Greinasafn fyrir merki: Guðjón Ármann Eyjólfsson

Guðjón Ármann Eyjólfsson +

Í milljónir ára hafa menn starað upp í himininn – og hugsað. Hvað merkir þessi blikandi mergð þarna uppi? Hvað er að baki? Er eitthvað hinum megin? Og þegar mannabörnin hafa legið á bakinu, séð stjörnuhröpin og numið óravíddir alheimsins hafa þau skynjað smæðina en líka vaknað til vitundar um möguleika. Óravíddir og smæð heimsins. Er nema von að sálmaskáldið spyrji í áttunda Davíðssálmi. „Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?“ Eitt er að kunna að sigla um sjó og afreka í lífinu en svo er eilífðarsiglingin. Hver eru stefnumið fyrir þá ferð? Hvaða vitar eru nothæfir? Jesús talaði um sannleikann og kenndi hvaða leið átti að fara. Guðjón Ármann Eyjólfsson var sérfræðingur í siglingum en líka kunnugur eilífðarstefnunni. Hann þekkti Karlsvagninn, Fjósakonurnar og Pólstjörnuna, stjörnumerki sem gefa stefnuna. Hann kenndi börnum sínum að þekkja stjörnuhimininn og sagði þeim nöfnin og sögurnar sem tengdust stjörnumerkjunum. Hann tengdi þau og nemendur sína við fræðin, sem færðu menn frá einni strönd til annarrar, tengdi tímann við fortíðina og himininn. Menn eru alltaf á ferð, ef ekki frá punti A til B, þá á ferð í fræðum eða í huganum til hinna draumkenndu stranda hið innra, eða á vit eilífðarhafnar á himni. Heimaey er ekki aðeins eyja sunnan við meginland Íslands heldur áfangi á himnum, sem við kristnir menn köllum eilífð. Þar er Guð og þar er Guðjón Ármann Eyjólfsson. Hann vissi hvernig átti að stýra og rataði.

Ætt og upphaf

Guðjón Ármann Eyjólfsson kom í heiminn í ársbyrjun, 10. janúar árið 1935. Vestmannaeyjar voru upphaf hans og samhengi allrar æfi hans. Guðjón Ármann var sonur hjónanna Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar. Húsið sem þau byggðu og bjuggu í hét því virðulega nafni Bessastaðir. Eyjólfur, faðir Guðjóns Ármanns, var í fjóra áratugi einn fremsti formaður Eyja. Hann var ekki aðeins mikill aflamaður heldur einnig áhugamaður um sögu Vestmannaeyja. Sonurinn naut þess áhuga og arfs frá föðurnum. Guðjón Ármann sagðist líka njóta getu föðurins til að skrifa. Guðrún, móðirin, var listfeng hannyrðakona. Erlendur var elsti bróðir Guðjóns Ármanns, samfeðra. Sigurlína og Gísli voru alystkin hans, en Sigurlína lést ung. Guðjón Ármann var yngstur í barnahópnum. 

Hann stundaði grunnnám á heimaslóð m.a. í skóla aðventista í Eyjum. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum árið 1951. Þá hóf hann nám í Menntaskólanum á Laugarvatni en leiddist og fór suður og var sáttur og leiðalaus í Menntaskólanum í Reykjavík. Guðjón Ármann var fjölhæfur í námi. Fyrst lauk hann stúdentsprófi í máladeild vorið 1955. En hann vildi auka möguleika sína varðandi náms- og starfs-val. Með honum hafði vaknað löngun að fara til náms í danska Sjóðliðsforingjaskólanum. Skólinn gerði miklar kröfur og máladeildarprófið var ekki nóg. Guðjón Ármann stæltist alltaf við átök og var marksækinn. Hann ákvað því að bæta við öðru stúdentsprófi og lauk því líka stúdentaprófi frá stærðfræðideild ári síðar.

Með tvö stúdentsskírteini sótti Guðjón Ármann um nám Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins. Hann var einn af 130 sem sóttu um en aðeins 30 komust inn. Námið var áháskólastigi og Guðjón Ármann lauk því árið 1960.[i] Þá fór hann til starfa hjá Landhelgisgæslunni og stundaði einnig rekstrarnám. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri frystihúsa í Vestmannaeyjum á árunum 1962-63. Hann var einnig hvatamaður og einn af stofnendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og var skólastjóri hans frá stofnun árið 1964. Útgerðarmennirnir vildu laða unga efnismenn til Eyja og í skólann. Þeir vildu gefa þeim möguleika og menntun, en treystu því líka að stúlkurnar myndu síðan halda þeim í Eyjum, sem tókst vel!

Þegar gosið hófst í Eyjum var skólinn fluttur upp á land og í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík. Guðjón Ármann hélt áfram kennslu í skólanum eftir gos og varð skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1981. Hann gegndi starfi skólameistara til ársins 2003.

Guðjón Ármann helgaði starfsævi sína menntun íslenskra sjómanna. Hann var árið 1993 sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Öryggis- og björgunarmál sjómanna voru honum hugleikin og var hann um árabil gjaldkeri Björgunarsjóðs Stýrimannaskólans í Reykjavík – Þyrlusjóðs.

Eftir Guðjón Ármann liggur mikið ritasafn. Hann skrifaði um sjómennsku, siglingasögu, siglingafræði og kennsluefni skipstjórnarmanna. Hann þýddi Alþjóðlegar siglingareglur og uppfærði þegar breytingar urðu (1972 og 1989). Hann skrifaði bókina Stjórn og sigling skipa, siglingareglur, sem gefin var þrisvar út í endurskoðuðum útgáfum (1982, 1989, 2006). Þá ritaði hann bækurnar Leiðastjórnun (2009) og Siglingafræði (2013). Þetta eru mikil rit og glæsilegar ritsmíðar.

En útgáfa rita um skipstjórnun og siglingafræði var ekki það eina sem Guðjón Ármann skrifaði. Eins og þegar er sagt var faðir hans mikill áhugamaður um sögu og mannlíf Vestmannaeyja. Um þau efni skrifaði Guðjón Ármann einnig mikið. Haustið 1973 kom út hin merkilega bók Vestmannaeyjar – byggð og eldgos, sem er heimild um mannlíf í Eyjum, horfna byggð og flótta íbúanna hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973. Þá skrifaði Guðjón Ármann um Vestmannaeyjar í ritið Landið þitt sem kom út árið 1984. Honum var síðar falið að skrifa Árbók Ferðafélags Íslands um Vestmannaeyjar sem kom út árið 2009 og var bókin að verðleikum tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Þessi Vestmannaeyjabók Guðjóns Ármanns er yfirgripsmesta ritið um Vestmannaeyjar. Auk annarra starfa var Guðjón Ármann ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja á árunum 1965-1975. Í því er á annað hundrað greina hans um mannlíf og sögu Eyjanna.

Guðjón Ármann var eftirsóttur félagsmálamaður enda glaður, áhugasamur um fólk, jákvæður og eflandi. Hann var virkur í Akóges um árabil og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Þá var hann dugmikill tungumálamaður og áhugamaður um rómönsk tungumál. Þegar hann var barn fékk hann fyrstu frönsku orðabókina og drakk í sig frönsk áhrif. Guðjón Ármann var meðlimur í Alliance Française og sat í stjórn félagsins og skrifaði m.a. um rithöfundinn Guy de Maupassant. Þá þýddi hann smásögu úr frönsku eftir hann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.

Anika og börnin

Svo er það fjölskyldan og Anika. Guðjón Ármann gerði sér alltaf grein fyrir gæðum og styrk. Anika Jóna Ragnarsdóttir, Arnfirðingurinn frá Lokinhömrum, vann á sjúkrahúsinu Sankt Josepí Kaupmannahöfn. Þau sáu hvort annað í Gullfossi við bryggju í Kaupmannahöfn. Svo hittustþau á Rauðu nellikunni, sem var vinsæll Íslendingastaður í Höfn. En Guðjón Ármann, sem var orðinn almælandi á dönsku þóttist vera Dani. En Anika sá gullið í gegnum þykistuna og dátabúninginn og hann sá gullið í henni. Nálgunaraðferð Guðjóns Ármanns var frumleg. Hann kom til Aniku og bað hana um að merkja fötin sín. Og hún gerði sér grein fyrir að hann var nákvæmur og kom úr formlegu vinnusamhengi sjóðhersins danska. Hún merkti vel og hann þakkaði vel fyrir sig. Þau gengu í hjónaband föstudaginn 30. desember árið 1960. Þau voru vinir og báru virðingu fyrir hvoru öðru. Þau stóðu saman, hrósuðu hvoru öðru og voru hinu styrkur. Guðjón Ármann hafði á hreinu alla tíð að góður eiginmaður ræktaði samband við konu sína og börn og þjónaði heimili sínu.

Þau byrjuðu búskapinn í Hátúni 4. Þegar Guðjóni Ármanni var boðin staða í Vestmannaeyjum var Anika til í að fara út með honum. Þau bjuggu í Eyjum í áratug, en fóru svo upp á land í gosbyrjun. Það tók tíma að koma sér fyrir í nýju samhengi eftir eld. Fjölskyldan bjó í Vesturbænum um tíma en eignuðust síðar sælureit í Fossvoginum þar sem Anika býr enn. Guðjón Ármann sagði, að hann hefði lært í danska flotanum að góður yfirmaður hugsaði vel um skip sitt og áhöfn og eiginkonu sína. Svo sagði hann við konu sína: „Þú hefur það eins og þú vilt, Anika mín.“

Börn Ármanns og Aniku eru fjögur. Ragnheiður er elst. Hún er MA í alþjóðasamskiptum og leiðsögumaður. Maður hennar er Leifur Björnsson. Synir þeirra eru Ármann og Björn. Ragnar er annar í röðinni. Hann er svæfingalæknir. Kona hans er Kristín Axelsdóttir og þau eiga synina Þórólf, Höskuld, Grím og Brand. Eyjólfur er sá þriðji. Hann er lögmaður. Kristín Rósa er svo yngst. Hún er hjúkrunarfræðingur og MA í lýðheilsuvísindum. Maður hennar er Jón Heiðar Ólafsson og þau eiga Ólaf Heiðar, Guðjón Ármann og Aniku Jónu.

Hvernig var Guðjón Ármann?

Hvernig manstu Guðjón Ármann Eyjólfsson? Byrjum á öguðu snyrtimenninu. Hann fékk ákveðið uppeldi heima um hvað væri gott og hvað ekki. Svo slípuðu Danir hann í öflugri regluhefð danska hersins. Guðjón Ármann var agaður sjálfur og sagði nemendum sínum, að það væru ekki öflugir yfirmenn, sem gætu ekki klárað skúringar eða hreinsað salernin. Hann var smekkmaður, gætti að klæðaburði sínum og miðlaði innri sem ytri ögun til nemanna í Stýrimannaskólanum. Þeir lærðu fljótt, að það þýddi ekki að koma vankaður eða illa verkaður í skólann. Þeir lærðu líka að taka á móti kennara með stæl í stofu. Þegar stýrimannaskólinn flutti upp á land í gosinu gerðu nemendur Reykjavíkurskólans sér grein fyrir að Eyjanemendurnir voru á allt öðru og æðra plani hvað fatnað og aga varðaði. Þegar horft er til baka tala nemendur Guðjóns Ármanns um hve aginn sem hann kenndi þeim hefði skilað þeim miklu í störfum og stjórnun. Hatturinn hans Guðjóns Ármanns og fatnaður voru ekki sýndarmál skartmennis heldur ásýnd hins þroskaða manns. Hann var formlegur í lífi og tengslum. Og hann heilsaði með handabandi.

Guðjón Ármann var alltaf að læra. Hann var opinn, hæfileikaríkur og námsfús. Hélt áfram að þjálfa sig í tungumálum og menningu. Hann íhugaði hverju hann gæti miðlað og þar með bætt stöðu stéttar sinnar. Hann var gjarnan með bók í hendi. Hann var heillaður af dýpt franskrar menningar. Hann sótti inn á söfn, skoðaði allt vel, íhugaði og gleymdi stund og stað. Þar var hann að læra og lærði mikið. En börnum hans fannst stundum að safnaferðirnar mættu vera hraðari og styttri.

Guðjón Ármann var af kynslóð kraftaverkamanna, sem byggðu upp nútímasamfélagÍslendinga. Hann var frjálslyndur og – eins og margir af hans kynslóð – opinn gagnvart öllum gagnlegum nýungum og því sem nýta mætti í þágu íslenskrar þjóðar. Hann gekk til þjónustu við nútímasamfélaið og beitti sér af fullum þunga, ekki í eigin þágu heldur heildarinnar. Í æsku gerði hann sér grein fyrir mikilvægi útfærslu landhelginnar og mikilvægi sjómælinga. Guðjón Ármann miðlaði hugsjónum sínum til nemenda sinna og minnti þá á að góður yfirmaður lætur sér annt um velferð og hag allra um borð. Og hann minnti þá á að góður yfirmaður á sjó væri líka góður eiginmaður í landi. Mannrækt var honum mikilvæg, styrkur og fágun hið innra sem ytra. Hann mat hæfni fólks og hæfileika óháð stöðu eða stétt. Hann varumtalsfrómur mannvinur. Það er ástæða fyrir að sonur hans las áðan kærleiksóð Páls postula.

Guðjón Ármann var marksækinn og einbeittur í lífi og vinnu. Þegar hann hafði sett sér stefnu sótti hann ákveðið fram. Hann hafði að orðatiltæki „Vedligehold af målsætning.“ Hann notaði vel tímann en gekk jafnvel nærri sér vegna einbeitninnar. „Gutta cavat lapidem.“ Dropinn holar steininn – minnti hann á – og svo vissi hann og kenndi: „sed saepe legendo“ „ … ekki með afli heldur með því að falla jafnt og þétt; þannig verður maðurinn lærður, ekki með afli heldur stöðugum lestri.“ Guðjón Ármann var afkastamikill eljumaður. Hann kunni ekki vel – frekar en aðrir af hans kynslóð – að slappa af. Þegar tómstundir gáfust opnaði hann bók eða skrifaði. Hann miðlaði lífsafstöðu mennta, skynsemdar og ráðdeildar til barna sinnar. Þegar krakkarnir vildu fara í bíó eða þurftu peninga til tómstunda eða bara til að fara í sjoppuna lágu þeir ekki á lausu. En ef þau ætluðu að kaupa sér bók var afstaða pabbans mun opnari. Peningar voru ekki markmið heldur tæki til góðs og til menntunar. Og hann var áhugasamur um menntun barna sinna og studdi þau.

Í pólitík og menningarmálum taldi Guðjón Ármann mikilvægt að fjármunir væru ekki á fárra höndum, heldur ættu auðlindir að nýtast heildinni. Um skeið var hann virkur í bæjarpólitíkinni í Eyjum en taldi tíma sínum best varið við að mennta, fræða og tryggja velferð stéttar sinnar. Guðjón Ármann var gagnrýnin á þær stefnur og stjórnsýslu sem ekki tryggði velferð heildarinnar. Hann var t.d. gagnrýninn á kvótakerfið sem hann taldi of lokað og útilokandi.

Guðjón Ármann var afar hæfur félagslega. Hann hafði t.d. gaman af að tala við félaga barna sinna. Hann bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann fylgdist með þeim og gladdist yfir velferð þeirra og árangri. Alltaf jákvæður og glaður. Svo héldu nemendur hans góðu sambandi við hann. Hann hélt gjarnan ræður á mannamótum, inntaksríkar, vinsamlegar og jákvæðar tölur. Hann starfaði að margvíslegum félagsmálum, sótti samkomur á vegum Eyjamanna og ræktaði vini sína, innlenda sem erlenda.

Eldurinn í Heimaey hafði djúptæk áhrif á Guðjón Ármann eins og aðra Eyjamenn. Hann skrifaði: „Það var mér stórkostleg og ólýsanleg sjón, er ég sá þessa firnakrafta að verki stundarfjórðungi eftir að þeir leystust úr læðingi. Í sömu andrá varð maður fullur furðu, skelfingar og lotningar gagvart því sem gerzt hafði.“ Minningin um eldinn lifði í honum síðan. Þegar fólk lendir í áföllum eru kostir einkum tveir, að bogna undan vandanum eða bregðast við. Guðjón Ármann fór upp á land – og öll fjölskyldan – og hann settist niður við skriftir. Hannskrifaði sig í gegnum gosskelfinguna. Þegar á gosárinu gaf hann út bók um Vestmannaeyjar. Hann setti allt hið mikilvægasta um Eyjarnar á blað, vildi tryggja að sem flest yrði varðveitt og sem minst yrði eldi gleymskunnar að bráð. Framlag Guðjóns Ármanns um sjómennsku, skip og farmennsku er veigamikið en einnig það, sem hann skrifaði um Vestmannaeyjar. Lof sé honum og þökk.

Guðjón Ármann Eyjólfsson er farinn inn í himininn. Hann hefur sett hattinn upp í síðasta sinn og bindið líka. Hann brýnir ekki framar fyrir nemum sínum mikilvægi skapandi reglu í vinnu og lífi. Fjölskylda Guðjóns Ármanns sér á eftir ljúfum, kærleiksríkum og menntandi fjölskylduföður. Þau eiga allar minningarnar, bækurnar og sverðið hans. Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans? Guð gleymir ekki. Stefnumiðin voru skýr. Guðjón Ármann þekkti stefnuvitana og kunni að sigla. Hann er kominn til Heimaeyjar hið efra. Guð geymi Guðjón Ármann Eyjólfsson og gæti þín. Amen.

Kveðjur hafa borist frá Sigrúnu Ragnarsdóttur, Lilju Ragnarsdóttur og fjölskyldu og Jónasi Ragnarsyni og fjölskyldu sem eru búsett á Akureyri.

Ása Ingibergsdóttir biður fyrir kveðju, fyrir hönd skólasystkina Guðjóns Ármanns úr árgöngunum 1934 og 1935 úr barnaskólanum í Vestmanneyjum.

Þá barst kveðja frá Sveini Valgeirssyni, sem skrifaði: „Við, nemendur skólaárgangs 1972 til 1974, vottum eiginkonu og afkomendum Guðjóns Ármans okkar dýpstu virðingu og samúðarkveðjur með þökk fyrir góðar stundir í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja.“

Jarðsett í Sóllandi, Fossvogi. Erfidrykkja í Hörpu, Norðurbryggja, 1. hæð. Ritningarlestrar, Sálm 8; 1. Kor. 13; Jóh. 14. Hallgrímskirkju, 23. júní, 2020 kl. 15.

[i] Nám Guðjóns Ármanns kom við sögu Alþingis ári síðar. Í ræðu Jóns Árnasonar, sem er að baki þessari smellu,  kemur fram að hann hafi meiri menntun en þá sem nemendur í íslenskum stýrimannaskóla hefðu getað veitt honum. https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=81&rnr=1441