Greinasafn fyrir merki: heilindi

Vinátta

Uppástand RÚV þessa dagana er vinátta. Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 2022 var þessi pistill minn fluttur á rás 1 í hádeginu, skömmu fyrir fréttir: 

Því stundum verður mönnum á.
Styrka hönd þeir þurfa þá,
þegar lífið, allt í einu – sýnist einskisvert.

Þetta hefur verið sungið á mörgum böllum. Oft hefur allur hópurinn á dansgólfinu gefið í þegar kemur að niðurlaginu um vináttuna:

Gott er að geta talað við – einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Er það svo? Hverjir eru traustir vinir? Gera þeir kraftaverk? Og hvað er að vera vinur? Bandarískur fræðimaður hélt fram að fjórðungur Bandaríkjamanna ættu enga vini – bara kunningja, ættingja og samstarfsfélaga. Hvað um okkur? Eigum við bara kunningja eða líka vini? Kunningjar geta skemmt sér saman og talað margt, en þó ekki um viðkvæmu málin. Það gera vinir hins vegar. Kunningjar eiga sér leikreglur um mörk samskipta, en vinir tala á grundvelli trausts og trúnaðar. Kunningjar fara að mörkum hins óþægilega, en vinir þora að fara lengra vegna gagnkvæms trausts, umhyggju og heiðarleika. Kunningjar geta verið afar skemmtilegir félagar, en vinir efla hvern annan. Og reynsla mín sem prests er að þau hjónabönd dugi best þegar makar eru vinir en ekki bara félagar með aðgang að sama ísskáp og rúmi.

Í teiknimyndinni Tommi og Jenni mála bæinn rauðan er gott lag og grípandi texti sem margir krakkar hafa sungið fyrir framan skjáinn:

Ekkert jafnast á við það,
að eiga góðan vin í stað.
Að standa tveir í hverri raun
eru vináttulaun.

Þó skáldskapurinn sé ekki rismikill skilst boðskapurinn – að það sé mikilvægt vera ekki einn þegar maður á erfitt. Allir þarfnast stuðnings einhvern tíma. Í afþreyingarefni er vinátta fremur tengd börnum en fullorðnum. Þegar vinátta er gúgluð á netinu birtast aðallega myndir af bangsa, teiknimyndir eða myndir af hestum og hundum! Hvað merkir það? Eru bestu vinirnir dýr en mennirnir eru frekar kunningjar og félagar?

Maður, sem ég hef þekkt í áratugi, kom í heimsókn til að tala við mig. Við röbbuðum saman, miðluðum fréttum og fórum víða. En svo kom að því að viðmælandi minn fór inn á svið, sem var hvorki einfalt né auðvelt. Hann var kominn til að gagnrýna mig og benda mér á bresti mína. Hann sagði mér frá göllunum, sem ég gæti bætt. Ég sat á móti þessum manni, sem ég hef svo oft talað við, dáðst að, stundum pirrað mig yfir en líka hrifist af. Ég fann hversu heill hann var og talaði við mig í trúnaði. Svona talar ekki kunningi manns, heldur raunverulegur vinur. Vinur er sá er til vamms segir.

Allir þarfnast vináttu. Djúprit mannkyns tala um vinaþörf. Í Biblíunni er Guði lýst sem vini. Jesús sagði: „Ég kalla ykkur ekki framar þjóna … en ég kalla ykkur vini.” Vinirnir styðja þig í vandræðum tjá Tommi og Jenni. Og „traustir vinir geta gert kraftaverk“ var sungið á móti sól. Fjölskyldubönd hafa verið sterk á Íslandi, en mig grunar að gildi þeirra fari minnkandi og önnur tengsl fólks komi í staðinn og þá ekki síst vinatengsl. Kunningjar eru mikilvægir í lífinu en vinir dýrmæti. Áttu vin? Hverjum treystir þú fyrir stóru málunum? Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Uppástand, mánudaginn 4. júlí 2022. Hljóðskráin RÚV er að baki þessari smellu.

Brauðið dýra og önnur brauð

Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir metfé. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér! 
 
Hljóðskrá prédikunar í Hallgrímskirkju 14. mars er að baki þessari smellu.
 
Textinn er svo hér að neðan. 2021 14. mars.
Fjórði sunnudagur í föstu.
 

Faðir minn var bókamaður og aðdáandi Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi. Hann hafði einfaldan smekk í jólagjafamálum sem létti líf okkar fjölskyldunnar. Hann óskaði sér alltaf bókar eftir Laxnes. Jóladagana sat hann svo glottandi og kumrandi yfir kúnstugum sögum frá stílmeistaranum og orðhaganum í Gljúfrasteini.

Ein jólin fékk hann Innansveitarkrónikuna sem lá lengi á borðinu við hlið lestarstóls pabba. Ég kíkti svo í hana. Í bókinni er merkileg saga sem var reyndar gefin út sér, umrituð og lagfærð lítillega. Það er sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá Guðrúnu Jónsdóttur sem var vinnukona prestsins í Mosfelli. Henni var treyst til að fara með brauðdeig í seyðslu á hverasvæði í Mosfellsdal. Brauðferðirnar voru ábyrgðarmál og jafnvel hættulegt starf vegna hitans á þessu svæði risabökunarofns. En Guðrún tók upp seydda brauðið þegar það var fullbakað og kom nýju deigi fyrir. Sagan segir að þegar hún hafði eitt sinn tekið upp stórt brauð var komin þoka þegar hún ætlaði heim. Hún var svo dimm að Guðrún villtist og var týnd í þrjá sólarhringa. Hún fór víða um Mosfellsheiði með stóran brauðhleifinn. Að lokum komst hún heim og fólki til furðu hafði hún ekki borðað af brauðinu. Þegar hún var spurð af hverju svaraði hún: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Sem sé, hún braut ekki brauðið til að nærast. Rigningarvatnið var það eina sem hún setti upp í sig á þesari löngu göngu. Af hverju bar hún fæðuna en notaði hana ekki sér til styrktar og lífs? Hún var jafnvel búin að krafsa erfðaskrá sína í moldarbarð þar sem hún lagðist fyrir svo ljóst var að hún var hrædd um líf sitt. En hún borðaði ekki brauðið. Var ástæðan þrællyndi, blind hlýðni við reglur? Nei, það var siðferðisstyrkur. Guðrún bar virðingu fyrir verkefni sínu, skyldum sínum, vera trú því sem henni var trúað fyrir. Halldór Laxnes hafði eftir Guðrúnu: „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Enginn hefði álasað Guðrúnu að hafa matarlaus og vegna svengdar borðað brauðið á þessari löngu villuför. En það gerði hún ekki. Það var ekki í samræmi við siðferði hennar, vinnuafstöðu, skyldusýn og lífsafstöðu. „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Innrætið skiptir sem sé máli.

Sagan um brauðið dýra varðar lífsafstöðu og rímar við áherslur í textum dagsins. Hvað er satt? Hvað er mikilvægt? Hver er lífsafstaða okkar? Er mikilvægt að tileinka sér siðferði eða er bara best láta reka stefnulaust? Þessi látlausa en litríka saga úr Mosfellssveit lýsir afstöðu og siðferði. Að konan skyldi ekki í hungri sínu kroppa úr brauðinu er ótrúlegt. Sagan er eins og dæmisaga úr safni Jesú. Atburðarásin er ydduð og ótrúleg svo tilheyrendur geri sér grein fyrir að boðskapurinn sé mikilvægur og eftirtektarverður. Og hver er hann? Siðferði – mikilvægi þess að axla ábyrgð, láta ekki eigin hag eða græðgi stjórna öllu. Heilindi.

Í siðferðisglundroða og sýndarsiðferði sýnist mörgum skylda að reyna að ná brauðunum, athyglinni, peningum, völdum og viðhlægjendum. Þá er sannleikurinn ekki við völd né heldur siðferði. Ekki þarf lengi að skygnast um í vestrænum samfélögum til að sjá að sjálfhverfir lukkuriddarar sæki í gæðin. Tveir síðstu áratugir hafa á Vesturlöndum verið blómatími hinna sjálfhverfu sem vilja gleypa allt. Það er fólkið með sjálfsástarröskun, narcissistarnir siðblekktu. Þegar fólk er ekki meðvitað um aðsóknina vandast málið og margt fer illa í rekstri peningastofnana, fyrirtækja og samfélaga þegar þeir ná tökunum. Sjáflhverfungarnir með sjálfsástarröskunina leita í valdastofnanir, stjórnmál og peningastofnanir. Norskir vinir mínir hafa sagt mér að þar í landi sé reiknað með að siðblekktir eða siðblindir menn séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar. Af því að sjálfhverfungar reynialltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð sé nauðsylegt að beita síunarkerfum í ráðningum og stífu eftirliti. Sjálfhverfungarnir borða alltaf allt brauðið og skila engu úr ferðum lífsins. Þeir koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra.

Í dag er brauðdagur í kirkjuárinu. Á fjórða sunnudegi í föstu er minnt á brauð lífsins. Brauð var og er tákn um líf. Kirkjur eru brauðhús. Í kirkjuhefðinni er talað um brotningu brauðs. Jesús var veislukarl og útdeildi brauði til næringar. Í miðju kirkna heimsins er borð sem kallar fólk til samfélags, samtals og veislu. Textar dagsins varða brauðið á því borði og tjá áherslumál Jesú og þar með lífsafstöðu trúmanna. Brauð í Gamla testamentinu var forsenda að áherslur Jesú á brauð lífsins skildust. En Jesús talaði sumt í gátum og annað í dæmisögum til að opna vitund fólks fyrir hvað skipti máli, til hvers lífið væri, hvernig fólk gæti lifað og notið lífsgæða. Við erum minnt á að svengd fólks í vanda er mætt með næringu. Daglegt brauð er eiginlega daglegt kraftaverk. Fólk í vanda í lexíunni og skipverjar í nauðum í pistlinum fá mat, von og þeim var bjargað. Jesús byggði á reynslu þúsunda kynslóða og minnum úr hebresku samfélagi þegar hann talaði um brauð lífsins. Hann setti sjálfan sig í tákn- og raunsamhengi sveltandi fólks, skildi þorsta og svengd, lífgaði, veitti von og blessaði. Boðskapur hans var skýr, hann væri kominn frá Guði til að næra og gefa það sem fólk og heimur þarfnast til að geta notið lífsins.

Í kirkjulífi COVID-tímans er ekki hægt að brjóta brauðið. Bið er á að altarisgöngur hefjist að nýju. Sóttvarnarástæður eru ástæðan. En hlutverk kirkna er óbreytt. Það er að verja líf, vernda fólk og efla til lífsgæða. Þrátt fyrir að við brjótum ekki brauð og göngum ekki til altaris getum við svo sannarlega íhugað boðskap Jesú um brauð og líf. Í djúpi tímans, vestrænnar menningarinnar og pólitík er vaxandi skilningur á að ekkert samfélag og ekki heldur lífríkið þolir yfirráð sjálfhverfunganna. Æ fleiri skilja að ráð þeirra eru til dauða. Sannleika um lífið þarf að verja og siðferði verður að ráða för.

Í vikunni hreifst ég eins og margir aðrir af viðtölum við Harald Þorleifsson og lífsafstöðu hans. Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir mikla fjármuni. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér. Af hverju? Jú, vegna þess að þau vildu borga skatt af söluhagnaðinum á Íslandi. Ísland hefði gert Haraldi kleyft að menntast og hann hefði notið góðs heilbrigðiskerfi sem þjónaði honum vel í heilsuvanda hans. Íslenskt samfélag og stofnanir þess höfðu gert Haraldi kleyft að komast þangað sem hann er í dag. Sem sé þakklæti, ábyrgð, siðferði og þroskuð lífsafstaða. Hann hefði getað látið hagnaðinn hverfa, étið allt brauðið og ekki skilað neinu til uppeldissamfélags síns. En hann var trúr skyldum sínum og borgaði til uppeldissamfélags síns. Þetta er að vera samfélagslega ábyrgur. Og í vikunni urðum við vitni að frábæru verkefni sem Haraldur beitir sér fyrir. Hann er að rampa Reykjavík. Haraldur er í hjólastól og veit af eigin reynslu að bæta þarf hjólastólaaðgengi til að fólk komist með þokkalegu móti inn í fyrirtæki og verslanir. Haraldur fer ekki aðeins í brauðferðir sínar á hverasvæði heimsins heldur kemur úr ferðinni með brauð, ekki bara eitt heldur mörg.

Jesús Kristur reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur með því að útdeila brauði og gæðum. Ölturu í kirkjum minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig. Hinn kristni boðskapur er að allir megi njóta gæða. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. En boðskapur texta dagsins varðar ekki bara að fá að borða góðan mat heldur njóta hamingju, frelsis, mannréttinda og framtíðar. Brauð lífsins merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt og gæðatengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði. Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Jesús Kristur frelsar líf, nærir og blessar. Og Guðrún Jónsdóttir axlaði ábyrgð sem er í samræmi við þroskaða samfélagssýn. Haraldur Þorleifsson sýndi siðvit og manndóm til fyrirmyndar. Við getum ekki sem einstaklingar bjargað heiminum en getum þó öll fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs. Að Jesús sé brauð lífsins og næring skilgreinir veröld okkar og lífsgæði. Við erum friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Við erum brauðberar Guðs. Amen

Fyrri ritningarlestur: 2 Kon 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Seinni ritningarlestur: Post 27.33-36
Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Guðspjall: Jóh 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“ Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“