Greinasafn fyrir merki: illska

Ég trúi ekki heldur á þann Guð

Hvar var Guð í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi? Hvar er Guð í þessu andstyggilega árásarstríði Rússa í Úkraínu? Hvar er Guð þegar þér líður illa og verður fyrir olbeldi? Er Guð ábyrgur fyrir þessum ósköpum? Er Guð ekki almáttugur? Er Guð jafnvel vondur?

Að tjá Guði sterkar tilfinningar og æpa reiðilega til Guðs hafa menn allra alda iðkað. Leikarinn Stephen Fry var einu sinni spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapaði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður og sjálfselskur. Það var hiti í þessum ummælum og sársauki, nánast Jobsbókarfuni. Stephen var allt í einu í nýju hlutverki, nýrri senu við Gullna hliðið og hellti úr reiðiskálum sínum yfir Guð. Hugrakkur maður sem mótmælir illum einræðisherra. Hvernig lyki slíkri senu og svar Guðs væri áhugavert. En er það Guð sem Fry á orðastað við? Er Guð svona illur?

Hverjum að kenna?

Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar er Guð þegar dauðinn slær? Er bölið Guði að kenna? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir á snjóflóðið sem steypist yfir byggð manna og fjöldi fólks ferst? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki svo það deyr? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.

Í tvo áratugi hef ég spurt yfir þúsund fermingarungmenni í Reykjavík spurningarinnar um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fermingarbörn í Reykjavík mun síður. Það er kraftur í ákæru hans en ég held að hann misskilji guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er misskilningur á valdi. Margir telja að guðsmynd kristninnar sé gegnsýrð valdi. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð. En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti, vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru ástvinar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hvern annan með gífuryrðum elskunnar. Almætti er ekki um mátt heldur ást.

Fólk er gjarnan upptekið af valdi – hinu ytra toppavaldi. Það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Þeir töluðu um þetta sín í millum og voru í samkeppni um vald. Þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar. Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið “almætti” þar – eða hvað?

Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beygja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo – ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.  Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt og eðlilegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job sem sagt er frá í Jobsbók og aðrir höfundar sálma biblíunnar hafa möglað og mótmælt allsráðandi Guði og molað þar með úr slíkri guðsmynd. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.

Myndin af Guði

Guðsmyndir manna eru gjarnan tjáning á þrá og því klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd eða eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur.

Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Ég vil ekki trúa á hann. Ég trúi ekki að slíkur Guð sé til. Slíkur Guð væri fáránlegur. Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég er með þér, nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í öllu lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar.

Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir: „En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“

Amen.

Meðfylgjandi mynd sáþ – góðviðrisdagur við Skerjafjörð

A few words on the sense of the sermon. Where is God in wars, avalanches, earthquakes, disasters and tragedies. Is God responsible? Is that the meaning of almighty? Those accusing God for being cruel are right if almighty means causing everything. But the so-called attributes of God are not philosophical definitions of God but rather statements of love and utterings of veneration. God‘s way of dealing with the world is not to exercise power but rather to love. I don‘t believe in a cruel despot. That type of a tricky god is not worthy of trust or faith. The God Jesus Christ revealed is a caring and loving being not causing evil but supportning humans and life fighting evil. God is not the tyrant of the world but rather the lover of the world.

  1. sunnudagur í föstu.

Lexía: 1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-34

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

 

Dachau, útrýmingarbúðir og við

 

75 ár eru frá því útrýmingarherferð nasista lauk og fangar voru frelsaðir úr dauðabúðunum. Í Póllandi, Jerúsalem og Þýskalandi hafa verið haldnar minningarathafnir á þessum tímamótum. Í búðunum voru meira en sex milljónir myrtar. Gyðingar voru stærsti hópurinn, en líka þau sem voru talin óæskileg, samkynhneigðir, fólk með þroskahamlanir og pólitískir andstæðingar yfirvalda. Fólk var pyntað, kvalið, niðurlægt og myrt. Börnum var jafnvel hent lifandi inn í eldofnana og kvalaópin skáru í hlustir hinna fanganna, sem ekkert megnuðu í varnarleysi sínu annað en hlusta og æpa hljóðlausar bænir inn í eilífðina. Er nema von að fólk spyrði í kjölfar styrjaldarinnar hvort Guð væri ekki beinlínis nauðsynlegur til að gera upp sögu með þvílíkri hryllingsvídd.

Skammt utan við borgina München í Þýskalandi er Dachau, lítill staður með stóra sögu. Ég átti einu sinni leið til München og fór þá til Dachau. Ég vissi fyrirfram um staðinn og hafði kynnst fólki sem hafði misst ættingja sína í Dachau. Það er sálarslítandi að lesa helfararbækur en grípandi og nístandi að hugsa um mismunandi viðbrögð fólks í dauðabúðum. Þessar bækur halda að manni íhugun um merkingarleysi en líka lífsmöguleika. Meðal þess sem ég hafði lesið var viskubók Viktor Frankl Leitin að tilgangi lífsins, en Frankl var um tíma fangi í Dachau.

Yfir búðahliðinu var stóð: Arbeit macht frei – vinna til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari innan hliðs og girðingar. Þar voru óæskilegir vistaðir og þeim fargað, fólk sem var af ákveðnum kynþætti, þroskaheft eða með aðrar skoðanir en valdhafar. Meðal þeirra var hinn kunni prestur Martin Niemöller, sem benti á mannelsku Guðs sem ekki gerir greinarmun á fólki.

Skálarnir, húsin og minnismerki búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerki um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, magur og hrjáður Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, kunnugur þjáningu, bróðir harmkvælamanna búðanna.

Gyðingaminnisvarðinn í Dachau er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást, að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll byggingin var myrk. Tilfinningin fyrir grjóti var sterk, þetta var eins og grafhvelfing og minnti mig á grafarhvelfingu Jesú. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan, ljóslínan, var vonarlína.

Á leiðinni til Dachau voru nokkur ungmenni í sömu lest og ég sat í. Við töluðum saman á leiðinni og þau sögðu mér að þau væru á lestarferð, Interrail-reisu, í Evrópu. Þau fóru hraðar yfir en ég þegar inn í búðirnar var komið, voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana og ég heyrði að þau sögðu hvert við annað: “Hér er ekkert að sjá.” Þau settust svo niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta Krist, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá – að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin. Áhrifin voru í huga þeirra sem komu.

75 ár frá því að Þýskalands nazismans var neytt til að hætta manndrápum. Hvað höfum við lært? Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo. Ekkert er svo myrkt að himinbirtan megni ekki að upplýsa. 

Bæn

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. Og samt ert þú Hinn heilagi. …  Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar. … Endimörk jarðar munu minnast … og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

Megi ljósið blessa þig. Megi birtan upplýsa myrkur þitt. Megi afturelding umvefja alla menn og allt líf og gefa réttlátan frið.