Tilboðum um lágstemmdar athafnir fjölgar í norrænu kirkjunum. Margir vilja ekki íburðarmiklar athafnir en vilja þó fá að nýta kirkju sem þeim líkar við. Þjónusta safnaðanna er að breytast vegna breyttra þarfa. Fleiri sæjast eftir persónulegri þjónustu en stóru athafnirnar eru kannski á útleið? Þetta tengist líklega djúptækum samfélagsbreytingum, sem hafa orðið síðustu áratugina og einnig að einangrun samfélags og þjóðfélags er rofin. Að skjótast til Kaupmannahafnar er ekki meira mál en að fara vestur á Snæfellsnes.
Félagstengingar fólks eru allt aðrar í nútíð en var í fortíðinni. Áður voru íslensk samfölg næsta kyrrstæð en nú einkennast þau af hraða og flæði. Fyrrum var fólk innrammað í aðstæður og tengsl þess voru nánast ákveðin fyrir það. Nú tilheyrir fólk ekki sjálfkrafa einhverju afmörkuðu svæði, stofnunum eða hverfiskirkjunni. Eitt árið býr fólk í einhverju hverfi í Reykjavík, næsta árið í Borgarnesi, síðan erlendis og svo þar á eftir austur á landi. Í borgarsamfélaginu er flest á floti og félagstengingar eru alls konar. Dæmi úr knattspyrnunni geta orðið einhverjum til skilningsauka. Þó menn búi í Vesturbæ Reykjavíkur getur verið að fótboltaáhugamennirnir hafi mun meiri áhuga á Liverpool eða Tottenham en KR. Margir Garðbæingar eru stuðningsmenn United frekar en Stjörnunnar. Búseta tryggir ekki skoðanir, tengsl eða stofnanasókn fólks. Börn í Kópavogi fara í Hjallaskóla í Reykjavík, fólk flengist höfuborgarsvæðið á enda með börnin sín í leikskóla og sækir félagslíf í önnur sveitarfélög. Flæðið hefur mikil áhrif á kirkjulífið. Hafnfirðingar, utan eða innan þjóðkirkju, sækja kirkju í Hallgrímskirkju og fermingarbörnin í Hallgrímskirkju koma víða að.
Þótt fólk sé ekki bundið af hverfiskirkjunni hverfa trúarþarfir þess þó ekki. Flestir glíma við trú og tilgang lífsins og atgangurinn er oftast óháður búsetu og hvaða kirkjur eru nærri. Bylgjuhreyfingin í norður og vestur-Evrópu er að snúast við skv. skýrslum kirkjugreinenda. Söfnuðirnir verða og vilja koma til móts við fólk á forsendum þarfa þess, en ekki aðeins í anda kirkjuhefðanna og hvað „alltaf“ hefur verið gert. Söfnuðirnir gera tilraunir með nýtt helgihald og efna t.d. til lágstemmdra athafna. Fólk í þéttbýli er ekki bundið hverfiskirkjunni, heldur sækir það kirkju sem svarar óskum og þörfum. Skyndiskírnir og hjónavígslukvöld eru meðal þess, sem ýmsir söfnuðir á Norðurlöndum efna til. Þróunin er frá hinu almenna og til hins persónulega og kemur fram í stíl og gerð þessara athafna. Ekki er slakað á undirbúningi af kirkjunnar hálfu, en reynt að koma til móts við þarfir fólks fyrir hið persónulega. Þröskuldarnir eru lækkaðir, íburðurinn minnkaður og kostnaði er haldið í lágmarki. Ekki er innheimt fyrir þjónustu presta, organista eða kirkjuvarða. Ekki er heldur greitt fyrir afnot af safnaðarheimili og kaffi og te er á könnunni í boði kirkjunnar.
Þorum við að opna? Það er nú reyndar skylda lifandi kirkju horfast í augu við köllun sína, breytta samfélagsgerð og þarfir fólks. Breytingar kalla á breytingar. Kirkjan á að vera opin.