Greinasafn fyrir merki: Ingveldur Rósa Bjarnadóttir.

Ástarsaga Guðs og Rósu

Sjö ára stúlka sagði hátt og snjallt: “Lífið er ástarsaga.” Bragð er að þá barnið finnur. Sú stutta var að koma úr útför Rósu frænku, sem fór fram frá Neskirkju 17. janúar. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Rósa hélt veislu, sat fyrir enda borðstofuborðsins, sem hægt var að lengja svo margir gesti kæmust fyrir. Stellið hennar, þetta fína, drapplitaða Rosenborgstell var auðvitað prýtt rósum og enginn bolli eins. Stellið var komið á borðið. Frænkurnar voru alveg til í að þjóna. Rósa, með leiftur í augum, áhugasöm um gesti sína og var allra glöðust, tók þátt í samræðum og var heima í flestu. Og hún vissi líka margt um fólkið sitt, því hún fylgdist vel með, mundi afmælisdagana, vissi um árangur og afrek þeirra. Hún grennslaðist eftir lífssögum þeirra og horfði á þau með augum elskunnar. Hún tók eftir því sem var gott, var sjálf vitnisburður um, að lífið er skemmtilegt þó gefi á og margt verði til að toga í fólk. Rósa var fólki vottur um þann meginboðskap trúarhefðar okkar, að lífið er sterkast. Þótt hún hefði sitthvað lifað lagði hún áherslu á hið jákvæða, þó hún hefði misst hélt hún í fögnuðinn. Í lífi Rósu nutu samferðamenn hennar lífsblóma hins góða, hrífandi og elskulega.

 Elskaði Guð

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem margir þekkja og Lúther kallaði Litlu Biblíuna. “Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? “Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? “…til að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.” Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldarinnar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið gagnvart öllum, hvort sem þeir hafa hrasað frá um stund eða alltaf búið í skjóli himins. Þannig var Rósa líka.

Samband Guðs við veröldina og mennina er ástarsaga, saga um  lífsgleði, sem umfaðmar allt og líka þessa góðu konu, sem við kveðjum í dag. Hún var boðberi réttrar lífsafstöðu, að lífið er fyrir elskuna þrátt fyrir, að margir gleymi því í erli og átökum daganna.  

Rósa og fjölskylda

Ingveldur Rósa Bjarnadóttir fæddist á Stokkseyri 25. ágúst 1912. Móðir hennar var Ólafía Kristrún Magnúsdóttir (1881-1975) og Bjarni Benediktsson (1889-1972). Hún var elst fimm alsystkina, sem fæddust á árunum 1912-24. Af þeim lifir aðeins Ólafía Kristrún, kölluð Rúna (1923-). Hún býr í Fíladelfíu í Bandaríkjunum og sendir, ásamt fjölskyldu, kveðjur til viðstaddra. Önnur alsystkin voru Kristján (1914-83), Benedikt (1915-91) og Magnús (1924-93). Þeir eru allir látnir.

Áður en foreldrar Rósu, Ólafía og Bjarni, hófu hjúskap hafði Bjarni átt Mörtu Sigríði (1910-14), sem dó í æsku. Ólafía hafði hins vegar eignast fjögur börn með Helga Jónssyni (1880-41). Þau eru Þuríður, Sigrún, Karlotta og Hálfdán, öll látin.  Melkorka Rán í San Fransisco hefur beðið fyrir kveðju sína til þessarar samkomu.

Samhengi

Rósa var alla bernskuna á Stokkseyri. Undir risahimni hafði hún næði til að hugsa stórt, en líka gefa gaum hinu smágerða lífi. Hún naut þorpsins, fásinnistengsla og lærði að hægt var að ná yfirliti og innsýn í heima fólks í plássinu, skilja aðstæður og lífssögur þeirra. Fjölskyldusaga Rósu var margþátta og gaf tilefni til heilabrota. Hún varð kunnáttusöm í tengslum og samskiptum og naut æskuþjálfunar síðan í vinnu og samskiptum við fjölskyldu og vini.

Rósa lærði auðvitað líka á náttúruöflin, hin miklu átök sjávar við skerjótta strönd, hættur í ótryggri höfn, kynntist veðraólgu, en líka hvað flói og fjöll gátu brosað fallega í góðviðri. Við henni blöstu dýrmæti Suðurlands, hvert sem litið var, Mýrdalsjökull, Tindfjöllin, Hekla, fjöllin í uppsveitum Árnessýslu og síðan Ingólfsfjallið og Hengilsvæðið og áfram fjallaflákar í vestri. Suðurskautið beint í suður! – eins og Páll Ísólfsson minnti á – og fært á sjó alla leið. Í svona stórfaðmi verður manneskjan lítil, en lífið stórt.

Lífið er ástarsaga

Vafalaust var saga foreldranna áleitin. Hvernig var þessi saga mömmu og Helga? Af hverju fór mamma og þó aðeins með hluta af barnahópnum? Hvað um hálfsystkinin, sem ekki voru heima hjá henni? Hvernig voru þessar tvær hálfsystur, sem dóu áður en hún komst til vitundar?

Hvaða hugsanir geymdi svo Ólafía mamma, hvernig vann hún úr ástarsögum sínum og tengdist Bjarna? Hvað sagði hún sínu fólki? Enginn þekkir þá sögu til fulls og við getum lítið meira en íhugað örlagasögu alls þessa fólks. Þetta er merkileg saga og í ljósi hennar getum við skilið, að Rósa hefur snemma lært það aðalatriði, að betra er að leggja rækt við hið skemmtilega og elskulega en hitt. Rósa komst að því að betur gefst að lifa í núinu en draga alla fortíðina með sér! Hvað er tilveran? Er hún ekki fyrir hið skemmtilega og góða? Rósa svaraði með lífshætti sínum, að lífið er ástarsaga.

Í Vesturbæinn

Fjölskyldan tók sig upp í lok þriðja áratugarins og flutti til Reykjavíkur. Þau settust að í húsinu Mávahlíð, sem er rétt vestan við Melabúðina hér á Högunum. Það var auðvitað spennandi fyrir unga stúlku að koma í bæinn. Reykjavík var að stækka og mannlífið var fjölbreytilegt.

Í því sem var fallegt

Rósa fór að vinna í versluninni Edinborg niður í Hafnarstræti, seldi fólki vefnaðarvöru og ýmis búsáhöld. Hún naut félagsfærni sinnar í samskiptum við óörugga kúnna. Ekki spillti fegurðarskyn hennar, næmi og fín tilfinning. Hún var lady og hreif. Hún var afar næm og skynjaði meira með fingrum en við hin, sem nýttist henni vel þegar sjónin bilaði. Rósa vann í miðju bæjarins og hafði því tengsl í allar áttir. Þegar Edinborg flutti upp á Laugaveg, fór hún líka og vann þar. Síðustu árin vann Rósa svo í vefnaðarvöruverslun í Austurveri.

Ástarsagan

Rósa átti ekki börn, en var elsk að sínu fólki og væntumþykjan hljómar skýrt, þegar ættmenni hennar segir nafnið hennar og frænka fylgir með. En Rósa átti fleiri að en frændgarð, hún eignaðist menn. Fyrsti maður hennar var Óskar Jónsson (1910-91). Eftir stuttan hjúskap fór Óskar til Vestmannaeyja og ílentist þar. Þau skildu.

Rósa giftist svo Jóni Einari Jónssyni (1901-61), sem var talsvert eldri en hún. Jón var stýrimaður, lengstum á Brúarfossi. Meðan hann var á sjónum fór Rósa stundum með honum og varð heimsborgari. Þau Jón áttu fallegt bú fyrst á Sólvallagötu og síðar á Vífilsgötu. Ýmsir munir, sem prýddu heimilið komu með úr ferðum þeirra. Hjónaband þeirra var farsælt, hlýtt, elskulegt og gott. Jón var líka opinn faðmur hinni stóru fjölskyldu. Hann lést 1961 og þá var Rósa ekki fimmtug.

Rósa naut sín í fjölmenni. Hún var veislukona og fagurkeri. Fegurðarskyn hennar leiftraði í öllu því, sem hennar var. Vegna þess að hún var síung sótti unga fólki til hennar, jafnvel með erfiðu málin. Alltaf var Rósa fús til hjálpar. Hún hafði kætandi áhrif á fólk og margir sóttu því á hennar fund. Á Hrafnistu kom fólk til hennar og vildi tala við hana. Sjónin hafði bilað henni, hún fór lítið, en margir komu því hún var “bjartsýn.” Hún hafði sterka útgeislun og fólk sótti í birtu hennar.

Karlar með fegurð í hjarta hrifust líka. Matthías Ásgeirsson gat ekki gleymt henni. Hann kynntist henni ungri, en þau náðu ekki saman. Þegar hún var orðin ekkja tók hann upp gamlan þráð, fór að heimsækja hana og þau giftu sig 1964. Þau keyptu íbúð í Safamýri, áttu góð ár saman, en svo missti hún hann líka. Hann lést eftir aðeins fimm ára hjúskap þeirra.  

Hún var þá orðin ein að nýju, seldi íbúð sína, fór upp í Breiðholt og síðan á Kleppsveg 5 og að lokum á Hrafnistu. Á gamals aldri varð enn eitt undrið. Fyrsti eiginmaður hennar hafði ekki gleymt heldur. Þegar Rósa var komin undir áttrætt hringdi síminn. Óskar var á hinum endanum og spurði hvort þetta væri ekki örugglega hún Rósa. “Jú, jú, þú mátt koma í heimsókn” sagði hún. Heimsóknin varð til góðs og þau urðu vinir að nýju. Svo dó hann líka.

 Er þetta ekki merkileg saga? Rósa var umlukin ástarsögum í uppvexti og svo varð líf hennar flétta atburða sem má túlka í ástarljósi. En sannar sögur geta endað illa eða vel, allt eftir því hvernig á er haldið. Rósa brást við hverri raun með því að lifa, hún grét en var þess megnug að sjá ljós í gegnum tárin. Jafnvel mennirnir, sem hún hafði tapað úr fangi sér á lífi, gátu ekki gleymt og komu til baka. Það er guðleg dýpt í þessum sögum.

Táknsaga og lífháttur

Við sjáum á bak konu, sem ber líka í sér táknsögu Íslands, – flutti úr sveit og sjávarplássi og birtir með búsetusögu og atvinnusögu sinni líf- og breytinga-sögu þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hún var fjölskyldu sinni samhengi, miðstöð og tengdi saman eldri og yngri kynslóð og var fastur punktur tilverunnar.

En svo var hún í lífsháttum sínum líka fulltrúi fyrir þroskaða afstöðu. Hvernig lifum við? Hvaða lífi viltu lifa? Hvað er það í lífi Rósu, Rósu frænku, sem þú getur lært af? Þú getur rifjað upp minnisstæð atvik úr samskiptum ykkar. En getur verið, að þú lærir svolítið um Guð í leiðinni? Getur verið að elska hennar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að fyrirgefa og faðma, fegurðarskyn sem kemur úr næmu hjarta lífsmiðjunnar sjálfrar?

Því svo elskaði Guð

Hvað er lífið? Er það ekki fyrir ástina? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. “Því svo elskaði…” elskaði hvað? Því svo elskaði Guð Rósu… að hún speglaði elsku til allra. Því svo elskaði Guð þig…. til, að þú verðir farvegur lífsins, ástríkis, birtu og vona.

Ingveldur Rósa Bjarnadóttir lést 8. janúar síðastliðinn og verður jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu, Hólavallagarði. Þar verður hún lögð til hinstu hvílu með tveimur mönnum sínum. Þegar þú vitjar hennar skaltu hugsa um ástina og hugsa um hvernig þú getir blómstrað lífsrósum, leyft ástinni að lifa í eigin lífi.

Fallegu hendurnar hennar hreyfst ekki lengur, hringarnir hennar ekki heldur. Fallegu augun hennar horfa ekki lengur í augu þín. Þú getur ekki lengur hringt í hana eða farið til hennar. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Hún er við endann á hinu stóra borði himinsins, í hinum stóra mannfagnaði eilífðar, þar sem er bara hlátur, góðar fréttir, birta og gaman. Leyfðu minningunni um Rósu að lifa í huga þér og næra lífsmátt þinn. Því svo elskaði Guð, elskaði svo mikið að Guð kom sjálfur til að bjarga lífinu, bjarga heiminum, okkur öllum. Rósa minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um Rósu má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við Rósu vel og leggjum okkar í ástarsögu Guðs.

  Neskirkju 17. janúar 2007. Jarðsett í Hólavallagarði við Suðurgötu.