Greinasafn fyrir merki: hús

Draumar og rými

Hafa hús áhrif á drauma? Liðna nótt dreymdi mig slíka drauma að ég sannfærðist um að rými er mikilvæg umgjörð vitundar. Stundum flæða draumar nætur greiðlega upp í morgunvitund mína og stundum ekki. Á tengslum vöku minnar og svefns er dagamunur og líka tímabila.

Síðustu daga og í skoðunarferð um eyju í Miðjarðarhafi hef ég sofið í þremur mismunandi húsum. Fyrstu næturnar í nýuppgerðu húsi en í yfirgefnu þorpi sem þúsundir höfðu flúið á tuttugustu öldinni. Vitundin var galopin gagnvart tilfinningum þess fólks, átökum, flótta og vonarmálum þess. Trump og Musk urðu líka draumadurgar þeirra nátta. Næsti svefnstaður var airbnb-herbergi í stórborg. Draumfarir mínar í nýju herbergi voru vel skiljanleg úrvinnsla reynslu og viðburða daganna. En síðustu nótt svaf ég á nýjum stað og í nýju rými sömu borgar. Draumar síðnæturinnar voru allt öðru vísi en næturnar á undan. Þeir föðmuðu vaknandi vitund mína og ég undraðist. Þverstæður voru í þessum draumum átaklaus og raunar ágætur félagsskapur. Andstæður áttu ekki í átökum. Framvinda draumanna var ekki – þrátt fyrir ólíkar forsendur og leikendur – ekki í streitu eða stríði heldur í skapandi samskiptum. Ég man ekki eftir að mig hafi dreymt svo ólík mál í svo miklu jafnvægi. Er það aldurinn sem skiptir máli, þroskinn, æðruleysi – nú eða hús?

Í vöku skemmtilegra ferðadaga og ferðafélaga hef ég kannað iðandi nútímamenningu, skoðað stórbrotna náttúru, borðað undursamlegan mat, en líka kafað í samsuðu grískrar, rómverskrar, arabískrar og síðan evrópskrar deiglu síðari alda. Sú saga er átakamenning, full af streitu ofbeldis og fegurðar, valdasóknar en líka friðarþarfar, getu til nýsköpunar en líka þolleysi andlegra þrengsla og fordóma. Í draumum liðinnar nætur fléttuðust ýmsar víddir og líf saman, andstæðurnar voru samleikendur, ekki í stríði heldur skapandi framvindu. Í morgun vaknaði ég undrandi, íhugandi og fagnandi. Ólík mál þurfa ekki að stríða heldur geta búið í friði í sama huga sama manns – en í nýjum aðstæðum.  

Ég hef fyrir löngu skilið að forsendur búa í okkur öllum og stundum sem fordómar sem huga þarf að og vinna með. Þegar best lætur hverfa neikvæðir fordómar og til verða forsendur sem þjóna lífi einstaklings, fjölskyldu og samfélags. Ég staldra gjarnan við ólíkar tilfinningar til að skoða og vinna með. Og maður lifandi, það er hressandi að vakna til vitundar dagsins með að þverstæður og andstæður steyma fram í skapandi tengslum en ekki átökum. Húsið sem ég svaf í liðna nótt fangaði mig og okkur vel og gaf mér rými til að dreyma stóra og merkilega drauma. Já, rými hefur áhrif á drauma – og reyndar margt fleira líka.