Greinasafn fyrir merki: Helga Sigurjónsdóttir

Steinar Sigurðsson + minningarorð

Ég sá Helgu og Steinar þegar ég beygði upp að Hallgrímskirkju. Þau stóðu á leigubílastéttinni milli Tækniskólans og kirkjunnar. Það var greinilega gaman hjá þeim og þau hlógu. Svo opnaði Steini faðminn og tók utan um konu sína og kyssti hana af íslenskri ástúð og ítalskri áfergju – og hún tók á móti. Senan var eins og ástríðutangó með dramatískan kirkjubakgrunn. Þeim var alveg sama þótt presturinn snarhemlaði og hlypi út og hrópaði þakkir til þeirra fyrir að gleðja tilsjáendur. Þau bara héldu áfram.

Lífið er stutt – og skemmtilegt. Lífið er til að elska, vera og kyssast. Þetta var í ágúst í fyrra. Og ég hugsaði um Steinar og Helgu flesta daga síðastliðinn vetur þegar ég keyrði í vinnuna og fram hjá kossastaðnum. Síðustu dagana kom ástarsenan enn upp í huga. Eftirsjáin hríslaðist út í taugaenda.  Og allt í einu er annar bragur á veröldinni. Lífsþorstamaðurinn Steini er farinn, kemur aldrei aftur með hraði, vinnur fljótt og vel og dassar kryddi í mat eða lit og gleði í líf okkar og heimsins. Hann þorði að vera. Hann sem var svo lífríkur skilur eftir hjá okkur fyrirmynd um að kyssa og vera.

Upphaf og fjölskylda

13 09 Steinar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 13. september árið 1958. Hann var alla tíð meðvitaður um númer fæðingardagsins. Hann fagnaði ákaflega á handboltaleikjum og öðrum íþróttaviðburðum þegar staðan var 13:9 – eins og það væri honum til sérstaks heiðurs. Ættingjarnir og vinir fengu stundum myndir af markatöflum þar sem 13:09 kom fyrir. En þó hann væri oft á klukkunni í ÍR hef ég þó engar fréttir um, að hann hafi breytt niðurstöðum í 13:9. Þó Steini væri grallari kunni hann sig.

For­eldr­ar Steinars voru hjón­in Sigurður Kristófer Árnason og Þorbjörg J. Friðriksdóttir. Pabbinn var skipstjóri. Mamman hafði líka í mörg horn að líta, sá um heimili og strákagengið og vann alla tíð utan heimilis einnig. Hún var hjúkrunarfræðingur og síðar hjúkrunarkennari. En Þorbjörg lést fyrir aldur fram, aðeins 49 ára gömul.

Steinar var annar í röð fimm bræðra. Friðrik er eldri en yngri eru Árni Þór, Þórhallur og Sigurður Páll. Fimm strákar og allir miklir af sjálfum sér. Það þarf ekki mikla veraldarvisku eða þekkingu á einhverjum þeirra bræðra til að skilja, að oft var gaman á heimilinu og talsvert gekk á. Steinar var kátur og uppátækjasamur. Bernskusögurnar af honum eru því litríkar. Þegar fataskápar heimilisins voru málaðir varð að endumála því Steinar fór inn í þá áður en þeir voru fullþurrir. Sagan segir, að skápana hafi orðið að mála níu sinnum! Svo var hveitidallur mömmunnar freistandi því það var svo gaman að hella úr honum og skoða hve víða hveitið gæti dreifst. Silfur heimilisins fór á flakk og sósulitur fór á nýmálað. Einu sinni kveiktu bræðurnir í gardínu heima og þegar byrstur slökkviliðsmaður spurði hvort strákunum þætti sniðugt að leika með eldinn urðu þeir lúpulegir og gengust við verknaðinum. En þeim þótti nú íkveikjan samt dálítið sniðug! Einu sinni sturtuðu eldri strákarnir einum yngri út af svölunum og niður í snjó fyrir neðan. Steinar fékk hugmyndir og framkvæmdi, en kom aldrei sök á aðra. Hann gekkst raunar við fleiru en hann hafði gert því hann taldi sig ábyrgan fyrir bræðrum sínum. Steinar vildi frekar alsaklaus taka við skömmum en að þeir yrðu fyrir aðkasti. Steinar var kjarkmaður og vék sér aldrei undan.

Steinar þoldi breytingar og þorði að breyta. Þegar í bernsku var ljóst, að hann var víðfeðmur og þoldi hið stóra. Hann var af sveitasendingarkynslóðinni. Einu sinni var hann á Böggvistöðum í Svarfaðardal og þá þurfti að draga hann upp úr feni þegar hann var sokkinn upp að geirvörtum. Hann var líka ungur sendur norður í Lómatjörn í Grýtubakkahreppi og var önnur ár á Grund í sama hreppi. Geðslag hans og skaphöfn passaði við Þingeyinga. Steinar var af Skagfirðingum kominn og Snæfellingum, en var líka stórþingeyskur að lífsafstöðu.

MH og arkitektúr

Foreldrar Steinars voru drengjum sínum fyrirmynd um dugnað, vinnusemi og menntun. Ekkert annað en menntun stóð til boða. Steinar fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þar blómstraði gleðigjafinn og naut vinsælda. Hann spilaði á gítar, heillaðist af pönkinu, spilaði í hljómsveit og var kunnur af nafninu Steini Rotten í anda Johnny Rotten þess tíma. Það var músík í Steinari og á vinnustofunni hans heima hanga gítararnir í röð. Hamrahlíðarárin voru skemmtileg og Steinar varð stúdent frá Menntaskólanum vorið 1978.

Og hvað svo? Steinar var meðvitaður um, að umgjörð mannlífs mætti skipuleggja með ýmsum hætti og var líka drátthagur. Hann hafði verið á sjó, var útsækinn. Hann sagði löngu síðar í viðtali við erlendan fagfjölmiðil, að hann hefði viljað búa erlendis. Því hefði hann lært það, sem skolaði honum til útlanda. Hann skráði sig til náms í arkitektúr í Glasgow og var í Skotlandi veturinn 1978-79. En Thatcher eyðilagði menningardeiglu Bretlands með himinhækkun skólagjalda. Nemendur heimsins – og Steinar þeirra á meðal – höfðu ekki lengur efni á skólaveru á Bretlandseyjum. Steinar fór yfir sundið til Danmerkur og hélt áfram arkitektanámi í Kaupmannahöfn og lauk prófi frá kúnstakademíunni árið 1986. Hann fór svo vestur um haf og lauk mastersnámi í Seattle í Washington árið 1988.  Samhliða námi starfaði Steinar á arkitektastofum í Kaupmannahöfn og Seattle.

Heimsborgarinn

Alla tíð útsækinn – en á þessum árum varð Steini heimsborgari. Hann eldaði með skólafélögum sínum og lærði trixin í kokkhúsinu og á kryddin og kynntist vínum veraldar. Hann ræddi menningu, hlustaði á sögur og var fólki opinn, kátur og náinn. Íslendingurinn ógnaði engum, heldur var virtur af sjálfum sér, hæfni og gæðum og tengdist fólki víða að. Eitt sumarið ók hann bíl fyrir bílaleigu suður alla Evrópu og fór til skólabróður síns í Lígúríu á Norður Ítalíu. Og þar vann hann um sumarið og lærði ítölsku í leiðinni og að meta matargerð Ítala. Íslandsgáski rímaði ágætlega við káta, orðmarga og tilfinningaríka Ítali. Og Steinar varð Miðjarðarhafsmaður. Seinna lærði hann líka bandarískan hressileika vestur við Kyrrahaf. Og það var eins og Steini ætti vini í öllum borgum fyrir utan svo að þekkja alla bestu veitingastaðina.

Samverkafólk og verkefni

Eftir öll ævintýrin var komið að heimför. Steinar var lánssamur með samverkafólk, verkefni og vinnustaði. Hann byrjaði hjá Studio Granda og var með í ævintýrinu að teikna Ráðhúsið. Síðan var hann á Teiknistofu Manfreðs Vilhjálmssonar og stofnaði árið 1996 teiknistofuna Manfreð Vilhjálmsson – Arkitektar ehf og varð síðar meðeigandi VA Arkitekta. Á árunum 2007 -11 var Steinar arkitekt Kaupþings og stofnaði svo eigin arkitektastofu, Teikn arkitektaþjónustu, árið 2011 og rak til dauðadags. Steinar kom að hönnun fjölda aðal-og tákn-bygginga borgar og Íslendinga. Og Steinar var metinn og virtur fyrir verk sín og hlaut margar viðurkenningar fyrir og aðdáun þeirra sem hann vann fyrir.  

Helga og fólkið hans Steinars

Svo var það jólafríið þegar hann kynntist Helgu árið 1983. Steinar fór í partí og svo á ball. Helga var á Opel Kapitan árgerð 1961 og var bílstjóinn. Steinari var starsýnt á þessa konu, sem hann hafði ekki séð áður og sagði skýrt og ákveðið. „Ég fer með þér.“ Helga Siugrjónsdóttir var ekki viss um hvort það var bíllinn eða konan við stýrið sem heillaði. En svo vildi hann nánara samband en bara rúntinn á ball. Og bað hana að koma til sín til Köben. Steinar fékk hugmyndir og viðraði óhræddur við Helgu sína og hún hugsaði og sagði já – eða nei. Hún virti Steinar frá byrjun, hreifst af því, að hann var svo tilfinningaríkur og kallaði upphátt í hrifningarbríma að hann væri svo ástfanginn. Og hvað gat hún gert gagnvart sjarmörnum? Hún sagði upp vinnunni í Kópavogi og þau Sigurjón Árni, sonur Helgu, fluttu til Hafnar. Og við tók litríkur, ástríkur og viðburðaríkur hjúskapur, sem blómstraði allt til enda.

Eftir Hafnarárin fór fjölskyldan svo vestur um haf. Og Kaninn vildi enga lausung í hjúskaparmálum. Þau Steinar og Helga fóru til Íslendingaprestsins Haraldar Sigmar í Seattle, sem ræddi við þau um dýrmæti hjónabandsins en líka skuldbindingar. Þau höfðu orð klerksins að leiðarljósi síðan og gengu í hjónaband 5. desember árið 1987. Vígsluathöfnin var bæði já og fall. Helga datt aftur fyrir sig, en Steinar greip hana áður en hún féll til skaða. Helga hefur síðan stutt Steinar sinn og alla stórfjölskylduna. Helga starfar sem félagsráðgjafi og hefur unnið hjá Reykjavíkurborg. Sigurjón Árni Kristmannsson, sonur Helgu var stjúpsonur Steinars.

Dætur Steinars og Helgu eru Þorbjörg Anna, hjúkrunarfræðingur, sem fæddist í september árið 1991. Maður hennar er Hannes Ólafur Gestsson og þau eiga dótturina Unu Margréti, sem er á fyrsta ári. Og Steinar lagðist á gólfið – og þau hjón bæði – til að tala við þá stuttu á gólfinu. Steinar var tilbúinn til hins nýja hluverks afans.

Kristjana Björk, yngri dóttirin, er hagfræðingur, og fæddist í maí 1995. Maður Kristjönu er Einar Þór Ísfjörð.

Steinar var alla tíð mikill heimilismaður og ástríkur eiginmaður. Hann var natinn og ábyrgur faðir, bonus pater familiae, sinnti dætrum sínum og stjúpsyni, áhugamálum þeirra og uppeldisþörfum. Og svo gætti hann að næringu þeirra og menntun. Það var alltaf líf og fjör á heimilinu. „Vá hvað þau gerðu mikið“ sagði ástvinur um Steinar og fjölskyldu. Þau þorðu að fara í skyndiferðir og líka að gera lífsreisurnar litríkar. Einu sinni tilkynntu Helga og Steinar að þau ætluðu í sumarbústað í Sandgerði í skólafríi stelpnanna. Þeim þótti það ekki sérlega spennandi kostur. En svo fóru þau af stað og á leiðinni var hringt í pabbann. Reyndar var það Helga, sem sat við hlið hans í framsætinu sem lét símann sinn hringja í hann. Og Steinar játaði, þrátt fyrir mótmælin úr aftursætunum, að fara aðeins upp á flugvöll til að sinna smáverkefni. En þegar þangað kom var það ekki arkitektinn, sem reddaði smámáli, heldur alsæll og brosandi pabbi sem afhenti ungviðinu umslög með farseðlum og vegabréfum. Og þá uppgötvaðist að ferðin væri til New York. Menn ættu aldrei að vanmeta sumarbústaðaferðir í Sandgerði, alla vega ekki í boði Helgu og Steinars.

Og Steini fór með Sigurjóni Árna á handbolta- og fótboltaleiki í Danmörku en þau bjuggu einmitt í Danmörku þegar Danir tóku þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta í Mexíkó árið 1986. Og þegar þeir fóru saman á  Seattle Seahawks leiki í Seattle, þá var mikið hrópað og hvatt.

Lífheimur Steinars hverfðist um fólkið hans. Hann talaði mikið um Helgu og börnin við fólkið, sem hann hitti. Hann bjó til brýr tilfinninga og innsæis gagnvart heimi hans. Því fannst mér ég þekkja þau þegar ég loks hitti konurnar og stjúpson hans. Heimur Steinars var opinn öðrum og því er svo mikil félagsgeta og félagsauður í fólkinu hans Steina.

Lífríkur veislumaður

Steinar var veislumaður og elskaði ævintýri. Hann var e.k. karlútgáfa Babette. Og það verður að segja satt og segjast eins og er, að Steinar var ekki og hefði alls ekki getað orðið vegan. Heimili þeirra Helgu varð stórfang fjölskyldu, vina og hverfis. Heimilið var opið, Steinar fór í eldhús og miklar veislur eða naglasúpur galdraði hann fram – oft við furðu Sigurjóns Árna og dætra hans, sem ekkert höfðu séð í ísskápnum, en undrin urðu. Steinar var líka vínspekingur og hafði góða þekkingu, gott nef og líka bragðskyn. Það eru til dásamlegar myndir af ungum Steinari á ferð í Evrópu með mikið safn af flöskum og alla ævi hélt hann áfram að auka þekkingu sína á vínum. Vinirnir nýttu jafnvel facetime í Ríkinu til að fara með rekkunum og fá Steinar til að benda á það, sem best væri að kaupa. Steinar las matreiðslubækur eins og reyfara. Og Helga lærði snemma í tilhugalífinu, að ástmaður hennar lagðist í gúrmetískar rannsóknir þegar í byrjun desember til undirbúnings jólamatnum. Og það voru engin burtflogin hæsni, sem hann eldaði, heldur alvöru matur. Steinar valdi líka vel verkfærin í kokkhúsið, passaði að setja blautt undir skurðarbrettin til að hnífar yllu engum slysum. Þegar hann fór í ferðir og ætlaði að elda tók hann jafnan með sér slíkan lager af kryddi sem meðal-matvöruverslun hefði verið vel sæmd af. Steinar gerði ekki bara sósur heldur var sósufagurkeri. Á stóru matardögunum bárust taktföss skurðarhljóðin gjarnan um húsið þegar að morgni. Þá var Steini byrjaður að efna til sósu, sem nota átti að kvöldi. Maturinn hans Steina var ekki bara veisla fyrir bragðlauka eða afrek yfir pottunum heldur hafði tilgang. Hann eldaði fyrir fólk, vildi að fólk settist niður til að vera saman, eiga samfélag, njóta, deila hugmyndum, sögum, skoðunum og gæti viðrað tilfinningar og svo auðvitað hlegið. Og í þessu húsi, sem er miðjað um borð, er vert að minna á, að Steinar iðkaði guðfræði borðhaldsins. Steinar útdeildi mat við borð, valdi vín við hæfi og til blessunar. Hann gegndi hlutverki manneflingar, sem er heilagt, og útdeildi í þágu samfélags. Og svo hafði hann orð um þetta allt og glettnin skein úr augum: „Så tar man först et sölvfad … “ og svo hafði Steinar platta hjá sér í eldhúsinu í L10: „I love cooking with wine – sometimes I even put it in the food.“ Ég held nú reyndar að sósugerð Steina hafi aldrei liðið fyrir vínskort. Kannski segir það talsvert um hugðarefni hans, að þegar Steinar varð fimmtugur gáfu bræður hans honum dag í eldhúsi Friðriks V – sem hann kunni vel að meta. Alls staðar þar sem Steinar fór var hann kominn í pottana og pönnurnar. Einu sinni var honum boðið að vera með í öflugum Formúlu 1 hópi og meðlimirnir elduðu flestir. Fjörið var mikið, eldamennskan öllum hjartansmál, en í þessum alþjóðlega klúbbi meistara var nýi utangarðsmaðurinn brátt virtur snillingur. Að njóta eldamennsku Steinars var að njóta matarsnilli heimseldhússins og margar máltíðir hans voru umfram það sem margir Michelinkokkar heims myndu afreka. Hið fábrotna varð að undri, kraftaverk verða í borðhúsum.

Eigindir Steinars

Hvernig manstu Steinar? Hann var litríkur hæfileikamaður. Ég kynntist Steinari vegna tengslanna við Halla, bróður hans. Ég fylgdist með þessum geðríku hæfileikamönnum og dáðist að djúpum tengslum þeirra, umhyggju og gagnkvæmri virðingu. Samband þeirra varð mér fyrirmynd um ræktað vinasamband. Og fátítt er það, að faðir nefni son sinn í höfuð bróður. Það segir mikla sögu og Steinar yngri er farinn að elda, baka og spila á gítar.

Já hvernig manstu Steinar? Hann var uppátækjasamur unglingur og kátur menntaskólastrákur, sem þroskaðist í góðan fagmann og heimsborgara. Steinar varð meistari verkefnastjórnunar, var mjög laginn við að sætta andstæðar skoðanir og finna nýjar leiðir. Í huga Steina voru tækifæri aðalmál fremur en hindranir. Í stórfjölskyldunni sem og í arkitektavinnunni var Steinar fljótur að opna festur, finna leiðir, redda, sækja efni og klára mál. Steini var ekki bara lausnamiðaður heldur lausnasnillingur. Hann var því einstaklega vel liðinn af verkkaupendum sínum. Þeir kunnu að meta hve Steinar hlustaði vel, tók athugasemdir gildar, tók upp skissublokkina á fundum, rissaði mögulegar lausnir og gerði tillögur strax. Arkitektinn Steinar mat mikils einfaldleika og stílhreina fegurð í hönnun. Og svo vildi hann, að auðvelt væri framkvæma það, sem hann teiknaði. Og þú mátt gjarnan minnast Steina þegar þú kemur í Gullhamra á eftir eða ferð um Keflavíkurflugvöll.

Steinar var ævintýramaður. Manstu ÍR-inginn sem studdi sitt lið með krafti og einurð. Steinar átti jafnvel til, þegar dómararnir skildu ekki leikinn eða misstu tökin á dómgæslunni, að hoppa ofan af áhorfendapöllum til að ræða við þá og hjálpa þeim í vandastörfum. Hann var ekki bara pabbi sem fylgdi sínu fólki á leiki heldur heilshugar og jafnvel andlitsmálaður stuðningsmaður. Og kappsamur var hann í að afla félagi fjár og sínu fólki farareyris á leiki og viðburði. Steinar var sumpart á undan sinni samtíð sem styðjandi foreldri. ÍR-ingar vottuðu Steinari virðingu og þökk á leik síðastliðinn laugardag.

Það var gaman að vera með Steina á leikjum, ekki bara á Húsvíkurmóti í 6. flokki eða á landsleikjum í Laugardalnum heldur líka erlendis. Hann þorði að láta í sér heyra, naut þess að vera í stemmmingshópum og fagnaði hjartanlega. Hann fylgdi ekki aðeins með í handbolta eða karlaliðinu í fótbolta heldur líka kvennaliðinu. Og Steinar vílaði ekki fyrir sér að fara um langan veg til að styðja okkar fólk. Eftir EM-leikinn á Stade de France 2016 fór Steinar fram og til baka um Evrópu til að komast heim.

Manstu kraftinn í honum? Þegar hann gerði sér grein fyrir einhverjum vanda vina, ættingja eða verktaka gekk hann í málin. Einu gilti hvort vantaði timbur í pall eða málningu til að klára verk. Dugnaðurinn og hugurinn var óbilandi og kraftmikill maður getur líka gert mistök. Stundum gleymdi Steinar stopptakkann. En hann var alltaf maður til að viðurkenna takmarkanir og að eitthvað hefði mátt betur fara. Í því er viska fólgin og viska verður til. Manstu vinnusemi Steinars? Honum hentaði ekki að gaufa og bíða. Hann gekk í málin, tók líka u-beygjur ef þurfti og fór milli landa ef það væri til að efla fólk, klára verk eða bæta veislugæði vina eða ættingja.

Manstu sjávarsókn hans og hve vel honum leið á sjó? Vissir þú að hann hafði skipstjórnarréttindi á skipum undir tólf metrum?

Einn af stóru kostum Steinars var hve gjöfull forystumaður hann var. Hann setti sig aldrei á háan hest og skipaði fyrir úr hæðum. Hann var félagi, stuðningsmaður, veitull, hrósandi, jákvæður, opinskár, hlýr og eflandi. Þau, sem voru óákveðin, gátu treyst á stuðning hans. Hann hafði aldrei þörf fyrir að berja sér á brjóst, hreykja sér, heldur var jafningi. Í honum var slíkur styrkur, að hann varð gjarnan fremstur meðal jafninga. Samferðafólk hans treysti honum, virti hann og naut hans því hann tók ekkert frá öðrum. Það var gott að vera með honum í liði. Hann hafði leiðtogahæfileika af Klopp-taginu.

Steinar í Ljárskógum eilífðar

En nú eru skil. Hann fer ekki framar austur í Mosa á Síðu og dáist að fegurð jarðar. Það breiðist ekki framar ilmur um húsið frá sósugerðinni hans. Hann teiknar ekki fleiri hótel, veitingahús eða hallir. Og kemur ekki hlaupandi með krydd eða sagir. Og hann mun ekki leggjast á gólfið til að horfa í augu barnabarna sinna og sjá í þeim ævintýri framtíðar. Hann er farinn inn í blámann, Ljárskóga eilífðar. Hann signdi dætur sínar þegar hann klæddi þær í nærfötin. Við signum hann á útleið hans. Það eru okkar teikn í hans garð. Hann kyssti Helgu og sitt fólk og kyssir okkur í minngunum. Guð geymi hann, blessi fólkið hans og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför. Erfidrykkja í Gullhömrum. Útför í Hallgrímskirkju 3. desember 2019 kl. 13. Kistulagning í kapellunni Fossvogi 2. desember.

Viðtal við Steinar Sigurðsson um arkitektúrinn:

Teikn Architects: Small firm, big architectural magic