Greinasafn fyrir merki: Heilagur andi

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Tveir metrar – minna eða meira?

Hvað megum við hleypa fólki nærri okkur á þessu COVID-tíma? Hversu mikil má nándin vera? Þessa dagana ríkir óvissa um hvernig fólk á að heilsast og kveðja. En við erum flest hætt að rjúka á fólk til að faðma og kyssa. Og við reynum að halda tveggja metra fjarlægð. En svo er fjarlægðarreglan að linast. Margir stökkva óhikað í kösina í heitu pottunum. En þrátt fyrir þennan slaka gildir fjarlægðarreglan þó enn þar sem líf liggur við, t.d. í lyfjabúðum og lífshúsum kirkjunnar. Við Hallgrímskirkjufólk reynum að tryggja að þau geti komið til kirkju sem vilja og líka verið viss um að geta haldið sig í tryggri fjarlægð frá öðrum.

En hin menska tveggja metra regla er eitt, en svo er nánd Guðs allt annað. Guð er ekki háður reglum almannavarna. Guð er ekki langt í burtu heldur innan tveggja metranna, innan við skinnið á okkur, líka innan við líffæri, hugsanir og tilfinningar. Guð er innar en innræti okkar, nær okkur en bæði meðvitund og undirmeðvitund. Guð er hin eiginlega nánd. Guð smitar ekki heldur er uppspretta lífsins.

Sannleiksandinn og huggarinn

Textar dagsins er um náin tengsl Guðs og manna. Til að skýra merkingu nándar talar Jesús um Anda Guðs. En hvers konar andi er það? Jesús kallar hann sannleiksanda og segist senda hann. Hann bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra? Væru þeir eitt? Já, en hvað merkir það?

Jesús kallar Andann líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki er parakletos(παράκλητος). Það þýðir m.a. verjandi, sbr. lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos líka merkt leiðtoga, slíkan aðila sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandann, kallar til fylgis og árangurs. Andinn er því bæði í sókn og vörn – og alltaf til sigurs fyrir líf og fólk.

Fólk segir stundum: „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna.“ Vissulega eru hugmyndir aldanna um þrenninguna flóknar. Og stundum hefur þrenningarkenningin verið svo nördalega túlkuð, að fólki hefur þótt kenningarnar bara flækjast fyrir aðalmálinu, guðsnándinnni, trúnni. Þegar mest hefur gengið á hafa sprottið fram hreyfingar í kristninni vegna mismunandi túlkunar guðseigindanna. Sumir hafa jafnvel talið, að Jesús talaði um Heilagan anda sem Jesú nr 2, sem myndi koma á eftir númer 1. Og slíkar túlkanir teygja sig yfir í Islam. Múslimar kenna t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning

En kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði guðsbirtingur, avatar, einn af mörgum guðsfulltrúum, né heldur að nýir frelsarar kæmu, nýir Jesúsar. Í kristninni er ekki trúarlegur glundroði varðandi Jesú. Hann er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra væru best túlkuð sem eining.

Auðvitað vöknuðu spurningar um röðun, mikilvægi, jöfnuð eða valdskiptingu vídda Guðs. Til að skýra innri tengsl guðdóms kristninnar var notað leikhúsmál. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, setti upp mismunandi grímur sbr. það sem gert var í leikhúsum til forna. Í þeim leikhúsheimi táknuðu grímur persónur, enda var heitið persona notað um þessar andlitsskýlur. Og vitundin um eitthvað framan í fólki skerpist svo sannarlega á þessum tíma þegar andlitsgrímur eru að verða staðalbúnaður. Á miðöldum þurfti að þýða þessa grímu-persónu-túlkun úr grísku og latínu vestrænnar kristni og yfir á þjóðtungur. Þá var t.d. orðið persona þýtt á íslensku með orðinu grein. Þess vegna segir um guðdóminn í helgikvæðinu Lilju: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum. Guð væri eining en kæmi fram í mismunandi birtingarmyndum.

Mismunandi tíðir og þarfir hafa sem sé leitt fram mismunandi túlkanir. En guðshugtak kristninnar er breitt, hátt og djúpt. Hið ríkulega guðshugtak kristninnar er ekki til óþurftar, heldur hefur það merkingarplúsa, dýptir sem hafa komið til móts við þarfir hvers tíma. Guð er alltaf meira en það sem skerðingar manna benda til.

Í langan tíma hafa nýjar þarfir og áherslur verið að þroskast í heimsbyggðinni. Einhæfingar fjölmiðlunar og yfirborðsleg auglýsingamennska nútímasamfélaga þjóna ekki vel djúpþörfum fólks. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist og tilfinningu fyrir tilgangi og merkingardýpt, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Og íslenskur almenningur er opinn fyrir að túlka reynslu í náttúrunni sem merkingarbæra, trúarlega reynslu. Fólk segir stundum við okkur prestana að það hafi farið í náttúrukirkjuna. Fundið fyrir Guði í grjóti og titrandi, tárvotum smáblómum háfjallanna. Sem sé Guð sé í gaddavírnum og klettakirkjum rétt eins og í kirkjuhúsunum.

Það er mikilvægt að opna fyrir, að Andi Guðs sé alls staðar. Heilagur andi tengist ekki aðeins tilfinningum, reynslu í helgihaldi eða hrifningu einstaklinga á listviðburðum, heldur er Andinn nærri þegar við verðum fyrir sterkri reynslu í samskiptum við fólk eða hefjum augu til fjalla, jökla, fossa eða skynjum leik birtu. Andi Guðs er öko-andi. Jesús er parakletos allrar náttúruverndar. Andinn vekur reynslu og eflir fólk til að græða sár náttúrunnar. Margir kristnir eru ekki aðeins sannfærðir um að náttúran sé heilög, heldur sé best að tala um hina sköpuðu veröld sem líkama Guðs. Sem sé, heilags-anda-guðfræði varði ekki bara persónulíf okkar hið innra, heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf – af því allt er í Guði.

Breytingarskeið

Erindi kirkju og guðfræði er að mæta djúpþörfunum og túlka nánd Guðs í splundruðum og ráðvilltum heimi. Áföll í samfélögum manna, náttúrumengun og aukin vitund um getuleysi ráðakerfa heimsins er að ala af sér nýtt skeið í menningu veraldar. Á breytingatíð megum við að þora að stækka alla okkar trúaríhugun. Kirkjulíf heimsins er að breytast og guðfræði er þróast. Stóru kirjudeildirnar sem leggja áherslu á form hafa veiklast og eru að tæmast. Kall fólks varðar inntak, merkingu og nánd. Kirkjan, guðfræði og prédikun sem og starfshættir eiga að svara raunverulegum þörfum fólks sem og málum menningar og náttúru. Þegar fjarlægð vex á milli fólks, tortryggni vex í menningu og samskiptum vex skynjunin um Guð sem hina hreinu nánd.

Merkir þetta, að við þurfum að breyta kirkjustarfi okkar til að svara kalli tímans og líka svara kalli Anda Guðs? Já. Boðskapur og erindi dagsins er að Jesús Kristur sendir huggarann, anda sannleikans, nánd Guðs. Guð er í sókn og vörn. Við þurfum að gæta að metrum og heilbrigði, en Guð er komin lengra og kallar okkur til starfa í lífsvinsamlegu guðsríki.

Amen.

Prédikun á 6. sunnudegi eftir páska, 24. maí, 2020

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill:  1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

Góður andi

Hvað er þessi andi sem Jesús talaði um? Jú, það er sannleiksandinn, huggarinn, sem er sendur. En andi Guðs var í stóru-sprengju, þegar vetrarbrautir mynduðust. Andi Guðs var líka að verki þegar gufur þéttust og hnettir voru mótaðir. Andi Guðs kristinna manna var að verki, í spurningaleik Sókratesar og einnig kitlaði íhugun Búddha. Kristnir menn hafa ekki smæðarlega og sértrúarlega afstöðu gagnvart sköpun Guðs og handleiðslu. Það er Guð, sem er að verki þegar móðir mylkir barni sínu, þegar ástin kviknar í öllum myndum, þegar gott verk er gert, þegar sjúkur er borinn til læknis og hungraður mettaður. Andi Guðs er að starfi í hinum mestu málum geims og líka umhyggju lóunnar gagnvart unga í hreiðri. Andinn kom við sögu þegar við vorum mótuð í móðurkviði. Án þess lífsanda hefði ekkert orðið. Og það er verk Andans, sem skapar fegurðina og veitir þér færni til finna til og hrífast. Kristinn trúmaður getur átt í sér þessa nálgun gagnvart alheimi, umhverfi og lífi og hvílt í trausti til hins mikla Guðs, sem barn í móðurfaðmi.

En þegar allt þetta er sagt er líka mikilvægt að minna á að Andi Guðs verður ekki höndlaður í fyllingu af smáum huga okkar manna. Jesús sagði, að hann sendi Andann, huggarann. Opinberun Guðs er ekki lokið. Trúarlærdómar falla, aðrir lifna og nýjar áherslur verða til. Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu. Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. En vissulega er ekki nóg að róta sem mest í lífinu, hamast sem ákafast. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en Andi Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.

Það er í þessu sértæka samhengi, sem Jesús talar um sannleiksandann sem verði sendur til að sannfæra menn um synd, réttlæti og dóm.

1. Í fyrsta lagi: Andinn opnar vitund um veruleika hins illa. Synd er ekki aðeins slæm verk, mistök og hliðarspor. Synd í Biblíunni er það að missa marks. Og markið er ávallt eitt og hið sama – Guð. Sannleiksandinn hríslast í þér til að spyrja þig um samband þitt við Guð, hvort og hvenær þú sért í líflegu sambandi við Guð og hvenær ekki.

2. Hið annað, sem andinn skapar, er réttlæti. Og réttlæti í samhengi Nýja testamenntisins tengist lífi og líkn Jesús. Það er réttlætisgerningur Guðs þegar þér er hjálpað, þér sem gast ekki fundið leiðina heim til Guðs, varst lánlaus.

3. Hið þriðja sem sannleiksandinn opinberar er dómur yfir öllu því, sem er slæmt og spillt í heimi. Boðskapur Jesú varðar myrkravöld. Upprisa Jesú er dómur yfir hinu illa afli, sem aflagar fólk og náttúru.

Sannleiksandinn er kominn og spyr um trú og traust. Viljum við heyra og skilja sannleikann um okkur? Jesús er sannleikur sem frelsar. Það gagnar ekki, að hafa skarpan heila ef þinn innri maður er haminn. Það stoðar ekki að eiga liðugan fót og lausa hönd, leiðir til allra átta ef hugurinn er blindur og augun haldin. Sannleikurinn er kominn.

Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

Meðfylgjandi mynd er af efsta hluta verks Leifs Breifjörð sem nefnist Dýrð, vald, virðing. Glugginn er yfir kirkjudyrum Hallgrímskirkju. 

Í kossi, hrósi, beinum, skírn og tölvu

IMG_8904Hvað er heilagur andi, hvar og til hvers? Er sá andi eitthvað sem er bara til í áhrifaríkum kirkjum í Barcelona, Róm eða París. Og eru íslenskar sveitakirkjur sérstakir uppáhaldsstaðir Guðs?

Öll bernskuár mín var ég í sveit í Svarfaðardal. Sauðfé var rekið á fjall og sótti upp í hlíðar. Á þeim tíma var til siðs að smala fé í júlíbyrjun og rýja. Ég fór í slíka smalamennsku í mörg ár. Fjallgeimurinn var ofast undursamlegur. Mér er minnisstætt eitt sumarið að ég hljóp í þúsund metra hæð milli snjóskafla. Milli morkinna fanna var jörðin svört, vatnssósa og sterklyktandi. Engin gróður var sjáanlegur – allt virtist dautt.

En skyndilega sá ég líf. Agnarlítið háfjallablóm breiddi út blöð sín og sperrti skærrauða krónu mót himni og sól. Þetta smáa blómundur virtist svo umkomulaust en jafnframt grípandi fagurt í þessum blauta, svarta og hvíta risaramma. Eina lífsmarkið í tröllageimi, titrandi í næðingnum, speglaði og braut sólargeislana þúsundfalt í daggardropum krónunnar. Ég man að ég gat ekki annað kropið og lotið þessu lífsmarki og skildi, að það var helgidómur, eilífðarblómstur. Síðan hef ég skilið hvað sr. Matthías átti við með eilífðarsmáblómi þjóðsöngsins.

Allt er gleymt frá þessum degi, öll hlaup á eftir erfiðum rollum, áreynsla, skriður, klettar og klunguhlaup. Aðeins rjóð jurtin lifir í minninu. Hvað þýðir svona upplifun? Er þetta reynsla af heilögum anda? Já.

Hefur þú gengið einhvern tíma á hátt fjall? Reynt á þig, runnið til baka í brattanum, hræðst, haft mikið fyrir, en að lokum komist á toppinn, fengið útsýn til annarra fjalla í öðrum sýslum og jafnvel séð jökla í öðrum landshlutum? Það getur verið áhrifaríkt að lifa slíkt. Vissulega hjálpar efnabúskapur líkamans, endorfínið. En er slík reynsla af heilögum anda? Já.

Við Íslendingar vitum vel – vegna nándar við náttúruna og ferða okkar í rosalegu landi – að náttúran er ekki líflaus heldur ríkulegur veruleiki, sem hefur margvísleg áhrif á okkur. Náttúrusýn margra landa okkar er trúarlega lituð. Trúmaðurinn getur túlkað djúpa náttúrureynslu sem andlega og trúarlega merkingarbæra lifun. Náttúran er okkur mörgum sem helgidómur.

Andinn í listinni

Hefur þú staðið frammi fyrir stóru og miklu listaverki, heima eða erlendis, hrifist af formum eða litum, myndbyggingu, hugviti eða styrk einfaldleikans? Hefur þú starað á skúlptúr eða málverk í erlendri kirkju, sem hefur varpað þér í hæstu hæðir og veitt þér skynjun sem tekur flestu öðru fram? Hefur þú staðið frammi fyrir altaristöflunni í Skálholti, numið friðinn og blíðuna, þegar Jesús kemur inn úr bláma íslenskrar náttúru, með fangið opið? Er hægt að rekja reynsluna til heilags anda? Já.

Hefur þú einhvern tíma haldið á barni og fundið til svo ólýsanlegrar gleði, að allt annað hefur horfið í hrifningu stundarinnar? Hefur þú horft í djúp barnsaugna og fundið traustið og numið mikilvægi þitt? Hefur þú einhvern tíma haldið utan um maka eða ástvin og upplifað í þeim fangbrögðum svo djúpa fullnægju, að önnur gæði veraldar hafa bliknað í samanburðinum. Er slík ástarlifun af ætt heilags anda? Já

Hefur þú einhver tíma lent í siðklemmu, ekki vitað hvaða kostur væri hinn rétti, en síðan hefur ljósið runnið upp, rök og siðvit læðst í hugann? Er slíkt verk heilags anda? Já.

Andlegt smælki eða alls staðar?

Eru engin takmörk fyrir þessum Heilaga anda? Nei. Andinn er sá Guðsmáttur, sem gefur öllu líf, heldur grjóti, eðlislögmálum og þar með sólkerfum í skorðum, hindrar að efni þeirra hrynji saman í svarthol dauðans. Andinn er að starfi þegar fullorðinn segir barni sögur um lífið, ævintýri og undirbýr viskuna í brjósti uppvaxandi kynslóðar. Andinn er í kossi elskenda, hrósi vinar, í verki lækna og hjúkrunarfólks, í beinum sem gróa eftir brot, í starfi forritarans og rafvirkjans, í skírn og altarisgöngu, í jafnvægi krafta náttúrunnar, í tónlistargerningi kórsins, í uppgufun vatns og skýjamyndun og regni. Allt eru þetta verk anda Guðs.

Andinn kallar manninn til trúar, viðheldur samfélagi manna og eflir kirkjuna. Andinn upplýsir okkur, blæs okkur samvisku í brjóst, er rödd skynseminnar, helgar og leiðir, fullkomnar og styrkir. Andi Guðs er alls staðar að verki og kannski hvað augljósast þar sem barist er fyrir framgangi hins góða lífs og lífsgæði varin.

Guð kristninnar verður ekki afstúkaður í veröldinni í einhverjum kirkjukima. Sá Guð, sem ég þekki er alls staðar, sínálægur og sískapandi. Mína guðsafstöðu má m.a. útskýra með því sem hefur a gömlu fræðimáli verið kallað pan-en-teismi. Heitið, orðið, er af grískum uppruna og merkir einfaldlega, að Guð er alls staðar, í öllu og gegnsýrir allt. Því má alls ekki rugla saman við panteisma, sem kemur m.a. fram í indverskum átrúnaði og kennir að allt sé guðlegt. Að Guð sé í öllu og alls staðar merkir ekki að allt sé guðlegt. Við erum ekki guðir, þó Guð búi í okkur. Veröldin er ekki Guð og þar með ekki andlag tilbeiðslu þótt andi Guðs hríslist um hana og geri hana að farvegi andans.

Hvítasunna – 50hátíð

Nafnið hvítasunna er fallegt og tjáir hinn bjarta sólardag kristninnar. Á mörgum vestrænum tungumálum ber dagurinn nafn, sem komið er af gríska orðinu pentecoste og það merkir fimmtugasti og þá er miðað við fimmtíu daga eftir páska. Hátíðin er tengd páskum vegna þess, að hún er framhald, bætir við eða dýpkar þann veruleika, sem páskar tjá. Hvítasunnan er tengd jólum líka. Ef ekki væri Heilagur andi væri Jesús Kristur merkingarlaus og lífið tilgangslaust.

Vissulega hafa margir heldur óljósa mynd af hinum guðlega anda og til eru kristnir trúarhópar, sem hafa reynt að slá eign á þennan anda Guðs, en smætta þar með veru hans og virkni niður í sértækt starf tungutals, lækningar líkamans eða spádómssýn inn í framtíð. En Andi Guðs er meira en sértæk eign eða tæki safnaðar. Allt er eign Guðs en ekki öfugt.

Hvað er andinn? Andinn skapar veruleikann, náttúruna, er að verki í öllu því sem er til lífs. Andi Guðs er líka skapari trúarinnar. Það er Guðsandinn, sem hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs, kennir þér að sjá Guðssoninn, kennir þér að sjá lífið nýjum augum, heyra músík veraldar sem himneska tónlist, kennir þér tala við Guð og að lokum kennir þér að skynja í öllu Guðsnávist, jafnvel í sorg, hörmung og dauða. Með slíka reynslu og afstöðu verður þú aldrei aftur ein eða einn. Alltaf verður nálægur þér sá andi, sá veruleiki, sem gefur öllu líf og er líka sjálft lífið í þér.

Alls staðar

Erlendur prédikari, sem heimsótti Ísland, fullyrti að Heilagur andi hafi ekki komið til Íslands fyrr en á tuttugustu öld! Hann átti auðvitað við, að Heilagur Andi hafi ekki átt erindi til landsins fyrr en söfnuður hans var stofnaður. Ég held hins vegar að Heilagur andi hafi verið hér áður en fyrsta Íslandshraunið sauð í sjónum, verið í flekahreyfingum, verið nærri í goti þorska og fjölgun krossfiska, verið nærri í sprengingum neðansjávargosa. Síðan hefur Andinn verið að verki og er enn að.

Ekkert er til án Guðsanda. En það er hins vegar hægt að sniðganga eða skeyta ekki um Andann, ef menn vilja ekki þiggja nema bara hluta virkninnar! Við getum valið að taka bara við nokkrum gjöfum, sem okkur berast en hirða ekki um aðrar og alls ekki um sendandann. Við getum valið að vera and-snauð. En á hvítasunnu ertu kallaður eða kölluð til dýpri skilnings og trúarskynjunar.

Ef þú ert í bústaðnum þínum, á ferð um landið, ferð í gönguferð eða faðmar fólkið þitt máttu vita að í lífi þínu er Guð nærri og andinn hríslast í öllu sem verður þér til lífs. Blómið á háfjallinu er sköpun Guðs og verk Andans. Elskendur eru sköpun Guðs og elska þeirra er verk Andans. Maðurinn er sköpun Guðs og trúin verður til við, að Guð elskaði, kom og kemur, umfaðmar sköpun sína með krossi sínum, hrífur allt líf með sér með lífgun sinni og úthellir endurnýjunaranda sínum yfir allt sem er til. Guð er alls staðar og í öllu. Við megum lifa í þeim Guðsanda, trúa lífinu og sjá þar með eilífð í öllu.

Amen.

Hallgrímskirkja, hvítasunnudag 2016. Útvarpsmessa RUV