Greinasafn fyrir merki: heilagt

Þú skalt ekki morð fremja!

Fimmta boðorðið er til skoðunar í dag. Hvernig var það nú aftur? Já, það er bannið við að drepa. Þú skalt ekki morð fremja. Boðið er gott en hvar liggja mörkin? Hvenær verður eyðing lífs morð og hvenær ekki? Er bara átt við menn eða getur verið, að endurtúlkun Jesú á boðorðunum þenji regluna út? Varðar boðið jafnvel meira en karla og konur, börn og gamalmenni? Getur verið að náttúran sé systir, bróðir og náungi okkar? Varðar þetta boð umhverfissóða?

Í Íslandsklukkunni er Jón Hreggviðsson alls ekki viss um hvenær menn deyða. Hann svaraði Arnas Arnæus: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann?… …Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?” Fimmta boðorðið leynir á sér og á raunar meira erindi við okkur en að banna líkamleg voðaverk.

Í dag verður fjallað um þrennt: Fyrst ástæður boðsins til til forna. Síðan andlega dýpkun Jesú, sem stækkaði umfang boðsins og bætti við innhverfingu þess. Þar á eftir klofum við í guðfræðisögunni alla leið til Lúthers, sem kenndi, að fimmta boðorðið er ekki neikvætt heldur jákvætt og virkjandi. Lúther taldi að við ættum ekki að halda aftur af okkur heldur væru það jákvæðar samfélagsskyldur allra að efla hag allra. Í lokin íhugum við gildi fimmta boðorðins fyrir fólk í samtíðinni. Boð, sem virðist ekki vera sérlega mikilvægt fyrir okkur, sem erum ekki í drápshug, verður allt í einu ágengt og mál dagsins.

Lífsvernd

Lífið er alltaf dýrmætt og á öllum öldum. Þegar blóð hafði flætt, sorgin níst og ástvinir voru grafnir var og verður alltaf niðurstaða hugsandi fólks að nauðsynlegt væri að hefta drápin. Fimmta boðorðið var og er regla um lífsrétt sem var sett gegn hrárri villimennsku, yfirgangi, ofbeldi, vörn gegn hefndum og blóðugri samkeppni, já skikkan gegn hrottaskap. Líf einstaklinga var ekki og mátti ekki vera eitthvað, sem annar gat tekið si svona eða af því svírinn lægi svo vel við höggi eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu og var réttlæting Þorgeirs á mannsmorði. Dráp má aldrei vera geðþóttamál, hrottaleikur og hvatvís hugdetta.

Hið forna samfélag hebreanna bannaði ekki að losa sig við illvirkja. Hagsýni allra tíma hefur reiknað út, að öxin og jörðin geymdu slíka best. Síðan hafa alltaf verið til rök – misgóð – um fælingarmátt dauðarefsinga. Lífsvernd er þó meira en bara einföld hagsýni. Líf mannsins er grundvallað heilagri réttsýni, ákvörðun Guðs. Fimmta boðorðið er stefna Guðs. Lífið er gott – ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að lifa og það sé stundum gaman hjá okkur – heldur vegna þess að Guð hefur ákveðið að manneskjan hafi gildi, maðurinn sé kallaður til samvinnu í guðsverkinu. Efnislega er manneskjan ekki mikils virði – tæplega 60 lítrar af vatni, 2 kg af fitu og 1,2 kg af kalki og einhver grömm af ýmsum efnum. Það er ekki hráefnið sem býr til manngildi. Trúmenn fyrr og síðar hafa ekki álitið lífið heilagt vegna útreiknings á einhverjum stærðum og víddum, heldur af því Guð hefur ákveðið það. Guð var trygging manngildis. Manngildisafstaða trúarinnar hefur síðan alið af sér mannhelgi siðakerfa Vesturlanda, löggjöf þjóða og félaga og mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Trúmenn eiga því að styðja alla viðleitni manna til að tryggja velferð fólks og réttindi. Sá réttur er óháður trú þó trúmenn sjái í þeim rétti guðlega visku.

Jesús og boðorðið

Jesús vissi vel um reglur samfélagsins. Hann beitti sér ekki gegn siðakerfum og hefðum, sem þjónuðu góðu mannlífi. En hann beitti sér alltaf þegar menn vildu hangýta sér lög og reglur í eigin þágu eða einhverrar þrönghyggju, sem væri á kostnað elsku og umhyggju.

Hópur af mönnum, sem vildu klekkja á Jesú færðu t.d. til hans konu, sem var brotleg í siðferðisefnum og svo mjög að skv. reglunum mátti drepa hana með því að henda í hana grjóti. Dólgarnir ætluðu að koma Jesú í bobba. En hann stóð með lífinu í þetta sinn sem endranær þó hann afsakaði ekki gerning konunnar. Viska Jesú var til að eyðileggja prettavit hópsins. Hann sagði að þeir sem væru syndlausir ættu að kasta steinunum (Jóh. 8.7). Við það hurfu kastararnir. Freka karlinum er alltaf illa við að sjónum er beint að honum.

Í Fjallræðunni kemur fram, að Jesús er sammála boðinu, en hann gaf því þó nýja og dýpri merkingu. Hann túlkaði stórt og vítt. Menn megi ekki deyða aðra heldur sé boðið líka andlegt. Við deyðum ekki aðeins fólk með því að meiða líkamlega, heldur með ýmsu móti, t.d. með því að reiðast einhverjum. Jesús stækkar eða víkkar því merkingarsvið boðsins, lætur sér ekki nægja hið ytra heldur færir það inn í fólk, í afstöðu, tilfinningar þess og innræti.

Af hverju þessi stækkun, breikkun og dýpkun Jesú? Það er vegna afstöðu hans til fólks. Jesús leit svo á, að maðurinn væri óendanlega mikils virði og ætti að hegða sér í samræmi við þær notkunarleiðbeiningar, sem Guð setur fyrir gott mannlíf.

Lúther úthverfði

Þá tökum við langt guðfræðiskref og til siðbótartímans. Margir verða hissa á boðorðaafstöðu Marteins Lúthers, en hrífast þegar skýringarnar hans eru skoðaðar. Lúther þekkti vel sögu siðfræðinnar og að Jesús túlkaði alltaf mannræktandi. Í skýringu Lúthers á fimmta boðorðinu er ekki talað um einangrað ofbeldisverk, heldur er ramminn stór og jákvæður: “Við eigum að óttast og elska Guð, svo við ekki meiðum náunga okkar, né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.”

Í viðbót við innhverfingu Jesú varðandi boðorðin úthverfir Lúther og í samræmi við anda Jesú. Boðorðið hefur samfélagsvídd. Samkvæmt Lúther er ekki aðeins bannað að skadda aðra, heldur er hlutverk okkar að efla aðra og bæta hag þeirra. Hlutverk okkar er að tryggja velferð annarra, beita okkur í samfélaginu svo við eflum lífsgæði, ekki aðeins okkar eigin, heldur samfélagsins alls. Við hlýðum fimmta boðorðinu þegar við erum tilfinningalega og samfélagslega heilbrigð og ábyrg og samfélagið virkar vel og til hags fyrir heildina. Bannið við morðum, fimmta boðorðið, varðar stjórnmál okkar, umhverfismál, samskipti við aðra. Líf okkar er, samkvæmt guðlegri ákvörðun, heilagt. Við eigum að hegða okkur í samræmi við þá skilgreindu stöðu okkar með því að rækta umhyggju og gera öðrum gott.

Boðorð fyrir okkur

Já, hvenær drepur maður mann? Við deyðum þegar við stingum, skjótum, lemjum eða keyrum á einstaklinga svo þeir láta lífið. Það er óheimilt trúarlega og líka lögbrot. Samfélagið hefur reglur um slíkt og refsar fyrir. En svo er allt hitt að auki. Við getum deytt þegar tilfinningar okkar leiða okkur í gönur, þegar við leyfum heift að sá sér hið innra, spíra þar og vaxa. Þá verður til dauðaferli. Reiði, hatur, vondar hugsanir og ljótleiki eyða og deyða. Ofsi hið innra er eitur, sem lífið þolir illa eða ekki. Þegar slíkt lifnar í þér og vex er dauðinn að grípa þig og kæfa. Þú byrjar að deyja.

Við deyðum þegar við tökum þátt í eða leyfum að varnarlitlir séu beittir harðræði, einelti, rangsleitni, ofbeldi, baktali og öðru álíka. Við erum samsek þegar við leyfum kerfum að viðhaldast, sem niðurlægja fólk, réttlæta kynjamismunun, þjóðamismunun, kynþáttamismunun eða aðra óeðlilega og ómannlega aðgreiningu hinna betri og hinna verri, hinna æðri eða óæðri. Maður drepur mann ef við gætum ekki hagsmuna fólks og reynum að efla hag og velferð annarra. Boðið er róttækt og lífið er heilagt. Mannlíf fólks er eitthvað, sem okkur ber að virða og engan afslátt veita. Og svo er náttúran systir okkar sem við höfum ekki heimild til að deyða.

Guð vill að lífið sé virt, þitt eigið líf, líf þeirra sem þú elskar, en líka líf hinna sem þér er í nöp við eða eru þér jafnvel kvalræði, líf allra, kvenna og karla, allra manna, allrar veraldar. Við eigum ekki aðeins að beita okkur í mannvernd, náttúruvernd og samfélagsvernd vegna þess að það sé hagkvæmt og tryggi okkur sjálf, heldur vegna þess að Guð vill það. Í því verður siðsemin róttæk og boðið djúpt og altækt. Og boðið á við þig og mig.

Amen

Hallgrímskirkja, 10 mars 2019. Í röð boðorðaprédikana í janúar – apríl, 2019.

Lexían

Þú skalt ekki morð fremja.

  1. Mósebók 20,13

Pistillinn

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Rómverjabréfið 13,8-10

Guðspjallið

Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist[ bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum.

Matt. 5, 21-25

 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.