Greinasafn fyrir merki: himnaríki

Lífsleikni og hvísl Guðs

Ríkur maður bauð vinkonu heim til sín. Þegar gesturinn kom fóru þau upp í háan útsýnisturn til að skoða umhverfið. Heimamaðurinn benti í allar áttir. „Þetta land þarna í austri á ég, þú sérð hæðirnar. Akrarnir þarna suður frá eru á mínu landi. Ég keypti líka allt landið, líka fjöllin sem þú sérð í vestri. Til norðurs líka, allt að borgarmörkum, sem við reyndar sjáum ekki.” Ræðan var áhrifarík og landeigandinn var rogginn. Vinkonan benti beint upp í loftið og spurði: „En áttu eitthvað í þesari átt? Hvernig er með eignina á himnum?” Er þetta góð saga? Reyndar er hún ein af mörgum tvistuð útgáfa af freistingasögunni. Bestu sögur heimsins hafa inntak eða visku sem fólk græðir á. Við græðum meira á lífsvisku en á öllum löndum heimsins.

Guð er hjálp mín

Biblíusaga dagsins eru um ítökin á himnum, hvað við eigum þarna uppi. Sagan er viskusaga um lífsleikni. Hún er útlistun á hvernig við menn ættum að lifa til að vel fari fyrir sjálfum okkur og samferðafólki okkar. Sagan er erkisaga, sem Jesús sagði til að efla hugsun fólks. Hann vildi, að fólk staldraði við, hugsaði og greindi á milli þess, sem væri einhvers virði og hins sem væri rugl og hjóm. Í guðspjallinu býr hinn ríki við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavörur þess tíma. Klæðið var úr úrvalsbómull af Nílarbökkum og litarefnið var unnið úr krabbadýrum, sem sé topptíska tímans. Karlinn var vel stæður. En fyrir dyrum hans var svo Lasarus, öreigi og þurfamaður. Reyndar er hann eini maðurinn, sem ber nafn í sögum þeim sem guðspjallamaðurinn Lúkas hafði eftir Jesú. Nafnið Lasarus merkir „Guð er hjálp mín.” Nafnið var ekki út í hött. Þó hann hefði verið lukkugrannur í jarðlífinu var hann lukkumaður í hinu eilífa. Sá voldugi og vel stæði sinnti ekki hinum fátæka og hunsaði því ábyrgð sína. Það gerðu hins vegar hundarnir, sem sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Dauðinn kom að óvörum. Báðir létust. Abraham tók á móti Lasarusi, sem merkir að hann fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki var ólánssamur og leið kvalir handan grafar. Í sögunni er hann það nærri að hann sá betlarann Lasarus álengdar fjær, sá hve vel var fyrir honum séð og hverrar sælu hann naut. Hann bað um að Lasarus færði honum vökva til að slökkva brunasviða og lina þjáningar. En honum er bent á, að enginn samgangur væri milli sviða og enginn möguleiki á bót. Þá bað hann um, að bræður hans yrðu varaðir við. En Abraham, ættfaðir Hebrea og Gyðinga, sagði honum að þeir myndu ekki frekar en aðrir láta af villu síns vegar þó þeir sæju upprisinn mann. Þessi saga Jesú vísaði þar með á framtíð Jesú sjálfs.

Andleg gæði varða inntak

En sagan er rosaleg. Um aldir hafa menn viljað skilja hana bókstaflega og búa til kenningar um helvíti og himnaríki. En saga Jesú er ekki lýsing á yfirborðsmálum. Sögur Jesú á ekki að taka bókstaflega. Þær eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Dæmisögur eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, heldur um merkingu, tilgang og dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings. Hvað er það þá, sem Jesús vill miðla þeim sem staldra við? Jesús hafði ekkert á móti auði eða ríkidæmi. Hann fagnaði því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður partíkall. Hann var skammaður fyrir að hann væri með þeim lífsglöðu. En Jesús varaði við, að menn yrðu þrælar einhvers í heimi og færu að breyta verkfæri til góðs lífs í markmið. Í því ljósi dró hann upp andstæður af ríkidæmi anda og þrældómi við efnisleg gæði. Auður væri tæki til að bæta lífið en ekki sérstakt markmið. Jesús spurði fólk skipulega að því hvað það setti í forgang og hver gildi þess væru. Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera,” sagði hann. Vinkonan spurði í sama anda. Hvaða ítök áttu þarna uppi? Hver er eign þín, viska þína, afstaða?

Erindi við okkur

Á þessi saga erindi við okkur? Erum við kannski upptekin af því að safna hlutum og eignum, vilja meira og stærra? Ruglumst við ekki stundum í ríminu og gleymum, að hlutir eru ekki markmið heldur tæki til að lifa vel? Fipumst við ekki stundum og gleymum, að fjármunir eru til að gera gott? Munum við alltaf vel, að við verðum fljótt þrælar þeirra, en ekki húsbændur. Sagan um ríka manninn varðar sálarstefnu okkar. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir, fyrir kyrru ástarinnar og faðmlög? Hefur þú tíma fyrir að næra þinn innri mann? Hefur þú næði og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Lúther sagði einhvern tíma, að maðurinn væri kengboginn inn í sjálfan sig. Það er myndræn útlegging guðspjalls þessa dags. Hinn ríki var svo upptekin af eignum sínum, að hann gleymdi þeim sem var við dyrnar og var hjálpar þurfi. Auðæfin eru mikil og auðvelt að týnast í þeim önnum sem þeim fylgja. En það er aldrei hörgull á Lasarusum heimsins. Lestu blöð og samfélagsmiðlana, talaðu við starfsfólk hjálparstofnana og fólkið í kirkjunni. Lasarusarnir eru við dyrnar okkar og bíða.

Í þjáningunni kallar Guð

Það er ekki Guð sem sendir dauða, þjáningu og sorg til að aga okkur. Guð hegðar sér ekki eins og kaldlyndur uppalandi. Guð kallar til okkar í þjáðum systrum og bræðrum, kallar okkur til mennskunnar. Í veinum fólks á þurrkasvæðum heimsins hljómar rödd Guðs. Í gráti fólks á stríðshrjáðum svæðum er Guð. Í stunum misnotaðra kvenna um allan heim hvíslar Guð. Í vanlíðan sjúks fólks í húsinu við hliðina á þér biður Guð um aðstoðarfólk. Í vanlíðan barna á lemstruðum heimilum er Guð að biðla til þín. Í fréttabréfi Hjálparstarfs kirkjunnar og fréttum fjölmiðla spyr Guð, hvort þú getir axlað einhverja ábyrgð og hver mennska þín sé. Í réttindakröfum kvenna um allan heim hvíslar Guð. Lifum vel og með ábyrgð.

Köll til lífs

Strákur keyrði niður Miklubrautina á nýjum sportbíl. Aðrir bílstjórar hægðu á sér til að virða fyrir sér bílinn. Allt í einu skall steinn á bílnum. Ökumaðurinn snöggreiddist, beygði uppá grasbalann og rauk út til að góma grjótkastarann. Það var auðvelt. Lítill strákur var skammt frá og ökumaðurinn rauk til hans og æpti. „Af hverju ertu að henda grjóti í bílinn.” Drengurinn var hræddur. „Fyrirgefðu, ég var búinn að kalla svo lengi og enginn kom. Bróðir minn er lamaður og er í hjólastól. Við vorum þarna á milli grenitrjánna og hjólastóllinn datt og bróðir minn liggur á jörðinni. Við gátum ekki komið honum upp í stólinn. Geturðu hjálpað okkur?” Það var ekki skemmdarfýsn að baki grjótkastinu. Með samanbitnar varir lyfti bíleigandinn lömuðum dreng í stólinn og horfði svo á eftir bræðrunum. Hann sá lakkskemmdina og lét ekki gera við hana fyrr en fór að ryðga undan. Hann notaði beygluna til að minna sig á hvað máli skipti í lífinu.

Hver eru ítökin uppi og hvað sérðu allt í kringum þig? Hlustaðu eftir fréttunum, hlustaðu á köllin í heiminum, hlustaðu á hvíslið hið innra í þér. Guð er að kalla til þín. Raddir heimsins eru Guðsraddirnar. Þegar þú heyrir í Guði í heiminum og skilur samhengið hefur þú líka sinnt ferðaundirbúningi í tíma þegar hinn skyndilegi dauði kemur.

A – Lúk. 16. 19-31 Hallgrímskirkja 19. júní, 2022. 1. sd. eftir þrenningarhátíð og kvenréttindadagurinn. 

Núvitund trúarinnar

Biblían er mögnuð og mikilvægt að virða sérleik hennar. Við ættum ekki að lesa Biblíuna eins og lögbók eða náttúrufræði, heldur sem stórbók um lífið, allar víddir þess og bylgjur. Við ættum að reyna að forðast að láta eigin fordóma eða forsendur stýra hvernig við lesum eða nálgust frásögur og viðfangsefni Biblíunnar, heldur leyfa þessu mikla lífslistasafni að tala við okkur og inn í okkar aðstæður. Og sögur Biblíunnar eru um allt sem fólk er að hugsa og reyna, um áhyggjur, vonir, þrá, hatur og ást, dauða og líf. Ekkert í heimi okkar manna fellur utan Biblíuviskunnar því í henni eru allar tilfinningar manna. En Biblían er ekki bara um sigra og sorgir mannlífs eða liti og form náttúrunnar. Biblían er líka um Guð, sem elskar fólk og veröldina sem við lifum í. Í Biblíunni hvíslar Guð til okkar sem viljum heyra. Og sögurnar sem sagðar eru í þessu mikla ritasafni eru um lífið, hvað við megum gera og hvernig við megum vera. Saga dagsins er ein af þessum kjarnmiklu sögum um leit fólks. Þetta er saga um mikinn lífskraft en líka mikil vonbrigði. Í henni eru margir plúsar, alls konar bónusar, sem við megum nýta okkur til velfarnaðar því saga er um okkur. Og endursögn dagsins er svona:

Guðspjallið

Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum, sem fylgdi honum jafnan. En hann hafði heyrt um, að Jesús væri snjall og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Það var spurningin. Einlæg og heiðarleg spurning. Svo beið hann eftir svari og stefnu. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri kennari með nemendur í tíma. Hver er góður? Já, alveg rétt: Það er Guð. Svo fór Jesús yfir efnið sem allir Gyðingar þurftu að þekkja og skilja: Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki og að svindla ekki á öðrum. Við eigum líka að virða ástvinina. Maðurinn kunni þetta auðvitað allt vel og sagði sannfærður: “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann og var sannfærður um að maðurinn væri aðgætinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Og svo bætti Jesús við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á hjá þér. Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – og komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.

Var þetta bara smáatriði, eitthvað sem auðvelt væri að gera? Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Þetta er sagan um að snúa sér að því sem skiptir öllu máli.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég fengið inngang í eilífðina, fengið að lifa áfram alltaf, vinna öll lottó tíma og eilífðar? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á þennan heiðarlega, elskulega auðmann og benti á eina veikleika hans, sem hindraði að hann hakaði í öll box. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig. Þær eru eina hindrun þess að þú náir því sem þú þráir.

Af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki, bisnissnillingum? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins, að við iðkuðum hamingjuna og létum ekkert hindra. Verkefni manna er stöðugt að greina hvað þvælist fyrir, hindrar fólk á veginum, þvælist fyrir svo fólk kemst ekki á leiðarenda?

Og hvernig eigum við að skilja þennan texta. Er þetta bara spurning um ríkidæmi og peninga. Nei, Jesús var að tala um gildi og það sem er innan í okkur og klúðrar málum okkar og veldur vanlíðan. Er eitthvað sem þú þarft að losa þig við, sem mengar lífsgleði þína. Það er í lagi að breytast. Við megum þora að breytast. Allt tekur breytingum, líka tilfinningar okkar og jafnvel trúarefnni. Ef eitthvað heldur þér niðri eða stoppar þig þarftu að skoða málin. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þráast við að sleppa? Þetta veit AA-fólkið og öll þau sem hafa lifað af þrátt fyrir að skalla botninn.

Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins. Vera og gera svo.

Biðja – iðja 

Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum okkur til talsverðar furðu, að börnin okkar vilja mun frekar eiga gæðastund með pabba eða mömmu en glás af peningum eða stórkostlegar aðstæður. Við puðum en gleymum kannski hinu mikilvæga – að vera.

Hvað viljum við? Viljum við kannski hafa veröldina eins og búð og stingum í körfu okkar því, sem okkur líkar best við. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það?

Ora et labora var sagt á miðöldum – biðja og iðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar. Gera eða að vera? Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði fólk og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan. En ekki öfugt.

Að vera er að vera í essinu sínu, vera með sjálfum sér, tengja við lífið, opna fyrir undrum augnabliksins. Og þessi djúpa núvitund varðar helst og best að vera í góðu sambandi við Guð. Að vera Guðs er að vera sítengdur eilífðaranetinu. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband við sýndarveruleika heldur við raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og við berum ávöxt í lífi okkar. Afstaða elur siðferði. Vera fyrst og gera svo.

Amen.

Hallgrímskirkja 20. október, 2019.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill:  1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall:  Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“