Greinasafn fyrir merki: Guð

Ástin í Passíusálmunum

Ástarþörf er frumþrá allra manna og hjá mörgum blossar ástarþörfin upp þegar að kreppir og allar hvunndagsvenjur brotna og augn- og sálarskýlur eru dregnar burt. Í fyrra þegar farsóttarfárið byrjaði gekk ég meðfram bókahyllunum mínum og dró út nokkur rit sem tengdust farsóttum. Sú fyrsta sem ég dró út var Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni. Það er pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórens í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, sumar ansi safaríkar og margar um ástina. Já ástin sprettur fram á tímum kólerunnar – og það er nafnið á annarri bók, eftir meistara Gabriel Garcia Marques. Svo var La Peste – Plágan, bók Albert Camus. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju unglingsáranna. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif á mig. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann, svipað og við höfum orðið vitni að í ýmsum ríkjum erlendis. En söguhetja bókarinnar, læknirinn Bernhard Reiux mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Erindi bókar Camus er að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli hvort sem það ríkir plága eða ekki? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar.

Mig langar til að minna á tvær nýjar íslenskar ástarsögur sem urðu til á tíma hörmunganna. Báðar tjá að ástin blómstrar þvert á erfiðar aðstæður. Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði og gaf út bókina Snerting á liðnu ári. Söguhetjan Kristófer lokaði veitingastað sínum í Reykjavík þegar farsóttin byrjaði. Hann fékk í miðjum faraldri vinarbeiðni á facebook og þá var eins og allt ævipuðið gufi upp. Faraldurinn opnaði sálargáttirnar og þessi gamli maður lagði af stað í langferð, – í miðju veirufárinu – um tómar flughafnir og austur til Japan til að vitja sjálfs sín og ástarinnar sem hvarf frá honum en tilfinningin hvarf aldrei. Kreppur kalla fram djúpást lífsins. Þetta er einhver dásamlegasta ástarsaga sem ég hef lesið. Pestin hindrar ekki ástina heldur magnar.

Og af því allt skelfur og hristist þessa dagana er full ástæða minna á hina mögnuðu sögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir. Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar þjóðarinnar og helsti eldfjallasérfræðingurinn. (Hún er hliðræn, skálduð, útgáfa Kristínar jónsdóttur sem er í öllum fréttum þessa dagana). Versta útgáfa af nátturuhamförum dynja yfir. En það verða flekahreyfingar, sálarskjálftar í Önnu líka og hún verður ástfangin. Sagan er rosaleg. Þar er það ekki kyrrlát ást í pestinni heldur hamfaraást í sálardjúpum og náttúru. Og kannski er það svo að ástin hittir fólk með meiri þunga en jarðskjálftar hversu stórir og öflugir sem þeir eru. Allir þarfnast ástarinnar. En stundum leiðir hún til dauða af því samhengið er ekki virt og hamfarirnar eru of rosalegar. Ég vona að ég spilli ekki um of fyrir ykkur sem eiga eftir að lesa bókina.

„All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Ástarsagan

Og þá að ástinni í Passíusálmunum. Fyrsta spurning er: Af hverju urðu Passíusálmarnir vinsælir á Íslandi? Af hverju varð safn af sálmum metsölubók og metlestrarbók Íslands í mörg hundruð ár? Er eitthvað í Passíusálmum sem er mikilvægt og sígilt? Hvernig var saga höfundarins? Við vitum að Hallgrímur var mikils metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar. Af hverju? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega, en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. 

En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. 

Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á börn sín og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu og fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Í þeim er sögð tilfinningasaga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð sem líknar og er vinur en ekki óvinur og Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur reynslu sem nærir og svarar kærleiksþörf fólks. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Passíusálmar – merking og gildi

Guðsorðabækur voru aðalútgáfuefni íslenskra forleggjara fram yfir aldamótin 1900. Útgáfa þessara rita var svo mikil að spaugararnir töldu að ef bókunum væri raðað saman væri hægt að byggja brú frá jörðinni og alla leið til tungslins og svo til baka. Bækurnar sem voru gefnar út voru hugvekjubækur og kristileg ræðusöfn til styrktar trúariðkun á heimilum og til nota í kirkjum og heimahúsum. En af öllum bókum sem gefnar voru út eftir siðbótartímann eru tvær bækur eru í sérflokki þeirra sem lesnar voru. Það voru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og Vídalínspostilla. Þær voru elskaðar og dáðar. Passíusálmarnir voru fyrst útgefnir 1666 og Vídalínspostilla var gefin út 1718-20. Síðan voru þær báðar gefnar út í mörgum upplögum.

Hver var höfundurinn?

Aðeins um skáldið. Hallgrímur Pétursson fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði. Ekkert er vitað um fæðingardaginn en hins vegar er vitað að hann lést 27. október 1674. Líf hans var ævintýralegra en flestra Íslendinga. Hann missti ungur móður sína og fluttist til Hóla með föður sínum og fjölskyldu. Í skjóli biskups naut hann menntunar og fékk innsýn og útsýn í menningu og menntir. Hann þótti bráðger og hæfileikaríkur. Ýmsar litríkar sögur af honum og að hann var ljóðrænn orðhákur sem lét orðahrísið yfir þorpsbúana á Hólum. Í Hallgrími bjó útþrá og vilji til stórvirkja. Hvort sem hann hefur strokið eða farið með leyfi var hann þegar á unglingsárum kominn til norður Þýskalands og vann þar við járnsmíðar. Síðan fór hann, að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar til latínuskólanáms í Kaupmannahöfn. Þegar komið var að námslokum var Hallgrímur Pétursson settur í kennsluverkefni sem mótaði líf hans upp frá því. Hópur Íslendinga hafði verið leystur úr ánauð, sem höfðu verið fluttir frá Íslandi í Tyrkjaráninu og alla leið til Norður Afríku. Hópurinn var sendur til Kaupmannahafnar. Þótti við hæfi að uppfræða fólkið eftir veruna ytra. Hallgrímur var fenginn til að kenna þeim. Hann varð ástfanginn af konu í hópnum, Guðríði Símonardóttur. Áður en henni var rænt hafði hún verið gift kona og búið í Vestmannaeyjum. Ástarsaga Hallgríms og Guðríðar hófst. Guðríður varð þunguð af ást, kristinfræði og barni þeirra Hallgríms. Eiginmaður Guðríðar lést skömmu fyrr og þau Hallgrímur fluttu til Íslands og settust að á Suðurnesjum þar sem Hallgrímur hafði ofan af fyrir fjölskyldu sinni með verkamannavinnu. Hann fékk svo prestsembætti á Hvalsnesi árið 1644 og þjónaði söfnuðinum til 1651. Prestshjónin voru ekki borin á höndum eða nutu aðeins náðugra daga. Ástarsagan var ekki bara brími því þau Guðríður misstu börn og m.a. Steinunni, þriggja og hálfs árs árið 1649. Í rismiklu ljóði Hannesar Péturssonar Á Hvalsnesi fjallar hann um sorg skáldsins sem er meiri en hafið. Legsteinn Steinunnar sem Hallgrímur klappaði er til í Hvalsnesi.

Hallgrímur, Guðríður og þeirra fólk fluttu árið 1651 í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en sumarbúðaparadísinn Vatnaskógur er í landi Saurbæjar. Þau bjuggu við Hvalfjörðin allt til dauðadags og þar urðu Passíusálmarnir líklega til og alla vega voru þeir fullmótaðir þar.

Hvað eru Passíusálmar?

Passíusálmarnir eru safn fimmtíu sálma sem lýsa píslarferli Jesú Krists. Aðalpersónunni er lýst með tvennu og mjög ólíku móti. Annars vegar er dregin upp mynd af Jesú Kristi sem himinkonungi í heimi þegna sinna. Hins vegar er hann í hlutverki mensks fulltrúa mannkyns, sem lætur yfir sig ganga illsku þessa heims í átakanlegum útgáfum.

Þessar andhverfur hátignar og þjáningar fléttar Hallgrímur Pétursson saman í eitt. Jesús Kristur Passíusálmanna er líðandi konungur. Þar með er sprengd annars vegar konungsímyndin og hins vegar sú mannhugsun, að menn séu ofurseldir vonleysi, þjáningu og dauða. Mál himins og heims eru eitt, fléttuð saman. Lausn alls vanda heimsins á rætur í þeirri ást Guðs, sem lætur sér ekki standa á sama um kjör og velferð manna og heims. Konungur himins kemur af því að hann lætur sér annt um heiminn og gengur síðan krossferilinn allt til enda. Þar sem hann er fulltrúi manna leiðir hann mannkyn til Guðs. Jesús gengur inn í allan vanda manna en stenst. Í því verður hann fyrirmynd, sem menn geta séð sig í. Öllum, sem eru niðurþrykktir og brotnir, verður Jesús sem ímynd vonar og hvatningar til að gefast ekki upp í baráttu lífsins. Hann verður daglegur styrkur á vegi trúarinnar.

Íhugunarkveðskapur

Sálmarnir voru hugsaðir sem föstusálmar, til lesturs og íhugunar á föstunni fyrir páska. Í norður-evrópskri trúarhefð frá dögum Marteins Lúthers var lögð áhersla á sístæða endurnýjun innri manns. Og sú iðja var kallað daglegt afturhvarf. Í því felst að menn geri reikningsskil við Guð, náungann og sjálfa sig á hverjum degi. Lífið er ferli og sífellt þarf að skoða hvað má bæta eða batna og hvernig megi lifa í sátt við Guð og menn. Sálmunum var ætlað að efla íhugun og verða fólki til endurnýjun trúar og hvetja til betra lífs.

Hinn skipulagði höfundur

Hallgrímur Pétursson, höfundur Passíusálmanna, vildi að þau sem læsu sálmanna næðu að fylgja söguþræði og draga lærdóm af píslarsögu Jesú. Sálmarnir hvetja lesendur til að fylgja Jesú eftir. Í upphafi hvers sálms er staða mála kynnt með því að tilfæra vers eða kenningu Bilíunnar sem tengjast baráttu Jesú. Passíusálmar hefjast við lok síðustu máltíðar Jesú og lýkur við grafarsetningu hans. Það sem guðspjöllin segja um píslarsöguna er tekið til skoðunar. Ekkert á þeim ferli fer fram hjá vökulum augum íhugunar, hvorki stærstu atburðir eða smáatriði. Allt skyldi skoðað. Í eftirfylgdinni er sálinni bent á hvað fyrir ber, rætt er við hana um ýmsar víddir og merkingu guðspjallstextanna. Biblíutextarnir stýra flæði hvers sálms, en eintsök stef eru endurtekin og margskoðuð frá mörgum sjónarhornum.

Tilgangur

Passíusálmum er að efla og styrkja íhugun og leiða til skilnings og tileinkunar. Hvernig sálmarnir eru skipulagðir þjónar íhugun og innri eflingu. Aðferð Hallgríms er aðferð liðsstjóra þeirra sem vilja eflast í þroska trúarinnar. Hver sálmur er sem eining íhugunar. Dreginn er heim lærdómur og speki, sem píslargangan vekur. Skoðunin á ferli Jesú er ætlað að að styrkja einstaklinga, næra sál hins kristna. Skoðun og íhugun leiðir lesandan vítt og djúpt og þegar best lætur – til bænar. Jesús fer á undan og ég á eftir.

Þetta sameiginlega ferðalag verður til að staða mín sem mannveru frammi fyrir eigin sjálfi, öðru fólki og Guði skýrist. Eigindir, staða og brestir opinberast. Ég er sem á flæðiskeri. Að mér er sótt og synd mín er stór. Leiðin er aðeins ein, að fylgja líðandi konungi mínum allt til enda. Þrautaleið hans er ekki átakalaus sigurganga, heldur þjáningarfull ganga til lausnar. Í hverjum sálmi er niðurstöðu náð. Lofgjörð er hið rétta viðbragð trúar gagnvart baráttu hins líðandi en þó sigrandi höfðingja, sem veitir hlutdeild í sigri sínum.

Guð í Passíusálmunum

Passíusálmarnir eru trúarrit sem sver sig til liðins tíma og lúthersks rétttrúnaðar. Þeir eru orktir í anda klassískrar guðfræði og víkja í engu frá meginstefnu klassískra játninga kirkjunnar. Guði er lýst sem föður, skapara, dómara og hjálpara. En Hallgrímur Pétursson eins og Immanúel Kant síðar var trúr lútherskri hefð í því að virða takmörk skynseminnar. Vit manna væri takmarkað. Eðli Guðs og leyndardóma getur takmörkuð skynsemi ekki skoðað (21:1). Passíusálmarnir kenna því enga frumspeki. Myndin af Guði, föður er tvíþætt í sálmunum. Annars vegar er Guð ástmögurinn mikli, sem ber velferð heims og manna fyrir brjósti (44:4, 44:6, 3, 20). Sú ástarafstaða knýr einnig reiði, sem bregst við heimi sem fer villur vega (26:2, 12:22 o.áfr.). Guði er ekki lýst sem fjarlægum hátignarguði, heldur í stöðugum tengslum við heim. Á þann hátt einan þekkja menn Guð. Um himin og Guðseðli verður ekkert sagt sem ekki verður reynt í sambandi við Guð. Guð verður aðeins þekktur í tengslum.

Jesús í Passíusálmum

Jesú Kristi er í Passíusálmum er hvorki lýst sem hernaðarhöfðingja né dulrænum frelsara úr hæðum. Honum er lýst sem stjörnuprinsi sem afsalar sér stöðu sinni og verður líðandi fulltrúi mannkyns. Í sálmunum er því lítið rætt um hátignareigindir Jesú, s.s. alviturleika og almætti. Hallgrímur var ekki með hugann við guðfræðilegar útfærslur. Hann einfaldlega aðhylltist hefðbundnar kenningar um Guð og þar með um Jesú. Hann hafði trú á yfirskilvitlegri visku Jesú (1:24, 42:3) en verkefni sálmanna var ekki að skilgreina eða túlka merkingu hennar, heldur sýna ástgjöf hans. Passíusálmarnir eru saman settir út frá hugmyndinni „fyrir mig.“ Sá eða sú er elskar Jesú mun ekki aðeins verða vitni að ópersónulegu kraftaverki heldur eignast hlut í því.

Hið brotna jafnvægi og rásleysi

Þegar í fysta sálmi er talað til sálar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“ Allt mennskt er brothætt og forgengilegt. Líkingarnar sem notaðar eru tjá þann veruleika okkar manna. Og pílagrímaganga manna varðar meðalhóf sem er siðfræði sálmanna. Við eigum hvorki að fara of skammt eða of langt. Illska og þjáning leiðast af markaleysinu. Báðum megin við reit manna og athafna þeirra er hengiflug, sem menn falla í og leiða aðra í ef þeirra er ekki gætt í hugsun, orðum og æði. Aðalmálið í lífi hvers manns að lúta engu valdi nema Guðs. Aðalmálið er að endurnýja eða treysta ástarbandið við Guð.

Manngildið

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk spurt þeirrar spurningar. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti og við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni með einu eða öðru móti, jafnvel þó við reynum okkar besta til að forðast hana.

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og alls staðar í veröldinni. Lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Fáir munu við æfilok halda fram að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin sem skiptu mestu máli. Og ég hef ekki hitt neinn sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Því oftar sem ég horfi í augun á fólki segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég að þær eru ástarsögur – en vissulega í ótal tilbrigðum. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. En áföll og píslarganga er hluti ævigöngunnar. Margir ástvinir bregðast, truflast og týnast. Það er sorglegt. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Öll lifum við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Guðsástin

Í tilfinningum og ástarsögum manna og líka Passíusálmum getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En við getum líka farið dýpra og séð í þeim ljósbrot af ástargeislum Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð elsku himinsins. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg og áleitin. En við megum gjarnan stækka þessa spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almennt heldur setja inn þarfir, tilfinningar og verðandi Guðs. Það er merkilegt að spyrja okkur sjálf hvað gerir okkar eigið líf þess vert að lifa því en það er rosalegri spurning að spyrja: Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Þetta er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju sá Guð ástæðu til að stíga inn í ruglingslegan heim tíma og efnis? Af hverju kemur hið stóra inn í smáheiminn? Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum og megnum ekki að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn eða ástarjátning. Þannig orkti Hallgrímur um ástina í veröldinni. Líf er flókið en ástin er hrein.

Af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli í eilífðinni. Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú er kominn í strand, í öngstræti og á enda? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei heldur opnar út, hrífst, leitar tengsla, viðfangs, faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar og sagan af Guði er fyrst og síðast ástarsaga. Og þannig ástarverk eru Passíusálmarnir.

SÁÞ. Fræðslusamvera í Hallgrímskirkju 2. mars 2021 í röð erinda og viðtala um ást í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hjóðvarp – þ.e. upptaka þessa erindis sem og viðtöl í röð samtala um ást í passíusálmum er að baki þessari smellu. 

Meðfylgjandi mynd tók ég af málverki í stórverslun í San Francisco í janúar 2018. 

 

 

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Lífslind

Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífs,
– þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og
sveipað líkama hennar vatnsklæðum,
sem blakta í golu, bylgjast – rísa og hníga.
Þú ert vatnaskáldið mikla,
sem yrkir af hita svo vatn svífur upp í himininn.

Þú leikur þér í baði veraldar

og veitir vatni í hringrás heimsins.
Þú veitir því í blóðrás lífsins,
tyllir því á fjallatoppa.

Svo stikla bunur niður stalla, kvíslast milli steina,
faðma aðrar lænur, sameinast,
endurvarpa ljós þitt í morgunsólinni,
dreyma hádegisdrauma
og hverfa í hafið, faðm þinn.

Vatni ausa, með fögnuði…
Þú gefur vatn fyrir lífið, fyrir gleðina.
Veitir vatni um líkama hvala og fjalldrapa,
og í smásyngjandi lyfjagras og dýjamosa,
fíla, apa, ær og menn –
í frumur og örverur,
í stóra keðju, sem þú gefur og mylkir.

Mig þyrstir – þú vökvar.
Ég er grænþörungur á steini – þú ert haf kærleikans.

Þú umspennir allan heiminn blessun,
Þú gefur vatn fyrir lífið.

Ég er ausinn vatni ….. þitt vatn þrýtur ekki.

En gefur þú fögnuð Guð?

Hvaða lindir eru lindir fagnaðar?
Hvað svalar nístandi þorsta hið innra?
Hvaða rekja sefar þegar kvíðinn sækir að?
Hvað endurreisir þegar sektin nagar?
Hvað græðir brotið fólk og marðar fjölskyldur?
Hvað bætir fyrir orð hryllings, illvilja, morð og mein?

Vatn umlykur allt.

Vatn af himni – vatni er hellt í font.

Barn hjalar við sólbroti vatnsins,
í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Kross á enni, kross á brjóst,
vatn á höfuð.

Bros í augum.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
Þú, sem gefur vatn af himni, vatn í jörðu, haf,
kemur svo sjálfur með lífsins vatn.
Þú ert vatnsveitan eina – lindin lífs.

Þegar geimar gliðna, heimur riðlast,
menn æða og sál engist – þá gefur þú gott vatn.
Þorstinn er minn en þú ert lind lífsvatnsins.

(Bæn á kyrrðarstund – Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Jesaja 12:3)

Guð hjálpi Trump – og okkur öllum

Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.

George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?

Kirkja sem leiktjöld

Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um  háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan. 

Hver er heilagur?

Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar.  Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það. 

Samfélag og Ísland

Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.

Valdið styrkst en vitið veikst

En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.

Að  friða en sundra ekki

Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“

Við erum Trump

Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum.  Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags.  Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu.  Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.

(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)