Greinasafn fyrir merki: Haukur Þorvaldsson

Haukur Þorvaldsson – minningarorð

Við sjáum á bak dugmanni, viljasterkum, hrífandi frumkvöðli, jákvæðum og fjörugum vini, snyrtimenni í hinu ytra sem og í samskiptum við fólk, manni með einbeitta réttlætiskennd, elskuríkum og elskulegum manni. Minningarorðin um, Hauk vin og félaga okkar Neskirkjufólks birtast hér að neðan. 16. október, 2007.

Fyrir tæpu ári síðan sátum við Haukur hér frammi á kaffitorgi Neskirkju. Hann sat við horngluggann og talaði um stóru spurningarnar í lífinu, um fólkið sitt, áhrif veikinda á líf hans og afstöðu. Það var heillandi að hlusta á hann. Í bland við alvöruna var stutt í kátlegar athugasemdir. Svo breiddist bros yfir andlit hans. Augun urðu enn hlýrri og þessi stóri maður fyllti þetta stóra rými með sjarma sínum.

En hvernig breyttist líf hans þegar veikin varð förunautur? Ég man eftir, að Haukur tók sér stutta málhvíld þegar hann var spurður um hvernig væri að “lifa við” ólæknandi krabbamein? En svo sagði hann, að hann hefði lært nýja tímastjórnun, lært að nota tímann vel, gera það helst sem gerði honum gott og efldi líf hans. Hann reyndi að sneyða hjá því eða láta vera, sem skemmdi fyrir eða drægi úr lífsgæðunum. Á þessu augnabliki uppgötvaði ég, að Haukur talaði ekki bara um hvað skipti máli heldur hafði öðlast lífsvisku. Hann var orðinn vitur maður sem miðlaði til okkar hinna mikilvægri speki. Hann var orðin sem fyrirmynd um hvernig við getum og eigum að lifa.

Í málshátta- og spekisafni Gamla testamentisins, Orðskviðunum, segir: „Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana“ (Orðskviðirnir 8:11).

Haukur hafði orðið fyrir áfalli og átti tvo kosti, sem allar kreppur neyða fólk til að velja á milli. Annað hvort bíður maður ósigur, lætur áfallið veikja sig og lífsgæðin þverra þar með – eða fólk rís upp til vaxtar og ríkulegra lífs. Veikur maður getur verið hamingjusamur þrátt fyrir mein sín. Stutt líf getur verið betra en langt líf ef maður vinnur úr vanda sínum með skapandi móti. Haukur tók ákvörðun um lifa vel. Engir dýrgripir jafnast á við viskuna.

Fjölskylda

Haukur Þorvaldsson fæddist í Reykjavík 15. september árið 1958 og lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. október síðastliðinn, aðeins 49 ára gamall. Foreldrar hans voru Elín Dagmar Guðjónsdóttir (f. 23.9.1916 d. 12.4.2006) og Þorvaldur Margeir Snorrason (f. 22.6.1911 d. 03.1.1993). Þau eru bæði látin, Þorvaldur fyrir nær 15 árum en Elín í fyrra.

Þau hjón eignuðust samtals átta börn. Þau eru: Guðjón Þórir (f. 24.06.1940); Jónas (f. 23.9.1941), og tvíburabróðir hans; Sigurður f. 23.9.1941, en lést á fyrsta ári. Sigurður Frímann (f. 22.7.1943 d. 29.5.2004), sem lést fyrir 3 árum; Steingrímur f. 12.2.1946; Snorri f. 10.8. 1949; Elín f .31.8. 1954. Svo kom Haukur og var yngstur.

Þessi hópur bjó í stórfjölskylduhúsi á Urðarstíg 13. Þar voru þrír ættliðir samankomnir og sjö barnanna fæddust þar. Svo urðu þrengslin of mikil og þau fluttu á Rauðárárstíg 32 og þá fæddist Haukur og flaug inn í heiminn. Þar var rýmra en þó bara þriggja herbergja íbúð fyrir allan skarann. Menn verða sleipir í samskiptum í slíku þröngbýli og Haukur lærði að umgangast fólk, með hlýju, húmor en ekki síst virðingu. Hann naut þessarar mannafstöðu í einkalífi, vinnu og félagsstörfum. Fjölskyldulífið var fjörlegt og foreldrarnir dugmiklir og systkinin urðu honum knippi af fyrirmyndum og félögum. Takk fyrir allt það sem þið voruð Hauki fyrr og síðar.

Saga Íslands samandregin

Þegar hugsað er til baka til sögu Hauks og fjölskyldu hans blasir við saga Reykjavíkur og sumpart tuttugustu aldar Íslands í hnotskurn. Þetta fólk hafði enga forgjöf, varð að bjarga sér sjálft, varð að skapa hamingju sína af eigin mætti og hæfni. Eins og þúsundir annarra fjölskyldna tókst baráttan svo vel að við búum við eitt ríkasta samfélag veraldar. Haukur hafði í sér margt af því sem hefur þjónað okkur sem samfélagi og þjóð vel: Dugnað, einurð, viljastyrk, snyrtimennsku, heilindi, húmor, jákvæðni, fróðleikssókn og réttlætiskennd. Allt var þetta veganesti að heiman og hann nýtti með sínu móti, í vinnu, meðal fólks og í félagsstarfi.

Nám og störf

Haukur útskrifaðist sem matreiðslumaður árið 1980. Hann fór á sjó á unglingsárum. Hann heillaðist af pólitíkinni og vann sem þingsveinn í fjögur ár á Alþingi. Haukur varð snemma liðtækur í félagsmálum samnemenda og varð síðar eftirsóttur til félagsstarfa. Hann starfaði um tíma í sambandsstjórn Iðnnemasambands Íslands og var formaður Félags matreiðslu- og framleiðslunema. Árið 1983 var Haukur formaður Félags ungra framsóknarmanna í Kópavogi. Hann var í stjórn SUF í eitt ár. Þá varð hann félagi í Lions-hreyfingunni.

Eftir að hafa starfað við iðn sína um tíma sneri Haukur sé æ meir að sölumennsku. Í því starfi tamdi hann sér að vita hvað hann var að selja og vera maður orða sinna. Í allt blandaði hann svo hlýrri nánd, kímni og skemmtilegheitum. Honum var því vel ágengt í starfi. Haukur vann lengi hjá Fönix og seldi rafmagnsvörur. Margir keyptu vegna þess að Hauks naut við. Þeir Sveinn Sigurðsson stofnuðu svo árið 2001 fyrirtækið Rekstrartækni, sem þeir seldu Fönix síðar. Um tíma var Haukur framkvæmdastjóri hjá Netagerð Ingólfs og kynntist flestum útgerðaraðilum og skipstjórnarmönnum Íslands í því netverki. Á þessum árum fór Haukur víða, ferðaðist líka um heiminn og naut flugsins í lífinu.

Ástvinir og hjúskapur

Lífslán Hauks var fólkið hans. Hann naut barnaláns og gekk ungviði í föðurstað, var natinn, góð fyrirmynd og gerði allt það, sem hann gat, til að efla þau til lífs. Elsta barn Hauks er Agnes Björk (f. 17.3.1981). Móðir hennar er Ósk Gunnarsdóttir og þau Haukur bjuggu saman um tíma. Agnes á tvö börn svo Haukur var orðinn afi þegar árið 2004. Börn Agnesar eru Eiður Atli (f. 23.8. 2004) og Bríet Sjöfn (f. 31.5. 2006.

Árið 1984 giftist Haukur Helgu Hermannsdóttir. Börn þeirra eru Hermann Haukur (f. 19.3. 1984) og Þorvaldur (f. 22.4. 1990). Þau Haukur og Helga skildu og Haukur var einn um tíma. En svo sá hann Björgu Jóhannsdóttur álengdar á Kaffi Reykjavík, leitaði hana upp og snaraðist að henni og tilkynnti henni skýrt og skorinort: “Ég sleppi þér ekki!” Hvernig er hægt að bregðast við slíkri yfirlýsingu manns, sem vissi alltaf hvað hann vildi og hafði alla burði og hæfni til að fylgja orðum sínum eftir? Björg bara tók því vel og ljúflega og lét hann ekkert sleppa sér. Þau giftust árið 2005 og eiga saman Björgvin Margeir (f. 06.10.1999). Það er þungt högg fyrir átta ára dreng að sjá á bak föður sínum.

Með Björgu stækkaði barnaheimur Hauks enn, því hann opnaði faðminn gagnvart börnum hennar, þeim Jóhönnu Clöru (f. 25.7.1982) og Jóni Knút. Jóhanna á svo tvo stráka, Stefán Axel og Emil Daða. Haukur var þakklátur fyrir heimili sitt, þakklátur Björgu fyrir stuðninginn, þakklátur fyrir elskuna, sem hún tjáði honum, styrkinn og gleðina, sem hún veitti honum. Hann naut líka stuðnings og frelsis og gat ókvíðinn farið í vinnuferðir sínar og svo síðar án fyrirstöðu þjónað réttindamálum krabbameinsgreindra. Haukur naut ástríkis.  

Eins og sést hér í kirkjunni í dag vilja margir koma og votta Hauki virðingu sína og ástvinum samstöðu. Ýmsir eru erlendis og biðja fyrir kveðju til ykkar. Þau eru Snorri Valsson, Jónas Ragnarsson í Ljósinu, Jón Knútsson, Auður Kristmundsdóttir og Þóra Gissurardóttir. Við Neskirkjufólk og öll þau sem störfum í kirkjunni höfum misst vin. Við þökkum samfylgd og samvinnu.

Frumkvöðullinn

Haukur var fjölhæfur og bóngóður. Ef eitthvert systkina þarfnaðist aðstoðar í húsbyggingum var alltaf hægt að hringja í Hauk. Hann var líka reiðubúinn að leggja mikið á sig í félagsmálum. Hann reyndi sitt til að tryggja að hans fólk fengi vinnu, var alltaf til í ræða landsmálin og þó ekki væri til annars en benda mönnum til góðs framsóknarvegar! Haukur var fljótur að læra, það sem hann hafði hug á, snöggur að sjá aðalatriði og aukaatriðin í lífinu. Hann var á dýptina frekar en að sleppa sér í yfirborðsmálum, vildi að allt væri vandað og gott, hvort sem það var nú í mannlífinu, samfélagsmálum eða á hinu andlega sviði. Svo var líf og fjör þar sem Haukur kom. Og það gekk undan honum Hauki það sem hann ætlaði sér, hvort sem það var nú að selja hlera, nagla, safna kjöti og hráefni í grillveislu Ljóssins hér á kirkjutúninu eða leysa flókin félagsleg úrlausnarefni.

Það var merkilegt að fylgjast með Hauki síðustu árin. Hann var ekkert að tvínóna við að horfast í augu við stöðu sína og skrifaði óhikað að staða hans væri öryrki. En hann gekk jafn ákveðið til þeirrar félagsstöðu eins og annars, var ekkert að rella heldur vann í þeirri stöðu eins skipulega og í öllum fyrri störfum, las alla vefi Tryggingastofnunar, kannaði gervalla félagslöggjöfina, heilbrigðislöggjöf, reglugerðir, kannaði starfshætti Krabbameinsfélagsins og spítalanna, fékk heildarmynd af réttindum sjúklinga og öryrkja og hvað væri hægt að gera til úrbóta. Þarna flaug Haukurinn hærra og betur en allir aðrir, fáir höfðu aðra eins yfirsýn og hann.

Svo fóru að birtast hinar beinskeyttu, skýru og áhrifaríku greinar hans í blöðum. Það var ekki annað hægt en að hrífast af málafylgjunni, af einurðinni sem hann sýndi og óttalausri réttlætisást hans. Haukur var hrífandi frumkvöðull, hafði reynsluna og sálareldinn. Hann var ekki í þessu sjálfs sín vegna, það var mannvirðingin sem hvatti hann, þessi mikilvæga vitund um, að fólki ætti að sýna virðingu hver sem staða þess væri, hvernig sem það væri haldið af veikindum. Hauki var í mun að þjóna öðrum vel og í frumkvöðlastarfinu naut hann og gat hann notað sína fjölbreytilegu hæfni. Þessi ljúfi og umhyggjusami maður var ódeigur baráttumaður, hann varð stundum að gagnrýna ákveðið. Við vissum, að stundum stakk hann djúpt en vissum jafnvel, að það var ekki til að særa fólk heldur var markmiðið ávallt að beita sér til að bæta stöðu öryrkja, krabbameinsgreindra, fjölskyldna þeirra og annarra í svipuðum sporum. Haukur beitti sér fyrir stofnun hagsmunasamtaka sem heitir Vonin og spratt upp í skini Ljóssins, sem hann hafði þjónað svo vel og verið með í að byggja upp. Haukur var formaður samtakanna og er búið að samþykkja inngöngu þess í Öryrkjabandalagið – svo þeim áfanga var náð. Megi dugur og marksækni Hauks verða félagsskapnum fyrirmynd.

Við eigum val

“Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.” Auðvitað gera flestir sér grein fyrir að það verður enginn hamingjusamur af krónunum einum saman. Meira segja Jóakim frændi í Andrésbálknum veit það. Það verður enginn hamingjusamur af því einu að eignast hlutabréf í Reykjavik Energy Invest. Peningarnir eru gott tæki til geta fullnægt grunnþörfum, en persónuþroskinn verður ekki keyptur, viskan verður aldrei pökkuð inn og við getum ekki hlaðið henni niður af netinu. Hún er sjálfsprottin. Hamingjan er heimafengin. Alltof margir æða um heiminn, leita hamslaust að lífgleðinni og átta sig sjaldnast að mestu gæðin eru næst okkur, í því að geta dregið að sér andann, notið hreins lofts, að hjartað slái, að geta hreyft sig, að fólk sé tengt okkur sem hægt er að faðma, kyssa, snerta, hlægja með og eiga orðastað við.

Þurfum við að veikjast, ganga á vegg í lífinu eða missa mikið til að læra að meta lífsgæðin og undur augnablikanna? Í hvað notum við daga okkar, fjármuni og líkama okkar? Hlustum á mann eins og Hauk, sem kafaði djúpt, en kom til baka með speki. Lærum af honum lífslistina og sinnum því sem eflir lífið, en sleppum hinu. Lærum af honum að njóta djúps tilverunnar, hinnar guðlegu návistar.

Haukur er ekki lengur með okkur. Hann var óhræddur við mestu manndómsraun ævinnar, að mæta lokum sínum, að deyja. En hann var búin að rækta vel trú sína og afstöðu til eilífðarinnar, var fullviss að líf er að loknu þessu og heimkoman er góð. Við sjáum á bak dugmanni, viljasterkum, hrífandi frumkvöðli, jákvæðum og fjörugum vini, snyrtimenni í hinu ytra sem og í samskiptum við fólk, manni með einbeitta réttlætiskennd, elskuríkum og elskulegum manni. Við sjáum á bak Hauki. Hann fór oft með stuttum fyrirvara, en kom alltaf aftur. Nú kemur hann ekki aftur. En hvað svo og til hvers er lífið? Lífið er til unaðar en ekki til dauða. Leyfðu minningunni um Hauk að lifa til að styrkja þig til góðs. Vertu mennskunnar megin í lífi þínu og ræktaðu með þér viskuna sem Haukur miðlaði til okkur hinna. Guð geymi hann ævinlega og huggi fólkið hans, gefi ástvinum, börnum og afkomendum visku til lífs.

Minningarorð í útför Hauks Þorvaldssonar, Neskirkju, 16. október, 2007. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.