Greinasafn fyrir merki: Guð

Guð hjálpi Trump – og okkur öllum

Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.

George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?

Kirkja sem leiktjöld

Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um  háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan. 

Hver er heilagur?

Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar.  Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það. 

Samfélag og Ísland

Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.

Valdið styrkst en vitið veikst

En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.

Að  friða en sundra ekki

Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“

Við erum Trump

Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum.  Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags.  Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu.  Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.

(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)

Brauð, bikar og gjörningar

Ég stóð við dómkirkjuna í Sansepolcro í austurhluta Toscana á Ítalíu. Íbygginn unglingsstrákur krítaði gamla götusteina fyrir framan kirkjuna. Nærri honum voru pappakassar. Í einum var mikið magn af gulum krónublöðum einhverrar fífiltegundar, sem var íslenskum flórukarli framandi. Í öðrum voru blóm af smágerðri baldursbrá og í þeim þriðja blá blóm. Hvað var strákurinn að gera? Ótrúlegt magn af krónublöðum. Þvílíkur vinnuvilji og puð að klippa þessa tugi þúsunda blóma!

Eitthvað var í bígerð, en hvað? Drengurinn fyllti lófana af blómum og lét falla á götuna og úðaði svo vatni yfir. Gul breiðan virtist ætla að verða í mynd faðmandi veru. Eða var það bikar? Svo gerði hann stóran baug með hvítu blómunum ofan við þau gulu. Gjörningurinn átti sér einhverja merkingu og var ætlað að tala til þeirra, sem áttu leið að kirkjunni. En hver var meiningin?

Karlar báru stórkostlegan vínrauðan vefnað út úr kirkju heilags Jóhannesar. Í hann var ofin dagsetningin 1760. Þeir hengdu klæðið á virðulegt hús við kirkjuna. Svo komu góðlátlegir og skríkjandi hringjararnir með stóra kertastjaka úr kirkjunni og komu þeim fyrir á borði á upphækkuðum tröppum, nærri klæðinu góða. Prestur kom með nokkra hökla. Það var hátíðisdagur í borg hinnar heilögu grafar. Klukkuómar úr turninum bárust letilega út í daginn og kölluðu fólk úr síestunni. Krónublaðadrengurinn hélt áfram að úthella örlæti Guðs og auðæfum sínum á strætið. Nú var búið að bæta við stöfum ofan í hvítan hringinn. Hin kirkjulega merking var að birtast: IHS. Það er skammstöfun Jesú, sem er í mörgum Jesúmyndum heimsins, líka á Íslandi. Iesus Hominum Salvator – Jesús frelsari mannkyns.

Svo bættust við geislar í götumyndina. Forvitinn vegfarandi spurði hvað þetta væri. Án þess að líta upp svaraði blómadrengurinn stuttaralega: Hostia – Brauð. Þá var allt skýrt. Brauð lífsins og svo var það líka bikar lífsins. Allt frá Guði, allt í táknrænni mynd, en í raunveruleika og skuggsjá strætisins. Kirkja í borg hinnar heilögu grafar til nota fyrir hinn góða boðskap. Strætið helgað með gerningi til að túlka hver merking lífsins er, hvaðan allt er og til hvers.

Á þessum tíma erum við minnt á að lífheimurinn er einn. Allt er tengt og smáveira getur umturnað stórkerfum mannkynsins. En líf er aldrei sjálfgefið. Lífi er alltaf ógnað. En allt er tengt þeim sem kallar fram líf – Guði. Gegn voða, vá, dauða og heimsfaraldri er boðskapurinn um, að dauðinn dó og lífið lifir. Drengur í Sansepolcro og við öll lesum blóm á göngum okkar og gjörningarnir lita veröldina. Hostia á götu, gæskuverk manna, bros og vonarorð eru líka brauð Guðs og bikar lífsins. Djúpmerking í viðburðum heimsins er lífgjöf Guðs, sem gefur, verndar og blessar. Yfir, með og undir er andi Guðs í brauði og víni, fyrir heim, fyrir líf og til lífs.

+ 24 og sjón Guðs

Ég heyrði undursamlega sögu – fyrr í mánuðinum – hjá gleraugnasnillingnum, sem ég fer til þegar mig vantar spangir eða ný gler. Hann sagði mér, að hann hafi einu sinni verið kallaður til að útbúa gleraugu handa ungum dreng, sem var með svo brenglaða sjón, að hann hafði aldrei séð neitt nema í þoku. Í augum hans rann allt út í eitt, í óljósa, ófókuseraða litasúpu. Hann hafði aldrei getað beint sjónum sínum að neinu sérstöku, ekki séð puttana sína, hlutina í kringum sig eða brosandi andlit foreldra sinna. Augnlæknirinn og sjóntækjasérfræðingurinn ræddu um hvernig gler þyrfti til svo einhver bót yrði á sjón drengsins og niðurstaðan var að það þyrfti að vera gler í plús 24! Þegar gleraugun voru tilbúin fór vinur minn með þau til drengsins, sem lá vakandi og starði í óreiðu lita og forma. Augu hans hvörfluðu til og tilveran var úr fókus. Svo setti hann gleraugun varlega á drenginn. Honum varð greinilega mikið um því hann stirnaði upp, starði stjarfur fram fyrir sig og svo – allt í einu – breiddist stórkostlegt bros yfir allt andlit hans. Tilveran hafði allt í einu fengið form, litirnir aðgreindust og umhverfið birtist honum. Hann sá. Kraftaverkið hafði orðið og líf hans breyttist. Gleraugun breyttu öllu – einfalt tæki en afgerandi fyrir þroska, líðan og hamingju.

Jól og síðan áramót. Hvernig verður tíminn og lífið? Óskiljanleg litasúpa eða tími til vaxtar og gleði? Engir fræðingar munu færa okkur hamingju. Við kaupum ekki frið og fögnuð. En við getum kallað hann fram og skapað. Við getum gefið af okkur og orðið öðrum til lífsbóta. Vaxandi hlutahyggja veldur tilfinningadoða fólks varðandi hamingjuleiðir. Sjálfhverft fólk hlutgerir ástvini sína og hættir að sjá þá sem undur lífs. Við þurfum að sjá, meta, virða og rækta. Hamingjan er alltaf heimafengin og vex við góð samskipti, athygli, nánd, hlustun og góða sjón.

Helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við sjáum með hjartanu og virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trúarefni þráum við samt öll hið djúpmennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til dýpta, speki og gilda, sem veröldinni eru lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar, sem við höfum lært að kæfa, með raunsæi. Jólin eru tími gjafa, en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið, að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða, heldur þvert á móti, að nóttin er rofin barnsgráti Guðsbarnsins, sem er merkingarvaki allrar veraldar. Þegar lita- og formsúpa lífsins skerpist muntu uppgötva að alla tíð var það, sem persónudjúp þitt þráði.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum” sagði refurinn í spekibókinni Litla prinsinum. Við þurfum ekki að horfa á hið yfirborðslega í jólasögunni og alls ekki taka hana bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd.

Drengurinn, sem fékk sjónina, er nú orðinn fullorðinn. Honum hefur farnast vel. Hann var séður af góðum foreldrum og góðum fagmönnum. Það er mikilvægt að sjá og vera séður. Og í hinu stærsta samhengi skiptir aðalmáli að sjón Guðs er í góðu lagi. Við erum ekki týnd í litasúpu milljarða manna eða sólkerfasúpu geimsins heldur erum við séð hvert og eitt. Við erum metin, skilin og virt. Guð sér okkur og kemur til okkar til að setja allt í fókus í veröldinni, náttúrunni og lífi fólks. Guð sér þig skýrt, í öllum litum, allar víddir þínar og brosir við þér.

Streita, kyrrð og þögn

Ég var í búðarferð og fór út úr bílnum mínum. Kona kom úr öðrum bíl, lokaði hurðinni, stóð svo kyrr og andaði djúpt nokkrum sinnum. Leið henni illa? Átti ég að skipta mér af? Og ég spurði: „Er eitthvað að?“ Svarið var: „Nei, nei. Ég er bara stressuð og er að reyna að róa mig. Held ég fái mér ís!“

Streita, læti, hraði, asi og hávaði gera okkur takmarkað gott. En það er róandi að draga djúpt andann. Hvað nærir okkur og styrkir? Kyrrð, merking, streitulaus gleði. Ég virði kyrrðarsókn mína. Hún er sterk. Alla tíð hef ég haft þörf fyrir að fara reglulega í hvarf, vera einn með sjálfum mér og alnánd Guðs. En skil urðu árið 1974. Það var sumar í svissnesku Ölpunum austan við Lausanne. Síðhærður hippaprestur með tagl laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Fjöldinn var slíkur, að byggt hafði verið stórt menntasetur til að koma til móts við leitandi fólk. Þegar klerkur kom til að ræða við hópinn kom í ljós að dagurinn væri bænadagur. Allir voru sendir út í skóg eða upp í hlíð, sem var alveg eins og í Heiðubókinni. Við vorum ein með sjálfum okkur allan daginn og áttum kyrrðardag. Vissulega heyrðum við skröltið í kúabjöllum, fagnaðarsöngva fuglanna og syngjandi vind í stráum. En eingangan, einveran var rík að upplifunum og ég var ekki einn. Frá þessum ágústdegi í Sviss hefur sannfæringin lifað í mér um mikilvægi kyrrðar í lífinu. Jesús fór í óbyggðir til bænahalds, dró sig í hlé til að eiga næði og kyrrð með Guði. Við eigum þar fyrirmynd. Jesúatferli er hagnýtt.

Þagnarflótti

Afþreyingarmenning nútímans gengur á búsvæði kyrrunnar. Umhverfi okkar er mettað ómum, sem deyfa, og léttvægum orðum. Bakgrunnstónlist fyllir almannarýmið og opinberar byggingar. Áthraða fólks á veitingastöðum er jafnvel stýrt með tempóbreytingu tónlistar. Á heimilum eru sjónvörpin í gangi þótt enginn horfi. Streymisveiturnar eru síbyljur. Hávaðinn er alls staðar, á heimilum, vinnustöðum og verustöðum fólks. En hávaði einangrar fólk. Í ómsúpu ruglast samskipti. Orð, sem snerta inntak og dýptir, linast og slappast. Samfundir fólks líkjast kokteilboðum. Hinir dugmestu synda frá einum til annars, tala linnulaust og fara svo. Þetta er orðahríð án eyrna, tiltal en ekki samtal. Hávaði og sýndariðni er leið fólks til að vera. Þegar dagar á fólk, að það lifir í ofgnótt merkingarskerts hávaða læðist að grunur um kyrrð sé heimili merkingar og dýptar. Ofurstressað fólk andar djúpt út á gangstétt. Er best að setja tilfinningar og líðan á ís? Nei í streitu leitar sálin kyrrðar. 

Dýrmæti þagnar

Margir óttast hljóðleysi. Þögn virðist óræð og jafnvel ógnvænleg í takmarkaleysi sínu. Í þögninni virðist ekkert til að styðjast við eða grípa í. Þögn er sem hyldýpi, tóm sem þarf að fylla. En þögnin getur verið góð og hlý. Þögn er ekki aðeins það að láta orðin vera. Þögn getur verið þrungin merkingu, gæsku og gleði. Þögn getur verið full nándar. Þagnar- eða kyrrðarsekúndan eftir að síðasti hljómur góðra tónleika deyr út og áður en klappið hefst er oft þrungnasta augnablik tónleika. Þegar náttúran stendur á öndinni vitjar Guð skepnunnar.

Þögn í trúarlegu samhengi er ekki bragð til að kæfa fólk, heldur vettvangur samtals Guðs og sálar. Þögnin er sá heyrnarstóll, sem við setjumst í þegar við getum talað um það sem máli skiptir. Við Guð tölum við þegar við erum með sjálfum okkur eða í sambandi við dýptir okkar. Þegar við lifum sorg, erum hrifin, efumst eða lifum sálarmyrkur, þegjum við gjarnan. Við þögnum þegar orku þrýtur í lífsglímunum, við verðum fyrir óréttlæti eða heyrum sjúkra- eða andlátsfregn. Sú þögn er frjóakur Guðs. Þá erum við reiðubúin að heyra máttarorð, iðrunarkall, huggunarræðu eða lausnarboð. Þögn getur verið fæðingarvegur til lífs ef við þorum. Það er svo auðvelt að flýja sársauka samvisku eða vitund um hversu vanmáttugur og úrræðalaus maður er á krossgötunum. Til að heyra hvað Guð segir er stundum nauðsynlegt að þola þögnina og hina djúpu samræðu. Þá dagar á mann speki lífsins og möguleikar opnast – nýr tími verður.

Ég um mig frá mér til mín

„Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt, sem er meira en ég sjálf.“ Hópur fólks var að ræða um trú og trúariðkun og ein spurningin var: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var nei. Trúarafstaða fólks er með ýmsu móti en róttækust þegar fólk trúir bara á sjálft sig og ekkert stærra eða meira. Mörk trúar skipta máli. Líka á hvað við festum traust okkar og hvort eðlileg sjálfsást útiloki það sem er stærra en eigið egó. Ég um mig frá mér til mín.

Að trúa bara á sjálfan sig er afmarkandi afstaða og útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt og afgerandi svar þeirrar lífsafstöðu, sem hríslast um allan hinn vestræna heim og er að eðlisbreyta hinni litríku og lífselsku veraldarnálgun hins kristna heims í allt annað en mannvinsamlega menningu. Því ég-menningin raðar gildum skýrt og klárt. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi sem þarf að taka mið af sem ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju. Ég-menningin er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er þessu fólki dauður, trúin óþörf, sem og listin og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við eða speglast vel í prívatspegli sjálfsdýrkunarinnar. Viðmiðið er skýrt: Ég um mig frá mér til mín. Annað er plat, fake newseða óþarft.

Sjálfurnar

Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin kjánar, sem voru bara upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var talið skrítið. En nú eru selfie-stangirnar staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferðalög margra eru eðins ferðir sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus og veröldin er í bakgrunni.

 Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég mátti helst ekki koma fyrir í textum. En nú er það ég einstaklinganna, sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Til að segja sögu er ekki nóg að skrifa litríkan texta um eitthvað utan eigin ramma heldur er áherslan á eigin lífsreynslu og stýrir hvernig efni eru kynnt, hvernig efni er raðað og ritsmíð lokið. Ég um mig frá mér til mín.  

Lúkkið

Strákarnir – ekki síður en stelpurnar – standa við spegla heimsins og dást að sér og skoða lúkkið. Á heimilinum eru háð neyslustríð. Unga kynslóðin verður að kaupa nýju skóna, nýjastu búningana og vera á öldufaldi tískunnar. Annars er hætt við að þau falli gagnvart grimmu alvaldi einhverrar sjálskipaðrar tískulöggu, sem ekki leyfir neitt eldra en tveggja mánaða. Eldri kynslóðin tekur líka þátt í neyslu ég-menningarinnar. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart? Útlit er sjálfufólkinu mikilvægara en innræti. Og því eru allar þessar umbreytingar á fólki, fegrunaraðgerðir og svo eru sýndartjöld sett upp á heimilum og í lífsferðum fólks. Sjálfhverfingin stýrir.

Narcissus

Fólk hefur um allar aldir verið upp tekið af sjálfu sér og misst sjónar á samhengi sínum, gildum og samfélagi. Grikkir sögðu t.d. sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Ég um mig frá mér til mín. Narcissus var svo hrifinn af spegilmynd sinni, að hann gat ekki slitið sig frá henni, verslaðist upp og dó. Vegna sjálfumgleði fólks í samtíma okkar og þar með skertrar samkenndar hefur uppvaxandi kynslóð verið kölluð narkissa-kynslóðin, sjálfukynslóðin. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Sannleikur er ekki lengur hlutlægur veruleiki þeim sem hugsa þröngt frá eigin sjónarhóli, heldur eitthvað sem þarfir einstaklinganna kalla á. Pólitískir loddarar halda fram að satt sé lygi og fake-news. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það, sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir, er látið gossa. Sjálfusóttin getur verið jafn skefljalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra, sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

Tengslin?

Ef fólk afneitar því sem er stærra en það sjálft tapast Guðstengingunni og heimsmyndin breytist. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, trúleysi er sú afstaða að maður sjálfur sé nafli heimsins, miðja alls sem er. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Broddurinn í allri ræðu Jesú er: Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði með því að dýrka þig?”

Ég eða Guð

Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trú er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er innan í þér, í náttúrunni, í fegurðinni, ástinni, lofsöngvum kristninnar, kærleiksverkum veraldar. Fyrir framan öllsem horfa í spegla heimsins og dýrka eigið sjálfer Guð sem horfir og elskar þetta fólk sem speglar sig. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virðiað lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maðursem er kengboginn inn í sjálfan sig og fókuserar bara á sjálfan sigsér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar. Ég um mig frá mér til mín er hraðvirkasta leið dauðans í þessum heimi.

Við erum mikilvæg í hinu stóra

Hver er grunngerð okkar? Allt fólk er hamingjusækið. Okkur dreymir um að fá að njóta lífsins. En til að draumurinn rætist verðum við að sjá okkur sjálf, kosti okkar og galla. Óraunsæ aðdáun á eigin snilli og lúkki er ekki nóg. Við þurfum þroskaða visku og agað raunsæi til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Þroskuð manneskja hugsar um fleira en eigin þarfir. Tilveran er stærri en spegilsalur sjálfsins.

Kirkjan í heiminum er speglasalur himinsins. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, lærdóm, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks njóti lífsins. Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Í veröld trúarinnar tekur fólk þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og lífið. Þar ertu elskaður og elskuð. Þar ertu raunverulega til og í raunverulegum tengslum. Ég um okkur frá veröld til Guðs.