Greinasafn fyrir merki: Guðlaug Þórarinsdóttir

Guðlaug Þórarinsdóttir – minningarorð

Í sálmaskránni eru hrífandi myndir af Guðlaugu – og ástvinum hennar. Myndin af henni í rútunni er skemmtilega laðandi. Þar stendur kona traustum fótum, styður höndum á stólbök. Stór rúta er umgjörðin og sterkir litir áklæðis og innréttingar mála bakgrunn Guðlaugar bílstjóra, Guðlaugar framkvæmdastjóra og Guðlaugar dugnaðarkonu.

Svo vakna aðrar áleitnar myndir þegar Guðlaugar er minnst. Ein myndin spratt fram í frásögn ástvina. Hún er ekki í sálmaskránni heldur í minni fjölskyldunnar og hugum þeirra sem hafa heyrt. Fjölskyldan í Fagurhlíð var segja skilið við heimasveit og að flytja út í Mosfellssveit. Elín, mamman, fór með systkinin í rútu út úr – eins og – Skaftfellingar segja, en Guðlaug var sú sem fór með pabbanum á vörubílnum yfir vötn og sand. Í Guðlaugu var dugur, geta, festa og máttur – henni var treyst til volkferðarinnar.

Myndin sem hefur verið uppteiknuð af Guðlaugu fyrir mig er af öflugum Skaftfellingi sem átti í sér margt af andlegum djásnum sem urðu til í glímu við máttuga náttúru. Svo agaði hún sjálfa sig til gæða og góðs lífs.

Uppaf og ætt

Guðlaug Þórarinsdóttir fæddist 7. desember árið 1925, í Fagurhlíð í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin og bændurnir Elín G. Sveinsdóttir og Þórarinn Auðunsson. Guðlaug var önnur í röð fjögurra systkina. Elst var Valgerður og yngri voru Ólöf og Sveinn. Þau eru nú öll látin.

Heimilsbragurinn í Fagurhlíð var fagur. Elín, mamman á heimilinu, var einstök kona, sem óf kærleika í fjölskylduvefinn. Foreldrarnir skópu gott heimilislíf og samskipti. Því var kært milli systkina. Guðlaug ólst upp í ástríkri og samheldinni fjölskyldu. Því minntist hún æskuára, Fagurhlíðar og æskustöðva með gleði. Hún talaði gjarnan um smágerða en jafnframt stórbrotna náttúruumgerð og einnig um dýrin. Í minningunni virtist henni að sólin hefði skinið samfellt á bernskuárum hennar eystra. Og á Þykkvabæ í Landbroti byrjaði hún skólanám sitt. Þangað var um tuttugu mínútna gangur frá Fagurhlíð.

Svo var dugur í öllu fólkinu hennar. Þórarinn, faðir Guðlaugar, var framkvæmdamaður og var með þeim fyrstu eystra, sem virkjaði bæjarlækinn og smíðaði líka spunavél til hagsbóta fyrir heimili. Hann var laghentur og kunnáttusamur í besta lagi. Guðlaug var alin upp við að lífið sækti fram og fólk gæti beitt sér og til bættra lífskjara.

Elín, móðir hennar – ættuð frá Reyni í Mýrdal, lýsti Guðlaugu sem ákveðinni og duglegri og að hún hafi alltaf sóst eftir að vera best í því sem hún tók sér fyrir hendur. Guðlaug vildi alltaf gera vel við fólk, heimafólk og alla gesti. Hún var jafnframt óhrædd að fara út fyrir ramma hins venjulega ef það þjónaði góðu markmiði. Í fjölskyldunni lifir saga um að þegar Guðlaug var barn vildi hún að mamma hennar bakaði lummur með kaffinu. Hún fékk þó þau svör að ekki væri til eldiviður til þess. Guðlaug brá sér frá, sótti dúkkurúmið sem pabbi hennar hafði smíðað, braut það og rétti móður sinni spýturnar með þeim orðum að nú væri kominn eldiviður!

Guðlaug var dugmikil til náms. Henni gekk vel í skóla, var leikin með tölur og hafði gaman af reikningi. Hún teiknaði mikið og eftir hana liggja náttúrumyndir. Á mörgum eru blóm og dýr fyrirmyndir. Þá var hún tónelsk. Á bernskuheimili hennar var mikið sungið og hún hafði æ síðan yndi af söng og tónlist. Hana langaði að læra á píanó en til þess voru ekki ráð á þeim tíma, en hún sá til þess að börnin hennar nytu þeirrar tónlistarmenntunar sem þau vildu.

Fjölskyldan fluttist frá Fagurhlíð árið 1940 að Skeggjastöðum. Á árunum 1941-1943 sótti Guðlaug nám við Héraðsskólann á Laugarvatni. Bóksækinn unglingurinn gladdist yfir skólaverunni. Henni leið vel á Laugarvartni, sóttist nám hið besta og var virk í söng og félagsstarfi.

Einmaður, fjölskylda og fyrirtæki

Á Laugarvatni kynntist hún eiginmanni sínum, Ingvari Sigurðssyni frá Efstadal (f. 18. Júlí 1919, d. 2. Júní 1990). Þau Guðlaug og Ingvar gengu í hjónaband þann 13. júní 1945 og hófu búskap í Reykjavík. Börn þeirra Guðlaugar eru Sigríður, lögfræðingur og fyrrverandi héraðsdómari. Maður hennar er Stefán Ingi Þórhallsson. Börn Sigríðar eru Þóranna og Ingvar. Þór er annar í röðinni og starfar sem framkvæmdastjóri Þingvallaleiðar. Kona hans er Ólafía Jóna Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Björg María, Róbert Þór, Reynir Ari og Guðlaug Rut. Elín er þriðja og hún starfar sem aðstoðarkona. Maður hennar er Karl Reykdal Sverrisson. Sigurður er svo yngstur. Hann er forstöðumaður á Keldum. Kona hans er Þórunn Marsilía Lárusdóttir. Þau eiga börnin Lárus, Tinnu og Val. Langömmubörn Guðlaugar eru 13 talsins.

Ingvar var bílstjóri og þau Guðlaug kynntust á Laugarvatni. Hann hreifst af því að hún dekraði við hann umfram allar hinar stúlkunar sem færðu bílstjórunum mat á hótelinu. Það var ekki ætlast til þess að þeir fengju annað en vatn með matnum en þegar hann leit til Guðlaugar með bros í fallegu augunum og hvíslaði: “Gulla áttu mjólk” – þá gaf hún honum mjólk með matnum. Þetta kunni hann að meta og þau felldu hugi saman.

Guðlaug og Ingvar festu kaup á fokheldri hæð í Drápuhlíð 17 þar sem þau bjuggu í tæp 40 ár. Börnin þeirra fjögur fæddust í Drápuhlíðinni og ólust þar upp. Þau fóru gjarnan með fjölskylduna í heimsókn í Efstadal og að Hlíð í Mosfellsbæ þar sem foreldrar Guðlaugar bjuggu eftir að hún flutti að heiman.

Guðlaug hafði metnað fyrir hönd barna sinna og hvatti þau til náms og að stæla sig til þroska í skóla og lífi. Sjálf var hún traust og miðlaði festu til ástvina sinna.

Ingvar vann við akstur, bæði á hópferðabílum og einnig sem leigubílstjóri. Svo bauðst þeim Guðlaugu að kaupa sérleyfi og bíla og þau stofnuðu fyrirtækið Þingvallaleið, sem fékk nafn af sérleiðinni. En svo bættist sérleyfið til Grindavíkur við og þau Guðlaug voru samstiga og samhent. Ingvar ók mikið og var dugmikill. Guðlaug tók svo rútupróf, ein fyrst kvenna á Íslandi. Hún varð því fyrirmynd um að störf voru ekki einokuð af kynjum. Kona gat ekið eins vel og karl. Guðlaug ók bílum og rútum Þingvallaleiðar í áratugi og sinnti öllu því sem gera varð í akstri og rekstri fjölskyldufyrirtækisins. Og enn er Þingvallaleið til, hefur aðlagast nútímanum í rekstri og nafngift – Bus Travel og svo er þar líka Þingvallaleið. Allt til lífsloka lét Guðlaug sig varða hag og velferð Þingvallaleiðar – en nú hefur næsta kynslóð tekið við.

Eigindir

Guðlaug var glaðsinna og félagslynd. Hún hafði mikinn áhuga á söng og lengi æfði kór á heimili hennar því þar var píanó. Svo söng hún við húsverkin. Guðlaug lét til sín taka í félagsstarfi kvenfélags Háteigssóknar og sinnti einnig sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn.

Hún var trúrækin og kirkjurækin – bjó löngum í Hlíðunum og því tengdist hún Háteigskirkju. Guðlaug hafði gaman af dansi og yngri árum tók hún m.a. þátt í starfi Þjóðdansafélagsins.

Heimili Guðlaugar og Ingvars var stórt og gestkvæmt. Flest börn þeirra hófu búskap í Drápuhlíðinni hjá þeim og bjuggu þar fyrstu árin með maka og jafnvel börn. Þá áttu ýmsir vinir og ástvinir þar heimili um skeið, m.a. Elín móðir Guðlaugar, Ólöf systir hennar ásamt manni og tveimur sonum, nokkur systkinabörn þeirra Guðlaugar og Ingvars, ættingjar tengdabarna og fleiri.

Svo komu barnabörnin inn á heimilið og Guðlaug taldi ekki eftir sér að gæta að ömmudreng um leið og hún reddaði einhverjum ferðum fyrir Þingvallaleið eða sinnti skrifstofustörfum fyrirtækisins. Svo sá hún um fjármál sonar síns og leigði húsnæði unga fólksins þegar þau bjuggu erlendis. Hún var rismikill forstjóri á heimili, í fyrirtæki og meðal ættmenna sinna.

Veisluhöld og ræktarsemi við fjölskyldu og vini voru henni mikilvæg. Þá las hún mikið og sagði sjálf að hún væri alæta á bækur.  Þá hafði hún einnig gaman að því að grípa í spil.

Guðlaug var listfeng og hannyrðir léku í höndum á henni. Hún fór létt með að sníða og sauma allar flíkur á sjálfa sig og fjölskylduna. Þá liggur eftir hana heilmikill útsaumur og prjónaskapur.

Guðlaugar verður minnst sem einstakrar konu og stórbrotins persónuleika. Hún var í senn frumkvöðull, brautryðjandi og fyrirmynd, kraftmikil, ákveðin og stórtæk, gestrisin, gjafmild og hlý.

Eilífðin

Og nú hefur hún farið síðasta túrinn. Ekki lengur austur í Þingvallasveit eða til Grindvíkur, heldur inn í himininn, hina bestu Fagurhlíð. Þar eru góðir vegir, fín sérleyfi og gaman að keyra ef að líkum lætur. Engar afkomuáhyggjur, sprungin dekk eða bílstjórar sem ekki koma á vaktina. Þar hefur Guðlaug hitt allt sitt fólk og alla ástvini.

Guð geymi hana og varðveiti ykkur ástvini hennar.

Tinna Sigurðardóttir, barnabarn – í Ástralíu – biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Minningarorð við útför í Háteigskirkju á siðbótardeginum 2014, 31. október.