Greinasafn fyrir merki: hlutverk Jesú Krists

Þinn Jesús?

táningurinn JesúsMenn hafa leitað að Jesú um aldir. Sumir hafa fundið Jesú en aðra hefur Jesús fundið. En allir sem verða vinir Jesú túlka samskiptin með einhverjum hugmyndum, lýsingum og nokkrir síðan með kenningum um hver hann sé og hafi verið. Og nálgun fólks og kenningar eru með ýmsum hætti og hver samtíð þráir og túlkar ákveðin tengsl í samræmi við þarfir. Eitt sinn var það ímyndin af siðvitringnum sem hreif. Í annan tíma var það kraftaverkamaðurinn eða orðsnillingurinn. Í sumum kirkjuhefðum var lögð áhersla á fórnarhlutverk og endurgjald hins krossfesta, í öðrum á upprisuljóma páskanna. Kristur, hinn stríðandi konungur, höfðar til sumra einstaklinga, hópa og tíma. Mjúklátur mildingurinn er öðrum nærstæðari. Stundum hefur Jesús verið í mynd andófsmannsins og sósíalistarnir sáu í honum fyrsta kommúnistann, jafnréttisaktívistar skapandi frelsispostula og bróður hinna kúguðu og fátæku. Ó, Jesú bróðir besti. Myndir Jesú Krists eru margar. Hver er mynd þín af Jesú? Hvers leitar þú? Hvað hefur áhrif á þína Jesúmynd? Eru það þarfir, samfélagsstraumar, menningarviðhorf eða eitthvað djúptækt í þér? Ertu til í að hitta hann?

Fermingarstrákurinn Jesús

Guðspjallstexti fyrsta sunnudags eftir þrettánda fjallar um leit, margþætta og margvíslega leit. Fyrir það fyrsta voru María og Jósef að leita að Jesú. Reyndar er kostulegt, að það hafi tekið þau a.m.k. heilan dag að uppgötva að hann væri týndur. Margar skýringar eru til um af hverju þau voru svona sein að átta sig á stöðunni. Var Jesús vanur að týnast og kom alltaf aftur? Þau sneru við og voru svo þrjá daga að leita að strák. Að finna Jesú getur verið tímafrekt!

Jesús var orðinn 12 ára og bar eins og jafnöldrum hans að fara til Jerúsalem til að taka þátt í manndómsathöfn, hliðstæðu fermingar í okkar hefð. Jórsalaferðin var undirbúin og farin. Jesúfjölskyldan komst klakklaust á leiðarenda og sveinninn hefur gengið í gegnum ritúalið.

Síðan heimferð, konur og börn fóru gjarnan á undan körlunum, hvort sem það hefur verið vegna þess að þeir fóru hraðar yfir – eða að þeir höfðu einhver aukahlutverk umfram hin. Kannski voru þeir bara að skemmta sér! Við getum ímyndað okkur, að foreldrar Jesú hafi treyst strák, hafa haldið, að hann væri á heimleið, allt þar til þau María og Jósef hittust á leiðinni. Þá kom í ljós að hann var týndur og þau neyddust til að snúa við. Leitin hófst.

Jesús týndur

Hvernig lýsir maður eftir drengnum Jesú þegar hann týndist? Hvað gæti best lýst honum svo þau sem hefðu séð til hans kveiktu á perunni og seegðu? „Já, það er einmitt strákurinn sem ég sá.“ Tólf ára gutti, engin barnastjarna í Palestínu og því algerlega óþekktur. Ekki hafa þau sagt, að hann væri frelsari heimsins eða að hann væri mannssonurinn. María hefur ekki vogað sér að segja frá, að þegar hann hafi fæðst hafi harðstjórinn Heródes orðið svo hræddur, að hann hafi látið deyða alla nýbura á svæðinu sunnan Jerúsalem. Ekki hafa þau sagt, að hann væri herkonungurinn Messías. Það hefði sent þau beina leið í fangelsi Rómverja.

Væntanlega hafa þau bara lýst venjulegum unglingsslána, íhugulum og spyrjandi. Þau hafa kannski óttast að búið væri að limlesta hann eða jafnvel myrða. Allir foreldrar geta sett sig í þeirra spor, ímyndað sér kvíðann. Í hverju hafði hann lent? Hvað hafði komið fyrir? Hafði hann gert eitthvað af sér?

Þau hafa farið á lögreglustöðina. Nei, enginn hafði rekist á hann. Þau þekktu leitandi hug hans og hafa vonast til, að hann kynni að laðast að guðsmönnunum og því farið í musterið. Viti menn, sat ekki Jesús þar eins og prútt fermingarbarn, spurði greindarlega, reyndi fræði þjóðar sinnar, ræddi álitaefni í trú og siðferði og vildi svör! Saga dagsins er því ekki morðsaga eða saga um aula vikunnar, heldur heillandi þroskasaga um skarpan ungling í leit að svörum við rosalegum spurningum. Hvað hann borðaði og hvar hann svaf vitum við ekki. Síðar minnti hann á, að matur hans var nú að gera vilja þess, sem sendi hann. Og mannsonurinn væri heimilislaus og ætti engan höfuðhvílustað.

Leit Jesú að eigin sjálfi

Hvað ræddi unglingurinn við fræðimennina? Hann vildi skýringar, ekki aðeins á pólitík eða menningarmálum, á trúarlegum skyldum, heldur á enn róttækari málum, hver hann sjálfur væri. Jesús óx örugglega ekki upp með einhverja barnatrúarvissu um, að hann væri Messías, frelsari heimsins, læknirinn besti, ljós heimsins, brauð veraldar o. s. frv. Hann bjó í smiðshúsi í Nasaret, reyndi að fá botn í hvað grunurinn í djúpum hugans merkti, hvað upphaf hann hefði og hvernig hann gæti brugðist rétt við í upplifunum, af hverju máttur hans stafaði og hvað hvötin merkti. Kannski hefur mamman talað við hann um reynslu sína og vangaveltur. Kannski hefur Jósef líka rætt málið og frændfólkið minnt á sérstakar aðstæður í frumbernsku. Svo hefur lífsreynslan bætt í sjóðinn.

Hann vildi svar við meginspurningunni: Hver er ég? Til hvers lifi ég og hvert er hlutverk mitt í lífinu? Guðsmennirnir gátu veitt honum sértæk svör um ákveðin atriði, en hann varð sjálfur að vinna úr efninu, og marka stefnu sem vörðuðu sjálf hans, þetta sem við getum kallað sjálfsskilning og þar með lífsstefnu. Jesús átti val, naut algers frelsis. Heillandi saga um ungan mann í leit að lífsstefnu.

Foreldrar fundu – en unglingur Guð

Meðan foreldrarnir leituðu að unglingnum var Jesús að leita að sjálfum sér. Þau fundu tryggan og góðan son, en hann fann Guð hið innra, í sjálfum sér. Svör hans við spurningum foreldranna virðast harkaleg en skiljanleg, þegar guðsvitund Jesú og vitund um hlutverk og köllun er höfð í huga. Nokkra þætti í sjálfsvitund Jesú getum við greint í ræðum hans. Á henni byggir síðan íhugun guðfræðinga og trúmanna um allar aldir.

Þegar við förum yfir guðspjöllin sjáum við, að sagan um unglinginn í musterinu er eina bernskufrásagan um Jesú. Engin önnur saga frá æsku Jesú og unglingsárum er til. Jólasöguna og upphafssöguna þekkjum við og næst á eftir henni kemur svo þessi musterisferð og leitin að Jesú. Síðan ekkert annað fyrr en meira en löngu síðar, þegar Jesús byrjaði starf sitt með formlegum hætti. Við eigum því enga ævisögu Jesú í guðspjöllunum. Til að fá fyllri mynd verður að leita í aðrar heimildir utan Biblíunnar, s.s. Tómasarguðspjall. En margir hafa efast um heimildagildi þess og annarra rita um Jesú, þ.e. utan Biblíunnar.

Jesúveruleikinn

Guðsvitund Jesú var ríkuleg, en hann hafði meiri áhuga á lífsiðkun en að skilgreina sjálfan sig fræðilega. Hann hafði minni áhuga en miðaldaguðfræðingar á frumspekilegum skilgreiningum. Við vitum ekki hvað María sagði honum. Enginn Biblíufræðingur mun halda fram að Betlehemsatburðirnir séu lýsandi sagnfræði. Allt er þetta á sviði táknmáls.

Sjálfsvitund helstu jöfra menningarsögunnar er eitt og hugmyndir fylgjenda stundum aðrar. Sjálfsvitund Jesú er um margt greinanleg, en þó er margt á huldu.

Björgin góða

Forsenda þess, að við getum gengið inn í guðsreynslu og innlífast guðsveru Jesú, er að við viðurkennum okkar eigin leit, sem er æviverk, förum í musterið með honum, göngum inn í angist hans og líka traust. Er Jesús forgöngumaður, vinur þinn, bróðir sem heldur í hendi þína?

Hver er Jesús? Jesús er í húsi föður síns. En finnur þú hann þar? Þú finnur hann ekki í fræðunum um hann. Ég get útlistað kenningarnar um hann, en aðeins þú getur farið og fundið hann, lifandi persónu. Að trúa er persónulegt mál, það að hitta Jesú og verða vinur hans. Það gerir enginn annar fyrir þig.

María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim, við leitum að ákveðnum Jesú, en svo mætir okkur annar. Þar er viskan, þegar við gerum okkur grein fyrir, að við finnum annan en við leitum að. Jesús er meira en ímynd okkar af honum, líka annað og meira en ímynd guðfræðinnar um aldir. Mannleg orðræða og lýsingar spanna aldrei það sem er guðlegt.

María og Jósef spurðu hvort menn hafi séð Jesú. Spurningin í nútíð okkar varðar ekki hvar hann er, heldur hvort og hvernig hann lifir meðal okkar og í okkur. Líf okkar varðar hvort við erum vinir Jesú Kristi og leyfum honum að vera Guð í okkur. Algert frelsi, algert val. Gildir fyrir alla, mig og þig.

Prédikun í Hallgrímskirkju 9. janúar, 2016.

Lexía: Slm 42.2-3

Eins og hindin þráir vatnslindir

þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,

hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Pistill: Róm 12.1-5

Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.

Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Guðspjall: Lúk 2.41-52

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Út fyrir endimörk alheimsins

AmeríkukafteinninnÍ dag er síðasti sunnudagur eftir þrettánda. Nú lýkur jólatíð trúartímans – gleðiskeiðinu – og svo hefst brátt níu vikna fastan. Fagnaðartími á enda og föstutími fyrir páska hefst. Það er eins í kirkjuárinu og raunveruleikanum – tími gleði og sorgar faðmast.

Texti dagsins er um reynslu þriggja manna af ótrúlegum viðburði sem þeim var þó bannað að segja frá – fyrr en löngu seinna. Þeir urðu vitni að einhvers konar breytingu? En hvað þýddi sú skekjandi upplifun sem þeir urðu fyrir? Vinir Jesú vissu ekki hvernig þeir ættu að skilja atburðinn og gátu því ekki skýrt hann heldur. Og meistarinn bannaði þeim að tala um reynslu sína. Fólkið sem hitti Jesú velti vöngum yfir hver hann væri og furðureynsla á fjalli jók spurningaflóðið. Var Jesús Kristur kannski ofurhetja?

Ofurhetja og þrá sálardjúpa
Hefur þú einhvern tíma séð ofurhetjukvikmynd? Áttu einhverja DVD-diska með Súperman, Batman eða Spiderman? Talsvert safn er á mínu heimili og í sjónvarpsflakkaranum. Hvað merkja þessar myndir og hvernig eigum við að skýra tilurð þeirra?

Þegar á bjátar í samfélögum fólks þrá menn lausn. Í kreppum vaknar þörf fyrir ofurhetjur. Í menningarefni síðustu áratuga hafa sprottið fram margar ofurhetjur í tímaritum og kvikmyndum. Það er beint samhengi milli kreppu og viðbragða, stríða og andlegrar leitar. Svo var í seinni heimstyrjöldinni og styrjöldum síðustu áratuga. Súperman er ekki alveg nýr – hann er nærri áttræður!

Ímyndunarafl fólks er frjálst og ofurhetjunnar tjá eða túlka þrá að einhverjir leysi vanda fólks og þjóða, einhverjir tryggi öryggi og efli réttinn. Þegar stjórnmálamenn bregðast, fjármálakúnstir takast illa og tæknilausnir reynast fals þarfnast fólk samt lausnar á vandanum. Ofurhetjurnar – held ég – tjá þessar þarfir – eru táknmyndir þeirra.

Það er umhugusunarvert, að draumaverksmiðjurnar í Ameríku hafa framleitt ofurhetjumyndir í sérstaklega stórum skömmtum síðasta áratuginn. Af hverju? Jú, spenna í menningu, stjórnmálum, efnahagsmálum, óreiða í samskiptum þjóða og óljós framtíð gruggar upp í menningu og líka sálarbotnum og tilfinningum fólks. Því megum við gjarnan staldra við og spyrja um hvað hjálpar og hvernig.

Fyrirmyndir og ofurhetjur
Allar kynslóðir leita sér að hetjum. Kraftasæknir hafa alltaf gert sér ímyndir og í öllum menningarsamfélögum og trúarhefðum. Grettir, Gunnar á Hlíðarenda og Jón Páll voru kraftahvatar. En mennskar kvikmyndastjörnur, körfuboltasnillingar, Leo Messi og Ronaldo eru annars eðlis en Súperman. Leikarar og íþróttamenn njóta ekki yfirnáttúrulega krafta þó máttugir séu. Ofurhetjurnar eru ekki venjulegar mennskar verur sem hafa orðið frægar, heldur annarrar gerðar en menn. Í þeim búa ofurmennskir kraftar, sem eru handan þess sem fólk getur vænst í raunheimi. Hvað merkja Ben Ten, Hermione Granger, Catwoman, Harry Potter og fleiri í hinu skrautlega hetjugalleríi sögubóka og kvikmynda?

Foreldrar eru þrábeðin og jafnvel grátbeðin um búninga, Batmanskykkjur, Ninjufötu, Súpermanmerki og Spidermangrímu. Það er beinskeyttur bisniss á bak við þetta allt.

Munur Jesú og ofurhetjunnar
Og þá komum við að fjalli furðunnar, fjalli ummyndunar Jesú. Er einhver munur á ofurhetjunni og Jesú Kristi? Eða er Jesús Kristur kannski ofurhetja? Nei, það er alger munur á Jesú Kristi og ofurhetjum fyrr og síðar.

Fyrsta og mikilvægasta aðgreiningin er, að Jesús var og er raunverulegur maður, sem var til og söguheimildir greina frá. En ofurhetjur hafa aldrei verið til – þær eru tilbúningur.

Í öðru lagi: Jesús lagði ekki áherslu á ofurkrafta sína eða vakti athygli á þeim. Verk hans þjónuðu fólki í raunverulegum aðstæðum og voru ekki unnin á svig við veruleika þess. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega, skilja inntak, en stoppa ekki bara við ásýnd.

Í þriðja lagi er eðli lífs og eðli hins trúarlega. Markmið Jesú var að opna veröld fólks og leyfa því að lifa og skilja líf sitt í stærra samhengi en smáveröld eigin nafla. Hann vildi koma fólki til skynjunar eða skilnings á að Guð væri nærri venjulegu fólki og raunverulegu lífi. Jesús hvatti ekki til heimsflótta, heldur þess að taka þátt í lífinu og njóta þess. Guð vill að við séum samverkamenn hans í því að bæta og fegra heiminn. Við erum ekki kölluð til óra og trúarflótta. Því er trú aldrei tengd ofurhetjum.

Ofurhetjur örva ímyndunarafl og þjóna ævintýraþörf fólks. Og við erum öll börn að við höfum þörf fyrir öryggi, að einhverjir hjálpi okkur þegar við lendum í vanda.

Ofurhetjur eru tákn, tjá djúpsetta þrá, en leysa hana ekki. Jesús, hins vegar, er ekki tákn um þarfir fólks, heldur sýnir hvernig vandinn er leystur og hvað leið er fær. Hann er lausn vandans.
Ofurhetjur koma ekki fyrir í raunveruleikanum, en það gerir Jesús Kristur hins vegar. Veruleiki hans er veruleiki heimsins, fólks – okkar allra.

Ofuhetjurnar tjá óskir dulvitundar, en Jesús er veruleiki lífsins. Hetjurnar eru tákn djúpsins og neyðaróps sálarinnar en Jesús er svar lífsins.

Hetjur hvunndagsins
Þegar sonur minn var fimm ára laumaði hann sér eina nóttina upp í rúm okkar foreldranna. Við vöknuðum þennan morgun við að hann tautaði með sjálfum sér: „Ég vildi að pabbi væri ofurhetja.” Mamma hans, sem er snögg til, svaraði honum að bragði: „Hann er ofurhetja.” Þá hló drengurinn og foreldrar hans síðan með honum og við glaðvöknuðum við hlátrana. Það er skemmtilegt að vakna með hlátrasköllum. Drengurinn skildi hvað mamma hans meinti, náði alveg þessari kúrsleiðréttingu hennar og svaraði brosandi: „Það er alveg rétt, mamma mín.”

Og þar með var búið – með ofurlitlum húmor og sveiflu – að hjálpa honum að setja ofurhetjuna upp á snaga, í samhengi, koma ofurhetjutýpinni fyrir á réttum stað. Pabbar eru auðvitað ekki súperman eða spiderman, en þjóna sínu hlutverki samt í raunheimi myrkfælni, óttaefna, skólanáms, fótbolta, kvikmyndam, glímu við félaga og systkini. Og pabbar eru flestir og oftast mun betri í þeim efnum en nokkrar hetjur í bókum eða á skjánum. En ofurhetjur gegna samt hlutverki að vera sýnileg tákn um þrá og drauma undirmeðvitundar. Jesús gegnir hins vegar öðrum og mikilvægum hlutverkum.

Eitt af mikilvægu lífsverkefnum er að iðka lífsgreindina skarplega, læra eigin hlutverk og hvorki smætta né mikla þau hlutverk, sem maður sjálfur og mismunandi hlutar manns gegna. Allt hefur sinn tíma og hlutverkin eru mörg. Inn í það mál spinnast síðan ævintýri, sjálf, heimili, ástvinir og Guð.

Ummyndun Jesú
Hvað gerum við þá við söguna af ummyndunarfjallinu? Þú þarft ekki að taka söguna bókstaflega, heldur máttu gjarnan taka hana alvarlega. Sagan af ummyndunarfjallinu er n.k. krýningarsaga. Hún á sér bókmenntalegar, pólitískar og trúarbragðafræðilegar hliðstæður í sögum um þegar menn urðu kóngar í hinum forna heimi. Jesús var krýndur og þar með gefið hlutverk. Týpurnar í ummyndunarsögunni eru nokkrar og gegna túlkunarhlutverki og leiðbeina við skilning. Móses er fulltrúi laga, boðorða og upphafs sögu hebrea og gyðinga. Jesús tekur við keflinu af Móse og verður því löggjafi nýs tíma. Svo eru þarna Elía, fulltrúi spádómshefðarinnar, sem tjáir að Guð leiðir fólk og heim áfram. Jesús tekur við því hlutverki líka og er boðberi þess, að Guð muni bæta og lækna.

Lærsveinarnir eru fulltrúar manna á öllum öldum. Ummyndunaratburðurinn felst ekki í að ofurhetja verður til og allur vandi er leystur með einhverju djúpsálarlegu afreki eða ofsalegum sigri á myrkri og vonsku. Ummyndunarfjallið er ekki aðeins tákn um hið einstaka, heldur altæka og venjulega líka.

Ummyndun Jesú og líf okkar
Við erum alltaf á ummyndunarfjallinu – á hverri stund í lífinu, í siðklemmum okkar, í samskiptum okkar við fólk, í vinnunni, í æviverkefninu – að lifa. Við erum raunar alltaf í námunda við þennan Jesú og við getum snúið málinu algerlega við líka: Hann er alltaf hjá okkur – í öllum aðstæðum okkar.

Við höldum áfram alla ævi að vera eins og börn. Við þráum hið góða, óttumst hið versta, upplifum krísur og áföll. Við vonumst líka til á fullorðinsárum og gamals aldri, að ofurhetja taki okkur upp og reddi okkur. En þannig er lífið ekki. Lífið er ekki leið skyndilausna og yfirborðstækni. Ofurhetjurnar tjá djúpsetta þrá í okkur. Guð tekur vissulega eftir þeim tilfinningum en kemur ekki eins og hetja heldur sem barn, vinur, mennsk vera, nágranni og vinnufélagi. Guð kemur í hinu venjulega en síður í hinu ofsalega. Ummyndunarfjall okkar getur verið í hinu sérstaka en þó helst á heimilum okkar, í vinnu og í samskiptum við ástvini okkar og venjulegt fólk. Í því samhengi kemur Jesús ekki með látum, heldur í rauntengslum. Ummyndunarsagan er um að Guð er með fólki á lálendi lífsins, í lautum reynslunnar og á hátindum upplifunnar. Guð er alls staðar þegar menn vilja leyfa hinu guðlega að lifa. Þá verður lífið mennskt og þar með guðlegt.

Ummyndunarsagan er um krýningu og það er merkilegt mál að Guð tjáir mönnum hvers eðlis veröldin er. En það verður enginn krýndur í þínu lífi, nema þú viljir. Þig dreymir ofurhetjur – en hver er hjá þér þegar þú vaknar? Er það ofurhetjan. Nei, það er Guð einn sem er hjá þér – í hversdagsleikanum, í kreppum, en líka á hátíðum – alltaf þegar þú þarft á að halda. Guð einn. Amen.

Hallgrímskirkja, 25. janúar, 2015. Síðasti sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Áhrifasaga Jesú og ofurhetjurnar – mín túlkun: Ég tel að skoða megi alla ofuhetjuhefð í menningu Vesturlanda sem áhrifasögu Jesú. Margt af einkennum og djúpþáttum ofurhetjuhefðarinnar og ofurhetjanna má rekja til Jesúsögunnar. En mér virðist ekki vera hægt að skýra Jesú út frá ofurhetjum heldur aðeins öfugt.