka eigingjarnir hagsmunaseggir og spellvirkjar. Víða hafa hópar orðið að tröllum í baráttu og afstöðu að nær ógerlegt er að breyta skoðun þeirra eða lífi. Því hafa deildur verið og verða svo átakanlega harðar og blóðugar. Bara mennskan ein slítur af sér fordóma, stöðu og ætterni. Þegar lítill drengur var í lífshættu einn morguninn nærri hótelinu okkar brugðust allir við og af krafti. Ísraelska lögreglan fjölmennti með hraði, Rauði krossinn líka og palestínsku leigubílstjórarnir hlupu til hjálpar. Engu skipti hver átti í hlut, allir brugðust við af mennskri samkennd. Reynsla okkar af þessum viðburði situr í okkur sem fögur tjáning um að mennskan er ómennskunni sterkari – lífið er sterkara en dauðinn. Þrátt fyrir vonleysi flestra um lausn á vanda Ísraels og Palestínumanna urðum við vitni að getunni til að sameinast um lífsvernd. Vonin lifir.

Ísraelar tala

Ísraelar deila um flest og greinir á um gildi og leiðir. Trúarhóparnir eru margir og merkingarkerfin ótrúlega flókin sem gerir úrlausnarefni langsótt og lausnarleiðir torfarnar. Það eru ekki aðeins Gyðingar, múslímar og kristnir sem búa í landinu helga heldur alls konar hópar með ólík viðmið. Sannleikurinn ísraelski er margflókinn og margþættur. Gyðingadómurinn er t.d. langskorinn og þverskorinn og margar stefnur iðkaðar í togstreitu. Palestínumenn eru þolendur og líðendur alls konar mismununar sem má nánast ekki tala um. Við ræddum við marga í Ísrael, fregnuðum og spurðum, lögðum okkur eftir afstöðu og tjáningu og hlustuðum á margar dramatískar sögur og var treyst fyrir miklum tilfinningum. Það þótti okkur merkilegt og áhrifaríkt. Stafsfólk á gististöðum, þjónar á veitingastöðum, bílstjórar í leigubílum og rútum, farastjórar og útlendingar búsettir í Ísrael og verslunarfólk svaraði óhikað spurningum okkar, virti löngun okkar til skilnings og treysti okkur fyrir blóðríkum sögum og sumar voru nístandi dapurlegar. Jafnvel vegfarendur á götum stöldruðu við til að ræða í þaula stórmál. Áhugi okkar á lífi og sögu fólksins sem byggir landið helga reyndist lykill að því að opna flestar skrár. Við komum úr öðrum heimi og máttum því spyrja lykilspurninga. Við furðuðum okkur á hve viljugt fólk var að ræða við okkur, miðla okkur skoðun eða upplýsingum, rökstyðja sitt mál, segja kostulegar sögur og vera okkur vinsamlegt. Alls staðar komum við að opnum dyrum og allt var gerlegt – nema þá helst að fá leigubíl þegar okkur hentaði. En nú erum við búin að fá okkur appið Get the taxi – og það virkar.

Öðru vísi

Landið er dásamlegt og andstæður líka miklar. Ísrael er mun meira gróið nú en fyrir nær hálfri öld. Vatnsvit og vatnsnotkun íbúanna hefur gerbreytt ásýnd landsins. Ísraelar eru jú uppfindingamenn bestu úðakerfa heimsins. En Dauðahafið er mun dauðara en það var og lækkun þess er dramatísk. Mikið hefur verið byggt frá því ég fór fyrst um Ísrael. Vegakerfið er gott og auðvelt að komast um. Bílaleigurnar ágætar. Sporvagnakerfið nýja sem verið er að byggja upp í Jerúsalem er frábært og lestakerfið milli Tel Aviv og Jerúsalem líka. Miðað við Ísrael nútímans var fyrsta ferð mín til landsins helga á miðöldum!

Matur

Er hægt að fara út að borða í Ísrael? Já, svo sannarlega. Maturinn er góður og víða framúrskarandi. Hráefnið er gott og eldamennskan fjölbreytileg. Ísraelar nútímans eiga sér bakgrunn í flestum kimum Evrópu og Asíu – já alls heimsins. Þeir hafa tekið matarmenningu og hefðir með sér og því er matargerðin fjölvídda líka eins og pólitíkin og kryddheimurinn er stór. Þó að ákveðnir hópar hafi reglur um leyfilegan kost eru aðrir sem hafa aðrar hugmyndir. Því er úrvalið mikið. Vert er að skoða ferðavefina, íhuga eigin matarsmekk og prufa nýja rétti. Svo er ástæða til að fara á matarmarkaðina í stærri borgum til að skoða hráefni og krydd og njóta hins kúlínaríska ríkidæmis landsins helga. Lyktin á þessum stöðum er flókin, hrífandi og oft undursamleg. Göturéttirnir geta verið stórkostlegir t.d. shawarma-pítur í Betlehem eða shakshuka á Tmol Shilshom í Jerúsalem. Fiskistaðurinn Uri Buri í Akkó er pílagrímastaður og félagi minn keypti því matreiðslubók ofurkokksins skeggjaða. Margir frábærir veitingastaðir eru í Tel Aviv og Jerúsalem og ég hef hvorki fyrr eða síðar fengið eins góða nautasteik og á Culinary workshop í Jerúsalem. Þar er iðkuð framúrskarandi tilrauna-eldamennska eins og víða í þessum litríku og líflegu borgum. 

Ferðin okkar

Þegar Elín og ferðafélagarnir voru komnir dvöldum við saman í sólarhring í Tel Aviv. Svo leigðum við bíl og ókum norður frá borginni og til Cesareu. Eftir að hafa skoðað þá fornu hafnarborg, fórum svo til Haifa og síðan til Akko og gistum þar. Borgin varðveitir m.a. sögur og byggingar frá tímum krossferða og miðaldahernaðar. Við ókum síðan til Nasaret, skoðuðum bæinn og leituðum að uppeldisstað Jesú. En ferðirnar í fótspor Jesú eru tilgátuferðir og ráð að leyfa umhverfi, lykt, veðri, gróðri og svipbrigðum fólks staðanna að lifa í minni ekki síður en reynslu af stöðum sem einhverjir forkólfar markaðstækifæra hafa ákveðið í tímans rás. Í Nasaret fannst mér merkilegast að aka um iðnaðarhverfi með trésmiðju, bílaverkstæðum og alls konar smiðjum. Ég hugsaði til Jósefs, Maríu, Jesú og bræðra. Svo var haldið til Tiberias og þar gistum við. Við fórum til Kapernaum og upp á Fjallið sem talið er að Jesús hafi flutt fjallræðuna. Báðir staðirnir eru fagrir og túristavænir. Ég hafði áætlað að aka svo suður Jórdandalinn og fara á tvo staði sem hafa verið tilnefndir sem skírnarstaðir Jesú en hryðjuverkaógn og vegaviðvaranir breyttu ferðaáætlun okkar. Við ókum hraðbrautina suður Ísrael og alla leið til Jerúsalem. Vegalengdirnar í Ísrael eru svipaðar og á Suðurlandinu á Íslandi og akstur milli staða er engin fyrirstaða fyrir vegavana Íslendinga.

Stefnan var að gista í íbúðahóteli við Jaffastræti nærri Jaffahliðinu en íbúðirnar sem við áttum að fá reyndust svo herfilega myglaðar að við hrökkluðumst í burtu og fundum okkur heilnæmari vistarverur á hóteli. Við fórum svo gönguferðir um gömlu borgina og notuðum nokkrum sinnum leigubíla til að fara lengri leiðir. Jerúsalem er ekki bílaborg. Umferðin er hæg og stundum fljótlegra að ganga en að fara í leigubíl, líka utan gömlu borgarinnar. Við fórum einnig í skipulagða hópferð í til Dauðahafsins og Masada og okkur var ráðlagt að bæta við nokkrum krónum og fara í VIP-ferð. Þeim krónum var vel varið. Svo fengum við palestínskan leigubílstjóra til að fara með okkur til Betlehem og alla leið til Tel Aviv. Við sömdum fyrirfram um verð og allt stóðst. Síðustu dagana vorum við í Tel Aviv sem er eitt best varðveitta leyndarmál svæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs. Brátt verður flogið beint frá Keflavík til Ben Gurion og mun einfalda mörgum að ákveða að fara í pílagrímsferð til Ísrael. Shalom og góða ferð. Ég mun koma aftur og Elín mín væntanlega líka – og vonandi stór hópur með okkur . Við erum svo sannarlega velkomin.