Greinasafn fyrir merki: Haraldur Tryggvi

Tryggvi Sigurbjarnarson +++

Hann var góður maður. Í Tryggva fóru orð og athafnir saman. Ég hef hlustað á mörg ávörp og ræður í veislum. En ræða Tryggva Sigurbjarnarsonar er ein sú magnaðasta. Hann stóð upp í fermingarveislu og ávarpaði dótturson sinn, Nikulás Ara, og gaf honum nesti til lífsreisunnar. Fjöldi fólks hlustaði og allir heyrðu heillandi ræðu afans sem talaði um lífið og miðlaði því hvað hefði reynst honum mikilvægast. Ég var djúpt snortinn af þeim kærleika sem Tryggvi augljóslega bar til fermingardrengsins og spekinni sem hann orðaði hinum unga manni. Skilaboð afans lífsreynda voru skýr: Vertu góður maður. Eftir sat í okkur öllum að við værum frjáls til ákvarðana um lífsstefnu og göfugast væri, best og ábyrgast að rækta gæskuna og iðka hana. Það var niðurstaða Tryggva en líka lífsreynsla kynslóðanna sem hann bar fram fagurlega og heillandi.

Ég kynntist Siglinde og Tryggva þegar Rán, Nick, Nikulás Ari og Klemens urðu fjölskylduvinir mínir. Elín Sigrún, kona mín, talaði fallega um vini sína og þau urðu mitt fólk og ég þeirra. Við Elín og drengirnir vorum svo lánssöm að Tryggvi og Siglinde voru einu sinni samtímis okkur á Kanarí. Þá umvöfðu þau okkur barnafólkið og þessir sólardagar urðu veisludagar sem leita á hugann nú þegar Tryggvi er horfinn sjónum okkar. 

Það var alltaf gaman að vera með Tryggva. Hann var sjóður fróðleiks á mörgum sviðum. Hraðgáfaður og sögubrunnur. Hann var maður margra tíma og veralda og tengdi vel saman. Hann var dreifbýlismaður og borgarmaður, virkur í hinu kapítalíska samfélagi og þekkti víddir kommúnismans. Hann var maður hefða en líka brautryðjandi. Hann var eiginlegur upphafsmaður verkefnastjórnunar á Íslandi. Stöðugt lesandi og skoðandi, gruflandi og greinandi, opinn og næmur. Hann var í senn sveitamaður og heimsborgari.

Við Elín Sigrún, Ísak og Jóns Kristján þökkum Tryggva fyrir orðin, hlátrana, elskuna, hlýjuna, glottin, spurningarnar, fyndnina, sögurnar, hugmyndaauðgina, velviljan og gæskuna. Tryggvi var góður maður og því vænn félagi á lífsreisunni. Nú er hann farinn inn í birtu eilífðar. Þar eru raforkumálin í góðu lagi, líka verkefnastjórnunin og gæskan iðkuð.

Guð geymi Tryggva og styrki Siglinde, Rán, Ketil­björn, Har­ald­, tengdabörn og afkomendur.

Myndin hér að ofan er af Tryggva ávarpa Klemens, annan dótturson hans, í fermingarveislu í Neskirkju. Þessa mynd af Tryggva tók ég við Warburg-kastala.

 

Tryggvi var með í ferð um Lúthersslóðir sem dr. Gunnar Kristjánsson stýrði. Fjölmargar myndir af Tryggva í þessari ferð eru að baki þessari slóð. Tryggvi stýrði morgunleikfimi ferðahópsins af mildri festu. 

Útfararathöfn Tryggva Sigurbjarnarsonar verður í Neskirkju þriðjudaginn 20. júní kl. 13.