Greinasafn fyrir merki: Guðmundur K. Klemenzson

+ Guðmundur Kristinn Klemenzson +

List fagfólks er að læra hlutverk sitt vel, skilja það og vera því svo innlifað að afstaða sé skýr og viðbrögð fumlaus og eðlileg í breytilegum og oft krefjandi aðstæðum. Lögfræðingurinn lærir sín lög, túlkanir og þjálfast í að beita hinni lögfræðilegu nálgun. Sagnfræðingurinn skýrir aðstæður í nútíma með hjálp sögutúlkunar. Verkfræðingurinn greinir snarlega tæknivíddirnar og hvernig hlutirnir virka. Við lærum okkar fag ef við leggjum á okkur erfiði mótunarinnar og kunnum svo að beita hinum fræðilegu tólum og tækjum. Þegar best lætur verðum við listamenn í okkar grein, vissulega bundin af kvörðum og óbrotnum hefðum greinarinnar en þó frjáls til að skapa og í samræmi við ferla fræða og iðnar.

Kannt þú þitt hlutverk?

Hvert var hlutverk Guðmundar Kristins Klemenzsonar? Læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir segja sína sögu. Hann kunni svo sannarlega sín fræði, var afburðamaður á sínu sviði, jafnvel listamaður í lækningum. Svo valdi hann sér önnur hlutverk líka og gegndi ýmsum. Hann var afar vel að sér á sviði sagnfræði, lagði m.a.s. á sig að læra alla röð rómversku keisaranna og ártölin líka! Þekking hans var svo mikil og nákvæm að hann gat leiðrétt kennarana í menntó í ýmsum greinum. Hann átti sér ýmis hlutverk í einkalífinu, var undursamlegur og natinn sonur, umhyggjusamur bróðir og frændi. Svo lagði hann sig eftir að iðka hinar gúrmetísku listir og þó hann ætlaði sér ekkert aðalhlutverk þar nutu vinir hans veislunnar – og fjölskyldan einnig.

Hlutverk Guðmundar

Af hverju var hann svona góður í því sem hann tók sér fyrir hendur? Af hverju gat hann svona margt? Ég hlustaði á sögurnar sem ástvinir hans sögðu og svo staldra ég alltaf við uppeldið. Faðir hans var þessi mikli leikhúsmaður og móðir hans stóð öflug við hlið manns síns. Þau lögðu upp úr að börnin þeirra nytu góðrar menntunar, næðu að virkja máttinn hið innra, lærðu til hvers væri ætlast, næmu framvindu lífsþáttanna, skildu samhengi hlutanna, kynnu til verka, nærðu sinn innri mann – lærðu hlutverk sín vel. Og Guðmundur hlaut miklar gáfur í vöggugjöf. Í hann var mikið lagt og af honum var mikils að vænta. Fyrr var sagt um mikinn Íslending – og það er við hæfi að sletta latínu þegar Guðmundur, Rómarsögusnillingur, er kvaddur. Hann var “ingenio ad magna nato.” Þeim er nóg er skilja.

Hver voru hlutverk Guðmundar? Hvert er hlutverk þitt? Hvernig lifir þú? Undrastu lífið? Er lífið þér kraftaverkalaust – eða samfellt, undursamlegt drama og kraftaverk? Lifir þú lokað eða opið? Guðmundur kunni öll hlutverk hinna afmörkuðu ferla – hann var góður vísindamaður – en svo átti hann í sér opnanir, skynjanir og vitund um það sem meira er. Tilvera hans var ekki rulla á sviði sem maður romsar upp úr sér eða iðkar, heldur stærri. Líf hans var líf í plús og í anda plúsa hins stórfenglega. Við getum vissulega lært hlutverk okkar en ef við lifum þröng förum við á mis við dramað og hið merkilega. Köllun þín er hver? Þorir þú að lifa, en ekki bara skrimta – þorir þú að njóta, upplifa og ganga á nýjar slóðir? Það er hin trúarlega nálgun – hlutverk trúarinnar.

Nú kveðjum við Guðmund Klemenzson og hugsum um af hverju, til hvers og hvernig getum við lifað stórt og mikið? Gagnvart áfallinu er mikilvægt að staldra við, þakkar fyrir allt það sem Guðmundur lagði til og leyfa því að verða þér til lífs og lífsbóta.

Ævistiklur

Guðmundur Kristinn fæddist 9. nóvember árið 1969 og var því aðeins 46 ára er hann lést. Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir og Klemenz Jónsson. Hún var fulltrúi á skrifstofu Þjóðleikhússins og hann leikari og einn af burðarstólpum í leikhúslífi þjóðarinnar, við Þjóðleikhúsið, hjá Ríkisútvarpinu og víða um land. Guðrún og Klemenz eignuðust þrjú börn og á löngum tíma. Það var því mikið lagt í hvert þeirra þriggja. Elstur er Ólafur Örn, hagfræðingur, sem fæddist árið 1951. Hann er kvæntur Ingu Aðalheiði Valdimarsdóttur. Sæunn fæddist árið 1956. Hún er starfsmaður Landsbanka Íslands og maður hennar er Hallur Helgason. Guðmundur var langyngstur og fæddist þegar systir hans var komin á unglingsár og stóri bróðir að hverfa til útlanda í heim fræðanna. En vel var hlúð að drengnum og hann fékk það í veganesti sem dugði vel. Og eldri systkinin gættu stubbsins og tengdust honum því nánum böndum, sem aldrei slitnuðu þó þau væru langdvölum langt frá hverju öðru. Og Guðmundur tengdist systkinabörnum sínum og hafði hug við velferð þeirra.

Guðmundur var vesturbæjarmaður, Reykvíkingur og heimsborgari. Fyrstu æviárin bjó fjölskylda hans á Bræðraborgarstíg og síðan á Eiðismýri. Og af því foreldrarnir vildu börnum sínum góða menntun og Klemenz þekkti skólastarfið í Ísaksskóla fór Guðmundur þangað eftir upphafs-ögun á leikskólanum Grænuborg. Svo tóku við hamingjuár í skólum vesturbæinga, Melaskóla, Hagaskóla og síðan MR.

Og hann fékk líka hlutverk í leikhúsinu. Klemenz, faðir hans, leikstýrði leikritinu Dýrin í Hálsaskógi og var á höttum eftir skýrmæltu barni í hlutverk bangsastráksins. Og hann fann leikarann heima við eldhúsborðið. Og Guðmundur lærði ekki aðeins hlutverk sitt heldur líka með hvaða hætti öll dýrin í skóginum geta verið vinir og hvernig sú vinátta getur rofnað. Og leikurinn lagði grunn að fjárhagslegu sjálfstæði drengsins. Eftir fyrsta leiksigurinn voru ýmis hlutverk í boði. Guðmundur lék í nokkrum barnaleikritum og í bíómyndinni Veiðiferðin. Og þó einhver ykkar eigið erfitt með að ímynda ykkur eða sjá Guðmund fyrir ykkur sem pönkara lék hann einn slíkan í gamanseríunni: Fastir liðir, eins og venjulega: Léttur fjölskylduharmleikur í sex þáttum sem sýndur var í Sjónvarpinu haustið 1985. Hann gat því brugðið sér í ýmis hlutverk.

Guðmundur varð öflugur námsmaður. Hann var marksækinn og einbeittur í námi. Það sem fangaði hug hans varð honum mikils virði og því brilleraði hann í öllu sem honum þótti skemmtilegt. Og hann var alhliða í námsgetu sinni, mundi allt sem hann vildi leggja á minni, skildi vel stærðfræði og tungumálanám lá líka vel fyrir honum. Ingenio ad magna nato. 

Menntaskólaárin voru honum gleðilegur tími, hann eignaðist góða og trausta vini og Gummi Klemm ræktaði vináttuna. Guðmundur horfði í kringum sig með áhuga, íhugaði pólitík og hafði skoðanir í þeim efnum sem öðrum, las ítarefni utan skólabókanna og drakk í sig menningarefnin.

Þar sem Guðmundur var afburðanemandi stóðu hönum allar fræðdadyr opnar eftir að hann lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðideild MR árið 1989. Hann fór í læknisfræði og lauk prófi frá lænadeild HÍ árið 1995. Hann hafði engin orð um námsárangurinn sjálfur og þegar bróðir hans hans spurði: „Hver var hæstur“? þá svaraði Guðmundur hálfsnúðugt: „Hver heldurðu“ og meira þurfti ekki að segja í þeim málum.

Svo var kandídatsárið og Guðmundur vann sem deildarlæknir og umsjónardeildarlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans í tvö ár. „Farðu vestur, ungi maður“ var sagt vestra og Guðmundur fór til Madison og stundaði framhaldsnám í University of Wisconsin og lauk námi þar árið 2002.

Og Guðmundur var ekki aðeins á toppnum á Íslandi. Þegar hann tók ameríska læknaprófið varð bið á að hann fengi niðurstöðu úr prófinu. Ástæðan var sú að hann var svo hár að það þurfti að tvífara yfir prófið til að sannreyna að einkunnin væri rétt. Síðan tóku við tæplega 2 ár á Mayo Clinic í Rochester, Minnesota. Svo fór Gummi Klemm heim og frá 2003 starfaði hann sem svæfinga- og gjörgæslu-læknir á Landspítala við Hringbraut og m.a. var í hjartasvæfingateyminu.

Síðustu árin var Guðmundur í sérnámi á vegum norrænu svæfinga og gjörgæslusamtakanna og beindi sjónum sérstaklega að svæfingum og deyfingum þungaðra kvenna. Guðmundur hafði gaman af veru og vinnu á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn sl. veur þar sem hann starfaði um tíma í tengslum við nám sitt. Hann skrifaði greinar í sínu fagi. Hann hafði ætíð mikinn faglegan metnað og þótti gott að fá birt efni  – sem hann og samstarfsfólk hafði unnið – í bestu læknablöðunum.

Hvaða hlutverki gengdi Guðmundur á spítalanum? „Hann var einn af okkar bestu mönnum,“ sagði læknir á svæfinga- og gjörgæsludeildinni. Hann hafði gott samband við fólk, deildin var eins og stórfjölskylda sem hann naut. Hann var ákveðinn, vel tengdur, mikill fagmaður og lét sig fólk varða, hikaði ekki við að taka erfiðar ákvarðanir í þágu lífsins – og tók nærri sér veikindi og bágindi fólks. Kollegar í Félagi svæfinga- gjörgæslulækna hafa stofnað minningarsjóð til  að styðja lækna til framhaldsnáms í greininni. Sjóðurinn ber heiti Guðmundur Klemenzsonar. Það er vel og loflegt framtak vina hans og samstarfsfólks.

Að kveðja og gera upp 

Það er sárt að kveðja góðan félaga, öflugan fagmann, hlýjan fjölskylduvin sem fellur frá á miðjum aldri. Hvernig gerir þú upp og hvaða áhrif hefur uppgjörið á líf þitt? Kveddu fallega og notaðu færið til að íhugaða þín hlutverk. Leyfðu minningunum að flæða og vitjaðu allra víddanna. Kallaðu fram í huga og hið innra allar myndirnar af Guðmundi.

Manstu ferskleikann sem fyldi honum, jafnvel gustinn? Manstu fagurkerann, matgæðinginn og sommelier-þekkinguna? Tókstu eftir næmni og viðkvæmu fegurðarskyni hans? Og merktir þú fínu strengina í sál hans sem hann flíkaði ekki? Og vissir þú af nægjusemi hans?

Manstu hinn faglega styrk en líka hina persónlegu hógværð. Manstu þekkingu hans á orustum og Rómarsögu? Hann var líka vel heima í tónlistarsögu – auðvitað – því hann hafði ríkulega listaæð sem hann virti og naut.

Manstu hinar ákveðnu pólitísku skoðanir Guðmundar? Hann tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hann var ekki aðeins bundin við torfuna heldur las sér til og var vel heima í alþjóðastjórnmálum.

Og svo voru allar ferðirnar sem hann fór um heiminn eins og pílagrímur í leit að merkingu, já kraftaverki sögu og samtíðar. Hann var tilbúinn að fara um langan veg og milli landa til að gleðja foreldra sína og styðja þau eða vini þeirra á ferðalögum. Guðmundur var einstaklega natinn sonur og líka vinur foreldravinanna. Hann sótti í suður – ekki til að flatmaga á ströndinni heldur í menningarheima sögunnar. Hann skoðaði ekki bara borgir og minjar frá rómverskum tíma og þrautkannaði sögu hins mikla pólitíska veldis sem kennt er við Róm. Og það er miður að hann skyldi ekki hafa verið fenginn til að stýra námskeiði í Rómarsögu í háskólanum. En hann var ósínkur á sýn sína, staðreyndir og túlkun um minjar, sögu og samtíð.

Mannstu mannvirðingu Guðmundar? Hann setti sig aldrei á háan hest heldur við hlið fólks, virti alla, sjúklinga, kollega, samstarfsfólk, ástvini og börn. Hann gerði aldrei grín að fólki heldur lagði fremur gott til en hitt.

Og nú er hann farinn. Hann fer aldrei í göngutúr með hundinum Galdri og Ólafi bróður til að ræða stjórnmálaviðhorfið. Hann veiðir ekki lengur harðfisk úr vasanum til að gleðja hvutta. Og hann grillar ekki nautalundir fyrir þig eða býr til sósu frá grunni, flettir ekki upp Gordon Ramsey eða Michelin. Hann bjargar engum framar í aðgerð á Lansanum. Hann hlustar aldrei framar á undaðsmúsíkina í the Godfather eða hlustar og horfir á Monicu Belucci. Hann fer ekki framar í rannsóknarferðir um Berlín, Taormina, New York eða á stjörnuveitingastaði heimsins. Nú er það stórsagan og gastronomía himins.

Og það er vert að þú vitir sem ekki var öllum ljóst að Gumundur Kristinn Klemenzson leit svo á að lífið væri stærra en efnaferlar og efnisveruleiki. Hann hafði í sér undur barnsins gagnvart lífinu, trúði að til væri meira en það sem séð verður. Hann var trúaður. Hann hafði hlutverk í því stóra drama sem þessi veröld er og hinn trúaði stækkar með afstöðu sinni.

Jesús Kristur fór vel með hlutverk sitt og breytti tragedíu heimsins í huggulegra stykki sem hefur meira að segja góðan endi. Mummi – Gummi Klemm – lék ekki aðeins mismunandi hlutverk heldur var í burðarhlutverki í drama margra. Og nú er hann farinn – burt af skurðstofunni og úr eldhúsinu og upp á stóra sviðið í eilífðinni. Þar eru allir vinir, veislan er mikil, dramað gengur upp, allir lifa og hlægja – líka Guðmundur.

Guð geymi hann og styrki ástvini hans. Guð geymi þig.

Amen.

Kveðjur hafa bortist frá Deisu Karlsdóttur og bróður hennar Jóni Karlssyni og fjölskyldu í Gautaborg. Þá biðja fyrir kveðju Þorsteinn Gíslason og fjölskylda en þau eru erlendis.

Minningarorð í útför Guðmundar K. Klemenzsonar, Hallgrímskirkju, 21. desember, 2015. Bálför. Erfidrykkja á Grand hótel við Sigtún.