Greinasafn fyrir merki: Ingibjörg Einarsdóttir

Ingibjörg Einarsdóttir

Útför Ingibjargar Einarsdóttur var gerð frá Neskirkju 23. júní 2008. Minningarorðin eru hér á eftir. 

Hvernig var Ingibjörg? Það er hrífandi að hlusta á sögur barna hennar og ástvina. Og minningar fjölskyldunnar um Ingibjörgu eru allar á einn veg. Það, sem ég hef einkum staldrað við í þessum sögum, er hversu vel Ingibjörg lifði í núinu. Hún var ekki að sýta fortíðina, var ekki reyrð við muni eða hluti sögunnar. Hún hafði tamið sér stóískt æðruleysi gagnvart framíðinni, hafði engar áhyggjur af því sem verða myndi, forðaðist nöldur um tímann eða tíðir. Hún hafði tamið sér að lifa í núinu, hvíla í trausti til þess sem er, að vera til staðar fyrir fólk núna en ekki síðar, njóta þess nú sem hún upplifði en ekki með einhverri fortíðarbindingu. Hún var tengd sér, umhverfi sínu, fólkinu sínu og fegurðinni.  

Þegar svo margir tapa sjálfum sér og leita athvarfs í einhverri fortíðarminningu er svo merkilegt og hrífandi að heyra sögurnar af Ingibjörgu. Þegar svo margir tapa glórunni á hlaupum á eftir fé og forgengilegum eignum er eflandi að hlusta á núhæfni Ingibjargar. Listin að lifa í núinu er fágæt og slíkt dýrmæti, að þið sem ástvinir og fjölskylda ættuð að staldra við, íhuga og meta hvort Ingibjörg sé ekki í þessu mikilvæg fyrirmynd. Var hún engill, boðberi, núafstöðunnar. Og er það að lifa í núinu ekki mikilvæg forsenda hamingjunnar, lífsþroskans og gleðinnar? 

Þegar sögurnar hljómuðu um Ingibjörgu rifjaðist upp í huga mínum speki í Gamla testamentinu. Þegar sú kunna biblíuhetja Móses var að reyna að gera sér grein fyrir hlutverki sínu í lífinu spurði hann Guð hvað guð héti. Og svarið sem hann fékk var: „Ég er…” (2. Mósebók 3.14). Það merkir ekki, að Guð skorti nafn heldur hverjar eigindir Guðs birtast gagnvart veröldinni. Guð er ekki nafnið tómt – Guð er. Margir hafa fyrr og síðar staldrað við og hugsað merkingu þessa, listamenn, rithöfundar, heimspekingar, guðfræðingar, fólk aldanna í viskuleit. Guð er ekki hlutur, sem við göngum að, fullþekkt staðreynd, sem við höfum uppá vasann. Guð var ekki bara einhvern tíma eða verður einhvern tíma í þeirri tilveru sem við köllum eilíft líf, handan sorgar og grafar. Guð er, já núna, máttur alls sem er, inntakið í því sem heitir líf, orkugjafinn sem veitir forsendu þess að þú lifir, finnur til, hrífst, elskar, syrgir, berð umhyggju gagnvart fólkinu þínu, já líka Ingibjörgu. Guð var ekki og verður ekki – heldur er. Guð er hið eilífa nú í tíma. Og þegar við mannfólkið, veröldin hrynjum inn í sjálf okkur er Guð, kemur alltaf, umlykur og blessar og veitir okkur að nýju möguleika þess að vera í núinu og höndla líf og hamingju. Guð er og þar með hin eilífa návist í tíma.

Upphaf og fjölskylda

Ingibjörg Einarsdóttir fæddist á Unnarstíg í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Einar Hróbjartsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir. Barnahópurinn var stór, Ingibjörg var elst átta systkina. Sex þeirra komust á legg en tvo létust ung. Systkini Ingibjargar eru: Ásgeir, Ásta, Sveinbjörn, Haukur, Agnes, Sigrún og Hróbjartur. Haukur og Agnes létust ung en Sveinbjörn og Sigrún lifa systkini sín.

Það var drift í fjölskyldulífinu. Einar, pabbinn, var starfsmaður Pósts og síma. Hann hafði dug til að búa fjölskyldu sinni góða umgerð. Þau Ágústa byggðu fjölskylduhús á Brekkustíg 19. Meðan það var í byggingu bjuggu þau um tíma út á Seltjarnarnesi og voru svo eitt sumar í tjaldi í Elliðaárdal. Það er heillandi að hugsa um stóra fjölskylduna í þvílíkum landnemaaðstæðum. Fólk í tjaldi.

Einar var maður hinna mörgu vídda. Hann sinnti andlegum fræðum og hafði áhuga á ýmsum spekivíddum veraldar, hafði augun hjá sér og augu á gerð veraldar. Hann hefur vísast verið vísindahneigður að upplagi og svo hafði hann skilning á líkamsrækt og hreyfingu og skilaði heilsuræktaráhuga til barna sinna. Og Einar fór gjarnan með hópinn sinn upp í Öskjuhlíð, sem ekki var sjálfsagt á þeim tíma. Kannski hefur ferðafúsleiki Ingibjargar orðið til í þessari útrás og ævintýraferðum. Ágústa, mamma hennar, var glöð og gjafmild og frá henni lærði Ingibjörg: “Mér leggst eitthvað til”. Ágústa gat alveg gefið frá sér allt til að styðja aðra og Ingibjörg tók eftir, að mömmu hennar lagðist alltaf eitthvað til. Að lifa í núinu er styrkleiki, sem skilar ávöxtum og elsku. Og kært hefur verið með systkinunum á Brekkustígnum alla tíð. 

Júlíus

Elsta barnið á stórum barnaheimilum lærir jafnan að skipuleggja tíma, þjálfar stjórnunareiginleika sína og verður oft mjög hæft í lestri á líðan og skilningi á fólki. Ingibjörg fékk talsvert frelsi og lærði að axla ábyrgð. Hún mat það og vildi að börn hennar nytu hins sama síðar. Svo byrjaði skólinn með gleði og verkum námsins. Hún fór í Miðbæjarbarnaskólann og síðan Ingimarsskóla. Svo byrjaði hún að vinna. M.a. fór hún í hótelvinnu norður á Blönduós. Þar kom fallegur maður til að heimsækja systur sína. Það var Júlíus Jónsson, Norðfirðingur. Hann átti leið um og ástin átti leið um huga Ingibjargar þar með. Þau kynntust og svo ákváðu þau að rugla reitum og ganga í hjónaband. Júlíus vann um áratugaskeið hjá ÁTVR, var þar verkstjóri, auk þess að aka leigubíl þegar næði gafst til. Hann var dugmikill og útsjónarsamur. Hjúskapur þeirra Ingibjargar var afar farsæll og það sem var kannski mikilvægast í sambúð þeirra: Hann mat konu sína mikils. Og jafnan hefur virðingin verið slitsterkasta veganesti farsæls hjúskapar. Þegar Júlíus féll frá árið 1985 missti Ingibjörg ekki aðeins traustan eiginmann, dugmikinn heimilismann og öflugan ferðafélaga, heldur dyggan vin og félaga.

Þau Ingibjörg og Júlíus áttu barnaláni að fagna. Börn þeirra fæddust öll á Brekkustígnum, en ólust síðan upp á Kvisthaga 1, en þar bjó fjölskyldan frá árinu 1952. Þegar börnin voru flogin úr heimahreiðrinu og Júlíus fallinn frá seldi Ingibjörg og fór síðan á Hagamel 23 og var á Grund síðasta árið sem hún lifði. Aðstandendur vilja þakka starfsfólki Grundar fyrir þá góðu umönnun sem Ingibjörg naut þar.  

Börn Ingibjargar og Júlíusar eru.

Einar. Kona hans er Valfríður Gísladóttir.

Sigríður og hennar maður er Rögnvaldur Ólafsson.

Jón og er kvæntur Jónínu Zophóníasdóttur,

Síðan kom Áslaug og

yngstur er Björn og hans kona er Rannveig Einarsdóttir.

Mér telst til að börn og aðrir afkomendur séu 26 talsins. Þau voru gleðigjafar ömmu sinnar og ættmóður. Flest eru hér samankomin og vinir sem vilja kveðja. En ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðju Ágústu og Gunnlaugs í Boston, sem ekki gátu komið til þessarar útfarar. Alnafnan Ingibjörg Einarsdóttir, sem er tengdamóðir Jóns, biður einnig fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Eigindir, afstaða og störf

Ingibjörg var vel af Guði gerð og hafði unnið vel úr gáfum sínum. Hún stýrði stórum systkinahóp með átakalausri reisn. Og svo þegar hún átti öll sín börn naut hún þeirrar þjálfunar. Hún hafði góða reiðu á öllum málum, var ljúf og skýr í samskiptum. Hafði góða stjórn á tíma og vildi enga óstundvísi. Hún var umtalsfróm og samtalsljúf. Hún lagði gott til fólks og einskis ills. Hún virti einkalíf fólks og mat mikils að menn þekktu mörk í samskiptum. Hún var hógvær og vildi öllum gott gera. Ingibjörg var óhnýsin gagnvart ókunnugum en hún var vandfýsin á þjónustu við sína nánustu. Hún var vakin og sofin yfir velferð sinna, lét sér annt um hið innra sem ytra. Hún átti jafnvel til að halda hreinsivatni að strákafkomendum sínum til að þeir hirtu um húð og útlit sitt. Hún kunni og innrætti sínu fólki formfestu og góð samskipti. Börnin hennar vita vel, að þegar maður hefur notið einhvers í annarra húsum, hringir maður og þakkar fyrir sig. Hún hafði skýrar reglur um borðhald og mataratferli og það hefur verið hagnýtt þegar sjö voru í heimili, allt kraftmikið fólk.

 Ingibjörg var bókhneigð og námsfús. Hún fylgdist vel með börnum sínum í námi og las með þeim til styrktar og stuðnings og naut þar með sjálf. Hún lagði upp úr menntun og smitaði opinni afstöðu til barna sinna. Þegar börnin uxu svo úr grasi fór Ingibjörg að vinna utan heimilis að nýju. Í nær tvo áratugi vann hún hjá ÁTVR upp í Borgartúni.

 Músík og ferðir

Ingibjörg var afar músíkölsk. Hún söng fagurlega og hástöfum í syngjandi samkvæmum og varð afkomendum og ættingjum fyrirmynd. Og börnin hennar lærðu að syngja. Júlíus var bílstjóri að atvinnu og Ingibjörg ferðafús. Þau voru samhent og lögðu í langferðir, bæði austur í Norðfjörð og um land allt. Og á þeim ferðum var hægt að syngja. Og kannski hefur það nú verið praktísk kunnátta þegar lengi var setið. Einu sinni fór fjölskyldan frá Reykjavík á laugardegi, vestur um, alla Vestfirðina og svo til Reykjavíkur þegar á sunnudegi! Þá hefur nú verið hagnýtt að geta sungið! Já, Ingibjörg hafði fallega rödd og naut tónlistar alla tíð. Fjölskylda hennar átti sumarbústað austur við Álftavatn og síðar byggðu þau Júlíus hús við hliðina. Sú veröld hefur gert stórfjölskyldunni gott og tengt saman ættliði og tengda í leik og gleði.

Heilsurækt

Ingibjörg var glæsileg kona, kunni vel að fara vel með heilsu sína og bar virðingu fyrir henni. Þegar læknir á Grund leitaði að gamalli konu fæddri 1914 fann hann hana ekki því aldur hennar var ekki í neinu samhengi við útlit hennar. Hún var sem kona á besta aldri, húðin falleg og persónuskerpan var líka óbrengluð. Hún naut andlegs atgerfis síns og reisnar til loka, sem er mikil blessun og þakkarverð.

Listfengi

Öll fjölskyldan tjáir sterklega hve fegurðarskyn og listfengi Ingibjargar hafi einkennt hana. Þegar utanbæjarmaður keypti sér jakkaföt vildi hann, að hún kvæði uppúr hvort þau væru góð eða ekki. Fyrr var hann ekki í rónni. Ingibjörg var ljómandi hannyrðakona, en hún hafði í sér löngun til einhvers meira en rútínuiðju sokkagerðarinnar. Hún hafði þörf til skapandi iðju. Hún hafði í sér eigindir húsameistarans og fékk útrás fyrir þær með íhugun og umræðum um híbýli og hús. Hún hafði mikinn áhuga á gerð húsnæðis, var ekki sátt nema hún fengi nákvæmt yfirlit yfir rými, jafnvel uppá sentimetra. Rýmisgreind hafði hún öfluga, næmi fyrir samspili forma og lita. Hún rissaði ekki aðeins ásjónur á blað, heldur líka húsaplön. Hin opna afstaða og núlifun hennar var þessu ágætlega samfara. Hún hafði gaman af að fylgjast með öllum byggingarmálum síns fólks, skoða teikningar, ræða þær og svo fannst henni bara gaman að fara í Ikea, jafnvel þegar sjónin var brostin, þá sá hún nægilega mikið til að skynja rými og samspil.

Lífsræktin

Ingibjörg er farin. Nú horfir þú á bak yndislegri, þroskaðri og fágaðri konu, sem er þér hjartfólgin. Hvað ætlar þú að gera með minningu hennar? Ingibjörg kunni að vera. Í því er hún vitnisburður um lífið, viskuna, gleðina og fegurðina. Hvernig lifir þú? Ertu með eitthvað í baksætinu eða skottinu sem þú þarft að losa þig við? Ertu kvíðinn eða hrædd við framtíðina? Getur verið, að þú þurfir að temja þér æðruleysi, stóíska afstöðu Ingibjargar, þora að vera, þora að sleppa, þora að treysta, þora að lifa í því núi, sem Guð hefur gefið þessari veröld. Ekkert okkar er án róta, ekkert okkar má lifa eins og við þurfum ekki að mæta framtíð og með ábyrgð. Ingibjörg gat alveg lifað fullkomlega í núinu af því hún átti sér gildi, ramma, reglur og vit. Hún gat alveg verið af því hún var úr þroskuðu samhengi og var óttalaus um áframhaldið.

Hvað verður? Guð er. Treystu Guði, treystu í lífinu, opnaðu fyrir fegurðinni, skipuleggðu núið af festu, fögnuði, gleði og til að leyfa hamingjunni að ríkja. Gríptu daginn hefur löngum verið sagt. Gríptu núið sem gleðilegt fagnaðarefni. Lærðu að þakka Ingibjörgu allt sem hún gaf þér, var þér, virtu minningarnar með því að gæla við þær og draga lærdóm af, til að efla þitt líf. Þér leggst eitthvað til!

Þegar Ingibjörg var lítil kenndi Einar, faðirinn, henni að heyra orð í kalli kirkjuklukkunnar í Landakoti: Æ síðan heyrði hún í þeim huggun: „Ekki gráta, ekki gráta” fannst henni klukkurnar kalla. Jú, þú mátt gráta Ingibjörgu. En kall lífsins, kall klukkna kirknanna, kall sumarsins, kall vindsins er alls staðar hið sama. Lífið er, lífið lifir, lífið er gott og það er núna – Ingibjörg er – því Guð er. Hún má lifa í því eilífa núi. Í þeirri trú er fullkomin fegurð, hrein músík og góð rýmisgreind sálarinnar.

Minningarorð í útför Ingibjargar Einarsdóttur, Neskirkju, 23. júní 2008.