Greinasafn fyrir merki: Ísrael

Miðausturlönd 5 *****

Við feðgar fórum á bókamarkað og keyptum fjölda bóka og þær voru alls konar. Ég rakst á bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Miðausturlönd – fortíð, nútíð og framtíð. Ég met höfundinn mikils og hlusta grannt eða les þegar tekin eru viðtöl við hann í fjölmiðlum. Ég vissi af bókinni en hafði hvorki eignast hana né skoðað. Svo var hún þarna í bókaflóði markaðarins undir stúku Laugardalshallar – á spottprís. Hún var með í staflanum sem við roguðumst með út í bíl. Heima fór ég svo að lesa. Fólkið mitt stríddi mér á því að eftir þrjátíu blaðsíður lýsti ég yfir og af sannfæringarkrafti að bókin væri frábær. Þau minntu mig á að ég væri nú bara nýbyrjaður og fannst gassagangurinn hæfa mér illa. En nú er ég búinn að lesa allt ritið, allar 331 blaðsíðurnar. Niðurstaða mín er einföld. Þetta er besta bókin sem ég hef lesið um Miðausturlönd. Magnús Þorkell er ekki aðeins snjall fræðimaður heldur vel skrifandi höfundur líka. Litrík, fræðandi, vel túlkandi og yfirveguð fræðimennska og textinn er leifrandi.

Í hverjum kafla er farið yfir menningarsögu, trúarheim, pólitík og hagsmunasögu menningarhópa landssvæðis eða ríkis. Sjónum er aðallega beint að Egyptalandi, ríkjum á Arabíuskaga, Írak, Íran, Ísrael, Líbanon, Jórdaníu, Sýrlandi og Tyrklandi. Einstakir hópar eða þjóðarbrot eru líka rædd þvert á ríkjamæri, s.s. Kúrdar og mismunandi trúarhópar. Með leiftrandi sögum, útlistunum, fræðslu og túlkun málar Magnús Þorkell myndir og útskýrir af hverju málin þróuðust með ákveðnu móti en ekki öðru vísi. Heimsveldi Breta kemur víða við sögu og einnig Bandaríkin. Ottómanveldið er þarna auðvitað líka. Höfundur skrifar óhikað um hvernig stórveldin hafa beitt sér, hver áhrifin voru og þar með líka hvernig hópar hafa verið misnotaðir og þjóðir jafnvel verið rændar. Olía, auðlindir og flutningaleiðir skiptu máli í þróuninni. Hlutur Frakka, Þjóðverja og Rússa er skýrður og hvernig átök veraldar áttu sína afleggjara á mismunandi svæðum og í mismunandi löndum Miðausturlanda. Fjölbreytileg þróun Islam er túlkuð, mismunandi áherslur og guðfræði sem og átök hópa. Af hverju Ísraels-og Palestínu-vandinn hefur þróast með þeim sárgrætilega hætti sem við verðum vitni að þessa dagana fær skýrt baksvið í meðförum Magnúsar Bernharðs.  

Ég hef haft áhuga á Miðausturlöndum lengi og fylgst með fréttum frá svæðinu allt frá áttunda áratugnum. Ég þekki því flesta gerendur og hinar opinberu skýringarsögur fjölmiðlanna. Magnús Þorkell segir persónusögurnar með litríkum hætti og notar til að fara á dýptina. Hann hreif mig með sér og lánaðist að leysa upp marga fordóma mína og ímyndanir um þróun og einstaklinga. Hann túlkaði fyrir mér sögu þjóða og hópa með svo trúverðugum hætti að ég sé margt með öðrum og skýrari hætti en áður. Þannig eru snilldarbækur, þær breyta, dýpka og kalla fram skilning og þegar best lætur visku. Takk.

Slagorð um Palestínu, Gyðinga, Ísraela og stjórnmálamenn hljóma í mótmælum, fjölmiðlum og átökum hörmungarmánaða frá 7. október 2024. Klisjur magna ófrið en aðeins góð fræði og viska skapa eða fæða frið. Það er þarft fyrir okkur að ná í bókina Miðausturlönd og lesa. Þar er gott veganesti fyrir yfirveguð viðbrögð okkar einstaklinga og skilvirka menningar- og utanríkispólitík okkar Íslendinga.

Fimm stjörnu bók – og mínusarnir svo fáir og smáir að ég kann ekki einu sinni við að nefna þá. Tolle lege.

Frið á Gaza

Í þessari viku eru fimm mánuðir liðnir síðan Hamas liðar réðust á íbúa Ísraels og her Ísraels hóf hernaðaraðgerðir á Gaza landsvæðinu.

Frá og með 7. október hafa ótal mannslíf glatast. Einnig hafa mun fleiri meiðst, innviðir skemmst og fólk hrakist í miklum mæli frá heimilum sínum. Enginn árangur hefur náðst í viðræðum um vopnahlé eða hvort gíslar Hamas-liða verði látnir lausir. Eftir að stríðið braust út hafa aðstæður á Gaza svæðinu verið skelfilegar fyrir öll þau sem þar lifa og versnar enn. Nú berast fregnir af því að börn þar deyja vegna hungurs og vökvaskorts. Sjúkdómar breiðast út, ekki síst vegna þess að hernaðaraðgerðir hafa beinst að heilbrigðis- og sjúkrahússtarfsemi. 

Við ítrekum mikilvægi þess að yfirstandandi friðarviðræður beinist að því að fá gísla Hamas-liða látna lausa og að stríðsaðgerðum á Gaza ljúki í anda mannúðar og í þágu mannlífs á svæðinu. Ákvarðanir og aðgerðir þarf til að tryggja frið og öryggi fólks. Stríðandi aðilar og fjölþjóðlegir aðilar verða að leysa átökin.

Lútherska heimssambandið lýsir yfir þungum áhyggjum yfir hve stríðið á Gaza hefur magnað flokkadrætti og aukið fordóma um allan heim sem beinast bæði að Gyðingum og Palestínufólki. Lútherska samfélagið heldur áfram að biðja fyrir öllum þeim sem þjást vegna stríðsins í Landinu helga og heldur áfram að standa með kristinni nærveru og samfélagi þar. Lútherska heimssambandið stendur með og styður aðildarkirkjuna sína á landsvæðinu, The Evangelical Lutheran Church in Jordan and the Holy Land, starfsfólki sínu í Jerúsalem og öllum þeim sem er þjónað í þessum erfiðu aðstæðum.

 Samþykkt Lútherska heimssambandsins í byrjun mars 2024.

Myndina tók ég af teikningu barns sem ég rakst á í borginni Jaffa í Ísrael, norðan við Gaza.

 

Minning þeirra blessi

Þetta eru Tamar og Jonatan og börn þeirra Shachar, Arbel og Omer. Þau bjuggu á Shir Oz samyrkjubúinu skammt frá Gaza. Þau voru myrt í loftvarnabyrginu sem þau höfðu farið í til að vera í skjóli fyrir eldflaugum. En þau voru í engu skjóli fyrir morðingjum sem höfðu farið yfir landamærin til að elta uppi borgara Ísraels, skjóta þá, stinga og niðurlægja. Hver drepa, börn – jafnvel kornabörn, ömmur, afa, foreldra sem verja börn sín, almenna borgara? Það er hin djúpa og hræðilega spurning sem knýr á og verður að svara. Ég hlustaði á Íslending fagna innrás Hamas-samtakanna í Ísrael. En engin afbrot eða ofbeldisverk í fortíðinni réttlæta þessa tegund morðæðis. Illvirki eru alltaf illvirki. Hrottaverk Hamasliða eru hliðstæða Úteyjarmorðanna og árásarinnar á tvíburaturnana í New York. Lík fólks voru tekin, hent á jeppa og síðan ekið með þau um Gaza eins og sigurtákn. Þvílík mannfyrirlitning, þvílík brenglun. Morðæði Hamas hefur líklega endalega gert út um tveggja ríkja tilraunina fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú verður að búa til nýjan tíma fyrir Ísraela og Palestínumenn. Megi minningin um Tamar, Jonatan, Shachar, Arbel og Omer blessa framtíðina. Blóð þeirra og allra hinna myrtu hrópar upp í himininn og út í mannheima. 

Ísrael

„Viltu koma með mér til Ísrael?“ spurði ég konu mína. Ég fór til Ísrael fyrir nær hálfri öld síðan og hef haft heimþrá síðan. Svo ég spurði reglulega mína ferðaglöðu konu um Ísraelsferð en alltaf hindruðu vopnaskak eða aðrar ástæður – þar til nú. Vinafólk okkar ætlaði til Jerúsalem í lok maí og var svo vinsamlegt að hvetja okkur til að koma með. Við slógum til. Ég hafði rýmri tíma en samferðafólk mitt og ákvað að verða undanfari, skoða aðstæður og staði og gera áætlun til að hámarka gæði ferðar okkar. Svo sótti ég námskeið hjá græna rabbíanum í Jerúsalem og sinnti fræðistörfum. Mér hefur löngum reynst best að skoða borgir með fótunum og gekk um Tel Aviv og Jerúsalem í nokkra daga og andaði að mér sögu, menningu og mannlífi.

Andstæður og mennska

Ísrael er land andstæðna. Togstreitan er mikil milli hópa bæði í Ísrael og líka á vesturbakkanum. Allar klisjur um Ísrael eru rangar en hafa þó flestar eitthvað til síns máls. Ísrael er hvorki algott né alvont heldur stórkostlegt land þar sem undursamlegt fólk býr en líka eigingjarnir hagsmunaseggir og spellvirkjar. Víða hafa hópar orðið að tröllum í baráttu og afstöðu að nær ógerlegt er að breyta skoðun þeirra eða lífi. Því hafa deildur verið og verða svo átakanlega harðar og blóðugar. Bara mennskan ein slítur af sér fordóma, stöðu og ætterni. Þegar lítill drengur var í lífshættu einn morguninn nærri hótelinu okkar brugðust allir við og af krafti. Ísraelska lögreglan fjölmennti með hraði, Rauði krossinn líka og palestínsku leigubílstjórarnir hlupu til hjálpar. Engu skipti hver átti í hlut, allir brugðust við af mennskri samkennd. Reynsla okkar af þessum viðburði situr í okkur sem fögur tjáning um að mennskan er ómennskunni sterkari – lífið er sterkara en dauðinn. Þrátt fyrir vonleysi flestra um lausn á vanda Ísraels og Palestínumanna urðum við vitni að getunni til að sameinast um lífsvernd. Vonin lifir.

Ísraelar tala

Ísraelar deila um flest og greinir á um gildi og leiðir. Trúarhóparnir eru margir og merkingarkerfin ótrúlega flókin sem gerir úrlausnarefni langsótt og lausnarleiðir torfarnar. Það eru ekki aðeins Gyðingar, múslímar og kristnir sem búa í landinu helga heldur alls konar hópar með ólík viðmið. Sannleikurinn ísraelski er margflókinn og margþættur. Gyðingadómurinn er t.d. langskorinn og þverskorinn og margar stefnur iðkaðar í togstreitu. Palestínumenn eru þolendur og líðendur alls konar mismununar sem má nánast ekki tala um. Við ræddum við marga í Ísrael, fregnuðum og spurðum, lögðum okkur eftir afstöðu og tjáningu og hlustuðum á margar dramatískar sögur og var treyst fyrir miklum tilfinningum. Það þótti okkur merkilegt og áhrifaríkt. Stafsfólk á gististöðum, þjónar á veitingastöðum, bílstjórar í leigubílum og rútum, farastjórar og útlendingar búsettir í Ísrael og verslunarfólk svaraði óhikað spurningum okkar, virti löngun okkar til skilnings og treysti okkur fyrir blóðríkum sögum og sumar voru nístandi dapurlegar. Jafnvel vegfarendur á götum stöldruðu við til að ræða í þaula stórmál. Áhugi okkar á lífi og sögu fólksins sem byggir landið helga reyndist lykill að því að opna flestar skrár. Við komum úr öðrum heimi og máttum því spyrja lykilspurninga. Við furðuðum okkur á hve viljugt fólk var að ræða við okkur, miðla okkur skoðun eða upplýsingum, rökstyðja sitt mál, segja kostulegar sögur og vera okkur vinsamlegt. Alls staðar komum við að opnum dyrum og allt var gerlegt – nema þá helst að fá leigubíl þegar okkur hentaði. En nú erum við búin að fá okkur appið Get the taxi – og það virkar.

Öðru vísi

Landið er dásamlegt og andstæður líka miklar. Ísrael er mun meira gróið nú en fyrir nær hálfri öld. Vatnsvit og vatnsnotkun íbúanna hefur gerbreytt ásýnd landsins. Ísraelar eru jú uppfindingamenn bestu úðakerfa heimsins. En Dauðahafið er mun dauðara en það var og lækkun þess er dramatísk. Mikið hefur verið byggt frá því ég fór fyrst um Ísrael. Vegakerfið er gott og auðvelt að komast um. Bílaleigurnar ágætar. Sporvagnakerfið nýja sem verið er að byggja upp í Jerúsalem er frábært og lestakerfið milli Tel Aviv og Jerúsalem líka. Miðað við Ísrael nútímans var fyrsta ferð mín til landsins helga á miðöldum!

Matur

Er hægt að fara út að borða í Ísrael? Já, svo sannarlega. Maturinn er góður og víða framúrskarandi. Hráefnið er gott og eldamennskan fjölbreytileg. Ísraelar nútímans eiga sér bakgrunn í flestum kimum Evrópu og Asíu – já alls heimsins. Þeir hafa tekið matarmenningu og hefðir með sér og því er matargerðin fjölvídda líka eins og pólitíkin og kryddheimurinn er stór. Þó að ákveðnir hópar hafi reglur um leyfilegan kost eru aðrir sem hafa aðrar hugmyndir. Því er úrvalið mikið. Vert er að skoða ferðavefina, íhuga eigin matarsmekk og prufa nýja rétti. Svo er ástæða til að fara á matarmarkaðina í stærri borgum til að skoða hráefni og krydd og njóta hins kúlínaríska ríkidæmis landsins helga. Lyktin á þessum stöðum er flókin, hrífandi og oft undursamleg. Göturéttirnir geta verið stórkostlegir t.d. shawarma-pítur í Betlehem eða shakshuka á Tmol Shilshom í Jerúsalem. Fiskistaðurinn Uri Buri í Akkó er pílagrímastaður og félagi minn keypti því matreiðslubók ofurkokksins skeggjaða. Margir frábærir veitingastaðir eru í Tel Aviv og Jerúsalem og ég hef hvorki fyrr eða síðar fengið eins góða nautasteik og á Culinary workshop í Jerúsalem. Þar er iðkuð framúrskarandi tilrauna-eldamennska eins og víða í þessum litríku og líflegu borgum. 

Ferðin okkar

Þegar Elín og ferðafélagarnir voru komnir dvöldum við saman í sólarhring í Tel Aviv. Svo leigðum við bíl og ókum norður frá borginni og til Cesareu. Eftir að hafa skoðað þá fornu hafnarborg, fórum svo til Haifa og síðan til Akko og gistum þar. Borgin varðveitir m.a. sögur og byggingar frá tímum krossferða og miðaldahernaðar. Við ókum síðan til Nasaret, skoðuðum bæinn og leituðum að uppeldisstað Jesú. En ferðirnar í fótspor Jesú eru tilgátuferðir og ráð að leyfa umhverfi, lykt, veðri, gróðri og svipbrigðum fólks staðanna að lifa í minni ekki síður en reynslu af stöðum sem einhverjir forkólfar markaðstækifæra hafa ákveðið í tímans rás. Í Nasaret fannst mér merkilegast að aka um iðnaðarhverfi með trésmiðju, bílaverkstæðum og alls konar smiðjum. Ég hugsaði til Jósefs, Maríu, Jesú og bræðra. Svo var haldið til Tiberias og þar gistum við. Við fórum til Kapernaum og upp á Fjallið sem talið er að Jesús hafi flutt fjallræðuna. Báðir staðirnir eru fagrir og túristavænir. Ég hafði áætlað að aka svo suður Jórdandalinn og fara á tvo staði sem hafa verið tilnefndir sem skírnarstaðir Jesú en hryðjuverkaógn og vegaviðvaranir breyttu ferðaáætlun okkar. Við ókum hraðbrautina suður Ísrael og alla leið til Jerúsalem. Vegalengdirnar í Ísrael eru svipaðar og á Suðurlandinu á Íslandi og akstur milli staða er engin fyrirstaða fyrir vegavana Íslendinga.

Stefnan var að gista í íbúðahóteli við Jaffastræti nærri Jaffahliðinu en íbúðirnar sem við áttum að fá reyndust svo herfilega myglaðar að við hrökkluðumst í burtu og fundum okkur heilnæmari vistarverur á hóteli. Við fórum svo gönguferðir um gömlu borgina og notuðum nokkrum sinnum leigubíla til að fara lengri leiðir. Jerúsalem er ekki bílaborg. Umferðin er hæg og stundum fljótlegra að ganga en að fara í leigubíl, líka utan gömlu borgarinnar. Við fórum einnig í skipulagða hópferð í til Dauðahafsins og Masada og okkur var ráðlagt að bæta við nokkrum krónum og fara í VIP-ferð. Þeim krónum var vel varið. Svo fengum við palestínskan leigubílstjóra til að fara með okkur til Betlehem og alla leið til Tel Aviv. Við sömdum fyrirfram um verð og allt stóðst. Síðustu dagana vorum við í Tel Aviv sem er eitt best varðveitta leyndarmál svæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs. Brátt verður flogið beint frá Keflavík til Ben Gurion og mun einfalda mörgum að ákveða að fara í pílagrímsferð til Ísrael. Shalom og góða ferð. Ég mun koma aftur og Elín mín væntanlega líka – og vonandi stór hópur með okkur . Við erum svo sannarlega velkomin.