Við erum komin saman til að kveðja Ingu – og þakka fyrir líf hennar,gott líf. Hún var kærleiksríkur og umhyggjusamur kvenskörungur. Hún fagnaði fólki, lífi og láni. Við þessi skil getum við þakkað – eins og eitt barna hennar sagði: Við getum þakkað fyrir gott líf hennar. Og við megum gjarnan lifa í þakklæti fyrir það sem við fáum að njóta. Lífið er fullt af undrum Skaparans sem gefur veröld – og líf. Okkar er að bregðast við og bera okkar ávexti í lífinu. Inga tók á móti því sem henni var rétt, vann fallega úr, bar ríkulega ávexti á langri ævi. Við þökkum og megum leyfa því sem Inga var og tjáði okkur að hvetja okkur til að lifa vel.
Fjölskylda og upphaf
Inga fæddist á Stokkseyri 24. apríl árið 1922. Foreldrar hennar voru Guðríður Ingvarsdóttir og Jóel Jónasson, bæði Árnesingar. Þau eignuðust fimm börn. Inga var elst og svo komu Ásgeir, Jóel Bachman, Guðríður og Jónasína. Þau eru nú öll látin, og sú elsta fór síðust inn í heiðríkju himinsins.
Guðríður og Jóel, foreldrar Ingu, héldu sig við ströndina. Þau fluttu frá Stokkseyri og í Leiruna suður með sjó. Mamman sá um heimilireksturinn og pabbinn var útvegsbóndi og sinnti ýmsum öðrum störfum og var m.a. kyndari á skipum. Inga ólst upp við stóran himinn, stórt land og stórt haf. Hún lærði á hinar miklu víddir. Þegar hún hóf skólagöngu voru engir skólabílar til að létta börnunum lífið. Inga gekk fimn kílómetra leið yfir móa og mela í skóla í Garði í Gerðum. Engu skipti hvort það var í blíðu eða stríðum stórviðrum – börnin fóru í skóla. Og auðvitað óku stundum bílar á milli og börnin lærðu fljótt að greina á milli hvort það væru góðu mennirnir eða hinir sem fóru hjá. Því góðu mennirnir leyfðu göngugörpunum að fljóta með, tóku þau upp í og óku þeim áleiðis.
Inga lærði snemma að lesa og var til fyrirmyndar í námi og tengslum. Þær voru nánar móðir hennar og hún. Mamman treysti henni og meðal annars ábyrgð á stækkandi systkinahóp. Hún var elsta barnið alla tíð og getan og kunnáttan skilaði sér í rekstri heimilis þeirra Björns síðar meir. Inga var vön að gera gagn og fór fljótt að vinna fyrir sér og sínum utan heimilis. Hún var um tíma í Keflavík en fór svo til Reykjavíkur og bjó á Hverfisgötu.
Björn og hjúskapurinn
Svo var það Björn Guðjónsson. Saga Ingu og Bjössa var og er hrífandi saga. Þau hittust á rúntinum í Austurstræti árið 1940. Vinkonur voru þar á ferð á jóladag og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér! Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og gamansamaur. Hann sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.
En dýpri rökin voru, að Björn vildi sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Inga varð hans appelsínustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur heldur jólagjöf fyrir lífið. Og alla tíð vissi hann að besti maturinn var heima – hjá henni Ingu hans. Í Ingu átti hann sálufélaga.
Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – var slagorð Silla og Valda í Austurstrætinu. Þessi biblíuorð úr Fjallræðu Jesú áttu líka við unga parið. Appelsínan varð til að Inga kom á þann reit, sem Björn vissi bestan í veröldinni, Grímsstaðaholtið og Ægisíðu. Þau gengu í hjónaband 11. desember 1942 – tæplega tveimur árum eftir appelsínuviðburðinn – og nutu hjúskapar næstu 66 árin – eða þar til Björn lést 30. nóvember árið 2008. Þeirra saga var gæfusaga. Þau voru gott par, góð hjón og báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru, tóku tillit til hins, skoðana, hugðarefna og gleðiefna. Á heimili þeirra átti hamingjan heima. Og við megum gjarnan hugsa um hvað þau gerðu í samskiptum til að rækta gleði og lán daganna. Þegar þau greindi á gerðu þau upp sín mál og sólin settist ekki á ágreining þeirra. Hjúskapur þeirra var hreinskiptin og gleðilegur. Og börnin þeirra höfðu það veganesti í eigin hjúskap og fjölskyldulíf.
Inga og Björn bjuggu fyrst á Bjarnastöðum, en byggðu síðan með Geir Zoega og Sigríði Einarsdóttur húsið á Ægisíðu 66. Þau fluttu inn fyrir jólin árið 1956 og þar bjuggu þau Inga síðan og með sama fólki alla tíð. Í nágrenninu var móðir Björns og í einum kofanum við vörina fiðurfé hennar, sem er okkur nærbýlingum eftirminnilegt, ekki síst Pekingendurnar.
Þau Björn og Inga nutu barnsældar og barnaláns. Þau eignuðust fimm börn. Þorvarður Ellert var elstur og hans kona Steingerður Steindórsdóttir. Þorvarður lést í desember 2013. Fyrri maki hans var Hrafnhildur Marinósdóttir. Næst í barnaröð Ingu og Björns var Sigrún Björk og hennar maður er Örlygur Sigurðsson. Guðrún Gerður var þriðja og hennar maður er Jóhann Hafþór Þórarinsson, fyrri maki hennar var Þórður Eiríksson. Langsíðastir og eiginlega í seinni hálfleik barneigna komu svo Guðjón Jóel og Ásgeir. Kona Guðjóns er Helena Þuríður Karlsdóttir og kona Ásgeirs er Kristín Jónsdóttir.Inga og Björn vissu að þau voru lukkufólk. Afkomendur þeirra eru 41 og Inga talaði opinskátt um barnlán sitt og fjölskyldugleði sína.
Þegar saman fer elskusemi og hæfni til uppeldis er vel. Heimilið var ríki Ingu. Hún bjó ekki aðeins börnum sínum og bónda öruggt skjól heldur einnig systkinum sínum, stórfjölskyldu og vinum. Allir voru alltaf velkomnir á heimili hennar. Alltaf bakaði Inga fyrir helgarnar, enginn gerði boð á undan sér og öllum voru opnar dyr. Svo var allt til enda. Fólkið þeirra Ingu sótti á heimilið við Ægisíðuna og barnabörn og afkomendur lærðu leiðina til þerra Ingu. Hún var límið í fjölskyldunni. Móðir hennar lést fyrir aldur fram árið 1957. Fráfall hennar var Ingu mikið áfall en hún stækkaði kærleiksfangið og gætti stórfjölskyldunnar.
Þegar börnin Ingu uxu úr grasi og um hægðist fór hún að vinna utan heimilis að nýju. Alls staðar var hún vel liðin og metin. Um tíma vann hún í greiningarstöðinni í Kjarvalshúsinu á Seltjarnarnesi og um tíma í mötuneyti á Raunó, Raunvísindastofnun Háskóskólans. Það voru allir ánægðir með grjónagrautinn hennar Ingu og þó fólk reyndi að líkja eftir og setti í vellinginn smjör og vanilludropa náðist aldrei hennar bragð. Inga kunni slow foodog sousvidesíns tíma og eldaði með kærleika.
Minningarnar
Hvernig manstu Ingu? Manstu tillitið hennar? Manstu hvernig saltfiskurinn entist hjá henni? Hún bara bætti fiski í pottinn ef fleiri komu en hún hafði upprunalega búist við. Manstu félagshæfni hennar? Manstu hve hún hafði gaman að ferðast, innan lands og utan? Og manstu ljóðaáhuga hennar? Hún meira að segja sótti ljóðanámskeið og las ljóð listavel fyrir margmenni. Skáldin hennar Ingu voru Jónas, Einar Ben, Davíð og svo var henni hugstæður Guðmundur skólaskáld.
Inga var varkár með eld í lífinu. Alla tíð þótti henni erfitt að horfa á brennurnar á gamlárskvöldi. Ástæðan var að fjölskylda hennar missti heimili sitt í bruna. Inga var tíu ára þegar Bakkakotshúsið í Leiru brann til grunna. Hún hafði farið inn í Keflavík með móður sinni og þegar þær komu til baka stóð fjölskyldan úti við brennandi húsið. Pabbinn hafði stokkið inn í eldinn til að tryggja að allir væru komnir út. Húsbruninn og heimilismissirinn var mikið áfall, fjárhagslega og tilfinningalega. Eldurinn settist í sál Ingu og hún gætti æ síðan vel að því að tryggt væri að eldur næði ekki að kveikja út frá sér. Húslaus fjölskylda Ingu reyndi síðan að gott fólk var tilbúið að veita þeim húsaskjól. Inga mótaðist af þessari lífsreynslu og hennar hús var ætíð opið öllum þeim er þurftu skjól, hjartahlýju og næringu. Í því sem öðru voru þau Inga og Bjössi samstiga.
Manstu hve Inga hafði góða stjórn á sjálfri sér, verkum sínum og heimili. Hún smitaði reglusemi sinni til síns fólks. Hún var kát og félagslynd og reglusöm. Hún reyndi aðeins einu sinni að keyra bíl – og það fór nærri því illa. Hún vildi ekki gera neinum skaða og valda slysum. Björn, bóndi hennar, gantaðist með að hann hefði nú misst margan sopan því Inga hafði ekki bílpróf! Börnin hennar Ingu nutu festu hennar og öryggis. Inga hvatti börnin sín til menntunar og dáða í lífinu.
Inga var fólkinu sínu fyrirmynd – líka um hvernig vinna má með áföll og bregðast við þeim. Hún fékk krabbamein fyrir tuttugu árum. Tók vandanum með æðruleysi og komst frá þeim hildarleik. Hennar stíll var ekki að gefast upp heldur mæta hinu mótstæða með skapstillingu. Og hún tapaði ekki húmornum. Þó hún þyrfti að gæta að fæði sínu vegna blóðsykurs og blóðfitu stakk hún gafli sínum í feitan kjötbita og sagði með glettni í augum: „Úr einhverju verður maður nú að deyja!“
Inga naut langrar æfi. Hún var elst í systkinahópnum en lést síðust syskinanna. Langt líf er ekki sjálfgefið og Inga lifði hátt í öld. Það er þakkarvert. Síðustu tvö árin bjó hún á Grund við Hringbraut. Hún flutti ekki dótið sitt þangað því hún var eiginlega alltaf á leiðinni heim á Ægisíðu. Ástvinir þakka fyrir umhyggju starfsfólksins á Grund.
Nú kemur Inga ekki framar heim í Ægisíðu 66. Inga verður lögð til hinstu hvílu í Gufuneskirkjugarði. Þar eru leiði manns hennar og sonar. Nú er Inga farin inn í himininn til fundar við þá. Hún var trúuð og má fagna með sínum í heiðríkjunni þar sem allt er gott. Hún þarf ekki að velja appelsínuna á undan Bjössa því þau verða samstillt efra – eins og á ströndinni við Skerjafjörð. Þar verður allt gott. Himininn stór, hafið ljúft og strönd eilífðar er góð Ægisíða.
Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.
Amen
Minningarorð í Neskirkju 16. mars 2018. Kistulagning kl. 9,30 og útför kl. 11. Erfidrykkja var í safnaðarheimili kirkjunnar. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.
Æfiágrip
Inga Jóelsdóttir fæddist á Stokkseyri 24. apr. 1924. Hún lést 3. mars síðasliðinn á nítugasta og sjötta aldurári. Foreldrar hennar voru hjónin Guðríður Ingvarsdóttir( f. Stokkseyri 30.apr. 1900 dáinn í Keflavík 2. júlí 1957) og Jóel Jónasson (f. í Hákoti í Flóa 12. sept. 1894 d. í Rvík. 8. júní 1988) bændur í Bakkakoti í Leiru og síðar í Kötluhóli í sömu sveit en bæði voru ættuð úr Árnessýslu. Inga fluttist ung með foreldrum sínum til Reykjavíkur á Hverfisgötu100A og myndaði við það fólk ævilöng vinatengsl. Þaðan fluttist litla fjölskyldan suður í Leiru og ólst hún þar upp ásamt systkinum sínum. Hún var elst á eftir komu Ásgeir, Jóel Bachmann, Guðríður og Jónasína, öll látin. Hún gekk í Gerðaskóla, fimm km leið, og lauk barnaprófi þaðan. Hún var í vist í Keflavík og þar gekk hún í kvöldskóla svo tók skóli lífsins við og ýmiss konar námsskeið. Hún kom til Reykjavíkur, dvaldi hjá föðurbróður sínum og fór að vinna á Kleppsspítala. Á þeim tíma kynntist hún mannsefni sínu sem var Björn Guðjónsson f. 11.11 1921 d. 30. nóv. 2008 sonur hjónanna Guðrúna V. Guðjónsdóttur og Guðjóns Bjarnasonar. Þau giftu sig 11. des. 1942 og hófu búskap á Bjarnastöðum á Grímsstaðaholti og byggðu svo á Ægisíðu 66 og bjuggu þar æ síðan.
Börn þeirra 1) Þorvarður Ellert f. 5. mars 1943 d. 18. des. 2013.
Eftirlifand maki Steingerður Steindórssdóttir.
Fyrri maki Hrafnhildur Marinósdóttir d. 1986
Sigrún Björk f. 21. des 1945, maki Örlygur Sigurðsson
Guðrún Gerður f. 31maí 1947 sambýlismaður Jóhann Þórarinsson
Fyrri maki Þórður Eiríksson d. 2000
Guðjón Jóel f. 10. febr. 1959, maki Helena Þuríður Karlsdóttir
Ásgeir f. 25 mars 1960, maki Kristín Jónsdóttir
Barnabörnin eru tólf, langömmubörnin tuttugu og eitt og þrjú langalangömmubörn.