Greinasafn fyrir merki: Guð

139

Byrjum á vitund þinni? Ertu hér? Fylgja þér einhverjar hugsanir úr lifun morgunsins sem hindra að þú komir? Lentir þú í einhverju sem þú ert enn að vinna úr? Sagði einhver eitthvað við þig sem þú ert enn að greina og skilja?

Ertu hér eða ertu þar? Margir rýna í símann í messu eða á kyrrðarstundum. Horfðu í kringum þig, fjöldi er að taka myndir og senda. Í sumum dönskum kirkjum kíkir meira en helmingur kirkjufólksins í símann í hverri messu. Fyrir skömmu síðan sá ég konu vafra í miðri prédikun. Á að banna síma í kirkju og láta alla setja símana í kassa við innganginn eins og í dönskum barnaskóla? Nei. Símnotkun vex alls staðar og kirkjurýmið er næðisrými sem hentar vafrinu. Og þar sem síminn er á lofti er víða farið að nota hann sem skjá fyrir sálmabók og biblíutexta. Þau sem koma í messu í Hallgrímskirkju geta flett á hallgrimskirkja.is í messunum til að veiða sálmanúmer, sálma og bilíutexta.

En hver er nálægð þín? Hvað fangar hug þinn? Er það netið, at morgunsins, reynsla daganna eða nærðu að vera í núinu? Hvað er næst þér? Viltu dýpra í þér? Alla leið?

Marteinn Lúther sagði að Davíðssálmarnir næðu að tjá allar tilfinningar manna. Allt sem menn reyndu í lífinu væri orðfært í þessum sálmunum. Það er rétt. Í sálmi 139 segir:

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni 
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst 
og hönd þína hefur þú lagt á mig…

Hvað er innst í þér? Hvað um guðlega alnánd? Guð er svo nærri þér að ekkert fer fram hjá þeirri vitund. Engar hugsanir eru Guði óþekktar. Þú segir ekkert sem elskunæmni Guðs nemur ekki. Þú gerir ekkert svo kvika Guðs verði þess ekki áskynja. Nándin er alger. Guð er þér nær en kvíði daganna. Þó þú lyftir þér á vængi netsins eða morgunroðans er Guð þar. Þegar þú forðast kirkjur, guðshús og heilaga staði heimsins er samt guðlegur meðhlaupari nærri. Og ef þú rásar burt frá þínu persónulega altari – er Guð þar – nær en sjálf þitt.

Hvert get ég farið frá anda þínum, 
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig 
og hægri hönd þín halda mér…“

Guð er þér nærri – alls staðar – alltaf – hér og líka í þér.

Íhugun í kyrrðarstund 5. október, 2017.

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.

Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.

Sorgin – skuggi ástarinnar

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016

Hvernig er Guð?

IMG_3082Í vikunni komu tveir ungir menn í Hallgrímskirkju og báðu um viðtal við prest. Þeir komu frá austurhluta Belgíu, settust niður í sófann hjá mér og var mikið niðri fyrir. Þeir upplýstu að þeir væru ekki komnir til Íslands til að skoða íslenska náttúru eða íslenskt mannlíf. Nei, þeir voru komnir til að hitta forseta Íslands og presta á Íslandi. Ég gat alveg skilið að þeir heimsæktu kirkjur og ef þeir rækjust á prestana ræddu þeir við þá líka. Nei, þeir voru ekki kirkjutúristar. Þegar þeir komu í Hallgrímskirkju fóru þeir ekki inn í kirkjuna og höfðu takmarkaðan áhuga á húsinu, listinni og söfnuðinum.

Undir dómi?

Þessir ungu Belgar voru í afar sértækum erindagerðum við forsetann og prestana: „Við erum komnir til að vara fólk við dómi Guðs, vara fólk við til að það iðrist.“ Og þeir upplýstu að siðferðilegt ástand íslensku þjóðarinnar væri slæmt. „Ef þið takið ekki til hjá ykkur verðið þið fyrir alvarlegri refsingu.“ Þetta voru skilaboðin.

Það sló mig að þessir unglingspiltar töluðu og hegðu sér eins og þeir væru þrjú þúsund ára spámenn sem komu með hræðilegan boðskap út úr eyðimerkurryki Miðausturlanda. Fyrst hélt ég að þeir væru að ýkja eða væru með falda myndavél. Svo fór ég að ímynda mér að þeir væru að leika nútímaútgáfu að Jónasi spámanni sem endaði í hvalnum áður en hann fór til Ninive. En svo dagaði á mig að þessi strákar voru komnir alla leið til Íslands til að hitta Guðna Th. Jóhannesson og fjölda af prestum til að tilkynna okkur að við yrðum að snúa baki við öllum nútímaviðmiðum t.d. um samskipti kynja, bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu. Ef ekki, ja þá myndum við farast í eldgosi. Annar þeirra hafði orðið fyrir vitrun. Hann fullyrti að Guð hefði sagt honum þetta beint eins Guð talaði forðum við spámanninn Jónas.

Siðferðileg sýn?

Mér fannst heimsókn dómsspámannanna vondur gjörningur. Það var reyndar furðulegt að þeir sæktu svo langt í burtu frá aðstæðum og þörfum heimahaganna. Eru ekki næg verkefni í Belgíu? Mikil spenna hefur ríkt m.a. vegna múslima sem stýrðu árásum á París fyrir tæplega ári síðan. Hafa þessir ungspámenn hlutverk heima fremur en að fara í trúarvíking til Íslands? Siðferðilega fjarsýnir frekar en nærsýnir?

Þroskaskeiðin

Augljóst var af samtölunum að þessir drengir væru að fara í gegnum þroskaskeið. Mér var ljóst að þeir væru í leit að hlutverki og tilgangi með eigið líf. Flest ungt fólk reynir að spegla eigin hlutverk og drauma í speglum annarra. Flest ungt fólk finnur sér fyrirmyndir, hvort sem það er í fótbolta, pop-menningu, celebum eða snillingum og reynir að líkja eftir fyrirmyndum til að móta eigin stefnu. Mínir strákar horfa á bestu fótboltamenn í heimi og máta sig í íþróttalíf. Mig grunaði að þessir strákar hefðu nördast í einhverjum menningarkima og notað þrjú þúsund ára spámannstexta til að varpa vonum um eigin afrek yfir á Ísland.

Og ég þakkaði Guði í hljóði fyrir að þeir voru ekki í sjálfsvígshugleiðingum – ætluðu ekki að framfylgja einhverjum reiðiórum með því að sprengja eða skjóta Íslendinga. Nei, dómurinn sem þeir boðuðu var eldgos sem þeir ætluðu ekki að framkalla sjálfir heldur myndi Guð taka tappann úr eldfjallinu. Og ég benti á að eldgos væru algeng á Íslandi, stór og smá – það væri þekking í landinu að bregðast við og vissulega væru Katla og Hekla komnar á tíma. Og eldgosin hefðu aukið túrismann í seinni tíð. Meira segja væru ræktunaraðstæðurnar á Þorvaldseyri undir eldfjallinu Eyjafjallajökli betri nú en fyrir gos.

Vondi eða góði Guð?

„Hvað finnst þér um þennan dómsboðskap?“ spurðu Belgarnir, hissa á að ég var til í að ræða við þá. Ég svaraði þeim að allir menn þyftu reglulega að skoða sinn gang, hugsun, stefnu og verk. Allir gerðu mistök sem mikilvægt væri að viðurkenna, biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Það væri verkefni okkar allra rækta samband við Guð, menn og náttúru.

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Veröldin væri í lit – Guð elskar alls konar

Þeir glenntu upp augun og ég sagði þeim sögu af því að þegar ég var unglingur skipti ég veröldinni upp svart hvítt, í góða og vonda. En ég hefði á langri æfi lært að Guð er stærri en ég og mínar þarfir. Guð er stærri en þarfir lítilla reiðra karla í vandræðum og mun meiri en þarfir einstakra þjóða. Sá Guð sem ég þekki elskar múslima jafn mikið og kristna, heiðna menn jafn mikið og trúaða, listir jafn mikið og fótbolta, eldgos jafn mikið og tárvot smáblóm í sólarglennu sumarmorguns.

Þetta þótti þeim skrítin og of víðfeðm trú og siðferðið sem presturinn hefði túlkað allt of rúmt. Ég fullyrti að veröldin væri ekki svart-hvít heldur í lit. Guð elskaði alls konar. Það væri okkar lútherski arfur, þannig Guð þekktum við og í ljósi þess boðskapar túlkuðum við Biblíuna og hefðina. Og með það vegarnesti fóru þeir.

Guð ekki neikvæður hedur jákvæður

Og af hverju segi ég þessa sögu? Hún er ekki trúnaðarmál því þeir vildu að ég segði frá og flestir heyrðu um erindi þeirra. Ég segi ég þessa sögu svona ítarlega af því að í dag hefst fermingarfræðslan í Hallgrímskirkju og við getum notað þennan dómsgjörning til að gera okkur grein fyrir valkostum. Fólk kemur í þessa kirkju og aðrar kirkjur þjóðarinnar til að tala um trú, þroska, hlutverk, stefnu, líf í samfélagi og til hvers má vænta af okkur sem manneskjum og sem kristnum einstaklingum.

Boðskapur okkar er að Guð er ekki lítill, refsiglaður siðferðistappi, heldur stórkostleg nánd, sem umvefur okkur. Guð er ekki neikvæður heldur jákvæður. Guð blæs í okkur von, styrk, umhyggju, umburðarlyndi, hrifningu og öllu því besta sem til er í lífinu. Það eru alls konar stefnur til, aðilar og hlutir sem við getum sett í stjórnsæti lífs okkar. Í guðspjallstexta dagsins minnir Jesús á að við getum sett peningana í efsta sætið. Ef svo fer gerum við þau mistök að setja peninga í allt aðra stöðu en best hentar. Peningar eru ekki góður stjórnandi. Peningar eru bara tæki til að nota en ekki til að hlýða. Þegar við ruglumst og setjum peninga sem markmið þá verða afleiðingarnar rugl. Þá erum við komin með peningaguð en ekki handhægt verslunartæki.

Ekkert má ná tökum á okkur og móta, nema ofurgæðin sem gera okkur gott og bæta líf okkar. Okkur mönnum hættir til að setja það sem er á þarfasviðinu í bílstjórasæti lífsins. Ef við erum reið eða bitur vörpum við slíkum tilfinningum á líf okkar og látum stjórnast af þeim myrku þáttum. Ef við erum hvatalega bæld verða hvatir, t.d. kynhvöt, að stjórnvaldi lífs okkar. Ef við erum beygluð tilfinningalega vörpum við líklega vandanum yfir á öll tengsl við fólkið okkar. Hvað stjórnar þér, hvað viltu að sé leiðarljós þitt? Kirkjan getur verið þér frábær vettvangur til að hugsa um þroska þinn, hlutverk þín og þig sjálfan og sjáfa.

Á hvaða ferð ert þú?

Belgaunglingarnir eru farnir og ég hugsaði með mér: Þegar þessir strákar líta til baka eftir fjörutíu ár og hugsa um Íslandsdóminn mikla – þá munu þeir vonandi segja: „Já, þetta var merkileg ferð. Við héldum að við værum að kasta dómi yfir forseta, presta og íslensku þjóðina – en við vorum bara á okkar eigin þroskaferð. Það sem við héldum að væri fyrir aðra var okkar eigin þroskaglíma. Málið var ekki að Ísland tæki út þroska heldur við sjálfir.“

Nú ert þú á þinni ferð, þið sem eruð í kirkjunni í dag, ung eða eldri, fermingarungmenni, fjölskyldur, kórfólk frá Oslo, við starfsfólk kirkjunnar, þið sóknarfólk sem sækið messu. Þú ert á ferð – á þroskavegferð. Þú mátt gjarnan svara spurningunni sem varðar þig: Hver stjórnar þínu lífi? Eru það einhverjar sálarþarfir sem þú varpar yfir í vitund þína og réttlætir svo?

Eða hefur þú opnað fyrir þeim Guði sem gaf þér lífið, heldur þér á lífi alla daga, nærir þig fremur með von en dómi, kallar þig fremur til ástar en haturs, lýsir þér út úr myrkrinu og elskar hlátur og gaman? Það er svoleiðis Guð sem á heima í þessu guðshúsi, sem við tölum við og þráum að búi hjá okkur. Um þann Guð syngjum við, spilum fyrir í músík kirkjunnar og sjáum í leiftri listarinnar og sólarinnar í kirkjuskipinu. Við trúum á þann Guð sem Jesús opinberaði okkur. Sá Guð er ekki neikvæður heldur bara jákvæður.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 4. september, 2016. A-textaröð. 15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.