Greinasafn fyrir merki: helgisaga

Helgisaga sem ástarsaga

Helgisögur eru aldrei bara umbúðir heldur mun fremur inntak. Þær hafa gjarnan glit og glans eins og flottir jólapakkar en það er betra að taka utan af slíkri sögu og skoða innihaldið. Fæðingarsaga Jesú er helgisaga með inntaki. Jesúsagan er ekki um hvernig heldur til hvers, ekki um hvað heldur hvers vegna, ekki um yfirborð heldur merkingu. Jólasagan er ekki frétt í blaði heldur frétt um tilgang alls sem er. Hún tjáir að tilveran er björt og góð. Hún er ekki bisnissaga eða stjórnmálasaga, ekki spekisaga né heldur dæmisaga, skáldsaga eða ljóð. Sagan um fæðingu Jesú er fyrst og fremst ástarsaga. 

Ég elska þig

Fæðingarfrásaga Jesú Krists er helgisaga sem er lesin um alla heimsbyggðina á jólum. Sagan er upphafin, litrík og ævintýraleg, saga um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Hvernig á að skilja eða túlka þessa sögu? Á hún erindi við nútímafólk? Það er engin ástæða til að taka skynsemi, gagnrýna hugsun og sjálf úr sambandi þótt við njótum jólanna og verðum jafnvel meyr. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu en þau mál eru meira rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1 eða árið 0 eða fjórum árum eða sex fyrir tímatal okkar sem er vissulega kennt við Kristsburð. En hver er þá nálgunin? Helgisögur eru rammi um inntak. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og til okkar.

Stef, ímyndir og minni helgisögunnar þjóna ávallt þeim skilaboðum sem miðla á. Við getum skrælt burt það sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega. Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um guðsnánd en eru ekki sjálfkrafa lengur. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni sem var eins og stýrikerfi. Það stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið skildist og hvernig ætti að segja frá til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin sem stýrði þá rétt eins og við lifum og stjórnumst af íslensku samhengi og vestrænni menningararfleifð nú.

Jólaboðskapur helgisögunnar er um að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins með orðum eða í skilaboðum eða samfélagsmiðlum heldur kemur í eigin persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapinn um of? Nei, helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trú þráum við samt öll hið mennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til speki og gilda sem eru veröldinni lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar sem við höfum lært að kæfa. Jólin eru tími gjafa en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið. Tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða heldur þvert á móti. Nóttin er rofin barnsgráti sem tjáir erindi jólanna: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.“

Gleðileg jól má líka segja með orðunum: Ég elska þig.

Grein í Morgunblaðinu 19. desember 2020. Mynd SÁÞ af engli að störfum í helgileik Melaskóla í Neskirkju í desember 2012.

 

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.

Undur lífsins

Gleðileg jól. Nú opnum við vitund okkar gagnvart jólasögunni. Í helgileik í skóla var átta ára drengur að leika í fæðingarsögu Jesú. Hann lék harðlyndan hóteleiganda, sem ekki vildi leyfa óléttri konu að komast í skjól. Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hótelkarlinn væri verulega vondur. Hvaða góður maður sendir burt konu sem væri komin að fæðingu? Gat hann leikið svona hrotta? Á jólunum ættu allir að vera góðir. Allt í einu var drengurinn kominn í bullandi siðklemmu.

Meðan hann var að hugsa sinn gang kom að þeim dramatíska hápunkti, að hjónaleysin í jólasögunni börðu að dyrum. Drengurinn lauk upp og örvæntingarfull spurning hljómaði. „Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?“ Drengurinn hikaði og svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið, leikarar og tilheyrendur. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt en óvænt:

„Já, hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin og látið fara vel um ykkur!“

Hvíslarinn í leikritinu glennti upp augun og hálfkallaði til stráksins: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir leikaranna flissuðu í stresskasti, en önnur fölnuðu. Leikstjórinn fórnaði höndum og svo hló einhver. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.

Þetta er jólasaga um hið óvænta, sem öllu breytir. “Já, hjá mér er nóg pláss.” Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Og þannig er raunar sagan um komu Jesú. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.

Sögur – mismunandi nálgun

Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár, leikin, túlkuð, endursögð og prédikuð. Við leyfum henni að seitla inn í okkur því hún varðar það mennskasta af öllu mennsku, fæðingu barns.

Jólasagan er grunnsaga. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu – heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, upplifa hana – eða breyta henni.

Plússaga fyrir líf þitt

Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við heyrum hana og skiljum mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við heyrum söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun gistihússkarlsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum.

Við erum á stöðugri hringferð ársins og í spíral tímans. Við eldumst og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í lotteríum lífsins eða töpum öllu.

Allt hefur þetta áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við gerum best að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til visku.

Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og frumsagan um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu eða glanssögu, sem aðeins gagnast börnum.

Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þær eru klassík, sögur, sem alltaf megna að bæta við og segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og ábót. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.

Plús Guðs

Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á klemmu þína og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung lífsins?

Jólasagan er ekki um fortíð heldur líf okkar í nútíð. Sagan virkar enn og á sér alls konar útgáfur og tilbrigði líka um þessi jól. Það var undursamleg tilkynning sem birtist á facebook fyrir nokkrum dögum. Kona sem á íbúð í miðbænum í Reykjavík – í nágrenni Hallgrímskirkju – tilkynnti að hún myndi ekki nota íbúðina sína yfir jólin og ef einhvern vantaði húsaskjól vildi hún lána íbúðina. Ekki fyrir gjald – heldur ókeypis þeim sem þyrftu. Eina skilyrðið var að nágrannar yrðu ekki fyrir ónæði. Hvílík gjafmildi, traust og elskusemi. Og margir hrifust af. „Já hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin.“ Rétti jólaandinn.

Jólin – tími fyrir hið stóra

Áramót eru fín til endurmats, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma, Guð inn í heim manna. Undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og mestur er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna í iðju lífsins, kallar til þín.

Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.” Konan í miðbænum líka. Og nú er komið að þér. Eru föstu liðirnir eins og venjulega óumbreytanlegar skorður – eða má bjóða þér að upplifa undur lífsins?

Verið velkomin er erindi jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér.

Amen

Hallgrímskirkja, jólanótt.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum,

sem komst til manna á jólum.

Við bjóðum þig velkominn til þinna – fögnum þér.

Þökk fyrir að þú varðst maður,

barn meðal okkar, fyrir okkur.

Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum.

 

Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd.

Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar.

Vitja þeirra Guð.

Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.

Vitja hinna fátæku, þau sem eru á flótta undan stríðum, hin kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenn okkur ábyrgð í verki, að opna dyr okkar og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna.

Í Jesú nafni – amen

Ég elska þig

IMG_8904Guð gefi þér gleðileg jól. Og jólagleðin má berast á milli fólksins hér í kirkjunni. Gerðu svo vel að rétta fólkinu sem situr við hlið þér í bekjunum hendina og bjóða gleðileg jól!

Já, gleðileg jól eru komin, undrið er loksins orðið. Í kyrru þessa hliðs himins máttu láta fara vel um þig og hugsa: Hvað skipir þig mestu máli á þessum jólum?

Fyrst um pakkana: Á mörgum heimilum er á þessari stundu verið að rífa upp fyrsta pakkann núna, svona til að róa ungviði og kannski einstaka eldri, sem ekki ráða við sig! Hvað mun koma upp úr pökkunum þínum? Nýturðu hlýjunnar að baki gjöfunum? Eru einhverjir skyldugjafir – án hjartahlýju? Færðu kannski pakka sem kosta lítið en snerta þig þó djúpt og verða þér mikils virði af því þeir tjá ást og alúð? Pakkar eru mismunandi og gildi þeirra líka. En hvaða gjöf dreymir þig um?

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Útilokunaraðferðin getur stundum gagnast. Hugsaðu um hvað þú mátt missa. Hvað má hverfa? Eru það hlutirnir þínir, vinnan eða er það fólkið þitt? Hvað er það, sem þú getur alls ekki án verið?

Vegna starfa minna á ég trúnað margra og ég sperri eyru þegar fólk er á krossgötum lífsins – og stundum við ævilok – gerir upp og talar um stóru málin. Hvað skiptir fólk máli þegar allt er skoðað? Það er lifandi fólk, maki, börn, ástvinir – ekki dótið. Og oft er stærsta sorgin við lífslok að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum.

Bestur

Pakkarnir þínir – hvernig verða þeir? Þegar drengirnir mínir voru litlir skrifuðu þeir orð á blað, og líka setningar frá hjartanu, áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum. Á blöðunum stóð: “Pappi er bestur” eða “Mamma er best í heiminum.” Þetta voru ekki lýsingar á staðreyndum, sem allir eru sammála um, heldur fremur tjáningar á tilfinningum, afstöðu og trausti. En við, sem fengum svona ástarbréf glöddumst. Á einum sneplinum stóð: “Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn upplifa margt og sjá flest sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda fólks, þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Ég elska þig – þetta undur að fá að elska og vera elskaður. Það er það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði  – Ég elska þig, pabbi – verður ekki  metinn til margra króna, en varð mér óendanlega dýrmætur.

Elskar þig einhver?

Um hvað er jólaboðskapurinn? 

Og þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan, helgisagan í Lúkasarguðspjalli, varðar það mál. Hvernig eigum við að bregðast við þessari upphöfnu sögu um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, ekki heldur um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu, en þau mál eru fremur rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, eða árið 0, eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar, sem er vissulega kennt við Kristsburð.

Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin varðar ekki bókstaf sögunnar heldur inntak hennar, sem er persónulegt og raunar persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft – af ástríðu. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins bréflega eða í bók heldur kemur í persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapin um of? Nei, vegna þess að efni og form helgisögu þjónar ákveðnum tilgangi – að sýna hið guðlega samhengi, hina persónulegu nálgun. Hið ytra þjónar hinu innra. Aðferð helgisögunnar er að nota stef, ímyndir og minni, sem þjóna boðskap eða skilaboðum. Við megum alveg skræla burt það, sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega.

Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um Guðsnánd, en eru það varla lengur, jafnvel hindrun trúar. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til forna til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið og sagan gengi upp og hvernig átti að segja hlutina til að samhengi og algert mikilvægi væri ljóst. Þetta var túlkunarrammi helgisögunnar.

Með hjartanu

Í spekibókinni Litla Prinsinum (eftir Antoine de Saint-Exupéry) segir refurinn við drenginn að skilnaði þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu.”

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru við öllu eða taka allt bókstaflega. En við ættum að leggja okkur eftir inntaki fremur en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd, persónu fremur en sögu.

Jólajafir eru jafnan í umbúðum. Svo er einnig með jólasöguna en þegar búið er að taka umbúðir helgisögunnar burtu kemur gjöfin í ljós, það sem máli skiptir. Stærsta gjöf jólanna, sem við getum öðlast og opnað, er lífsundrið, að tilvera þín er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti – nóttin er rofin með gráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp lífspakkann og munt uppgötva að alla tíð þráði persónudjúp þitt svörun.

Dýpstu sannindi lífsins eru með þeim hætti að hvert barn getur skilið og með hjartanu. Stærsta lífsgjöfin er “Ég elska þig.”

Guð er elskhugi, ástmögur, sem elskar ákaft og tjáir þér alltaf – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, í fangi ástvina og alls staðar: “Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Njóttu gjafanna þinna í kvöld, efnislegra og óefnislegra, horfðu í augun á fólkinu þínu og sjáðu í þeim undur lífsins. Gjöf lífsins er að Guð sér þig, gefur þér jólagjöf í ár og segir við þig:

„Ég elska þig.“

Amen. – í Jesú nafni.

Bæn.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur

og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——— Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Íhugun og bæn – aftansöngur á aðfangadagskvöldi, 2015. Sigurður Árni Þórðarson.

Lexía:  Mík 5.1-3

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Guðspjall:  Lúk 2.1-14

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.