Greinasafn fyrir merki: iðrun

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Viðsnúningur – fyrirgefðu

Í gamla daga var talað um iðrun – og iðrun er það að úthverfa því sem er hið innra. Við getum notað ýmis orð um þetta ferli. Við getum talað um viðsnúning, sem verður í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti, og við þurfum að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – og varðar ákveðna þætti lífsins og ekki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Strákurinn í Eyjum

Einu sinni svindlaði strákur á prófi. Mamman komst að glæpnum. Drengurinn varð skömmustulegur og sagði við hana. “Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” “Já, það er ljómandi,” sagði mamma. “En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrun er ekki alvöru nema hún hafi áhrif á atferli og samskipti. Iðrun er ekki privatmál heldur hefur samfélgsvídd. Iðrun er ekki einkamál.

Við gerum öll eitthvað rangt, sem hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað, sem særir og jafnvel grætir. Við hittum fyrir viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki? Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið?

Bergmann
Einu sinni horfði ég í beit á flestar kvikmyndir Ingmar Bergman og síðan á ítarefni og þar á meðal viðtal við hann. Bergmann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði gagnrýnt mjög verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða um þennan mann og hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með sig, hvernig honum leið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu. Gagnrýnandinnn var uppteiknaður sem vondur maður. En sá hafði enga möguleika til varnar því hann var löngu dáinn. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman. Sem sé fullkomið hatur. Þú hefur væntanlega hitt fólk sem hatar og getur alls ekki fyrirgefið. Hvað með það?

Svo eru þau sem eru siðblekkt eða siðblind og sjá engan skilsmun á góðu og illu – og tjá því enga iðrun. Og þessi hópur er líklega 1- 2% fólks. Áföll slíkra manna eru aðeins að fá ekki vilja sínum framgengt. En er hægt að fyrirgefa, þegar engin afsökunarbeiðni berst? Er hægt að fyrirgefa ef engin iðrun er að baki og ekkert hjartanlegt “fyrirgefðu.”

Iðrun og fyrirgefnin

Fyrirgefning varðar margt og er alls konar. Hvað átti  að gera við gamla komma austurblokkarinnar eftir fall kommúnismans? Þeir játuðu sumir brot sín með vörunum og töldu það nóg til að þeir fengju syndakvittun og möguleika til nýs pólitísks lífs. Í Suður Afríku komu margir fyrir Sáttanefndina sem þeir Mandela og Tutu stofnuðu til. Margir þráuðust við – iðruðust ekki. Oft er það svo að iðrun verður ekki fyrr en augu hinna seku eru glennt upp, eins og sjá má af iðrunarmynd Einars Jónssonar í Hnitbjörgum.

Ófyrirgefanlegt?

En svo eru tilvikin þegar krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf. Margt verður og fellur utan við mannlega fyrirgefningu; engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar fólk var að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir að til er eilíf sekt. Horkheimir og Adorno sögðu að Guð væri “nauðsynlegur” eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr glæpum nasismans. Þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Afstaða Jesú – átrúnaður fyrirgefningar

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.

Dans, týndir synir og hrútar

Mynd Þorsteins JósepssonarVeisluglaumurinn í Reykjavík í nótt var ekki aðeins í miðbænum eða við skemmtistaðina. Þúsundir efndu til hátíða vegna háskólaútskrifta. Tilefni fyrir fjölskyldur að koma saman og gleðjast yfir áföngum og sigrum. Á öllu stór-Reykjavíkursvæðinu var fagnað og gleðin ríkti víðast frá því um kvöldmat og fram að miðnætti. Prúðbúið fólk var á ferð. Taktföss dansmúsík, hlátrar og hávær samtöl bárust um hverfið mitt í kvöldkyrrðinni. Það var ánægjulegt að upplifa fögnuðinn og glaumurinn rímaði algerlega við veislusögu guðspjallsins. Þegar ég lagði höfuð á koddann hugsaði ég um fólkið sem var að fagna.

Bræður í vanda

Jesús sagði sögu um fagnandi fjölskyldu. Saga dagsins er um ungan mann og fjölskylduveislu. Maðurin fór óvenjulega leið, neyddi föður sinn til að láta sig fá arfinn fyrirfram. Hann lifði svo hátt en klúðraði þó fjármálum sínum. Hann eignaðist viðhlægjendur meðan hann átti peninga. En svo þegar auðurinn var búinn blasti hryllilegur raunveruleikinn við. Þegar maðurinn hafði ekki annað en svín fyrir augum varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum. Þegar hann viðurkenndi það var hann á leið heim í öllum skilningi.

Þrír kallar

Heima var hinum alræmda syni fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara puðaði heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúðin með eldri bróðurnum. Veisla fyrir ruglukollinn var meðvirkni. Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar eða fólk sem „týnist“ af einhverjum ástæðum. Svo eru hin sem ekki lenda í neinu verulega vondu en klúðra þó einhverju. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki týndur í útlöndum heldur týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni og hafði tapað tengslum við ástvini sína. Þegar fólk er týnt verður misskilningur. Þekkir þú svona fjölskyldulíf?

Meginstefið

Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver ólátabelgurinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan? Og sagan sé meira á dýptina?

Hinar yfirdrifnu sögur Jesú

Jesús Kristur var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir spennuparið. En svo sprengir Jesús jafnan sögur sínar með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús kallaði tilheyrendur sína til vits og guðsskilnings. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en ekki umbuna fyrir vitleysuna. Það eru lélegir uppeldishættir. Og iðrun og vilji til bóta er forsenda jarðnesks uppgjörs.

Miðjan í sögunni er faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sprengir þó allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski Faðir. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalaus ást sem umvefur allt og alla.

Hrútar

Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Hvenær er maður týndur? Ertu á réttri leið, aflar lífspuðið þér hamingju?

Ég sá í vikunni hina verðlaunuðu og lofuðu kvikmynd Hrúta og naut þess eftir sýninguna að tala við leikstjóra myndarinnar með nokkrum félögum, vinum og kollegum. Myndin segir frá bræðrum sem höfðu týnst hvor öðrum og tapað samskiptum þótt þeir byggju á hlið við hlið í Bárðardal. Ég mæli með Hrútum. Hún er blessunarlega laus við klisjur og ristir djúpt. Í henni eru engar ódýrar lausnir heldur er sögð ávirk og átakanleg saga. Þetta er saga um fólk og rofin samskipti. Svona fólk þekkja flestir því sagan á sér hliðstæður í öllum fjölskyldum og samfélögum heimsins. Og Hútarnir eru ein útgáfa af Biblíusögunni um týnda syni (reyndar áhugavert að máta fleiri sögur Biblíunnar við myndina, t.d. sögurnar um Kain og Abel, Jakob og Esaú o.fl.).

Hver er týndur?

Ertu týndi sonurinn, dóttirin? Er komið að viðsnúningi, iðrun, heimgöngu. Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast.

Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og greint mistökin. Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú ert búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. Veislufólkið, fjölskyldurnar, sem héldu partí í gærkvöldi eru eins og annað fólk heimsins. Þau vilja fagna og njóta lífsins. Allt þetta fólk leitar hins góða lífs, en í flestum fjölskyldum er fólk sem er villuráfandi. Systur, bræður, systkin, foreldrar, fjölskyldur í Palestínu, Bárðardal, Drammen og Þingholtunum geta klúðrað lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum riðurotuð og týnd megum ganga í okkur, taka sinnaskiptum, snúa við og halda heim. Guð býður nýja möguleika. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Prédikun í Hallgrímskirkju 21. júní, 2015.

Þriðji sunnudagur eftir þrenningarhátíð. B-röð.

Lexían; Jes. 64. 3-8

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjörir slíkt fyrir þá, er á hann vona. Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir. Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur. Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum. En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Pistillinn: 1 Tím 1.12-17

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lúk. 15. 11-32

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.