Greinasafn fyrir merki: Hallgrímskirkja

Fegurst í heimi

Er Hallgrímskirkja falleg kirkja? Hvað sýnist þér? Þegar þú horfir í kringum þig, inn í kór, upp í hvelfingarnar, hver er þá niðurstaðan? Er kirkjan fögur? Hvað finnst þér um staðsetningu kirkjunnar í borgarlandslaginu? Hvernig líkar þér þegar þú kemur frá Keflavík og sérð Hallgrímskirkjuturninn og kirkjuskipið nánast sigla ofar borginni? Í vikunni keyrði ég um Kjalarnesið og mér þykir alltaf heillandi þegar Hallgrímskirkjuturn ber nákvæmlega við Keili. Þá verður samstilling formanna og kraftanna.

Hvað er falleg kirkja? Fegurð má vissulega skilgreina með margvíslegu móti og frá öðrum sjónarhólum en hinum fagurfræðilegu – estetísku. Er Hallgrímskirkja falleg? Kirkjuhúsið kitlar augu margra. Ljósflæðið hrífur og formfegurðin líka. Mörgum þykir kirkjan vera bæði fjarskafögur og innanfögur. Arkitektaskólar eru farnir að senda fólk til Íslands til að skoða kirkjuna og byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Mörgum í sókninni þykir vænt um kirkjuna og eiga dýrmætar minningar héðan um stóratburði lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir og minnast annarra hátíða og viðburða. Sum þeirra tala líka um hvað það hafi verið gaman að klifra í stillönsunum. Fjöldi Íslendinga, utan sóknar, sækir þjónustu til þessarar kirkju.

38

Meðal ferðafólksins er kirkjan vinsæl og aðdráttarafl. Fjölmiðlar heimsins og matsaðilar hafa lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi t.d. hið heimsþekkta Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. Ári síðar útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum í heimi. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fal­leg­ustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hef­ur nú verið birt­ur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á list­an­um. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann.Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er skv. þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkja er fyrir ofan það á listanum.

Hvað er falleg kirkja?

Fyrir nokkrum árum kom ég í Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Thorvaldsensskúlptúrar kirkjunnar eru hrífandi og gerð byggingarinnar er laðandi. Ég var á kirkjufundi í Kaupmannahöfn. Við stóðum saman uppi á svölum tveir samverkamenn í fjölþjóðlegum kirknasamtökum og ræddum um kirkjuna. Ég spurði vin minn, finnskan biskup: „Finnst þér þetta falleg kirkja?“ Hann horfði á mig hugsi, blikkaði augum meðan íhugaði spurninguna og svaraði svo brosandi og ákveðið: „Þetta er hús Guðs. Þetta er kirkja. Þar með er hún falleg.“ Ég spurði frá sjónarhóli fagurfræði og bygingarlistar og um smekk mannsins. En sá finnski svaraði guðfræðilega. Viðmiðið hans var trúarlegt. Það sem þjónar Guði er fallegt. Og slík er afstaða hins kristna. Það sem þjónar Guði, þjónar lífi, eflir gæði í lífi fólks. Og frá sjónarhóli Guðs er fallegt skilgreint róttækt. Við þurfum að temja okkur þennan trúarsnúning til að skerpa smekk, augu, skynjun, tengsl og túlkun. Hver er smekkur Guðs?

Hlutverkin og aðalmálin

Hallgrímskirkja er margt og gegnir mörgum hlutverkum. Hún er pílagrímastaður. Vegna þess að hún er orðin fræg um allan heim koma hingað ferðamenn. Hún er leiksvið ljóss og skugga og gott ómhús tónlistar. Í þessu hliði himins hefur fólk svo náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga þegar kirkjan er opin sækir fólk í þetta hlé til að tengja við djúpið. Hér er gott að íhuga, gott samband. Það sem mikilvægast er að hér er Guð, friður, Andi Guðs. Við sem hér störfum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þjóna fólki, vera fólki útréttir armar himins, eyru hins hjálpandi kærleika, augu hins umhyggjusama. Hlutverkin eru margvísleg og flókin. Oft erum við ekki viss um hvaða leið eigi að fara. En þegar allt er skoðað og skilgreint er meginhlutverkið skýrt. Kirkjan er hús Guðs. Hún er falleg því hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er ekki utan þjónustusvæðis heldur getur fólk tengt.

Smekkur Guðs

Smekkur fólks er mismunandi. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir.Við deilum ekki um smekk. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll þröng og einstaklingsbundin viðmið. Guðsdýrkunin og guðstengslin skilgreina allt. Og það er raunar stórkostlegt að breyta um fegurðarskyn og merkingartúlkun, og læra að horfa á allt með hætti guðssýnarinnar, endurskoða gildi alls sem er í kringum okkur og í okkur líka. Ertu fallegur? Ertu falleg? Fegurðardrottning heimsins? Á topplistanum? Já, þannig horfir Guð á þig – þú ert djásn í heimi og lífi.

Alla daga og á öllum árum þarf kirkja Jesú Krists að fara yfir hvað er við hæfi í lífi kristninnar og þar með kirkjunnar. Er þjónusta við ferðamennina í samræmi við hlutverk kirkjunnar og hvernig megum við efla tjáninguna um að fólk sé elskað og Guð sé nær fólki en vitund og hjartsláttur þess? Er hægt að styrkja eitthvað í kirkjustarfinu til að þjóna betur hamingjuleit fólks á ferð? Geta sýningar, tónleikar, listin og reksturinn þjónað mönnum og Guði betur? Getum við bætt þjónustu við söfnuðinn með nýjum starfsþáttum og starfsháttum? Er mannahaldið í samræmi við að þetta er fallegt hús Guðs?

Mér þykir Hallgrímskirkja falleg kirkja, en fallegust er hún þegar hún verður því fólki sem sækir kirkjuna heilagur staður. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Hallgrímskirkja er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn, 38. fegursta hús heims skv. smekk fjölda ferðamanna. Ytri ásýnd kirkjunnar er mikilvæg en fegurð kirkjunnar verður best skilgreind í ljósi trúar og guðstengsla. Guð er fegurðin í fyllingu sinni. Allur heimur og allt líf þiggur fegurð og merkingu frá þeirri uppsprettu. Að húsið er hús fyrir bæn merkir að kirkjan er heitur reitur tengsla Guðs og manna. Þegar kirkja er vettvangur faðmlags Guðs og lífs er kirkja bænahús.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt? Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En smekkur Guðs er annar og um hann verður ekki deilt heldur. Þegar Guð horfir er fólk fallegt. Guð býr ekki til lista yfir fallega fólkið og svo hina sem ekki eru falleg. Við erum elskuð, falleg, á topplista Guðs. Þegar Guð horfir á okkur erum við stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn. Já kirkja er falleg því hún þjónar Guði en svo er það makalausa að Guð elskar fólk meira en hús. Þú komst í fallegt hús en við megum vita að við í okkur býr fegurð himinsins. Þú ert fögur og fallegur því þú ert ástvinur Guðs. Já musteri Guðs.

Hallgrímskirkja 5. september. 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Aðalfundur Hallgrímssafnaðar. 

Jesús í Hallgrímskirkju

Þegar komið er inn í Hallgrímskirkju og horft til hægri blasir við Jesústytta Einars Jónssonar (1874–1954). Hann lauk gerð hennar á afmælisdegi sínum 11. maí árið 1946 og gaf síðan Hallgrímskirkju listaverkið árið 1950. Styttan var fyrstu árin í kapellunni sem var neðri hluti kórs kirkjunnar. Þegar Suðursalurinn var tekinn í notkun sem guðsþjónusturými árið 1974 var styttan flutt þangað og var við hlið altarisins. Kirkjuskipið var tekið í notkun árið 1986 og þá var Kristsstyttan flutt inn í kirkjuna. Mismunandi skoðanir voru meðal safnaðarfólksins hvar hún ætti að vera. Sumir vildu að hún yrði í kórnum og var deilt um hvort hún ætti að vera úr gifsi, marmara eða eir. Aðrir vildu að Kristsstyttan yrði neðan þrepa við kórinn. Að lokum var ákveðið að best færi á að hún yrði í vesturhluta kirkjunnar. Þar myndar hún helgirými, heilsar þeim sem koma í kirkjuna og kveður með kyrrlátri helgi þau sem fara út.

Trú Einars Jónssonar

Eftir efasemdartímabil í æsku varð Einar Jónsson trúmaður á fullorðinsárum. Trúarheimspeki alls konar, dulspeki og guðspeki, hafði mikil áhrif á list hans og hugsun. Í ritum Einars má sjá hve mikils hann mat Jesú Krist og taldi hann farveg fyrir ástaráhrif Guðs. Einar leitaði löngun að inntaki og kjarna birtingarforma lífsins. Í fjölda listaverka leitaðist Einar við að sýna það sem býr að baki ásýnd eða yfirborði. Erindi Einars og listar hans voru að opinbera dýpri sannleika, innri veruleika, kjarna efnis og anda. Einar málaði margar myndir af Jesú Kristi. Í þeim og skúlptúrum Einars er Jesús Kristur fulltrúi hins mesta og besta í veröldinni og þar með Guðs. Ásjónur Jesú eru ásjóna hins upphafna og hreina guðsfulltrúa og þannig er Kristsmynd Hallgrímskirkju. Jesús Kristur stendur með krosslagðar hendur sem er tákn um þjónustu við Guð og köllun til starfa. Því hefur Kristsmyndin verið tengd við skírn Jesú í Jórdan. Svipuð Jesúmynd er í páskaverki Einars sem hann gerði eftir að hann lauk Kristsmynd Hallgrímskirkju (1946-47). Þar er Jesús Kristur með krosslagðar hendur einnig.

Ásjóna og hendur

Hver var fyrirmynd andlits Jesú? Fyrirmyndin var ekki mennsk, en Einar heillaðist af því andlitsfalli sem Tórínó-líkklæðið opinberaði. Það var trú margra að það hefði verið líkblæja Jesú. Klæðið vakti mikla athygli um og eftir aldamótin 1900. Einar var ekki að leita að eftimynd eða ljósmynd af Jesú heldur mat hann gildi hins stíliseraða, handanmenska andlitsfalls klæðisins. En hendurnar eru íslenskar. Þegar Einar var að gera Kriststyttuna árið 1945 var hópur af ungum mönnum að vinna í garðinum hjá honum og Einar bað um að einn unglinganna sæti fyrir. Sá var Guðmundur J. Guðmundsson, síðar verkalýðsleiðtogi. Hann sagði síðar í dagblaðsviðtali. „Ég var náttúrulega ekki fyrirmyndin að andlitinu en hendurnar, framhandleggirnir og hálsinn eru nákvæmlega eins og á mér. Ekki einu sinni ljósmynd væri líkari,“[i]

Klæði og kletturinn Pétur

Kufl Kristsstyttunnar er líkur stíliseruðum klæðum á öðrum styttum Einars. Styttan er há og hæðin þjónar túlkun ofurmennis sem hægt er horfa upp til. Fingur og fætur eru einnig langir og vekja tilfinningu fyrir ofurstærð. Kristsstyttan stendur á bjargi og Einar meitlaði ekki aðeins kletta, t.d. stuðlaberg, heldur þótti merkilegt að íhuga merkingu kletts og tengslin við Pétur postula Jesú. Undirstaða skipti Einar alltaf miklu máli.

Jesúmyndir

Hallgrímskirkja er Jesúhús. Kveðskapur Hallgríms, Passíusálmarnir, beina sál, hugsun og lífi til Jesú, píslar hans og fyrirmyndar. En Jesúmynd Hallgríms er ekki áberandi í listaverkum eða skreytingu kirkjunnar. Kristsmynd Einars Jónssonar er ekki Jesúmynd Hallgríms. En myndin af Jesú er ekki ein. Engin veit hvernig Jesús leit út en meira er vitað hvað hann var og gerði fyrir menn. Mennirnir trúa – eða trúa ekki – með margvíslegu móti. Jesúmyndirnar eru tengdar afstöðu, skynjun, eigindum og túlkun fólks.

Jesús Kristur guðspjalla Biblíunnar er boðaður í Hallgrímskirkju í orði, söng, fræðslu og list. Einnig Jesús Hallgríms Péturssonar. En þar er líka er Jesúmynd Einars Jónssonar. Íslensk kristni á sér heimili í þjóðarhelgidómi Hallgrímskirkju. Þó myndirnar séu margvíslegar er Jesús Kristur þó einn – og kallar til allra sem koma, líka í kyrru og upphafinni tilbeiðslu Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Myndskeið þessarar íhugunar og kynningar Kristsstyttunnar er að baki þessari smellu. 

11.11.2020

[i] https://timarit.is/page/1525258#page/n11/mode/2up

Íkón Íslands

Ég byrja reisu mín,

Jesú, í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði. 

Þessa ferðbæn orti Hallgrímur Pétursson. Fólk bað hana í upphafi ferða og þegar farið var  á sjó. Margt af því sem Hallgrímur samdi var á vörum fólks og til stuðnings lífinu. Svo hefur kirkjan á Skólavörðuholti fengið nafn hans og nú er hún orðin tákn. Hallgrímur var íkón þjóðarinnar um aldir og boðskapur hans flæddi um menningu okkar. En nú hefur kirkjan sem við hann er kennd líka orðið tákn. Myndir af kirkjunni hafa verið í auglýsingum í dagblöðum, í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Kirkjan eða útlínur hennar hafa verið á rútum og strætisvögnum. Kuku-campers var með Hallgrímskirkju á bílum sínum í sumar. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa notað kirkjuna sem baksvið fyrir auglýsingar s.s. Flugleiðir, Landsbankinn, Toyota og nú síðast líka Arionbanki. Ný púsl með glæsilegum Reykjavíkurmyndum notar Hallgrímskirkju sem meginefni. Kirkjan hefur birst á bókarforsíðum innlendum og erlendum. Þegar sýna á eitthvað stórkostlegt er kirkjan gjarnan í bakgrunni. Bílum er stillt nærri kirkjunni til að baksviðið sé flott. Ofurtrukkar líta jú betur út með Hallgrímskirkju í baksýn en við venjuleg íbúðarhús? Kvikmyndaframleiðendur bíða í röðum að fá að nota kirkjuna, úti og inni. Viðburðastjórar og auglýsendur virða og nýta táknmátt Hallgrímskirkju. Enginn staður landsins er vinsælli fyrir myndatökur en Hallgrímstorg og sjálfurnar sem teknar eru fyrir framan kirkjuna eru risabálkur í myndasafni alheimsins. Hallgrímskirkja rís eins og tákn úr náttúru og menningu Íslands og er orðin stórtákn í menningu heimsins. Hallgrímskirkja teiknar ekki aðeins sjónarrönd borgarlandslagsins heldur eru hún orðin íkón fyrir Ísland.

En fátt benti til þess þegar kirkjan var byggð. Hallgrímssókn er áttræður öldungur. Alþingi stofnaði sóknina árið 1940. Fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldar var byrjað á byggingu kirkjunnar. Fyrst var gerður safnaðarsalur, sem er nú hluti kórsins. Veggir kirkjuskipsins voru síðan steyptir upp en ákveðið var að bíða með flókna bogahvelfinguna og þakið þar til síðar. Það voru klókindi sóknarnefndar að fullgera ekki kirkjuskipið heldur ljúka turninum fyrst. Ef það hefði ekki verið gert hefði turninn líklega aldrei verið byggður. Árið 1974 var hægt að messa í Suðursal turnvængsins og tólf árum síðar, 1986, var kirkjan svo vígð 26. október. Kirkjan er síðan orðin í hugum útlendinga samnefnari þess sem íslenskt er, tákn fyrir þjóð og land. Íkón Íslands.

En nú eru engir ferðamenn. Coronaveiran hefur gerbreytt samfélagi okkar, stúkað okkur af í heimssamfélaginu. Við prestarnir finnum að kvíði fólks vex. Þráðurinn er styttri hjá fólki og afkomuáhyggjur ógna. Æ fleirum er orðið ljóst að heimurinn er breyttur. Í færslum samfélagsmiðlanna kemur fram að mörgum finnst ástandið orðið biblíulegt, í merkingunni mjög alvarlegt. Ástandið er vissulega skrítið, aðstæður mörgum skelfilegar, já biblíulegar því við þurfum að leita djúpt og skoða gildi okkar. Hvað gerum við gagnvart vá? Saga okkar Íslendinga er litrík saga um hvernig gert var í voða, vanda og þraut eins og segir í ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Úr reynslunni var unnið og til varð sjóður visku sem við megum gjarnan nýta okkur. Viska kynslóðanna á undan okkur er menning okkar og eiginlegur viskubrunnur sem við megum ausa af okkur til lífs og gagns.

Um aldir hefur fólk á Íslandi glímt við vá af ýmsum gerðum sem hefur haft áhrif á sjálfsskilning, samfélagsanda og trúarviðhorf. Jarðskjálftar, eldgos, háfísár, uppskerubrestur, barnadauði, sjávarháskar, myrkur og kuldakrumlur langra vetra höfðu áhrif. Íslendingar fengu ofurskammt erfiðleika. Nærri einn þriðji hluti hrauna sem runnið hafa í heiminum síðustu fimm hundruð árin eru íslensk. Á aðeins einum degi í mars árið 1700 létust 165 sjómenn hér á landi. Ef Bandaríkjamenn dæju í sama hlutfalli á einum degi myndu fjöldinn vera hátt í sjö hundruð þúsund Bandaríkjamenn. Blóðtakan var því mikil. Farsóttir gengu yfir þjóðina um allar aldir og fjöldi fólks dó. Samanburður á mannfjöldaþróun á Íslandi og í Noregi skýrir glögglega hve íslensk náttúra var fólki erfið. Í lok 11. aldar voru Íslendingar um 70 þúsund talsins en á sama tíma voru Norðmenn um 250 þúsund. Nærri aldamótunum 1800 hafði Íslendingum fækkað niður í 47 þúsund en á sama tíma hafði Norðmönnum fjölgað í átta hundruð og áttatíu þúsund. Fangbrögðin við líf og land tóku skelfilegan toll en menningin slípaðist, andinn fór á flug og viska þjóðarinnar varð til. Íslensk menning var þríeyki aldanna, almannakerfi andans, hjálp til að lifa. Lífsviskan spratt fram þrátt fyrir kröpp kjör og sorg. Líf þrátt fyrir dauða.

Eftir að ég lauk guðfræðinámi á Íslandi fór ég að læra trúfræði, heimspeki og guðfræðisögu í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Það var skemmtilegt að kynnast Suðurríkjunum á níunda áratugnum og hlusta á sögur fólksins úr öllum menningarkimum. Það var skelfilegt að kíkja inn í byssuskápa hinna herskáu, hörmulegt að hlusta á þjáningarsögur hinna jaðarsettu, en hrífandi að hlusta á pólitíkusa framtíðarinnar æfa sig á háskólalóðinni. Í minningunni lifir munur ofurríks yfirstéttarsamfélags og skelfilega fátækrar lágstéttar. Söguljóð kántrítónlistarinnar fengu merkingu í þessu teygða samfélagi misskiptingar.

Allt blandaðist þetta inn í guðfræðina og hugmyndasöguna sem ég var að lesa. Þegar maður fær nýja sjónarhól og fer að sjá menningu sína úr fjarlægð er hægt að endurmeta gildi og gæði. Ég fór að lesa klassísk rit íslenskrar menningar með nýjum hætti, ekki bara fornbókmenntir okkar, goðafræðina, Íslendingasögur og þjóðsögur heldur líka kristnisöguna. Sagnarfurinn og líka klassískir höfundar eins og Jón Vídalín, Hallgrímur Pétursson og síðari höfundar töluðu til mín með nýjum hætti. Mér fannst ég uppgötva hjartslátt landsins í andvörpum menningarhefðar Íslands. Og gerði mér grein fyrir að margt af því sem fólk orkti eða talaði um – lifði í munnmælum eða var sett á blað – voru viðbrögð við vá og dauða. Þetta voru lífstjáningar um hvað væri til gagns í lífsbaráttunni. Þetta var lífsleikniefni fortíðar, speki og almannavarnaefni. Í bland við góðar sögur og dásamlegt skemmtiefni var hægt að greina hvernig uppeldið var, mótun fólks og hvaða gildum var miðlað til að bregðast við náttúruvá, samfélagsmálum, lífi og dauða.

Allt fólk leitar merkingar og skýringa á lífi sínu og sinna. Og það er uppistaðan í vefnaði menningarinnar. Fólk Íslands glímdi við fæðuskort, sjúkdóma, ógnir náttúru og óréttlæti. Mér sýnist að Íslendingar hafi búið til merkilega menningu, sem hjálpaði fólki við að greina mörk, vá og samfélagsskipan. Þessa menningu kalla ég mæramenningu. Þetta reddast-hugsunin á Íslandi er ekki afstaða kjánans heldur á sér dýpri rætur í lífsreynslu kynslóðanna í erfiðum aðstæðum. Það er líka skýr siðfræði í þessari viskumenningu okkar á mærum. Allir skyldu þjóna öðrum. Einstaklingurinn var einn af mörgum og ætti að vera til hags samfélagi sínu. Hinn kristni boðskapur fléttaðist að lífsreynslu fólks og var túlkaður inn í aðstæður. Samábyrgð, kærleikur, hófstilling, trúmennska og auðmjúk ráðsmennska var til stuðnings í almannavarnahugsun fortíðar. Þegar augum látinna barna var lokað í hinsta sinn féllu tár en þá voru líka sögð huggunarorð um elsku himinsins og eilífðarfang Guðs.

Og hvað kemur svo þessi lífsviska íslenskrar menningar okkur við í covid-fári? Jú, við erum allt í einu að lifa biblíulega tíma kreppu, mæranna. Við ættum að staldra við og hugsa um voða vanda og þraut. Æ fleiri íhuga hvort coronaveiran sem nú hefur kvíað veröldina svo skelfilega sé afleiðing röskunar á jafnvægi náttúrunnar. Nútímalandbúnaður hefur skaddað náttúrujafnvægi sem þróast hefur í milljónir ára. Fæðuval hefur breyst og veirur smitast fremur á milli kerfa nú en áður. Víða hafa mörk ekki verið virt. Vatni hefur verið spillt í heiminum. Gengið er á vatnsbirgðir og vatnsstreitan vex. Og átök um vatn hefur og mun leiða til stríða og mannfalls ef fram heldur sem horfir. Lofstslagsvandi hefur á síðustu árum orðið ofurvandi okkar allra. Í viskuhefð okkar Íslendinga eru fyrirmyndir um hvernig á að taka á áföllum og vanda, hvernig eigi eða megi lifa við mæri og lifa af með reisn.

Klassísk menning og heildarhugsun vestrænna þjóða hefur rofnað. Afleiðingar eru siðferðisglundroði og mengaður samfélagsandi. Einstaklingshyggja og sérgæska er á kostnað heildarhyggju og samúðar. Þeir ríku og sterku reyna bara að tryggja hag sinn og er sama um hvort einhverjir líða út af í kjölfarið. Slík afstaða er algerlega þvert á mæramenningu Íslendinga. Sóunarafstaða einstaklingshyggjunar er þvert á visku okkar þjóðar.

Covidtíminn nú opinberar okkur mikilvægi þess að standa saman, verja hvert annað, passa upp á hin veikustu, axla ábyrgð og að við setjum ekki heilsukerfi okkar á hliðina. Við erum vissulega öll almannavarnir. En við þurfum sem samfélag að endurskoða hvernig við lifum og hver gildi okkar eru og lífsafstaða. Við höfum ekki óskertan rétt heldur ber okkur að elska og virða. Okkur eru gefnar miklar gjafir. Okkur er boðið til veislu eins og segir í texta dagsins. En þegar við virðum ekki gjafir lífsins, ríkidæmi náttúrunnar, gæði menningarinnar og velferð heimsins þá segjum við okkur úr lögum við það sem máli skiptir, töpum tengslum, upp, út og niður. Á máli trúleysingjans er það að sinna ekki siðferðisskyldu sinni. En á máli trúmannsins er það að bregðast kalli Guðs til hins góða lífs. Guð kallar okkur til veislu í lífinu, að njóta lífsgæðanna og að virða mörk og þarfir manna og náttúru. Við erum kölluð til að rækta tengslin við hið góða, siðlega, ábyrga og gleðilega. Við erum kölluð öll til veislu – boðið í partí sem er svo gott að það fer ekki úr böndum. En nú læðist kvíðinn um og mörkin færast nær. Æ fleiri upplifa þrengingar og hætt er við að veturinn verði mörgum þungbær. Þá er komið að tíma vitjunar. Við þurfum að þora að endurskoða, að ganga í okkur sjálf, meta gildi okkar og tengsl.

Hallgrímssöfnuður á afmæli. Hallgrímskirkja er ekki bara sjónarrönd eða íkón Íslands og aðalmarkmið ferðamanna, heimshelgidómur. Erindi þessarar kirkju, helgihalds hennar og menningarlífs er að segja góða sögu gegn allri vá heimsins. Það var verkefni Hallgríms Péturssonar með Pássíusálmunum. Hallgrímur hafði meiri áhuga á lífinu en dauðanum. Í eigin lífi hafði hann reynt að vonin lifir í þessum heimi af því Guð elskar og kemur til að veita líf. Að vita í von er að trúa. Meðan byggð helst í þessu landi verða sagðar sögur í helgidómum og á heimilum þessarar þjóðar um að lífið er sterkara en dauðinn. Að dauðin dó en lífið lifir. Meðan byggð helst í landi og heimi teiknar þessi helgidómur himinlínu Reykjavíkurborgar og turnspíran mun benda beint upp í himininn. Boðskapur þessa húss, erindi presta, djákna, organista, kórs og inntakið í hvísli helgidómsins er að Guð stendur með lífinu. Guð kemur og veitir von til lífs. Coronaveirur munu fara um heiminn, heimsbyggðin er við ýmis mörk sem verður að virða. En vonaróður lífsins verður tjáður og sunginn áfram í þessari kirkju meðan lífið lifir. Mæramenning Íslendinga er til lífs. Guð er nærri. Hallgrímur Pétursson segir í öðru erindi ferðabænarinnar sem reyndar verður sungin á eftir:

Í voða, vanda og þraut / vel ég þig förunaut, / yfir mér virstu vaka

og vara á mér taka. / Jesús mér fylgi í friði / með fögru englaliði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda – Amen.

Hallgrímskirkja, útvarpsguðsþjónusta, 25. október, 2020.

 

Kirkja Quarantine

Í maí hafði dóttir mín samband og sagði við mig: „Vinur minn er að sýna ljósmyndir. Þið verðið að fara á sýninguna hans, Quarantine Iceland. Pabbi, þú ert á sýningunni, eiginlega eina manneskjan, sem sést.“ Svo upplýsti hún föður sinn, að á sýningunni túlkaði ljósmyndarinn borg lokunar og mannleysis. Þetta væri sýning sem ég myndi örugglega hafa áhuga á.

Já, Qurantine Iceland var merkileg sýning og túlkaði dimmasta og átakanlegasta tíma samkomubannins í vor. Þá var kvíði í fólki. Áhyggjur vegna atvinnuleysis, uppsagna og heilsufars þrengdi að fólki á þessum tíma. Þær tilfinningar túlkaði Þórhallur Sævarsson vel með myndum sínum. Hann kom frá Mílanó og fjölskyldan með honum þegar COVID-19-faraldurinn fór af stað. Og þegar heim var komið fannst honum ástæða til að taka myndir í Reykjavík samomubannsins, sem hann sýndi svo í Hafnartorgi, einni af nýbyggingunum í miðbænum.

Ég hlýddi dóttur minni og við röltum niður í bæ, ég og kona mín. „Velkomin“ sagði ljósmyndarinn þegar við komum inn í salinn. Þegar við Þórhallur höfðum heilsast sagði ég við hann: „Ég er maðurinn á myndinni.“ Augun blikkuðu meðan hann var að kveikja, hann var snöggur og brosti út að eyrum. Hann skildi hvað ég átti við enda var eina myndin á allri sýningunni sem sýndi fólk einmitt úr Hallgrímskirkju.

Sýningin var áhrifarík. Í stórum sal voru myndir af húsum, götum og stöðum – en ekkert fólk á ferð. Allar þessar myndir – nema ein – sýndu mannlausa borg. Það var eins og dómur hefði fallið, allt var staðnað, mannleysið yfirþyrmandi. Yfirgefin Reykjavík, borg að stríði loknu eða eftir einhverjar hræðilegar náttúruhamfarir. Einmanleiki og annarleiki borgar og lands seitlaði út úr myndunum og inn í sálir okkar sem komu í Hafnartorg. Við skynjuðum líðan þessa ógnatíma.

Bara á myndinni frá Hallgrímskirkju var fólk. Eina fólkið sem sást var í kirkju. Hvítklæddur prestur í kór að stýra bænastund. Og svo voru þrjú í kirkjunni og það sást bara aftan á höfuð þeirra. Helgidómurinn var hrífandi fagur á myndinni. Og tveir höfðu þegar keypt hana. Það var eins og kirkjan væri eini vettvangurinn sem gegndi hlutverki í þessari borgartæmingu. Tónabíó-bingóstöðin tóm, líka Laugardalsvöllur, verslunarmiðstöðvar og pylsustaðirnir. Göturnar voru bíllausar. Myndirnar segja ekkert um raunlífið í landi og borg á þessum tíma, heldur tjá fremur stemminguna á lokunartíma. Myndirnar túlkuðu líðan, tilfinningar ljósmyndarans og margra annarra. Kaþarsis.

Kirkjan í kófinu

Sýningin rifjaði upp hvað við gerðum í kirkjunni á erfiðasta lokunartímanum. Allt breyttist, allt var í bið. Afar fá prestsverk, útförum var frestað til minningarathafna síðar, skírnum var frestað líka, fáar hjónavígslur, færri komu til sálgæslu en venjulega og tónleikar og aðrir viðburðir féllu niður. Hætta varð hefðbundnu helgihaldi vegna fjöldatakmarkana. En það bannar engum að biðja. Samkomubannið náði ekki yfir Guð, engin bið þar. Ekki heldur nándarmörk – alger nánd leyfileg. Það var heimilt að koma í kirkjuna. Ferðamennirnir voru engir en Íslendingar voru þó á ferð, komu í túristaleysinu niður í bæ og líka í helgidóminn. Við prestarnir stýrðum helgistundum í hádeginu en auglýstum þær ekki. Alltaf voru þó einhver í kirkjunni en aldrei yfir tuttugu sem var hámarkið. Ljósmyndarinn fangaði þessa stemmingu. Borgin var tóm en í kirkjunni var fólk. Eina fólkið á allri þessari sýningu voru þau sem voru að bænagerð í hliði himins. Kannski ítrekaði það einmitt háska tímans. Guð blessi Ísland.

Hvað er kirkja?

Guðspjall dagsins er um helgidóm, hlið himins, tilbeiðslustað. Jesús hryggðist yfir skammsýni fólks, hvernig það brást rangt við váfréttum. Hann talar um skelfileg örlög Jerúsalem. Borgin féll nokkrum áratugum síðar, og hér upp á Íslandi varð til eyja í Þingvallavatni þegar borgin helga féll og helgidómur þess líka. Alltaf þegar ég fer austur Mosfellsheiði og sé Sandey hugsa ég um þennan texta í Lúkasarguðspjalli og vitjunartímann. „Hús mitt á að vera bænahús,“ sagði Jesús Kristur „en þið hafið gert það að ræningjabæli.“ Bænahús, það er hlutverk kirkju.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins fjölsóttasta kirkja landsins heldur fjölsóttasti ferðamannastaðurinn líka. Og þegar margir fara um svona stað þarf stöðugt að íhuga og skerpa hlutverk kirkjunnar. Til hvers kirkja? Ég hef heyrt fólk, sem ekki þekkir vel til starfs Hallgrímskirkju, tala um ferðamennina sem tæki og sjá aðallega í þeim tekjumöguleika. En ferðamennirnir sem hingað koma eru ekki burðarmenn fjármuna. Þeir eru mannverur, lifandi fólk, sálir sem Guð elskar, rétt eins og okkur hin. Þau hafa þarfir sem eru andlegar. Þau koma hingað ekki aðeins til að kíkja upp í turn og yfir litrík þök borgarinnar og til fjallanna, heldur fara þau líka inn í guðshúsið til að að anda að sér himinfriðnum, til að njóta kyrrðar- eða íhugunarstundar, bæna sig, nema guðshvíslið. Þau þrá mörg að fá yfirlit yfir líf sitt og samband við hamingjuna. Enn er minnt á lista the Guardian sem úrskurðaði að Hallgrímskirkja væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heims. Milljónir hafa fundið að hér er dásamlegt samband, upp og inn. Hér er rétt samstillig kraftanna. Hlið himins tengir fólk í allar áttir, inn, út, upp og til dýptar.

Biðjandi söfnuður

Á tíma samkomubannsins, þegar allt féll niður, allir mannfundir, líka listviðburðir, héldum við áfram að biðja hér í kirkjunni, íhuga stóru málin, lesa upphátt úr Biblíunni í kirkjunni og útleggja og biðja fyrir öllum þeim sem hafa beðið um fyrirbænir. Bænastundir voru haldnar í hádeginu hvort sem það voru fjögur í kirkju, sjö, tólf eða nítján. Og hvað er kirkja? Bænastaður segir Jesús Kristur. Það er skilgreiningin. Biðjandi, boðandi, þjónandi. Einu gildir hvort fólk er í þjóðkirkju, fríkirkju eða utan kirkju. Allir voru og eru velkomnir í Hallgrímskirkju til að tengja og njóta næringar hið innra. Hvort sem kirkjan er fólki fjarlæg eða nálæg er þetta guðshús stórt fang sem engum hafnar. Kvíði og óskir mannanna eru leyfilegar. Og hér er staður til að leyfa því sem er dimmast og falið að koma upp og í ljósið.

Já bænahús

Aftast í Hallgrímskirkju, nærri ljósberanum, er borð með miðum og skriffærum. Á hverjum degi koma margir og setjast niður og skrifa bænir sínar á lituð spjöld. Svo höfum við prestarnir tekið þessa bænamiða og beðið fyrir fólki sem tjáir áhyggju- og gleðiefni sín, það sem líf þeirra snýst um, vonir, þrá. Fólk sem er að skilja biður fyrir erfiðum aðstæðum, sjálfu sér og börnum sínum. Fólk sem glímir við fjölskyldukreppur tjáir þær. Sorg yfir barnleysi er líka tjáð með sálarslítandi orðum en borin fram fyrir Guð sem er beðinn um nýtt líf. Þegar veikindi sækja að eru áhyggjur orðaðar og Guð beðinn um nánd og styrk. Margir hafa tjáð kvíða vegna farsóttar COVID-19 og biðja um mátt og leiðsögn. Í bænum síðustu daga er líka beðið fyrir íbúum Hvíta Rússlands, Jersúsalem, Palestínu og forsetakosningum í Bandaríkjunum. Svo situr fjöldi fólks í kirkjunni og tengir við himininn, sjálft sig, tilfinningar og lífsdjúpin. Appelsínugulu bænaspjöldin eru tákn um að hér er raunverulegt fólk á ferð, sálir. Kirkja er opinn staður fyrir lífið. Ferðafólkið, fólk á ferð – eins og við – eru virt. Á okkur öll er horft ástaraugum. Hér erum við virt og metin, megum við vera við sjálf og tengja við allt það mesta, stærsta og besta. Í skírnum, giftingum, viðtölum og útförum er allt opið. Himininn líka. 

COVID-kófið. Já þetta er einkennilegur tími. Quarantine Iceland-myndin úr Hallgrímskirkju leitar stöðugt upp í vitund mína. Hvað er kirkja, hvað er helgistaður? Aldrei ræningjabæli. Kirkja er umferðarmiðstöð, pílagrímastaður, fang lista og viðburða, fegurðar, metnaðar, þjónustustaður fyrir fólk. Viðburðir, allt mannlífið í kirkjunni nýtur að kirkjan er bænahús. Þar er kraftmiðjan sem allt tengir. Þannig veruleiki á Hallgrímskirkja að vera, köllun hennar, hlutverk og framtíð. Guði sé lof. Amen.

Hallgrímskirkja 16. ágúst, 2020. 10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Meðfylgjandi myndir tók ég á sýningunni Quarantine Iceland. Þetta eru símamyndir af myndum Þórhalls (sem lýtur að einni til að túlka), líka Hallgrímskirkjumyndin og sýnir ekki vel gæði frummyndarinnar. 

Textaröð: A

Lexía: Jer 18.1-10
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín. Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best. Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.

Pistill: Róm 9.1-5
Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.

Guðspjall: Lúk 19.41-48
Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.“ Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.

Byggjum svo á bjargi

Hallgríms helgu kirkju

í Herrans nafni reisum.

Verkið virðulega

vel af hendi leysum.

Látum kraft hins krýnda

Konungs hjörtun skíra.

Byggjum svo á bjargi

bænahúsið dýra.

Þetta er lokaerindið í ljóði Guðrúnar Jóhannsdóttur í Brautarholti sem hún orti þegar bygging Hallgrímskirkju var undirbúin. Ég rakst á þessa fallegu skrautrituðu útgáfu upp á vegg á skrifstofu Margrétar Bragadóttur í kirkjunni.