Greinasafn fyrir merki: Íslendingar

Fjarkirkja, nærkirkja og Íslendingar

Þegar ég kom fyrst í Skálholt var staðurinn dimmur á nóttinni því engin var næturlýsingin. Kirkjan, þetta mikla guðshús hvarf, eins og hún svæfi og biði aftureldingar. Þegar dagaði að nýju vaknaði kirkjan  og reis mót morgunroðanum. Svo varð breyting því heimamenn vildu upplýsta kirkju. Fé var tryggt til birtunnar. Og breytingin var mikil fyrir alla sem bjuggu í Skálholti eða fóru um í nágrenni hennar. Síðan er Skálholtskirkja sýnileg á nóttinni og sama gildir um margar aðrar kirkjur þjóðarinnar. Þegar ekið er um sveitir má sjá mörg þessara fínbyggðu guðshúsa eins og skínandi perlur í nætursortanum. Þær eru sem nýtt landslag, þegar línur náttúrunnar hafa horfið, sjóndeildarhringur næturinnar. Kirkjuhúsin eru, auk eiginlegra hlutverka, ljós og viðmið, tilfinningalegir staðsetningarpunktar í myrkrinu. Þær eru á sínum stað, þegar mennirnir spana hjá. Mörg okkar, sem höfum ferðast mikið um sveitir að vetrarlagi, höfum fundið til öryggiskenndar við að sjá þessi upplýstu guðshús og glaðst yfir lýsandi ræktarsemi safnaðarfólksins.

Kirkjurnar hafa orðið eins og hvíslandi tákn um návist lífs og samfellu í sögunni. Enginn leggur þó lykkju á leið sína á dimmri nótt heim að kirkju nema í mjög skuggalegum erindagerðum eða vegna einhverrar alvarlegrar andlegrar eða vélrænnar bilunar. Kirkjan við sjóndeildarhring er rammi. Hún er á ytri mærum rýmis og lífs, hvorki of nærri né handan hins seilanlega eða sjáanlega. Hlutverk kirkju virðist vera fólgið í að vera á sjónbaugnum. Líklega eru þessar upplýstu kirkjur við sjónarrönd líka tákn um trúarlíf Íslendinga nútíðarinnar. Ljóskirkjurnar eru fjarkirkjur og því má halda fram, að trúarlíf meirihluta þjóðarinnar sé nokkurs konar fjarkristni. Það mun ég ræða um og benda á nokkur einkenni fjarkirkjunnar. Að meta afleiðingar fyrir kirkjulega stefnu og safnaðarstarf er annað mál og verður ekki rætt hér.

Hugtakið fjarkirkja

Fjarkirkja er andhverfa nærkirkju, þess sem oftast er miðað við, þegar rætt er um blómstrandi og lifandi kirkjulíf. Hugtakið fjarkirkja barst í fang mér sem titill á danskri bók, Den fjerne kirke eftir Jörgen I. Jensen. Tilgangur bókarinnar er að greina einkenni trúar Dana á seinni hluta tuttugustu aldar. Því er haldið fram, að kirkjan sé í nútímasamfélagi fyrst og fremst fjarveruleiki. Kenningin er áhugaverð og varðar íslenska kirkju og vestræna kristni. Vissulega munu margir sjá fjarkirkjunni flest til foráttu og telja hana merki um, að kristnin sé að þynnast út, trúmennskan við Guð sé fjarri og sorti guðleysis eða grautarlegrar heiðni hríslist um æðar þjóðlífs og skuggasund sálarlífs einstaklinga. En til að bregðast við breytingum og í vitund um anda Guðs að starfi er rétt að greina með opnum huga hverja kreppu. Margt bendir til, að fjarkirkja sé lýsing á kirkjustíl Íslendinga, t.d. lítil kirkjusókn, trúfræðileg fjölbreytni í guðstúlkun, kirkjuhúsaafstaða og forgangsröðun í fjárnotkun safnaða.

Þátttaka í kirkjulífi

Í þéttbýlisöfnuðum eru guðsþjónustur á hverjum helgum degi og helgistundum fer fjölgandi í starfi þessara safnaða. Prestar og starfsmenn kirknanna  undirbúa helgihaldið jafnan af alúð og vandvirkni, en guðsþjónustusókn er ekki alls staðar stórkostleg. Hlutfallslega eru guðsþjónustur mun betur sóttar í dreifbýlinu, jafnvel að meirihluti sóknarfólks sæki kirkju á messudögum. Augljóst er þó, að messusókn er einnig vegna hefðar og ræktar við þá stórfjölskyldu, sem viðkomandi sveit eða sókn er. Þar sem kirkjukaffi er enn veitt er hægt að leysa ágreiningsmál, létta á streitu milli þeirra, sem deilt hafa um landskika eða fyrirkomulag haustleita eða einfaldlega gleðjast og hlægja með góðum grönnum. Allt eru þetta liðir í lifandi samfélagi.

Réttlætingar og skýringar á þverrandi guðsþjónustusókn eru margar og eiga sér langa sögu, eins og sjá má í gömlum árgöngum Kirkjuritsins. Prestar hafa löngum kvartað yfir kirkjusókn. Staðreyndir varðandi þátttökuna eru þessar. Minna en 2 % þjóðarinnar sækir kirkju einu sinni í viku af einhverju tilefni, minna en 8% þjóðarinnar einu sinni í mánuði. Liðlega helmingur þjóðarinnar kemur ekki í kirkju á árinu. Margur presturinn gleðst yfir 100 manns í kirkju á sunnudegi, en ef söfnuðurinn er yfir átta þúsund manns er sóknin ekkert undur. Hið sama gildir um barnastarf kirkjunnar, sem víðast er afar vel unnið. Eftir að upphafsaldan hefur riðið yfir í haustbyrjun kirkjustarfsins er hlutfall barnahópsins af heild ekki alltaf hátt, þótt skarinn virðist stór á sunnudagsmorgni. Messusókn og kirkjusókn Íslendinga er engin vikuleg flóðbylgja. Hvað þetta varðar er íslenska kirkjan fjarkirkja en ekki nærkirkja. Þessi staðreynd og könnun á trúarlífi þjóðarinnar, þ.e. trúarlífskönnunin 1986, eru veigamiklar vísbendingar um raunveruleika fjarkirkju.

Helgihald hinna fáu

Íburðarmikil og fögur altarisþjónusta þarf ekki að vera í óþökk þeirra, sem ekki koma til kirkju. Hún er þó ekki talin vera það aðalatriði, að menn fari hennar vegna til kirkju. Menn gætu viljað, að presturinn væri reyndur og hæfur litúrg og góður athafnaprestur, en það þjónaði þá fyrst og fremst hinum pöntuðu athöfnum. Kannanir sýna að almenningur vilji breytingu á helgisiðum en þó er mikið efamál, að „léttu og skemmtilegu” athafnirnar myndu draga fleiri til kirkjunnar, þegar til lengri tíma er litið. Helgihald, sem ekki tengist krossgötum lífsins, virðist hafa það háa þröskulda að menn nenna ekki, geta ekki eða kunna ekki að stíga yfir nema með hjálp eða breyttri afstöðu. Í nærkirkju er helgihaldið eðlilegur og veigamikill þáttur í trúariðkun einstaklinganna. Þar sem guðsþjónustan er slíkur kjarni í lífi kristins safnaðar, nærkirkju, bendir vanræktin til að íslenska kirkjan sé fjarkirkja.

Trúfræðileg fjölbreytni

Þessu tengt eru trúarhugmyndir fólks. Meðlimir nærkirkju láta sig trúarkenningu varða og vilja leiðsögn prests eða fræðara um hverju þeir eigi að trúa, hvernig þeir eigi að breyta og hvers þeir megi vona. Hvort sem nærkirkjumenn samsinna öllum kenningum kristninnar í hjarta eða ekki, komast þeir ekki hjá því að hafa nokkuð góða sýn yfir helstu meginatriði kristinnar trúfræði. Rannsóknir Björns Björnssonar og Péturs Péturssonar sýndu, að meirihluti Íslendinga hefur farið eigin leiðir í trúfræðinni. Það er alveg sama hvaða trúfræðilegum lögregluaðgerðum menn kynnu að taka upp á. Fólk mun skella skollaeyrum við stefnu og samþykktum helstu samkoma kirkjunnar og boðskap kennimanna, svo fremi sem trúfræðin er ekki tengd beint við líf þess. Túlkunarrammarnir eru svo margir í fjölmiðla- og samræðuflórunni, að einstaklingurinn verður ekki auðsannfærður eða hjartahlýðinn. Hinni kirkjulegu túlkun er ekki beinlínis andæft. Hún er fremur álitin sem einn af kostunum á gnægtaborði andlegheitanna í samfélaginu, sem hver og einn getur þegið eða afþakkað hljóðalaust. Hið sama gildir um skilning á athöfnum eins og skírn og máltíð Drottins. Fólk, sem óskar og nýtur þessara athafna, heldur áfram að hafa sinn skilning eða túlkunarramma, hvað svo sem presturinn eða hefðin segja. Ef rétt er, að trúfræðileg miðstýring sé horfin og fjölbreytnin verði æ meiri, er það tákn um að fjarkirkjan eflist á kostnað nærkirkjunnar. Það merkir ekki, að trúfræðin geti ekki verið góð, samþykktir og kennimennskan í lagi. Hið kirkjulega samhengi er einfaldlega breytt.

Guðstúlkunin

Hugmyndir um Guð í íslensku samfélagi eru einn skýrasti vottur um veru fjarkirkju á kostnað nærkirkju. Ekki vantar, að Guð skipti Íslendinga máli og einhvers konar guðstrú, tilbeiðsla eða afstaða sé til í hugskoti fólks og leyndum sálar. Þorri þjóðarinnar trúir á Guð, eða um 80%, sem er talsvert hærra hlutfall en á Norðurlöndum.  En guðsímyndir fólks eru ekki allar af hefðbundinni ætt kristins rétttrúnaðar. Það sýnir könnunin 1986 berlega og hefur fjölbreytnin væntanlega orðið meiri síðan. Könnunartölur má túlka margvíslega, en liðlega þriðjungur (37%) svarenda trúir á persónulegan Guð, sem hægt er að biðja til. Það er ennfremur sá fjöldi, sem aðhyllist hina hefðbundnu trúfræði og lítur til Jesú Krists, sem Guðssonar og frelsara. Yfir 43% hafa gert sér aðrar hugmyndir um Guð, en hinar kirkjulegu. Það er íhugunarvert, að stærsti hópur Íslendinga lýtur Guði sem krafti, lífsmætti og orku. Guðsmynd þeirra er ópersónuleg og í ætt við guðstúlkun mystikeranna. Ekki er víst, að þessi afstaða fjarkirkjunnar sé svo neikvæð þegar grannt er skoðað. Verið getur, að um sé að ræða djúphneigð, sem getur verið tengd náttúruskynjun eða reynslu barna á öllum aldri gagnvart undri lífsins og óendanleika, sem hið smáa hjarta skynjar við að stara út í geiminn og greina halastjörnu, stjörnuhrap og fjölda stjarnanna.

Kirkjuhús og fjarkirkja

Fjarkirkjuíslendingar nýta sér sín helgihús til trúarlegra athafna á krossgötum lífsins. Sóknarnefndir um allt land staðfesta ómeðvitað tilveru fjarkirkjunnar í ofuráherslu á kirkjuhúsið. Þegar prestar vilja fá meira fé til eiginlegs safnaðarstarfs, helgihalds, fræðslu eða líknarþjónustu, er fyrirstaða sóknarnefnda sem næst mænuviðbragð fjarkirkjunnar. Kirkjuhúsið, hinn ytri rammi, skal vera sem bestur fyrir athafnir sem fjarkirkjan nýtur. Annað verður að lúta þessu aðalatriði. Glæsileg hús og í lagi eru tákn fjarkirkjunnar. Þau skulu vera til reiðu, þegar fólk þarfnast þeirra. Bibilíulestrar, bænahópar, líknarstarf, kyrrðarstundir eða fyrirlestur um gildi heimilisguðrækni eru undir þetta höfuðatriði sett. Fjárveitingar til að kosta það starf verða ávallt að lúta viðgerð á kirkju, eru sem sé neðar í forgangsröðun.

Ógnir og vörn sjálfsins

Jón Vídalín skrifaði, nokkuð hryssingslega, að manninum væri varpað í þennan heim sem hræi! Líf Íslendinga er skyndikast inn í nútíma. Hið einsleita samfélag er að baki, þar sem hlutverkin í lífinu og framtíðarkjör voru ljós. Kynjahluverkin hafa breyst. Í einkalífinu eru valkostir næstum yfirþyrmandi. Það er ekki lengur sjálfsögð skylda að fórna lífi og hamingju á altari þjóðar eða gangast upp í þjóðernisgildum á kostnað eigin hags. Ættbálkasamfélag Íslendinga er að liðast í sundur í alþjóðadeiglu. Rammi sjálfsins er stærri og óljósari en áður var. Hið alþjóðlega eða hin yfirþjóðlegu gildi freista æ fleiri Íslendinga. Atvinnumöguleikar erlendis og hærri tekjur en hér heima eru raunverulegir kostir, sem stækkandi hópur hefur möguleika á að velja eða hafna. Rammi gilda, viðmiða, trúarhugmynda og atferlis stækkar stöðugt. Einstaklingurinn hefur úr sífellt meiru að moða og í því eru fólgnir bæði kostir og gallar. Því meira hreyfifrelsi og fleiri kostir, því mikilvægara er að ytri rammi öryggis sé tryggður. Því meiri óreiða, sem verður í einkalífi einstaklinganna, því sterkari ytri ramma þarfnast hann.  Það eru takmörk fyrir því hve sjálf einstaklinganna verður þanið og varnarammi getur verið víður. Hversu alþjóðlegir sem nútíma Íslendingar verða, hversu vel menntaðir og óbundnir af þjóðerni eða hefðum, átrúnaði eða stofnunum, megnar enginn sæmilega óbrenglaður maður að umspanna allt í þekkingarsprengingu veraldar. Öll verðum við að eiga algilda lífsvörn, amöbuvegg sálarinnar, skjólgarð, óðal, þar sem mörkin eru trygg, landamærin skýr og varnargarðarnir stöndugir mót æðandi ógn.

Systurnar náttúra og kirkja

Breytingar hafa orðið á þjóðernisvitund Íslendinga. Það er eðlilegt, að náttúra verði æ fleiri Íslendingum samnefnari þjóðernis. Hin rómantísku stef um sögu og tungu duga ekki lengur. Í náttúru Íslands, undir hrímköldum hrammi vetrarbyls eða í angurværum faðmi sumarnætur, lifa flestir Íslendingar einhverjar vitjunarstundir, sem vekja með okkur skynjun um hvað við erum og hvar við eigum gull okkar. Að okkur læðist grunur um, að lífið sé meira en slagur um brauð og orðspor. Einnig um hina dýpstu fegurð, um hlýtt hjarta að baki náttúru og mannlífi þrátt fyrir eyðingu byggða eða gjaldþrot í lífi eða starfi. Þessi skynjun getur orðið haldreipi, sem menn vilja með engu móti sleppa. Líklega er það þetta, sem heldur guðstrú svo hlutfallslega hárri meðal okkar, trúnni á andann og kraftinn svo skýrri og trúnni á framhald svo vonstyrkri. Ég tel, að þessi þörf fólks fyrir ytri skjólvegg sé forsenda fjarkirkjunnar. Líklegt er einnig að túlka megi fjarkirkju, sem systur náttúruskynjunar og náttúruforsendu Íslendingsskilgreiningar síðustu ára. Að baki bæði náttúruskynjun og ennfremur fjarkirkju er líklega sama vitund um kraft, líf, elsku og von þrátt fyrir allt, sem bendir til hins gagnstæða. Náttúran og fjarkirkjan eru samkvæmt þessu þættir í öryggiskerfi eða varnarviðbúnaði okkar gagnvart eyðingaröflum, myrkri, aðsteðjandi ógn, vonleysi, þ.e. hinu djöfullega og dauðanum?

Þarfir fjarkirkjunnar

Fjarkirkjan á sér önnur guðspjöll en þau fjögur biblíulegu. Þau eru tengd þröskuldum lífsins: Nafngjöf (það sem nærkirkjan nefnir skírn) sem er magísk athöfn í öllum samfélögum; skil bernsku og forfullorðinsára, þ.e. manndómsvígslan í mynd fermingar; afmörkun sambúðar og fjölskyldu (hjónavígsla eða samvist); skil lífs og dauða (útför). Þetta eru guðspjöll fjarkirkjunnar, þ.e. ekki inntaksríkir textar sem segja sögu sem varðar okkur, heldur athöfn sem hver getur lagt sitt í. Fjarkirkjan hefur þörf fyrir þessar athafnir og leitar til trúarlegrar stofnunar, þjóðkirkjunnar, að mestu óháð skilgreiningu nærkirkjunnar á inntaki. Því aðkrepptari sem einstaklingarnir eru í einkalífinu, því styrkarki vilja þeir að kirkjan sé og fær í starfi sínu. Hún á að sýna færni og fegurð í athöfnum. Hún á gjarnan að vera snjöll í sérfræði sinni. Hún má rækta með alúð helgisiði sína, óháð hvort fáir eða margir sækja guðsþjónustur. Hún á að vera góð í hinu orðræna kennihlutverki, þó fæstir hafi nokkurn sérstakan áhuga á sérhæfðri trúfræði eða játningatrúum samþykktum. Hún þarf að kunna til allra verka í sálgæslu. Hún má gjarnan státa af gríðarlegri færni í heimspeki, sálfræði, sállækningum, sérþjónustu hvers konar, og færni til að taka þátt í kappræðu og vitsmunalegri rökræðu. Það skiptir eintstaklingana ekki höfuðmáli í slag daganna, en þau vilja að kirkjan kunni til verka, þegar leita þarf til hennar vegna athafna eða slysa í lífinu. Kirkjan á að vera gæðastofnun, rétt eins og bráðamóttakan eða heilsugeirinn eiga að veita fullkomna þjónustu, þegar slys verða. Okkur er nokk sama um, hvernig læknagengið eða hjúkrunarfólkið iðkar sín fræði, bara að starf þeirra gagnist þegar þörf verður á. Og kirkjunni ber að sinna hinum trúarlegu málum á hliðstæðan hátt.

Fjarkirkjan og nýhugsun

Eigum við að sætta okkur við að kirkja sé að breytast í táknrænt öryggisnet, nútímalega útgáfu af Strandakirkju, sem er ein öflugasta táknmynd fjarkirkjunnar? Erum við tilbúin að gefa nærkirkjuna upp á bátinn, sem hægt er halda fram að sé forsenda þess, að fjarkirkja geti verið til? Ef ekki, hvað þýðir það fyrir starfshætti í söfnuðum og fjárnotkun, samskipti presta og sóknarnefnda, helgihald, trúarhugsun, fræðslu og líknarþjónustu og ennfremur mynd okkar af hlutverki kirkjunnar? Fjarkirkjan er komin, en með hvaða móti og í krafti hvers fær hún að vera?

Þessa hugleiðingu flutti ég á málþingi í Skálholtsskóla árið 1997. Myndirnar tók ég líka nema myndina af fermingarungmennum. Hún er úr myndasafni Hallgrímskirkju.

Hvernig er Guð?

IMG_3082Í vikunni komu tveir ungir menn í Hallgrímskirkju og báðu um viðtal við prest. Þeir komu frá austurhluta Belgíu, settust niður í sófann hjá mér og var mikið niðri fyrir. Þeir upplýstu að þeir væru ekki komnir til Íslands til að skoða íslenska náttúru eða íslenskt mannlíf. Nei, þeir voru komnir til að hitta forseta Íslands og presta á Íslandi. Ég gat alveg skilið að þeir heimsæktu kirkjur og ef þeir rækjust á prestana ræddu þeir við þá líka. Nei, þeir voru ekki kirkjutúristar. Þegar þeir komu í Hallgrímskirkju fóru þeir ekki inn í kirkjuna og höfðu takmarkaðan áhuga á húsinu, listinni og söfnuðinum.

Undir dómi?

Þessir ungu Belgar voru í afar sértækum erindagerðum við forsetann og prestana: „Við erum komnir til að vara fólk við dómi Guðs, vara fólk við til að það iðrist.“ Og þeir upplýstu að siðferðilegt ástand íslensku þjóðarinnar væri slæmt. „Ef þið takið ekki til hjá ykkur verðið þið fyrir alvarlegri refsingu.“ Þetta voru skilaboðin.

Það sló mig að þessir unglingspiltar töluðu og hegðu sér eins og þeir væru þrjú þúsund ára spámenn sem komu með hræðilegan boðskap út úr eyðimerkurryki Miðausturlanda. Fyrst hélt ég að þeir væru að ýkja eða væru með falda myndavél. Svo fór ég að ímynda mér að þeir væru að leika nútímaútgáfu að Jónasi spámanni sem endaði í hvalnum áður en hann fór til Ninive. En svo dagaði á mig að þessi strákar voru komnir alla leið til Íslands til að hitta Guðna Th. Jóhannesson og fjölda af prestum til að tilkynna okkur að við yrðum að snúa baki við öllum nútímaviðmiðum t.d. um samskipti kynja, bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu. Ef ekki, ja þá myndum við farast í eldgosi. Annar þeirra hafði orðið fyrir vitrun. Hann fullyrti að Guð hefði sagt honum þetta beint eins Guð talaði forðum við spámanninn Jónas.

Siðferðileg sýn?

Mér fannst heimsókn dómsspámannanna vondur gjörningur. Það var reyndar furðulegt að þeir sæktu svo langt í burtu frá aðstæðum og þörfum heimahaganna. Eru ekki næg verkefni í Belgíu? Mikil spenna hefur ríkt m.a. vegna múslima sem stýrðu árásum á París fyrir tæplega ári síðan. Hafa þessir ungspámenn hlutverk heima fremur en að fara í trúarvíking til Íslands? Siðferðilega fjarsýnir frekar en nærsýnir?

Þroskaskeiðin

Augljóst var af samtölunum að þessir drengir væru að fara í gegnum þroskaskeið. Mér var ljóst að þeir væru í leit að hlutverki og tilgangi með eigið líf. Flest ungt fólk reynir að spegla eigin hlutverk og drauma í speglum annarra. Flest ungt fólk finnur sér fyrirmyndir, hvort sem það er í fótbolta, pop-menningu, celebum eða snillingum og reynir að líkja eftir fyrirmyndum til að móta eigin stefnu. Mínir strákar horfa á bestu fótboltamenn í heimi og máta sig í íþróttalíf. Mig grunaði að þessir strákar hefðu nördast í einhverjum menningarkima og notað þrjú þúsund ára spámannstexta til að varpa vonum um eigin afrek yfir á Ísland.

Og ég þakkaði Guði í hljóði fyrir að þeir voru ekki í sjálfsvígshugleiðingum – ætluðu ekki að framfylgja einhverjum reiðiórum með því að sprengja eða skjóta Íslendinga. Nei, dómurinn sem þeir boðuðu var eldgos sem þeir ætluðu ekki að framkalla sjálfir heldur myndi Guð taka tappann úr eldfjallinu. Og ég benti á að eldgos væru algeng á Íslandi, stór og smá – það væri þekking í landinu að bregðast við og vissulega væru Katla og Hekla komnar á tíma. Og eldgosin hefðu aukið túrismann í seinni tíð. Meira segja væru ræktunaraðstæðurnar á Þorvaldseyri undir eldfjallinu Eyjafjallajökli betri nú en fyrir gos.

Vondi eða góði Guð?

„Hvað finnst þér um þennan dómsboðskap?“ spurðu Belgarnir, hissa á að ég var til í að ræða við þá. Ég svaraði þeim að allir menn þyftu reglulega að skoða sinn gang, hugsun, stefnu og verk. Allir gerðu mistök sem mikilvægt væri að viðurkenna, biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Það væri verkefni okkar allra rækta samband við Guð, menn og náttúru.

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Veröldin væri í lit – Guð elskar alls konar

Þeir glenntu upp augun og ég sagði þeim sögu af því að þegar ég var unglingur skipti ég veröldinni upp svart hvítt, í góða og vonda. En ég hefði á langri æfi lært að Guð er stærri en ég og mínar þarfir. Guð er stærri en þarfir lítilla reiðra karla í vandræðum og mun meiri en þarfir einstakra þjóða. Sá Guð sem ég þekki elskar múslima jafn mikið og kristna, heiðna menn jafn mikið og trúaða, listir jafn mikið og fótbolta, eldgos jafn mikið og tárvot smáblóm í sólarglennu sumarmorguns.

Þetta þótti þeim skrítin og of víðfeðm trú og siðferðið sem presturinn hefði túlkað allt of rúmt. Ég fullyrti að veröldin væri ekki svart-hvít heldur í lit. Guð elskaði alls konar. Það væri okkar lútherski arfur, þannig Guð þekktum við og í ljósi þess boðskapar túlkuðum við Biblíuna og hefðina. Og með það vegarnesti fóru þeir.

Guð ekki neikvæður hedur jákvæður

Og af hverju segi ég þessa sögu? Hún er ekki trúnaðarmál því þeir vildu að ég segði frá og flestir heyrðu um erindi þeirra. Ég segi ég þessa sögu svona ítarlega af því að í dag hefst fermingarfræðslan í Hallgrímskirkju og við getum notað þennan dómsgjörning til að gera okkur grein fyrir valkostum. Fólk kemur í þessa kirkju og aðrar kirkjur þjóðarinnar til að tala um trú, þroska, hlutverk, stefnu, líf í samfélagi og til hvers má vænta af okkur sem manneskjum og sem kristnum einstaklingum.

Boðskapur okkar er að Guð er ekki lítill, refsiglaður siðferðistappi, heldur stórkostleg nánd, sem umvefur okkur. Guð er ekki neikvæður heldur jákvæður. Guð blæs í okkur von, styrk, umhyggju, umburðarlyndi, hrifningu og öllu því besta sem til er í lífinu. Það eru alls konar stefnur til, aðilar og hlutir sem við getum sett í stjórnsæti lífs okkar. Í guðspjallstexta dagsins minnir Jesús á að við getum sett peningana í efsta sætið. Ef svo fer gerum við þau mistök að setja peninga í allt aðra stöðu en best hentar. Peningar eru ekki góður stjórnandi. Peningar eru bara tæki til að nota en ekki til að hlýða. Þegar við ruglumst og setjum peninga sem markmið þá verða afleiðingarnar rugl. Þá erum við komin með peningaguð en ekki handhægt verslunartæki.

Ekkert má ná tökum á okkur og móta, nema ofurgæðin sem gera okkur gott og bæta líf okkar. Okkur mönnum hættir til að setja það sem er á þarfasviðinu í bílstjórasæti lífsins. Ef við erum reið eða bitur vörpum við slíkum tilfinningum á líf okkar og látum stjórnast af þeim myrku þáttum. Ef við erum hvatalega bæld verða hvatir, t.d. kynhvöt, að stjórnvaldi lífs okkar. Ef við erum beygluð tilfinningalega vörpum við líklega vandanum yfir á öll tengsl við fólkið okkar. Hvað stjórnar þér, hvað viltu að sé leiðarljós þitt? Kirkjan getur verið þér frábær vettvangur til að hugsa um þroska þinn, hlutverk þín og þig sjálfan og sjáfa.

Á hvaða ferð ert þú?

Belgaunglingarnir eru farnir og ég hugsaði með mér: Þegar þessir strákar líta til baka eftir fjörutíu ár og hugsa um Íslandsdóminn mikla – þá munu þeir vonandi segja: „Já, þetta var merkileg ferð. Við héldum að við værum að kasta dómi yfir forseta, presta og íslensku þjóðina – en við vorum bara á okkar eigin þroskaferð. Það sem við héldum að væri fyrir aðra var okkar eigin þroskaglíma. Málið var ekki að Ísland tæki út þroska heldur við sjálfir.“

Nú ert þú á þinni ferð, þið sem eruð í kirkjunni í dag, ung eða eldri, fermingarungmenni, fjölskyldur, kórfólk frá Oslo, við starfsfólk kirkjunnar, þið sóknarfólk sem sækið messu. Þú ert á ferð – á þroskavegferð. Þú mátt gjarnan svara spurningunni sem varðar þig: Hver stjórnar þínu lífi? Eru það einhverjar sálarþarfir sem þú varpar yfir í vitund þína og réttlætir svo?

Eða hefur þú opnað fyrir þeim Guði sem gaf þér lífið, heldur þér á lífi alla daga, nærir þig fremur með von en dómi, kallar þig fremur til ástar en haturs, lýsir þér út úr myrkrinu og elskar hlátur og gaman? Það er svoleiðis Guð sem á heima í þessu guðshúsi, sem við tölum við og þráum að búi hjá okkur. Um þann Guð syngjum við, spilum fyrir í músík kirkjunnar og sjáum í leiftri listarinnar og sólarinnar í kirkjuskipinu. Við trúum á þann Guð sem Jesús opinberaði okkur. Sá Guð er ekki neikvæður heldur bara jákvæður.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 4. september, 2016. A-textaröð. 15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.