Farmenn allra alda og allra þjóða hafa einhvern tíma starað upp í dimman stjörnuprýddan næturhiminn og íhugað stærðir og dýptir. Börn veraldar hafa legið á bakinu og horft á stjörnuhröp, hvítar risslínur loftsteinanna og blikandi og deplandi stjörnurnar. Grunur læðist að og vissan síðan seitlar inn í vitundina að maðurinn er smár og geimurinn stór. Hvers virði erum við? Er Guð þarna einhvers staðar?
Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og hrifið barn, sem starir upp í glitrandi hvelfinguna. Í sálminum segir:
„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”
Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum ótrúlega stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg fraktferð milli tveggja hafna, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður – þessi sem við köllum Guð? Skáld Davíðssálmsins var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:
„… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri. Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“
Þetta er niðurstaða um veröldina, lífið, ævi mannsins, um framtíðina. Að Guð er, að Guð gefur, að Guð umvefur veröldina, Ingjald og þig merkir að lífið er gott og gæðaríkt og að himinn er eftir að heimsferð lýkur.
Upphaf og samhengi
Ingjaldur Narfi Pétursson var farmaður í veröldinni. Hann fór ungur til Noregs, var þar með foreldrum sínum á fjórða ár, kom síðan til Íslands og þegar hann hafði aldur til fór hann sinna eigin ferða um heiminn. Nú hefur hann farið sína hinstu ferð.
Ingjaldur fæddist á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi 17. júlí árið 1922. Foreldrar hans voru Kristján Narfi Pétursson, sem var aðalumboðsmaður hjá Líftryggingafélaginu Andvöku (f. 10. jan. 1891, d. 18. júní 1973) og Gurine Pétursson (f. Johansen, f. 20. febr. 1896, d. 11. sept. 1945). Börn þeirra fæddust á árunum 1921 til 1930. Systkini Ingjalds eru þrjú. Steinar (f. 5. janúar 1921, d. 4. mars 2005) var elstur og var Ingjaldur einu og hálfu ári yngri. Hann kallaði Steinar gjarnan Stóra, sem tjáir vel afstöðu hans til stóra bróður sem nú er látinn. Þriðji í barnahópnum er Jón (f. 21. jan. 1926) og yngst er Gully Evelyn (f. 10. ág. 1930) en þau Jón og Gully lifa eldri bræður sína.
Kristján, faðir Ingjalds, kynntist konu sinni Noregi og þar hófu þau búskap og ólu upp drengina sína fyrstu árin. Þegar Ingjaldur var fjögurra ára flutti fjölskyldan til Íslands og var fyrst á Ingjaldshóli á Sandi. Síðan fóru þau á Þingholtsstræti í Reykjavík en síðan fljótlega á Vesturgötu 67. Það var ævintýralegt fyrir börnin að alast up á þessu svæði í vesturbænum, stutt niður að höfn, út á Granda og í Örfirisey, upp á Landakotstún eða niður í bæ. Fjöldi barna var mikill og frelsið ríkulegt. Svo gat pabbinn haldið sína hesta, sem var honum mikilvægt. Skýli þeirra var svo nærri, að hægt var að heyra til hrossanna inn í rúm. Og hesthúsið var líka hentugt fyrir leiki og sem skýli fyrir mótorhjólafák Stóra eftir þeysireið með lögreglufylgd. Í barnríku umhverfi kynntist Ingjaldur mörgum og eignaðist vini, sem hann hélt tengslum við alla tíð. Hann ræktaði vini sína og hélst vel á þeim.
Í uppvextinum bjuggu börnin við og nutu útsýnar í margvíslegum skilningi. Móðirin ræktaði samband við norska landa sína í Reykjavík. Fjölskyldan naut því útlandstengsla langt út fyrir landsteinana. Pabbinn var líka félagslyndur og margir og fjölbreytilegir menn komu við sögu fjölskyldunnar fyrr og síðar. Þegar Ingjaldur var ungur fylltist bærinn af erlendum setuliðsmönnum og raddir og orð hins stóra heims hljómu á götum og tæki og gæði útlanda urðu innan seilingar. Allt þetta laðaði og sökk í vitundina.
Á bernskuheimilinu var ekki hægt að komast hjá því að fylgjast með skipakomum. Reykjavíkurhöfn var lífleg, þar voru allar gerðir af skipum og líka fossar Eimskipafélagsins. Þegar Ingjaldur hafði aldur til fór hann að vinna, fyrst í landi og síðar á sjó. Hann vann við sendilstörf um tíma, í nokkur ár var hann hjá Málmsteypunni og svo vann hann við höfnina. Síðan fór hann lengra til, var á síld og jafnvel skútu, en munstraði sig svo á skip hjá Eimskip, var á Dettifossunum lengstum.
Góður félagi og vinur
Gjaldi, eins og hann var gjarnan kallaður, var vinsæll meðal félaga sinna, hrókur fagnaðar, ræðinn, glaðsinna, tryggur og traustur. Allir ljúka þeir lofsorði á Ingjald, að hann var alltaf til reiðu fyrir spjall yfir kaffibolla, alltaf skemmtinn og kátur. Hann átti sína starfstöð í vélarrými og var svo vel treyst, að hann starfaði allan sinn aldur hjá sama félaginu og hætti ekki hjá Eimskip fyrr en hann fór á eftirlaun. Engir aðrir en toppmenn endast og halda vinnu svo lengi – segja kollegar hans.
Ingjaldur varð ævintýramaður í augum ættingjanna heima og barna bræðra sinna. Hann fór um heimsins höf og sigldi gjarnan á Evrópuhafnir og fannst líka gaman að sigla á New York. Úr ferðunum kom Ingjaldur svo gjarnan með útlenskar gjafir til barnanna í fjölskyldunni og jólagafir hans og Gullyjar voru stórkostlegar og eftirminnilegar. Ingjaldur var ræktarsamur við vini sína og ættmenni. Hann hafði alltaf tíma til að brosa við börnunum, glettast við þau, umbar hávaðann og svo komu auðvitað upp úr pússi hans nammi og annað eftirsóknarvert.
Margar víddir
Ingjaldur hafði alla tíð góða reglu á sínum málum í lífinu, vinnu og öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var snyrtimenni, smekkmaður og flottur í tauinu. Hann verslaði erlendis og varð því gjarnan á undan sinni samtíð heima. Ingjaldur var myndarmaður og sjentilmaður. Hann var reistur og beinn og Nóbelskáldið var ekki öllu flottari á götu. Ingjaldur var kvikmyndaáhugamaður og sótti kvikmyndahús mikið þegar hann var í landi.
Ingjaldur var einhleypur og lætur ekki eftir sig börn. Hann keypti sér íbúð hér í vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi 27. Þar átti hann sitt hlé, þar tók hann á móti vinafólki sínu og þar var hann þegar hann kom í land 14. október 1988. Þar bjó hann þar til fyrir rúmum tveimur árum þegar hann flutti á dvalarheimilið Grund. Þar var hann vistmaður þar til hann lést, 10. febrúar síðastliðinn eftir fótbrot og uppskurð.
Ingjaldur var vel liðinn, hann var góðmenni, hann var góður maður. Þetta eru umsagnirnar sem ég hef fengið um hann. En jafnframt var mér sagt beint og óbeint að Ingjaldur hafi verið fámáll um sumt hið innra. Hann var ræðinn um flest en ekki frekar en aðrir var hann allur séður. Bara Guð veit og sá. Bara Guð var hinn eini sem fylgdi honum alltaf. Við erum pílagrímar í lífinu, við erum farmenn tímans, ávinnum, en glötum síðan, okkur áskotnast ýmsilegt en missum svo. Margt er okkur gefið en flest fer forgörðum – en þó er einn sem aldrei víkur frá okkur, Guð. Guð sem er nærri okkur og andar til okkar og talar í stjörnum, á nóttinni, í hvísli daganna, í góðu fólki, í hlátrum og gleði. Alls staðar er Guð – fylgir okkur líka á vondum og þungum dögum.
Hin mikla för
Ingjaldur fór og farmaðurinn kom alltaf aftur. Nú er hann farinn í ferð, sem er mesta ferð mannsins, ferðin inn á haf eilífðar. Hann vissi að hverju dró. Hann hafði starað upp í himininn, séð tungl og stjörnur, hrifist og verið snortinn, en vissi líka vel að engin ferð verður nákvæmlega með því móti sem menn hugsa sér, allar ferðir verða með öðru móti en áætlað hefur verið. Í því er viska förumannsins fólgin. Ferðir í þessum heimi eru líka æfingar fyrir ferðina inn á haf ljóssins. Munið að leiðbeiningarrit veraldar, Biblían, segir okkur að “vélbúnaður” himinsins er meira en það sem við sjáum með berum augum, miklu stórkostlegri. Nú má Ingjaldur njóta gangverks eilífðar. Það er gott verkefni og ekki þarf hann að óttast að vélinn fari í fárviðri!
Ingjaldur Narfi Pétursson kom alltaf til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann er í ljósríki Guðs, siglir á hafi elskunnar. Þar er hann í föruneyti þeirra sem hann elskaði og naut að vera með, þar er öllu dýrmæti veraldar safnað saman, þar fær hann að vera allur og heill með sínu og sínum. Í því er undur kristninnar að boða elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, varðveitir, leiðir og blessar.
Guð huggi ykkur sem syrgið. Guð geymi Ingjald Narfa um alla eilífð.
Minningarorð í Neskirkju 19. febrúar, 2009. Jarðsett í Garðakirkjugarði