Greinasafn fyrir merki: Hallur Páll Jónsson

Það liðna er ekki draumur – Theodor Kallifatides

Ég hef lært gamla biblíugrísku og get lesið á götuskiltin í Grikklandi en ég skil ekki nútímagrísku. Ég hef lesið klassísk rit Grikkja og hef áhuga á fornaldarsögu þeirra en þekki lítið nútímasöguna sem mig hefur langað til að skoða betur. En svo las ég bókina Það liðna er ekki draumur – nýþýdda bók Theodor Kallifatides. Hún varð mér persónuleg og heillandi túlkun á sögu Grikklands eftir seinni heimsstyrjöld.

Theodor Kallifatides var átta ára þegar körlunum í Molai, þorpinu hans á Pelópsskaga, var raðað upp svo herforinginn gæti valið úr þá sem fasistarnir ætluðu að drepa. Drengurinn slapp en lík hinna myrtu fundust ekki. Afi drengsins tók í hönd þess stutta, leiddi hann út úr þorpinu og sleppti ekki fyrr en þeir voru komnir alla leið til Aþenu. Frumbernskunni var lokið og lífið í borginu varð allt öðru vísi en í þorpinu, líf í skínandi efnislegri fátækt og mannhafi Aþenuborgar. Síðar gerði hann sér grein fyrir að hann átti sér enga framtíð í Grikklandi, kastaði svörtu steinunum bak við sig og tók lestina norður og alla leið til Stokkhólms. Þar hélt hann áfram námi, kvæntist, kenndi og skrifaði. Það var þriðji kaflinn og um hann er lítið fjallað í þessari bók, sem er um gríska sögu en ekki sænska.

Í bókinni segir Theodor Kallifatides frá uppvexti sínum, fjölskyldu, menntun, tengslum, áhrifum, vinum og óvinum, pólitík, bókmenntum, heimspeki, trú og menningarsögu. Við kynnumst átökum í grísku þjóðlífi eftir hernám Þjóðverja, andstæðum fylkingum í pólitík, ofbeldi, átökum og áhrifum á einstaklinga og fjölskyldur í Grikklandi. Við kynnumst líka menningarpólitíkinni. Með nærfærnum og yndislegum hætti lýsir hann móður sinni, föður og bræðrum, tengslum þeirra, persónum og viðbrögðum. Eftir fyrri heimstyrjöld voru Tyrklandsgrikkir, ein og hálf milljón, reknir frá heimahögum sínum í Litlu Asíu. Faðir Theodors var flæmdur frá Trabzon á Svartahafsströnd Tyrklands og lenti í Molai, fæðingarþorpi mömmu hans á Pelópsskaga. Þar varð hann kennari, kynntist konu sinni og varð hluti nýrrar fjölskyldu. Pabbinn var útlendingur eða aðkomumaður allt lífið. Það litaði líf hans og fjölskyldunnar og kannski sonarins líka. Heimilislífið var elskulegt þótt samfélagið væri yfirspennt. Með því að segja uppeldis- og fjölskyldusögu nær höfundur að lýsa grískri samfélagsþróun seinni hluta tuttugustu aldar. Ég vissi um hinar skelfilegu þjóðernishreinsanir Tyrkja á tuttugustu öld, vissi um fjöldann og dramatíkina en í þessari sögu fáum við innsýn í áhrif á flóttamennina og tilfinningu fyrir líðan þeirra. Það er eftirminnileg mynd sem Theodor Kallifatides teiknar af föður sínum, og segir sögu af lífshlaupi hans og samspili elskandi foreldra.

Bókin er bersögul, hispurslaus og kímileg. Mamma höfundarins sagði honum að hún gæti aðeins lesið bækurnar hans á bak við hurð því í þeim væri svo mikið af kynlífi! En það er ekkert klúrt eða klént í þessari bók. Í henni segir höfundur frá áhrifum, einstaklingum, fólki, viðmælendum, spekingum, trú, tilfinningum, ástamálum, vonum og sorgum, efasemdum og átökum. Þetta er mannelsk bók, rit um blóðríkt og áhugavert fólk, rembingslaust rit um lífsbaráttu og leit að inntaksríku lífi í upplausn samfélags. Kallifatides greinir frá kynhlutverkum, hlutverkum fjölskyldu og tengslum foreldra og barna, hlutverkum skóla, stofnana og hreyfinga. Flæðið er eðlilegt og þrátt fyrir áföll og ágengar spurningar eru engir óþarfa reiðidómar felldir í garð fólks og stofnana. Lýsingarnar eru laðandi og jafnvel lyktin af mat gýs upp. Við lesturinn fann ég oft lykt af grísku tómatasalati og alvöru ólífuolíu. Á leiðinni til Stokkhólms kom Kallifitatides við á veitingahúsi og þar gerði landi hans sér grein fyrir að hann hlyti að vera Grikki – bara af því hvernig hann lyktaði!

Hvenær er maður heimamaður og hvenær ekki? Hver er merking uppvaxtar og má skilja sögu og fjölskyldu með nýjum og skarpari hætti? Er minning einföld og rétt eða alltaf túlkuð? Hvað og jafnvel hvar er heima og er maður alltaf á leið til baka, heim? Getur grísk upphafssaga orðið til að skerpa sýn Íslendings á áttræðisaldri á eigin bernsku? Já. Aldraður fór Kallifatides til baka, skoðaði að nýju gil bernskunnar með myllum og fornri vatnsleiðslu. Hann vitjaði Aþenu og endurskoðaði sögu þjóðar sinnar, hugsaði um via Egnatia, tókst á við fordóma og hleypidóma, þorði að spyrja og líka vitja falskra minninga. Hann var lánssamur því hann hafði tækifæri til þess og hafði líka þjálfað hæfni sína og yddað vel blýantana sína þegar hann fór að skrifa minningarnar. Því er þessi saga hans glimrandi, skörp og áhrifarík.

Fjölskyldusögur og persónuuppgjör geta líka verið lykilsögur til að skýra fyrir utanaðkomandi inntak þróunar og þjóðfélagsbreytinga. Kallifatides fór frá Grikklandi því þar var honum allt lokað. Sonur kommúnistans var geislavirkur. En hann eignaðist nýtt líf í Svíþjóð. Hann var heimamaður í Grikklandi en eignaðist líka nýjan sjónarhól áhorfanda sem nýttist honum til að teikna skarpa mynd af sögu Grikkja og segja þroskasögu sjálfs sín og litríka fjölskyldusögu sem opnar inn og út. Ég er ákveðinn að lesa fleiri bækur hins evlalíska og vel skrifandi Kallifatides.

Í þessu riti Kallifatides er áhugavert dæmi um ranga tilvísun. Afkastamiklir höfundar telja sig oft muna tilvitnanir og rit rétt og fletta ekki til öryggis. Alfred North Whitehead vitnaði t.d. til rita og höfunda eftir minni (hann var þá oftast búinn að far í Blackwell’s og selja bækurnar og kaupa nýjar) og lærisveinar hans hafa skemmt sér við að safna og vinna úr misminnisvísunum. Í bókinni Það liðna er ekki draumur er áhugavert misminni og röng tilvísun. Kallifatides ruglaði saman tveimur ritum Immanuels Kants. Hann ræddi um siðalögmálið og stjörnubjartan himinn og vísaði til bókarinnar Gagnrýni hreinnar skynsemi. Þetta er fölsk minning því um stjörnu-siðvitið ræðir Kant í annarri bók Gagnrýni hagnýtrar skynsemi. Einkennilegt er að í eftirleitinni hafi hvorki hann né sænskur ritstjóri hans skoðað tilvísunina. Eða er þetta kannski gestaþraut eða vísbending við draumaráðningu? Það liðna er jú ekki draumur!

Þýðing Halls Páls Jónssonar er góð. Dimma er afbragðs forlag.

sáþ 14. jan. 2025