Greinasafn fyrir merki: guðsmynd

Portrett

Eftir að ég þjónaði einu sinni við útför var mér tilkynnt að fjölskyldan vildi gefa mér listaverk sem þakkarvott – ekki eitt verk heldur tvö! Mér var líka tjáð að verkin væru eiginlega portrett af mér. Annað er með fjörlegum en fínlegum litum. Hitt er gulleitt og hrífur vegna geislandi birtu og hreyfingar. Portrett – það voru skilaboðin. Nú er ég búinn að hengja verkin upp og vinir óskuðu skýringa. Þeim þótti merkilegt að myndirnar væru portrett en sögðust skilja hvaða áherslur kæmu fram í verkunum og að raunveruleg tenging eða líkindi væru milli mynda og mín. Ég fékk svo ítarlegri skýringar sem nægðu mér. 

Við lýsum fólki, viðburðum og reynslu með orðum og sögum og við getum líka málað mynd til að tjá áhrif og líðan í tengslum. Sumar myndir í orðum eða litum heppnast en aðrar síður. Þær geta miðlað  skynjun og lyft upp ákveðnum atriðum sem við viljum tjá eða túlka. Stundum þarf mörg protrett til að tjá eina en flókna mannveru.

Abstraktmyndirnar drógu fram þætti en kortleggja ekki heild persónu. Þær gefa sjónarhorn en eru ekki nákævæmur persónuprófíll. Ég horfi á þessar myndir og velti vöngum yfir hver ég er. Ég get ímyndað mér ýmsar víddir og túlkað lík, jafnvel farið á djúp kenningarinnar um guðsmynd og dregið úr því margt merkingarbært. En ég veit líka að ég verð aldrei fullkomlega séður og túlkaður nema í skuggsjá eilífðar. Ef ég og ástvinir mínir vita ekki fullkomlega hvað og hver ég er hvernig er hvernig getum við þá lýst Guði? Guðsportrettin eru vissulega mörg í veröldinni! Sum þeirra eru góð og tjá að mínu viti sannleikbrot og eru góð vísun. Takk fyrir mig. 

Guðsmyndir Íslendinga

Í Hallgrímskirkju er talað við Guð og um Guð. Síðustu vikurnar höfum við rætt guðsmyndir í sögu Íslendinga á þriðjudagsfundum. Eru guðsmyndir samtímans öðru vísi en áður var? Þarfir hvers tíma móta trúartúkun og hvernig talað er um Guð. Við höfum rætt um guðsmynd Hallgríms í Passíusálmunum og síðan um guðsmynd Vídalínspostillu. Fyrir viku síðan var rætt um guðstrú í prédikunum og sálmum Sigurbjarnar Einarssonar. Í dag verður farið yfir þróun á Íslandi og lyft upp þörfum í samtíma okkar. Ég mun fara stuttlega yfir þróun kristni og guðfræði á Íslandi því tuttugustu aldar kristni er afsprengi fyrri tíðar og við erum arftakar tuttugustu aldarinnar. Mitt mál í dag varðar prentuð trúarrit. Þau eru bara einn af mörgum þáttum í trúarfléttu þjóðarinnar og þróun guðsmynda íslensks samfélags. Þessi rit voru skrifuð af körlum en konurnar á fyrri öldum voru einnig fræðarar og fyrirmyndir í trúarmótun. Um þau hlutverk verður ekki fjallað í dag né heldur um trúfræði kvennanna sem urðu fræðikonur og prestar á síðustu áratugum. Á næstu vikum verður það svið opnað með fyrirlestrum þriggja kvenna sem hafa starfað lengi sem prestar þjóðkirkjunnar.

Niðurstöður úr guðsmyndarkönnunum í Hallgrímskirkju

En fyrst um guðsafstöðu þeirra sem lögðu leið sína í þessa kirkju. Ég gerði könnun á guðsviðhorfum þeirra sem sóttu messu í Hallgrímskirkju í fyrri hluta febrúar og meðal þeirra sem sóttu fyrirlestur um guðsmyndir Íslendinga fyrir fjórum vikum. Spurningarnar voru fremur opnar og tilgangurinn var að fá fram hvernig fólk hugsaði um Guð og guðstengsl. Um eitt hundrað svör bárust. Beðið var um að svörin væri nafnlaus. Flestir hlýddu – aðeins einn setti nafnið sitt á blaðið. Spurt var um hvað best tjáði guðsmynd fólks. Spurt var um persónur þrenningarinnar, þ.e. föður, son og heilagan anda og hvort fólki þætti Guð vera persóna eða kraftur. Einnig var spurt um hvort Guð væri fremur yfirvald eða vinur. Væri Guð nálægur eða fjarlægur? Ætti fólk samskipti við Guð, talaði við Guð eða hefði lítil samskipti? Niðurstöður voru áhugaverðar.

Kraftguð

Í ljós kom að helmingi fleiri töldu að Guði væri betur lýst sem krafti en persónu. 67% töldu að Guð væri kraftur en helmingi færri eða 33% töldu að Guð væri best túlkaður sem persóna. Þessi kraft- eða máttar-trú er áhugaverð og merkileg. Líklega er hún vitnisburður um að upplifun og trúartúlkun fólks á Íslandi, guðslifun nútíma Íslendinga sé djúptæk tilfinning gagnvart því sem knýr allt áfram í veröldinni, kerfum heimsins, náttúrunni, lífríkinu og himingeimnum. Tveir-þriðju velja að túlka hið guðlega sem meira en eða handan við hið persónulega. Krafttrúartúlkunin er afstaða tveggja af hverjum þremur. En persónuáherslan er afstaða eins af þremur. Hvað merkir kraftguðfræðin í tengslum við aðra þætti og hvernig getum við túlkað þá mynd af Guði? Það er merkilegt íhugunarefni en kemur mér ekki á óvart.

Persónuleg tileinkun og nálægð

Þó túlkun guðsmyndarinnar sé ekki sterk-persónuleg er hún samt lifuð mjög persónulega og elskulega, þ.e. að Guð er ekki túlkaður í krafti yfirvalds heldur fremur sem vinur. Aðeins 18% velja að túlka Guð sem yfirvald en 82% svarenda tjá Guð sem vin sem þau vilja frekar tjá en sem yfirvald. Í samræmi við það tjá 84% svarenda að Guð sé nálægur en aðeins 16% að Guð sé fjarlægur. Vissulega eru þau sem svara í kirkju og sækja væntanlega kirkju reglulega. Það skýrir að þau telja sig í sambandi og samskiptum við Guð. Nokkur skrifuðu að auki að stundum væri Guð fjarlægur en stundum nálægur sem mér þótti benda til heiðarleika og opinskárrar afstöðu því flest förum við einhvern tíma niður í dali eða upp í háfjöll í tilfinningalífi okkar og reynslu. 92% tala við Guð með einhverjum hætti en aðeins 8% töldu sig eiga lítil eða engin samskipti við Guð. Mér þótti áhugavert að sjá að Guð sem faðir og andi njóta meiri stuðnings en að Guð sé einkum túlkaður sem sonur. 42% svara að Guð sé best tjáður sem faðir. Og 39% sem andi en aðeins 18% sem sonur. Þessi könnun var nálgunarkönnun og gerð til að fá viðhorf en ekki þverskurð á almennri afstöðu fólks í Reykjavík eða Íslendinga. Þau sem svöruðu voru ekki neydd til að svara en fengu tækifæri til að skila inn afstöðu sinni ef þau hefðu löngun eða vilja til. Þetta er því áhugafólk um trú eða túlka trúartjáningu.

Ég túlka þessa könnun ákveðins hóps sem tengist kirkjustarfi og sækir fyrirlestur um guðsmyndir að mikill meirihluti hópsins sé guðstrúar eða yfir 90%. Aðeins nokkur prósent tjá sig með þeim hætti að þau nefni guðsfjarlægð, óvissu gagnvart hinu guðlega, túlka breiðar eða eru í leit að guðstengslum. En þau sem trúa á Guð finna sig frjáls að því að tala guðstengsl sín með persónulegu móti og hafa engar eða litalar áhyggjur af því að svara með einu móti fremur en öðru – sem sé réttrúnaður vefst ekki fyrir meirihluta þeirra. Nokkur svöruðu eftir bókinni og skv. kverinu en flest svöruðu samkvæmt eigin tilfinningu og afstöðu. Svo voru alls konar atriði skrifuð sem svarendum þótti ástæða til að miðla um hvað túlkaði Guð best. Líkingar voru ritaðar á svarblöðin – að Guð væri ljós, pabbi ( sem er þá væntanlega persónulegra en hið formlega orð faðir ), friðarhöfðingi, friður, frændi, afi, fyrirmynd, þjóðhöfðingi og móðir ( og þá væntanlega í stað föðurmyndar ). Guð er líka túlkaður sem kærleikur, vinur, almætti, elskan, náð, verndari og frumkraftur.         

Mér þótti þessi kraft-afstaða svarenda merkileg. Sá stóri hópur sem trúir á mátt – kraft – styrk er opinn að mínu viti gagnvart undri lífsins, víddum veraldar og að burðarvirki heimsins sé gott og frá mætti sem fólk má treysta. Ég efast um að þau sem svöruðu með þessu móti hafi talið þessa guðsafstöðu koma frá Star Wars-myndunum – the Force be with you – heldur séu þær myndir og svör Hallgrímskirkjufólks tákn um að trúin á góðan mátt tilverunnar sé útbreidd afstaða margra. Svarendur tjá líka jákvæð tengsl og persónulega tileinkun eða samband við þennan guðsmátt. Þar er einfaldlega ræktuð afstaða til hins djúpa og mikilvæga.

Upprifjun

Guðsmyndir breytast í rás tímans. Í ljós kom við yfirferð okkar á Passíusálmum að Hallgrímur lýsti hinum líðandi konungi. Hann byggði á þeirri djúpusæknu guðfræðihefð Ágústínusar kirkjuföður sem var mikilvæg í miðaldaguðfræðinni og Marteinn Lúther jós af í útfærslu sinni og nýsköpun guðfræðinnar. Sú hefð var ekki heimspekileg útfærsla heldur fremur íhugun um baráttu góðs og ills og mikilvægi þess að menn létu ekki hið illa sigra – hvorki í einkalífi né samfélagslífi – heldur tengdust hinu góða og guðlega þar með. Sá Guð sem Passíusálmar túlka er ekki Guð hátignar, fjarri lífsbaráttu manna í þessum heimi heldur Guð sem lætur sér annt um veröldina, sköpun sína – Guð sem kemur sjálfur – gefur eftir hátign sína og konungvald og kjör hans í heimi verða kjör manna. Hann er hinn kaghýddi Suðurnesjamaður eins og Halldór Laxnes komst að orði. Mennskan og himneskan runnu saman. Fólk sautjándu, átjándu og nítjándu aldar sá í guðssyninum þjáningabróður en ekki prins á himni í sætum fötum og með gullskeið í munni. Guð var ekki einvaldsyfirvald heldur deildi kjörum með alvöru fólki sem missti börnin sín í dauðann, hljóp undan hraunflaumi og missti búféð í felli. Guð var nærri.

Jón Vídalín tók við af Hallgrími Péturssyni en lifði á öðrum tíma. Vídalín var ekki skáldið og prestur í sveit heldur kirkjuleiðtoginn. Guðsmynd hans er skýr í Vídalínsposstillu. Hann lagði ekki áherslu á hinn líðandi kóng heldur er Guð uppteiknaður sem stórkonungur í stríði. Þannig voru skil tímanna. Konungshyggjan styrktist á tíma einveldis. Þróunin var líka frá ljóðmælandanum Hallgrími til kirkjuhöfðingjans Jóns Vídalíns. Hallgrímur lýsti hinum líðandi kóngi en Vídalín hinum sigrandi kóngi. Guði í þeirra ritum var vissulega ekki lýst sem veraldlegum kóngi en myndirnar af kónginum voru þó hentugar til að vegsama hinn eiginlega konung – Guð. Konungshyggja Vídalíns var ekki veraldleg heldur trúarleg.

Skilin og líf persónunnar

„Heróp tímans er líf persónunnar“ skrifaði Hannes Hafstein nærri aldamótunum 1900. Prestar á Íslandi þess tíma beindu æ meir sjónum að trúarþeli og persónudýptum einstaklinga en verið hafði áður. Nýguðfræðingarnir svonefndu höfnuðu ýmsum guðfræðilegum forsendum eftir siðbreytingartímann og þmt konungsímyndum. Hvað gæti komið í staðinn? Flestir þeirra voru með hugann við sálarlíf persónunnar. Á Íslandi hurfu nýguðfræðingarnir frá hinni dramatísku túlkun á baráttu góðs og ills í heiminum. Á fyrri tíð hafði trú verið skilgreind heildrænt og í tengslum við hvaðeina í heimi manna og náttúru. Ekkert var talið utan baugs trúarinnar og elsku hennar. Nýguðfræðingarnir íslensku höfnuðu ýmsu í guðfræði Hallgríms og Jóns Vídalíns. Þeir voru margir hallir undir tvíhyggju sem var reyndar teygð og túlkuð með ákveðnu móti. Þessir guðfræðingar – og prestar þar með taldir – álitu að andstæður væru ekki milli góðs og ills heldur fremur milli himins og heims, efnis og anda og líkama og sálar. Tvíhyggjan var ekki siðferðileg heldur nánast verufræðileg. Þeir voru sér meðvitaðir um kenningar vísindamanna og vaxandi efnishyggju sem og fall eldri þekkingarfræði. Þeir leituðu að nýju upphafi trúar og kirkju fyrir samtíma sinn. Þeir reyndu að skilgreina trúna svo að henni stæði ekki ógn af breytingum vísinda, samfélaga og hugmynda. Trúin var því þröngt skilgreind sem samband sálarinnar við Guð, handan skarkala daganna og brauðstritsins. Vissulega var trúnni ætlað að gegnsýra líf einstaklingsins og samfélags. En það væri góð aukaafurð trúar, afleiðing hennar en ekki frumþáttur.

Vinirnir Jón og Haraldur

Þessir guðfræðingar tóku mjög alvarlega vaxandi efahyggju menntamanna og vísindalegar aðferðir samtímans. Þeim vildu varna að vaxandi efnishyggja gerði út af við kjarna persónunnar, trú og hin dýpri gildi. Þeir töldu sér skylt að halda vörð um trú og kirkju en ekki skilgreiningar, kirkjuskipulag eða siði sem ekki væru í samræmi við þarfir tímans annars vegar og kjarna kristninnar hins vegar. Hliðstæður við aðstæður okkar öld síðar eru sláandi. Þeir lögðu aðaláherslu á gildi einstaklingsins, trúarþel hans og sálardýptir sem varð á kostnað annarra þátta. Kunnustu boðberar hreyfingarinnar voru prestaskólakennararnir Jón Helgason og Haraldur Níelsson. Nýguðfræðilegar áherslur urðu áberandi í kirkjulífi Íslendinga fram yfir miðja tuttugustu öld. En hreyfing nýguðfræðinga klofnaði í tvennt. Jón Helgason aðhylltist nýguðfræði Skandinava og Þjóðverja. Haraldur Níelsson gerðist hins vegar handgenginn sálarrannsóknum – í fyrstu undir áhrifum frá Bretlandi – sem hann áleit að gæti fært kristni ómetanlega hjálp í baráttunni gegn efnishyggjunni. Þessir tveir voru frumkvöðlar og brautryðjendur. Aðalstarfsár Jóns Helgasonar og Haraldar Níelssonar á sviði guðfræði voru á árunum frá aldamótum og fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. En þeir höfðu áhrif langt fram eftir öldinni. Jón Helgason varð biskup 1917 og dró sig þá að mestu í hlé úr eldlínu trúmálaumræðu til að splundra ekki þjóðkirkjunni. Haraldur Níelsson lést fyrir aldur fram árið 1928. Margir prestar töldu sig bæði nýguðfræðinga og sálarrannsóknarmenn. Hugmyndir Jóns og Haraldar urðu ólíkari því eldri sem þeir urðu en engu að síður má greina sameiginlega kjarnaþætti. Þeir voru báðir tvíhyggjumenn. Þeir skerptu andstæður eilífðar og heims. Þeir álitu báðir að Guð hefði blásið mönnum í brjóst guðlegum sáðkornum sem þeim væri ætlað að rækta með sér til ákveðins og fullkomins þroska. Þeir guðskjarnar sem Haraldur nefndi voru líf, kraftur, trú, ást, auðmýkt, fegurð og friður. Jón Helgason hirti ekki um að einkenna guðfræði sína eins klárlega eins og Haraldur. Í ritum hans má þó greina nokkra kjarna sem eru: trú, líf, hjarta, ást og kraftur. Að auki ræddi hann oft um gleði, frelsi og staðfestu.

Þeir lögðu áherslu á ákveðna gildaröðun. Efnisveruleika áttu menn að setja skör neðar en hin andlegu gildi. Hlutverk og köllun mannsins í heiminum töldu þeir fyrst og fremst fólgna í að leyfa hinum guðlegu sáðkornum að þroskast. Til að svo gæti orðið yrði að gæta þess að efnisþáttum væri ekki gert hærra undir höfði en þeim bæri. Annað leiddi til trúarlegrar bælingar og ruglings. Bæði Jón Helgason og Haraldur Níelsson töldu að hinir guðlegu kjarnar væru andlegir og óefnislegir og væru því óbreytanlegir og stöðugir. Hið efnislega í heimininum ætti að meðhöndla með hliðsjón af hinum guðlegu kjörnum. Af ritum Jóns Helgasonar og Haraldar Níelssonar má ráða að menn ættu að lúta tveimur lögmálum við að ná valdi á eða sigrast á efnisveruleikanum og taka þroska í trúarefnum. Þessi lögmál væru vöxtur og gildastigi. Við fæðingu væru menn sem fræið sem þyrfti að spíra og vaxa. Vöxtur yrði aðeins ef menn fetuðu sig upp eftir þrepum gildanna og til hæða andlegra gæða eilífðar.

Uppgjör – Guð meira en …

Í síðustu viku hoppuðum við yfir til Sigurbjarnar Einarssonar sem mætti nýguðfræðinni í tveimur myndum, annars vegar skandinavísk-þýskri nýguðfræði og svo sálarrannsóknakristni. Stríð hafa haft mikil áhrif á hugmyndir og þróun menningar í Evrópu síðustu aldir. Og báðar heimstyrjaldir tuttugustu aldar höfðu mikil áhrif á þróun guðfræði og trúarhugmyndir. Fyrri heimstyrkjöldin opinberaði einfeldnislega bjartsýni um framþróun mannsandans og sífelldar bætur menningarinnar. Hið siðfágaða og friðsamlega þjóðfélag upplýstra anda var tálsýn sem var opinberuð. Í tíðindaleysi vesturvígstöðvanna opnuðust mörg svarthol þjáningar og illsku. Margir hinna bjartsýnu guðfræðinga sem lifðu hrylling fyrri heimstyrjaldar lögðu af barnaskap um gæsku manna og stöðuga framþróun. Paul Tillich, Karl Barth og fleiri breyttu guðfræði millistríðsáranna. Í Hallgrímskirkju prédikaði t.d. sr. Sigurjón Þ. Árnason alla sunnudaga hugmyndir Karls Barth, endalok bjartsýnisguðfræðinnar og elsku Guðs. Áhrif guðfræði Barths og millistríðsáraguðfræðinnar lak því niður allar götur frá þessu holti. Sigurbjörn Einarsson varð svo holdgervingur breytinganna. Meginreglurnar um kjarna, vöxt og valdastiga féllu algerlega með heimstyrjöldum. Vandi kirkju og kristni var ekki lengur að reyna að tryggja að trúnni væri ekki ógnað af heimspeki, þekkingarfræði, vísindarannsóknum og tækniframförum. Guð var ekki lengur í mynd siðprúðs þjóðaleiðtoga. Trúin varð annað og meira en hreinsuð mynd hins „siðfágaða“ borgarsamfélags Evrópu sem var ábyrgt fyrir hryllilegum stríðum. Guð væri annað, dýpra og meira en mannakerfi svo flekkuð sem þau verða af hagsmunum og valdabrölti. Trúin beindist að nýju gagnvart djúpi og undri lífsins, burðarvirki vetrarbrautakerfa og frumfuna lífsins en væri líka í þágu fólks og kerfa í heiminum.

Með einföldun má segja að þrjú kirkjupólitísk kerfi hafi ríkt innan þjóðkirkjunnar á fyrri hluta tuttugustu aldar. Dramatískur réttrúnaður af Hallgríms- og Vídalínstaginu, spíritismi af Haraldar Níelssonar-taginu og einstaklingstrúarguðfræði Jóns Helgasonar og stórs hluta presta. Sigurbjörn bjó til nýja samsteypu úr þessu öllu og í ljós kom að sálarrannsóknir stóðust ekki mælingakröfur vísindanna og töpuðu vægi í akademíunni og samfélagi Íslendinga. Sálarrannsóknir urðu ekki að því tæki eða farvegi trúarinnar sem forvígismenn töldu í fyrstu. Fræðimaðurinn, rithöfundurinn, ljóðskáldið og ræðusnillingurinn Sigurbjörn Einarsson náði að samþætta, halda kirkjunni saman og dýpka skilning fólks á gildi guðsmyndar Passíusálma, hátign Vídalínspostillu, mikilvægi persónuinnlifunar nýguðfræði gegn áraun fræða, áfalla, samfélagsdeiglu tuttugustu aldar en líka heilagleika lífsins og hátign Guðs. Hin hreina innlifun í undur hins guðlega kemur vel fram í sálmum Sigurbjarnar.

Guðsreynsla

Og hvað svo? Hver er staðan nú? Óró hjartans breytist ekkert. Í auðlegð og innantómu lífi margra í neyslusamfélagi hins ríka hluta heims leitar fólk eftir reynslu handan hluta og yfirboðsmennsku. Fólk leitar að djúpri reynslu. Við búum almennt við offlæði upplýsinga og fánýtan fróðleik en flest eru fátæk hvað varðar djúpa og merkingarbæra og lífsmótandi reynslu. Reynsla mín í prestsstarfi margra áratuga er að fólk þrái djúpa lífsfyllingu og gildi fremur en upplýsingar, hluti eða neyslu. Þar er reyndar stórt og mikið verkefni fyrir kristni að bregðast við fólki sem leitar reynslu fremur en kerfis, fræðslu eða tækni. Almennur stofnanaflótti hefur brostið á víða á vesturlöndum. Ein útgáfa þess er að fólk segir sig úr stórum kirkjudeildum og leitar út fyrir hefðbundna ramma sér til andlegrar næringar. Almennt talað hefur hið trúarlega orðið innhverfara en áður var. Einstaklingarnir leggja áherslu á eigin þarfir, eigin skilning og kjósa kjörbúðarfyrirkomulag í trúarefnum líka – að búa til sína eigin trú skv. eigin þörfum. Áherslan er á innrými einstaklinga fremur en útrými hefða sem einstaklingar búa í. Á þessu eru ýmsar hliðar, t.d. að trúin verður líklega æ meir skilin sem afurð þarfa og óska einstaklingsins. Kirkjusamþykktir hafa nánast ekkert gildi og yfirlýsingar páfa ekki heldur – eru bara kliður í samfélagshávaðanum. Prédikun presta hefur takmörkuð áhrif nema eitthvað sé sagt sem snertir fólk vitsmunalega eða tilfinningalega. Trúnni er af mörgum mjög ákveðið ýtt úr almannarýminu. Tími sjálfdæmishyggjunnar er löngu kominn. En sjálfhverfing og persónuleg einstaklingshyggja hefur líka sín mörk. Veigamikill þáttur átrúnaðar og kristni líka er að veita einstaklingum reynslu, skilning, skynjunog lífsstefnu. Þetta er þeim mun mikilvægara í þeirri þróun hins tæknivædda hluta heimsins að æ fleiri lifa í takmörkuðum bergmálshelli eða hellum skoðanasystra og skoðanabræðra. Margir pólitískir lukkuriddarar hafa alið á tortryggni í garð þekkingar og fræða. Pútín og einræðismaskína hans telur sér fært að halda stórþjóð í ofurgreipum einfeldningslegrar sögutúlkunar og þröngrar hugmyndafræði til að tryggja sér vald og skrumskæla þekkingu og staðreyndir. Stórgildum mennskunar og manngildi þar meðtalið er fórnað á altari smásálanna. Gegn öllu slíku æpir djúpþrá manna eftir hinu djúpa, góða, fagra og varanlegra. Guð er frumljóð manna.

Hjálp Guð – kyrie eleison

Þegar fallbyssurnar drynja og hrygluhljóðin heyrast verður fólk meðvitaðra um engla og Guð. Í upphafi hins andstyggilega árásarstríðs Rússa í Úkraínu opnuðust allar sálargáttir þeirra sem ráðist var á. Hin trúlausu æptu upp í himininn og báðu um hjálp. Guð – hjálpaðu mér – hjálpaðu okkur. Þá var líka rifjað upp að í skotgröfunum væri enginn trúlaus – ekki heldur hin guðlausu. Að trúa og kalla á Guð í hræðilegum aðstæðum er ekki brotthvarf frá viti, greind, skynsemi eða heilbrigði. Þegar allt hrynur, allt fellur saman í svarthol hryllingsins hamast guðsþörfin og hendist eiginlega fram. Sálin æpir á skapara sinn og vin. Í neyslusamfélögum vestursins hefur tilgangsleysi aukist og sálaróró magnast. Lofstslagsvá, mengun náttúrunnar og skelfilegur ránskapur manna víða um heim hafa lyft upp áleitnum spurningum um framtíð. Erum við menn að klára auðlindir, möguleika og loka tíma okkar sem tegundar? Í mengunarfári heimsins skelfast æ fleiri einhvers konar heimsendi og þá magnast þörfin fyrir dýpri rök, dýpri festu og eitthvað varanlegra en myrðandi þjóðarleiðtoga og einu gildir hvort þeir eru í Rússlandi eða einhverju öðru landi. Enginn hörgull er á sjálfhverfu og illa innrættu fólki sem sækir í völd en mikill hörgull er á getu til að vinna með mál, mengun, pólitík og tækni. Í krísununum vakna eiginlega þau óp sem hljóma í öllum messum kirkjunnar: Kyrie eleison – Guð miskunna þú okkur, Guð hjálpa okkur.

Elskhuginn og guðsmynd elskunnar

Það merkilega er að íslensk kristni hefur alla tíð búið við ógn og eyðandi krafta. Trúarhefð okkar í alls konar túlkunum er fjársjóður til að ganga í og nýta. Við þurfum ekki lengur að velja á milli Hallgríms og Vídalíns, eða trúarhugmynda eftirsiðbótartímans og nýgufræði. Eða milli sálarrannsókna og Sigurbjarnar eða tuttugustu aldar guðfræði og samtíma okkar. Svarendur Hallgrímskirkju, kirkjufólkið í þessari kirkju, tjáir ágætlega með svörum sínum að það hefur trú á krafti Guðs og velur sér guðsmyndirnar sjálft. Guðsmyndir eru tjáning einstaklinga og hópa og lifa aðeins ef þær túlka upplifun, tjá reynslu og megna að tengja við hrollkaldan veruleika stríða, áfalla, sorgar og dauða en líka bros barna, unaðar, gleði, nautnar, hláturs og fagnaðar. Trú er á innleið því við menn höfum klúðrað svo herfilega. Sigurbjörn taldi að trúin á mannin hefði mistekist. Mín útgáfa er að Guð sé elskhugi heimsins. Það er mín guðsmynd af hinum elskandi sem hættir ekki að elska þrátt fyrir svik manna. Sú mynd sem ég hef dregið upp er kraftguðfræði í samræmi við hugmyndir ykkar margra. Guð sem máttur er skapar en yfirgefur ekki heiminn eins og myndin af Guði sem klukkusmið á sautjándu og átjándu öld. Það var myndin af Guði sem hefði skapað en síðan dregið sig í hlé. Sá Guð sem ég þekki er mátturinn sem hríslast í lífríkinu, í fegurð menningarinnar og þmt listar, í tilfinningum, í ástaratlotum upp í rúmi, hin sívirka dásamlega nánd sem ekki tekur frelsið frá fólki eða lífi heldur varpar stöðugt upp möguleikum og valkostum til að velja hið góða. Í þeim efnum hef ég lært margt af A.N. Whitehead og ferliguðfræðinni. Á sunnudaginn var ræddi ég um hið illa og guðstrú og þið getið flett upp þeirri guðsmynd sem ég túlkaði í því samhengi og að Guð er ekki valdur að böli heimsins og ber enga ábyrgð á Pútín eða einelti í skólanum heldur er nálægur öllum til að skapa forsendur gæða, efla frið og réttlæti, auka unað og magna gæði. Eskhugalíking Guðs á sér síðan systurlíkingar í líkingum af vini, móður, syni og dóttur. Líkingar af anda og krafti ríma við þær birtingarmyndir elskunnar. Myndlíkingar til að túlka Guð, menn og veröldina fæðast en deyja líka í rás tímans. Mikilvægt er að í túlkun trúar sé trúin rýnd og aðferðir sem nýtast á hverjum tíma séu notaðar af alúð og grandskoðun. Tvíhyggja nýguðfræðinnnar var t.d. vond nálgun sem ekki gekk upp. Nútímaguðfræði og prédikun kallar á heildstæðari nálgun. Krafthyggja Hallgrímskirkjufólks er í slíkum anda hægt er að fara enn lengra og túlka veröldina sem líkama Guðs. Á því máli eru margar hliðar og í guðfræðisögunni hefur verið gerður greinarmunur á panteisma – að allt sé guðlegt – og panenteisma – að Guð sé í öllu en sé ekki allt. Í þeirri nálgun felst að allt sé í Guði. Guðsmynd elskunnar hef ég túlkað í prédikunum og hugvekjum, eins og mörg ykkar þekkið. Ég vona einnig að ég hafi möguleika á að teikna þá mynd með enn skýrara móti í verkum næstu ára ef elskhuginn yrkir mitt líf áfram, hvíslar skemmtilegheitum í sálardjúpin og gefur mátt.

Talað um Guð. Hallgrímskirkja. Þriðjudagsfundur 28. febrúar 2023.

Meðfylgjandi mynd tók ég í Árnessýslu í desember 2021, stóð austan í Ingólfsfjalli, nærri útfalli Sogs úr Álftavatni og beindi linsu upp og mót norð-austri. Gróðurhúsalýsingin í Laugarási og Reykholti – jafnvel Flúðum sést neðst á myndinni. Ég bjó í Árnessýslu í mörg ár en sá aldrei svona stórkostlegan dansleik á þeim árum. 

Ég trúi ekki heldur á þann Guð

Hvar var Guð í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi? Hvar er Guð í þessu andstyggilega árásarstríði Rússa í Úkraínu? Hvar er Guð þegar þér líður illa og verður fyrir olbeldi? Er Guð ábyrgur fyrir þessum ósköpum? Er Guð ekki almáttugur? Er Guð jafnvel vondur?

Að tjá Guði sterkar tilfinningar og æpa reiðilega til Guðs hafa menn allra alda iðkað. Leikarinn Stephen Fry var einu sinni spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapaði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður og sjálfselskur. Það var hiti í þessum ummælum og sársauki, nánast Jobsbókarfuni. Stephen var allt í einu í nýju hlutverki, nýrri senu við Gullna hliðið og hellti úr reiðiskálum sínum yfir Guð. Hugrakkur maður sem mótmælir illum einræðisherra. Hvernig lyki slíkri senu og svar Guðs væri áhugavert. En er það Guð sem Fry á orðastað við? Er Guð svona illur?

Hverjum að kenna?

Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar er Guð þegar dauðinn slær? Er bölið Guði að kenna? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir á snjóflóðið sem steypist yfir byggð manna og fjöldi fólks ferst? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki svo það deyr? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.

Í tvo áratugi hef ég spurt yfir þúsund fermingarungmenni í Reykjavík spurningarinnar um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fermingarbörn í Reykjavík mun síður. Það er kraftur í ákæru hans en ég held að hann misskilji guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er misskilningur á valdi. Margir telja að guðsmynd kristninnar sé gegnsýrð valdi. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð. En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti, vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru ástvinar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hvern annan með gífuryrðum elskunnar. Almætti er ekki um mátt heldur ást.

Fólk er gjarnan upptekið af valdi – hinu ytra toppavaldi. Það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Þeir töluðu um þetta sín í millum og voru í samkeppni um vald. Þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar. Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið “almætti” þar – eða hvað?

Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beygja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo – ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.  Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt og eðlilegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job sem sagt er frá í Jobsbók og aðrir höfundar sálma biblíunnar hafa möglað og mótmælt allsráðandi Guði og molað þar með úr slíkri guðsmynd. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.

Myndin af Guði

Guðsmyndir manna eru gjarnan tjáning á þrá og því klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd eða eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur.

Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Ég vil ekki trúa á hann. Ég trúi ekki að slíkur Guð sé til. Slíkur Guð væri fáránlegur. Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég er með þér, nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í öllu lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar.

Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir: „En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“

Amen.

Meðfylgjandi mynd sáþ – góðviðrisdagur við Skerjafjörð

A few words on the sense of the sermon. Where is God in wars, avalanches, earthquakes, disasters and tragedies. Is God responsible? Is that the meaning of almighty? Those accusing God for being cruel are right if almighty means causing everything. But the so-called attributes of God are not philosophical definitions of God but rather statements of love and utterings of veneration. God‘s way of dealing with the world is not to exercise power but rather to love. I don‘t believe in a cruel despot. That type of a tricky god is not worthy of trust or faith. The God Jesus Christ revealed is a caring and loving being not causing evil but supportning humans and life fighting evil. God is not the tyrant of the world but rather the lover of the world.

  1. sunnudagur í föstu.

Lexía: 1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-34

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

 

Er í lagi að drepa barn?

Hvernig líður föður sem skipað er að myrða son sinn? Getur nokkur heilbrigð manneskja tekið upp vopn og stungið afkvæmi sitt? Nei, það er óhugsandi. En í sögu dagsins, lexíunni, er þó sagt frá ótrúlegri mannraun sem endaði nærri með barnsmorði. Hvað eigum við að gera með slíkan texta í hinni helgu bók? Já hvað eigum við að gera með hryllingstextana?

Hvað myndum við gera í lífi okkar ef okkur væri fyrirskipað að aflífa barnið okkar? Og það sem verra er að skv. frásögunni í þessum biblíutexta er það Guð sem kemur Abraham, einni af ofurhetjum Biblíunnar, í klemmuna. Sagan um fórn Ísaks er hryllingssaga sem hefur skekið hugi margra um allar aldir. Réttlætir textinn barnaofbeldi? Hver er tilgangur hans? Er þessi texti vitnisburður um sturlun sem réttlætt er með vísun til æðri máttar? Er það skylda trúmanns að gera hvað sem er til að þóknast duttlungum Guðs? Vil ég trúa á Guð sem krefst þess að saklausu lífi sé eytt, að börn séu drepin? Getur þú trúað slíkum Guði?

Nei

Ég settist niður í byrjun vikunnar til að íhuga texta dagsins og m.a. lexíuna um  Abraham og Ísak. Ég uppgötvaði þá að ég hef aldrei – á öllum mínum prestsskaparferli – prédikað út af þessum texta (enda er á þessum 5. sunnudegi í föstu oftast boðunardagur Maríu sem er gleðidagur). Abraham og Sara, kona hans, hafa lengi verið mér hugstæð. Þegar við hjónin eignuðumst tvíbura las ég upphátt fyrir konu mína hina kátlegu sögu af því þegar háöldruð hjón eignuðust kraftaverkabarn sem fékk svo nafn sem merkir Guð hlær. Ísak var barn guðlegrar gleði. Drengirnir okkar eru kraftaverk fullorðinna foreldra og okkur þótti við hæfi að annar þeirra fengi og bæri þetta geðilega nafn Ísak. En á þessum tíma las ég ekki upphátt fyrir konu mína söguna af ferð þeirra feðga, Abrahams og Ísaks til Moríafjalls og hrikalegt inntak sögunnar veik.

Í kristninni hefur þessi frásögnin – í 22.  kafla fyrstu Mósebókar – verið túlkuð sem trúarraun Abrahams, manns sem var alltaf reiðubúinn að hlýða Guði í einu og öllu. Og af því sagan endar vel hefur gleymst hið dimma inntak sögunnar. Ég hef ekki sett mig í spor feðganna áður. Ég trúi á Guð  – en hvað gerði ég ef ég heyrði rödd af himni sem skipaði mér að leggja drenginn minn á eldiviðarstafla og skera hann á háls? Þegar ég setti mig í stöðu föðurins uppgötvaði ég viðbjóðinn. Í huga mér er djúpt og ákveðið NEI – ekki bara föður-nei heldur einnig trúar-nei. Ef Guð myndi skipa mér að skera son minn myndi ég hiklaust segja nei. Guð, sem krefðist slíks, er ekki traustsins verður. Ég trúi ekki á slíkan Guð. Sá Guð sem megnið af ritum Biblíunnar segir frá og Jesús Kristur opinberaði heiminum er ekki harðstjóri og krefst ekki mannfórna. En þessi Guð sem sagt er frá í sögunni um Abraham er öðru vísi  – fremur guð dauða en lífs. En það er aldrei í lagi að drepa barn.

Og hvað eigum við þá að gera við þessa sögu í byrjun Biblíunnar? Og hvernig eigum við að nálgast og skilja þessar sögur? Hvaða hlutverki þjóna þær? Eigum við ekki bara að skera þær úr helgiritum okkar og kasta þeim á bálkesti menningarinnar? Nei, biblíuritin í heild sinni eru raunsæisbókmenntir heimsins – í þeim er allt litróf mannlífs – allar tilfinningar – heilbrigði og líka hryllingur villimennskunnar. Þar eru líka mismunandi guðsmyndir sem hver maður þarf að glíma við og gera upp við. Klisjur í trúarefnum hjálpa ekki heldur það sem eflir raunsæi og vit til lífsverndar.

Katharina, Kant og Kierkegaard

Til er frásögn af Katharinu af Bora, konu Marteins Lúthers, sem hlustaði á mann sinn lesa 1. Mósebók upphátt fyrir fjölskylduna. Kata var klók, vel heima í guðfræði og rauk upp þegar hún heyrði þessa sögu um Abraham. Hún brást hart við, rauf lestur bónda síns og sagðist alls ekki trúa því að Guð myndi nokkrun tíma skipa manni að drepa eigin son. Ég er sammála guðfræði Katharinu.

Heimspekingurinn Immanúel Kant, sem ég hef miklar mætur á, minntist á þessa Abrahamssögu í riti sem hann skrifaði og gaf út skömmu fyrir aldamótin 1800. Kant var alla tíð umhugað um hlutverk, skyldu, siðalögmál og hvernig við eigum að hegða okkur. Hann kenndi að enginn maður geti nokkurn tíma aflífað saklausan son sinn. Krafan væri ósiðleg og í andstöðu við heilbrigða skynsemi manna. Svo væri raunar alltaf óljóst hvort Guð krefðist slíks því við menn gætum ekki með skynfærum okkar greint á milli réttra og rangra skilaboða að handan. Því ættu menn alls ekki að hlýða slíkum kröfum sem Abraham hefði talið sig fá. (Sören Kierkegaard var vel lesinn í Biblíunni og rakti síðar þræðina frá Kant í ritinu Uggur og ótti).

Ekki mann deyða

Siðfræðingarnir benda okkur á að krafan í Abrahamssögunni sé ósiðleg. Trúarheimspekin sýnir okkur að vitrun Abrahams hafi verið vafasöm. Við vitum að barnafórnir tíðkuðust meðal þjóðanna í nágrenni Ísraels. En hinir fornu hebrear fóru aðrar leiðir og stunduðu ekki mannfórnir (mér er bara kunnugt um eitt tilvik í þessu mikla ritasafni og þar er um skýrt frávik). Og við megum muna reglu hebreanna í fimmta boðorðinu: Þú skalt ekki mann deyða.

Sagan um fórn Ísaks er ekki lýsing á raunverulegum atburði heldur táknsaga. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þessi saga er einhvers konar inntakssaga. Sumir fræðimenn telja að hún sé í raun andsaga, hlutverk hennar hafi verið að sýna þjóð og Guð hverfa frá fórnfæringu barna. Ísraelsmenn ættu að hegða sér öðru vísi en nágrannaþjóðir og láta af mannfórnum. En þetta “andhlutverk” er þó óljóst og ósannað. Sagan gæti líka verið táknsaga um að þeir feðgar hefðu staðist öll próf hversu hræðileg sem þau nú voru. Hetjur allra alda þurfa að undirgangast próf og standast til að ná þeim markmiðum sem hetjan á að ná. Þessi saga gæti jafnvel  hafa verið hluti af trúarleikhúsi Ísraelsþjóðarinnar til að miðla að Abraham og Ísak hefðu tekið út þroska og lært mikið – og að þeir brotnuðu ekki á leiðinni og voru því trúarjöfrar. Og svo má auðvitað lesa þessa sögu sem táknsögu um skelfingarmál í mörgum fjölskyldum heimsins. Stundum tryllast feður – einnig mæður og annað fólk í fjölskyldunum – og fremja illvirki. Á öllum öldum hefur verið til brjálað fólk sem þykist fá fyrirskipun úr æðri heimum um að það eigi að deyða börn sín. Á hverju ári eru slík illvirki framin einhvers staðar í heiminum og fjölmiðlarnir segja frá. Mín afstaða er eins og Kötu konu Lúthers. Það er aldrei hægt að réttlæta ofbeldi gegn saklausum börnum, saklausu fólki, með vísun til guðlegs boðs.  

Lífga heiminn

Og þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja texta Ritningarinnar. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita. Til að þess að sjá og finna hrútinn fastan á hornunum í runnanum, finna merkingu og greina samhengi í heildinni lagði Marteinn Lúther til túlkunarreglu við lestur Biblíunnar. Við ættum að skilja Biblíuna í ljósi Jesú Krists. Hver var mannsýn hans, veraldarsýn og trúarsýn? Jú, sá Guð sem hann tjáir er ekki guð hnífanna heldur skapandi, elskulegur og hlýr Guð sem kallar fram veröldina, mennina, lífið, samfélag og hið góða. Hefði Jesús einhvern tíma sett hníf að hálsi barns og skorið? Nei. Hann hefði frekar fórnað sjálfum sér ef hann hefði verið settur í þá skelfingaraðstöðu. Hann var ekki lagður á bálköstinn, hann gekk fram til að þyrma lífi.

Merkingardjásn Biblíunnar – í báðum testamentum – er að heimur Guðs er heimur elskunnar. Jesús Kristur opinberar þann Guð. Í þeim anda lifum við best í samtíð okkar. Kristnin varðar þó að vera tengdur Jesú Kristi og bæta heiminn með honum.

Guðstrúin

Í gær var ég að íhuga Ísakssöguna þegar Ísak sonur minn kom til mín. „Pabbi minn, ég elska þig,“ sagði hann. Mér hlýnaði um hjartarætur og hvíslaði til Abrahams í djúpi hugans. „Nei, ég mun aldrei fara upp á fjallið, mun aldrei neyða drenginn til að bera fórnarviðinn.“ Af hverju? Vegna þess að ég trúi ekki á Guð hnífanna. En ég veit þó vel að alvara sögunnar er að við getum öll tapað áttum. Við getum öll orðið Abraham – með hníf á lofti og jafnvel beitt honum og stungið. Líka í trúarefnum! En þegar menn stinga grætur Guð. Guð biður alltaf um að lífi sér þyrmt.

Við megum gjarnan leyfa lausnarerindi sögunnar að vitja okkar. Er eitthvað í þér sem meiðir og deyðir? Ertu í einhverri stöðu sem þú þarft að losna úr? Abraham og Ísak losnuðu. Þeir heyrðu kall til frelsis. Þú mátt heyra kall til lausnar, úr sorg, úr öllum festum þíns lífs. Guð hefur áhuga á lausn en ekki viðjum. Jesús Kristur breytti veröldinni með boðskap, afstöðu og elsku. Okkar er að leyfa Guði að endurskapa veröldina og líka okkur. Við þurfum engar fórnir heldur elsku. Guð vill hlægja en ekki gráta og við menn erum þeirrar guðsgerðar einnig. 

Ég trúi á Guð sem elskar, Guð sem leysir og Guð sem blessar.

Dýrð sé þeim Guði.

Amen í Jesú nafni.

Prédikun í Hallgrímskirkju 2. apríl, 2017. 5. sunnudagur í föst. B-textaröð kirkjuársins. Lagt út af lexíu dagsins. Þegar ég var búinn að skrifa fyrsta uppkast prédikunar var ég hugsi yfir túlkuninni. Og sendi til dr. Gunnlaugs A. Jónssonar, prófessors. Hann las yfir hratt og sendi mér á laugardagssíðdegi langan pistil og hugleiðingar. Ég breytti ýmsu til bóta í ljósi orða Gunnlaugs. Takk fyrir mig. 

Lexía: 1Mós 22.1-13
Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns.

Pistill: Heb 13.12-13
Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

Guðspjall: Mrk 10.35-45
Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

The Sermon

Today we will discuss the dramatic story of Abraham and Isaac in Genesis 22. What kind of God demands a father to kill his son? Can we believe in such a God? Is this a story of the worst possible child abuse? What to do with horror-stories of the Bible? Has the god of the Hebrews evolved from a tyrant demanding outrageous obedience into a totally different type of God – the God of Jesus Christ? What is the value of the story of a father ordered to slaughter his son Isaac (the name of the boy meaning laughter, indeed God’s laughter!). Take the time to think about your belief. What are your values and what are your limits? Do you obey in your life some faulty authorities you should say no to? Is this the time for reversal and a new beginning in your life?

Genesis 22 (NIV)

Sometime later God tested Abraham. He said to him, “Abraham!” “Here I am,” he replied. Then God said, “Take your son, your only son, whom you love—Isaac—and go to the region of Moriah. Sacrifice him there as a burnt offering on a mountain I will show you.” Early the next morning Abraham got up and loaded his donkey. He took with him two of his servants and his son Isaac. When he had cut enough wood for the burnt offering, he set out for the place God had told him about. On the third day Abraham looked up and saw the place in the distance. He said to his servants, “Stay here with the donkey while I and the boy go over there. We will worship and then we will come back to you.” Abraham took the wood for the burnt offering and placed it on his son Isaac, and he himself carried the fire and the knife. As the two of them went on together, Isaac spoke up and said to his father Abraham, “Father?” “Yes, my son?” Abraham replied. “The fire and wood are here,” Isaac said, “but where is the lamb for the burnt offering?” Abraham answered, “God himself will provide the lamb for the burnt offering, my son.” And the two of them went on together. When they reached the place God had told him about, Abraham built an altar there and arranged the wood on it. He bound his son Isaac and laid him on the altar, on top of the wood. Then he reached out his hand and took the knife to slay his son. But the angel of the Lord called out to him from heaven, “Abraham! Abraham!” “Here I am,” he replied. “Do not lay a hand on the boy,” he said. “Do not do anything to him. Now I know that you fear God, because you have not withheld from me your son, your only son.” Abraham looked up and there in a thicket he saw a ram[a] caught by its horns. He went over and took the ram and sacrificed it as a burnt offering instead of his son.

Hvernig er Guð?

IMG_3082Í vikunni komu tveir ungir menn í Hallgrímskirkju og báðu um viðtal við prest. Þeir komu frá austurhluta Belgíu, settust niður í sófann hjá mér og var mikið niðri fyrir. Þeir upplýstu að þeir væru ekki komnir til Íslands til að skoða íslenska náttúru eða íslenskt mannlíf. Nei, þeir voru komnir til að hitta forseta Íslands og presta á Íslandi. Ég gat alveg skilið að þeir heimsæktu kirkjur og ef þeir rækjust á prestana ræddu þeir við þá líka. Nei, þeir voru ekki kirkjutúristar. Þegar þeir komu í Hallgrímskirkju fóru þeir ekki inn í kirkjuna og höfðu takmarkaðan áhuga á húsinu, listinni og söfnuðinum.

Undir dómi?

Þessir ungu Belgar voru í afar sértækum erindagerðum við forsetann og prestana: „Við erum komnir til að vara fólk við dómi Guðs, vara fólk við til að það iðrist.“ Og þeir upplýstu að siðferðilegt ástand íslensku þjóðarinnar væri slæmt. „Ef þið takið ekki til hjá ykkur verðið þið fyrir alvarlegri refsingu.“ Þetta voru skilaboðin.

Það sló mig að þessir unglingspiltar töluðu og hegðu sér eins og þeir væru þrjú þúsund ára spámenn sem komu með hræðilegan boðskap út úr eyðimerkurryki Miðausturlanda. Fyrst hélt ég að þeir væru að ýkja eða væru með falda myndavél. Svo fór ég að ímynda mér að þeir væru að leika nútímaútgáfu að Jónasi spámanni sem endaði í hvalnum áður en hann fór til Ninive. En svo dagaði á mig að þessi strákar voru komnir alla leið til Íslands til að hitta Guðna Th. Jóhannesson og fjölda af prestum til að tilkynna okkur að við yrðum að snúa baki við öllum nútímaviðmiðum t.d. um samskipti kynja, bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu. Ef ekki, ja þá myndum við farast í eldgosi. Annar þeirra hafði orðið fyrir vitrun. Hann fullyrti að Guð hefði sagt honum þetta beint eins Guð talaði forðum við spámanninn Jónas.

Siðferðileg sýn?

Mér fannst heimsókn dómsspámannanna vondur gjörningur. Það var reyndar furðulegt að þeir sæktu svo langt í burtu frá aðstæðum og þörfum heimahaganna. Eru ekki næg verkefni í Belgíu? Mikil spenna hefur ríkt m.a. vegna múslima sem stýrðu árásum á París fyrir tæplega ári síðan. Hafa þessir ungspámenn hlutverk heima fremur en að fara í trúarvíking til Íslands? Siðferðilega fjarsýnir frekar en nærsýnir?

Þroskaskeiðin

Augljóst var af samtölunum að þessir drengir væru að fara í gegnum þroskaskeið. Mér var ljóst að þeir væru í leit að hlutverki og tilgangi með eigið líf. Flest ungt fólk reynir að spegla eigin hlutverk og drauma í speglum annarra. Flest ungt fólk finnur sér fyrirmyndir, hvort sem það er í fótbolta, pop-menningu, celebum eða snillingum og reynir að líkja eftir fyrirmyndum til að móta eigin stefnu. Mínir strákar horfa á bestu fótboltamenn í heimi og máta sig í íþróttalíf. Mig grunaði að þessir strákar hefðu nördast í einhverjum menningarkima og notað þrjú þúsund ára spámannstexta til að varpa vonum um eigin afrek yfir á Ísland.

Og ég þakkaði Guði í hljóði fyrir að þeir voru ekki í sjálfsvígshugleiðingum – ætluðu ekki að framfylgja einhverjum reiðiórum með því að sprengja eða skjóta Íslendinga. Nei, dómurinn sem þeir boðuðu var eldgos sem þeir ætluðu ekki að framkalla sjálfir heldur myndi Guð taka tappann úr eldfjallinu. Og ég benti á að eldgos væru algeng á Íslandi, stór og smá – það væri þekking í landinu að bregðast við og vissulega væru Katla og Hekla komnar á tíma. Og eldgosin hefðu aukið túrismann í seinni tíð. Meira segja væru ræktunaraðstæðurnar á Þorvaldseyri undir eldfjallinu Eyjafjallajökli betri nú en fyrir gos.

Vondi eða góði Guð?

„Hvað finnst þér um þennan dómsboðskap?“ spurðu Belgarnir, hissa á að ég var til í að ræða við þá. Ég svaraði þeim að allir menn þyftu reglulega að skoða sinn gang, hugsun, stefnu og verk. Allir gerðu mistök sem mikilvægt væri að viðurkenna, biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Það væri verkefni okkar allra rækta samband við Guð, menn og náttúru.

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Veröldin væri í lit – Guð elskar alls konar

Þeir glenntu upp augun og ég sagði þeim sögu af því að þegar ég var unglingur skipti ég veröldinni upp svart hvítt, í góða og vonda. En ég hefði á langri æfi lært að Guð er stærri en ég og mínar þarfir. Guð er stærri en þarfir lítilla reiðra karla í vandræðum og mun meiri en þarfir einstakra þjóða. Sá Guð sem ég þekki elskar múslima jafn mikið og kristna, heiðna menn jafn mikið og trúaða, listir jafn mikið og fótbolta, eldgos jafn mikið og tárvot smáblóm í sólarglennu sumarmorguns.

Þetta þótti þeim skrítin og of víðfeðm trú og siðferðið sem presturinn hefði túlkað allt of rúmt. Ég fullyrti að veröldin væri ekki svart-hvít heldur í lit. Guð elskaði alls konar. Það væri okkar lútherski arfur, þannig Guð þekktum við og í ljósi þess boðskapar túlkuðum við Biblíuna og hefðina. Og með það vegarnesti fóru þeir.

Guð ekki neikvæður hedur jákvæður

Og af hverju segi ég þessa sögu? Hún er ekki trúnaðarmál því þeir vildu að ég segði frá og flestir heyrðu um erindi þeirra. Ég segi ég þessa sögu svona ítarlega af því að í dag hefst fermingarfræðslan í Hallgrímskirkju og við getum notað þennan dómsgjörning til að gera okkur grein fyrir valkostum. Fólk kemur í þessa kirkju og aðrar kirkjur þjóðarinnar til að tala um trú, þroska, hlutverk, stefnu, líf í samfélagi og til hvers má vænta af okkur sem manneskjum og sem kristnum einstaklingum.

Boðskapur okkar er að Guð er ekki lítill, refsiglaður siðferðistappi, heldur stórkostleg nánd, sem umvefur okkur. Guð er ekki neikvæður heldur jákvæður. Guð blæs í okkur von, styrk, umhyggju, umburðarlyndi, hrifningu og öllu því besta sem til er í lífinu. Það eru alls konar stefnur til, aðilar og hlutir sem við getum sett í stjórnsæti lífs okkar. Í guðspjallstexta dagsins minnir Jesús á að við getum sett peningana í efsta sætið. Ef svo fer gerum við þau mistök að setja peninga í allt aðra stöðu en best hentar. Peningar eru ekki góður stjórnandi. Peningar eru bara tæki til að nota en ekki til að hlýða. Þegar við ruglumst og setjum peninga sem markmið þá verða afleiðingarnar rugl. Þá erum við komin með peningaguð en ekki handhægt verslunartæki.

Ekkert má ná tökum á okkur og móta, nema ofurgæðin sem gera okkur gott og bæta líf okkar. Okkur mönnum hættir til að setja það sem er á þarfasviðinu í bílstjórasæti lífsins. Ef við erum reið eða bitur vörpum við slíkum tilfinningum á líf okkar og látum stjórnast af þeim myrku þáttum. Ef við erum hvatalega bæld verða hvatir, t.d. kynhvöt, að stjórnvaldi lífs okkar. Ef við erum beygluð tilfinningalega vörpum við líklega vandanum yfir á öll tengsl við fólkið okkar. Hvað stjórnar þér, hvað viltu að sé leiðarljós þitt? Kirkjan getur verið þér frábær vettvangur til að hugsa um þroska þinn, hlutverk þín og þig sjálfan og sjáfa.

Á hvaða ferð ert þú?

Belgaunglingarnir eru farnir og ég hugsaði með mér: Þegar þessir strákar líta til baka eftir fjörutíu ár og hugsa um Íslandsdóminn mikla – þá munu þeir vonandi segja: „Já, þetta var merkileg ferð. Við héldum að við værum að kasta dómi yfir forseta, presta og íslensku þjóðina – en við vorum bara á okkar eigin þroskaferð. Það sem við héldum að væri fyrir aðra var okkar eigin þroskaglíma. Málið var ekki að Ísland tæki út þroska heldur við sjálfir.“

Nú ert þú á þinni ferð, þið sem eruð í kirkjunni í dag, ung eða eldri, fermingarungmenni, fjölskyldur, kórfólk frá Oslo, við starfsfólk kirkjunnar, þið sóknarfólk sem sækið messu. Þú ert á ferð – á þroskavegferð. Þú mátt gjarnan svara spurningunni sem varðar þig: Hver stjórnar þínu lífi? Eru það einhverjar sálarþarfir sem þú varpar yfir í vitund þína og réttlætir svo?

Eða hefur þú opnað fyrir þeim Guði sem gaf þér lífið, heldur þér á lífi alla daga, nærir þig fremur með von en dómi, kallar þig fremur til ástar en haturs, lýsir þér út úr myrkrinu og elskar hlátur og gaman? Það er svoleiðis Guð sem á heima í þessu guðshúsi, sem við tölum við og þráum að búi hjá okkur. Um þann Guð syngjum við, spilum fyrir í músík kirkjunnar og sjáum í leiftri listarinnar og sólarinnar í kirkjuskipinu. Við trúum á þann Guð sem Jesús opinberaði okkur. Sá Guð er ekki neikvæður heldur bara jákvæður.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 4. september, 2016. A-textaröð. 15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.