Greinasafn fyrir merki: guðsríkið

Bandaríkin, Ísland, Guðsríkið

Í dag höldum við hátíð í Hallgrímskirkju. Við göngum að borði Drottins. Fyrsta altarisgangan eftir meira en árshlé, raunar hlé í meira en fimmtán mánuði. Svo er líka þjóðhátíðardagur vinaþjóðar okkar vestan hafs. Textar messunnar varða guðsríkið. Íhugunarefni dagsins eru gildi, menning Íslands, Bandaríkjanna og Guðsríkisins. Það er merkileg þrenna. Öll jarðnesk ríki þarfnast heilbrigðrar gunnfestu og skipulags til góðs fyrir fólk. Guðsríkið er fyrirmynd um viðmið.

Er til nokkur góður maður?

Mér eru Bandaríki Norður Ameríku kær. Eftir guðfræðipróf frá HÍ stundaði ég framhaldsnám í Tennessee, sem er eitt af suðurríkjunum sem eiga sér mikla og marglita sögu. Mér þótti vera gefandi og heillandi. Eftir fyrsta veturinn vestra kom kom ég heim í sumarfrí og átti tal við konu hér í borginni. Hún vissi af námslandi mínu, horfði á mig djúpum áhyggjuaugum og spurði svo: „Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum?” Spurningin var frá hjartanu, heiðarleg og alls ekki sögð í gamanskyni eða af kaldhæðni. Henni var alvara. Konan hafði sterkar skoðanir í pólitík, á fólki og þjóðum. Hún var raunverulega sannfærð um, að þjóðfélag Bandaríkjanna væri illt og vegna gerðar hins ameríska samfélags væru íbúarnir skemmdir því samfélagið væri kerfislega spillt og íbúarnir þar með líka. Ég furðaði mig á fordómunum og ákvað að svara viðmælanda mínum. En rök mín breyttu engu. Það var engin leið til að fá konuna til að breyta klisjuhugsun sinni.

Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum? Spurningin hefur lifað með mér og vitjar mín reglulega þegar einhver vitleysan gengur fram af mér. Hún er tákn um einfeldningshátt sem því miður margir temja sér og rækta með sér. Jú, það er eðlilegt og nauðsynlegt að gefa sér forsendur í lífinu en vondar og vitlausar forsendur ala klisjur, fordóma og ofstæki. Og í krafti rangtúlkunar verða til falsfréttir, hleypidómar, ótti, vond pólitík, einangrunarhyggja og múgæsing. Afkvæmi slíkrar afstöðu eru mannhatur, ofbeldi, kúgun, manndráp og stríð.

Er til nokkur góður maður? Fordómar sem búa til slíkar spurningar búa í fólki sem dæmir aðra ranglega. Einstaklingar, hópar, félagasamtök, kynþættir, trúarhópar og öðru vísi fólk og jafnvel heilu þjóðirnar eru flokkuð í betri og verri, normal og ónormal, gott og vont. Til verður andstæðan við og þið.

The Declaration of Independance

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna rifja ég upp spurninguna um meinta illsku Ameríkana. Margt merkilegt er í sögu þeirrar þjóðar. Ekkert samfélag er fullkomið, hvorki hið bandaríska né íslenska. En margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. 4. júlí er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Sjálfstæðiyfirlýsingin er klassík, eitt af djásnum Bandaríkjanna og líka heimsmenningarinnar. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Mannvirðing er uppspretta yfirlýsingarinnar og skjalið túlkar kristin grunngildi og mannréttindi sem heilbrigður átrúnaður túlkar og styður.

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er magnað plagg sem fjallar um gildi og frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Þegar stjórnvöld bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa þeim. Grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda er skilgreind og viðurlög brota stjórnvalda ákveðin. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja gæði og einstaklinga. Þessa visku megum við gjarnan taka til okkar, læra af.

Viskurof

Sjálfstæðisyfirlýsingin er viðmið og stefnuvaki bandarískar menningar. Í menningarhefð okkar Íslendinga er líka hliðstæð mannsýn og lífsleikni sem við þurfum að rækta og njóta. Viskan er ekki síst tjáð í trúarhefðinni. Í íslenskum trúarritum okkar er kennt að við séum ekki bara óháðir einstaklingar sem lifum bara fyrir eigin þarfir og langanir heldur séum við meðlimir stórfjölskyldu. Hlutverk okkar er ekki að belgja okkur ekki út heldur virða samspil, kunna okkur hóf, seilast ekki of langt, iðka hið góða, gæta að mörkum okkar og köllun til að lífinu sé vel lifað og það verði farsælt. Sú hófstillingarhugsun er líka tjáð í þjóðsögunum. Boðskapur í postillum, hugvekjum, sálmum kristninnar eins og Passíusálmum er að við séum tengslaverur og ættum að sjá hlutverk okkar í stóru samhengi við náungann og Guð. Þá farnast okkur vel. Menn ættu ekki að gera efnislega hluti, fjármuni, stöðu og ytri dýrmæti að keppikefli lífsins, að hjáguðum, heldur leggja sig eftir góðu og gjöfulu sambandi við Guð og menn, sinna skyldum sínum í smáu og stóru, iðka réttlæti og seilast eftir farsæld – en ekki fé og frama. Jákvæð mannhugsun er tjáð í klassík Bandaríkjanna og Íslands.

Erindi lestranna

Þá að Biblíutextum sem eru bæði á íslensku og ensku í ljósrituða sálmayfirlitinu. Í dag er vísað í stóru málin. Lexían varðar að fólk er kallað út úr hinu þrönga samhengi og til hins stóra. Kall Guðs varðar að fara pílagrímaferð til nýrrar tilveru. Þegar Guð kallar reynir á hugrekki: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera.“ Hver þorir að slíta sig í burtu, fara?

Þetta var kall þeirra sem fóru frá heimaslóð til að flytjast til Íslands á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Og staða þeirra sem fóru til Bandaríkjanna á sinni tíð til að setjast þar að. Það þarf mikið þrek og hugrekki til að bregðast við boði um að taka sig upp og fara inn í nýjar aðstæður og til nýrrar tilveru. Stef lexíunnar er síðan endurunnið í pistilinum sem varðar að efla nýtt samfélag þar sem alls konar og ólíkt fólk er leitt saman. Hið nýja og óvænta verður þegar Guð kallar fólk frá hinu gamla, hinu hefðbundna, líka fordómum og til hins nýja. Til verður samfélag á grundvelli nýrra gilda, nýrrar mannhugsunar og nýrrar samfélagshyggju. Guðspjallið dregur svo saman að guðsríki Jesú Krists er hið nýja mannfélag elskunnar, samheldni, virðingar og kærleiksríkrar umhyggju. Í guðspjallinu er farið að baki fordómum. Hið illa má og þarf að hverfa. Illa anda, þ.e. hvers konar illsku og mannskemmandi afstöðu, þarf að kveða burt. Í endurvinnslu guðsríkisins skal hið illa fjarlægt. Segja skal skilið við það sem eyðileggur mannvirðingu, virðingu fyrir lífinu, fyrir öðrum. Guðstrú kallar fólk til virðingar fyrir sköpun Guðs, samfélögum, öðru fólki og eigin lífi.

Hver er vinsemd þín?

Og þá er komið að þér og vinsemd þinni. Hver eru gildi þín og hvernig bregst þú við þeim sem eru þér ólík og koma að utan? Ertu til í að leyfa fólki að njóta sannmælis? Ríkir í þér mannvinsemd, sjálfsvinsemd og lífsvinsemd? Slík vinsemd er tjáning trúar á Guð sem elskar fjölbreytni. Eru í þér fordómar um að þau sem ekki hugsa eins og þú séu annars flokks? Er komið að endurskoðun? Þarftu að endurskoða klisjur þínar, jafnvel fordóma um þitt eigið sjálf og persónu? Þarftu að heyra kall lexíunnar að þú þurfir að halda í merkilegra ferð sem Guð kallar þig til? Þarftu að leyfa Guðs góða anda að næra vinsemd þína til eigin lífs, eigin sjálfs, til annarra, samfélagsins, heimsins sem við búum í og náttúrunnar sem umvefur þig með svo ljúflegu móti?

Guðstrú varðar að stækka tilveru okkar. Guð er ekki handbendi og málsvari hins smáa, héraðs, menningar eða þjóðar. Guð er skapari heimsins, sem kallar okkur til að virða sköpun sína, náttúruna, annað fólk. Við erum ekki kölluð til klisjulegrar einfeldni heldur til virðingar fyrir grunngildum, góðu samfélagi, friði og réttlæti. Köllun okkar allra er að tengja lífið við Guð með þeim hætti að við verðum fulltrúar Guðs í heimi. Okkar hlutverk er að þjóna fólki vegna þess að það er lífsafstaða trúmannsins að gera öðrum gott því Guð vill þessum heimi gott.

Er nokkur góður maður í Ameríku? Er nokkur góður maður á Íslandi? Er nokkur góður maður í þessu húsi í dag? Velferð Bandaríkjanna og lífsgæði á Íslandi eru háð því að við iðkum mannvirðingu. Við erum kölluð til að vera borgarar Guðsríkisins, abyrgir fulltrúar ríkis Jesú Krists. Amen.

Prédikun í messu í Hallgrímskirkju 4. júlí 2021. Fimmti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð. Myndina af drengjunum tók ég fyrir sex árum. Hattarnir og hálsfestin voru gjöf sendiherra BNA en drengirnir Guðsgjöf. 

Lexía: Fyrsta Mósebók 12.1-4a
Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum.

Pistill: Rómverjabréf 16.1-7
Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.

Guðspjall: Lúkasarguðspjall  8.1-3
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Er þessi pabbi í lagi?

Hvernig hefur fjölskylda þín mótað þig? Ekki aðeins erfðavísarnir heldur samskipti, uppeldi og áföll. Við erum öll hluti fjölskyldu og fjölskyldusögur eru alls konar. Við mótumst af fjölskyldu okkar og sögu hennar. Í Biblíunni er fjöldi fjölskyldusagna, sem eru erkisögur, lærdómssögur og viðmið en líka víti til varnaðar. Jesús var meðvitaður um gildi, vegsemd og vanda fjölskyldna. Hann sagði litríkar sögur um fjölskyldur. Íhugunarefni dagsins er ein af þeim merkilegu sögum.

Saga guðspjallsins er um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldu hans. Þessi saga um týnda soninn, eyðslusegginn, er í guðspjallinu síðasta sagan um missi og endurheimt. Og ungi maðurinn sem drífur áfram framvindu sögunnar var með huga við peninga. Hann kreisti út arf sinn fyrirfram, sóaði öllu með miklum látum og klúðraði fjármálum sínum herfilega. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur meðan hann átti aur. En svo var auðurinn búinn og hryllilegur raunveruleikinn blasti við. Þegar maðurinn var meðal svínanna varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum og viðurkenndi þá, að hann hafði verið týndur. Þá byrjaði hann að sjá að sér, iðrast, – koma til sjálfs sín eins og sagt er svo fallega.

Þrír karlar

Heima var týnda syninum fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara var heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúð mín með eldri bróðurnum. Var þessi veisla fyrir ruglukollinn nokkuð annað en meðvirkni? Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar, sem týnast af einhverjum ástæðum. Og það er alltaf átakanlegt. Svo eru hin, sem eru ábyrg og standa við sitt og sinna sínum hlutverku en geta þó átt í miklum vanda. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki fullkominn. Hann var ekki týndur í útlöndum en var þó týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni en hafði tapað tengslum við ástvini sína. Fólkið í fjölskyldu karlanna var týnt hverju öðru og úr varð misskilningur. Allir rugluðust – allir voru týndir?

Meginstefið og yfirdrifnar sögur Jesú

Þekkir þú svona fjölskyldulíf? Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Sögur Jesú Krists eru merkilegar. Hann var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir pólarnir. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús reyndi með sögum sínum að kalla tilheyrendur sína til vits. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en þó ekki að umbuna fyrir vitleysuna.

Já, bræðurnir eru mikilvægar persónur í dramanu en miðjan í sögunni er þó faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sem Jesús dregur upp sprengir alla ramma hins venjulega fjölskyldulíf, sprengir allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski FAÐIR. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalausri ást, sem umvefur allt og alla.

Iðrun og sátt.

Jesús sagði þessa líkingasögu til að vekja tilheyrendur til íhugunar um guðsafstöðu. Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Eða báðir í ruglinu? Týndi sonurinn – hver er hann? Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast. Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök. En Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú sért búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er flóð eða hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. En bræður, systur, systkin og fjölskyldur klúðra lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum komin á botninn megum við halda heim. Nýr möguleiki. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Í Jesú nafni – amen

2019 3sdeftirþrenn B 7. júlí

Myndin sem fylgir þessari íhugun er eftir Oleg Korolev. 

A few words on the text of the day. It is Jesus‘ story about the lost son, the prodigal son. He tricked out his inheritance and went abroad for an expensive life ending in absolute disaster. So when – without money or food – the man realized and admited his awful situation. He decided to return. But he knew that he had lost his former status. The father welcomed him with a feast. But the older son was astonished that the scoundrel, who had been such a pain in the family, was rewarded and redeemed. So what to do with the story? All families have a prodigal son or a daughter, father or mother. All families struggle with how to cope with some loss og disaster. Jesus marvellous story relates to all families of the world. The two guys, the brothers, are important in the drama. The yonger son was a misfit but he decided to depart from his wrongdoing. The older son, with a completely different view, was a lost son too. While just doing right he forgot seeing the possibilites and richness of life. And of cource he is the representative of legalistic way of living, that was the political-cultural message of Jesus. But the message – the sense – of his story concerns the abundance excemplified by the Father. He is greater than all fatherhood in the world. The father in the story is an icon, image of the divine, excuberant, more loving than the sons deserve. Applied to you: However, you spend your wealth or how you have lived your life there is a possibility, an openness. However you have disrespected the depth in your soul, or that which is divine, you are welcome nevertheless. God is not a resenting, grumpy old guy – but overflowing love. When you are lost you are nevertheless seen and cherished.

Lexía: Slm 145.8-13
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Pistill: 1Tím 1.15-17
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“