Greinasafn fyrir merki: Guð

Þú, skugginn hvíti

Þegar sólin sest,
hæðir stækka,
fjöll verða risar,
myrkrið sækir að
og loppur teygja sig til mín
sé ég þig.

Þegar líf vinar fjarar út,
andartökin hverfa,
sláttur hjartans hættir,
kroppurinn slaknar,
kólnar og dofnar.
Þá sé ég þig birtast.

Þegar sorgin svertir,
vonin er brostin,
ástin lemstruð,
umhyggjan vanvirt
og höndin slegin.
Þá sé ég þig, sannleiksperla.

Þegar ljósið hverfur
og allt verður risavaxið
í löngum skuggum.
Þegar myrkrið faðmar
breytir þú öllu.
Þú ert skugginn hvíti.

sáþ 2012

Guð sem yrkir heiminn, líf og menn

Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía,” Orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesisποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins að stafla orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera, að skapa, framkvæma. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki sem við kunnum að hugsa lifir ekki nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir okkar bresti. Já, Guð er stórskáldið sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Textinn er úr minningarorðum frá 2008. Meðfylgjandi mynd tók ég á sýningu á verkum Birgis Andréssonar.

 

 

Ég trúi ekki heldur á þann Guð

Hvar var Guð í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi? Hvar er Guð í þessu andstyggilega árásarstríði Rússa í Úkraínu? Hvar er Guð þegar þér líður illa og verður fyrir olbeldi? Er Guð ábyrgur fyrir þessum ósköpum? Er Guð ekki almáttugur? Er Guð jafnvel vondur?

Að tjá Guði sterkar tilfinningar og æpa reiðilega til Guðs hafa menn allra alda iðkað. Leikarinn Stephen Fry var einu sinni spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapaði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður og sjálfselskur. Það var hiti í þessum ummælum og sársauki, nánast Jobsbókarfuni. Stephen var allt í einu í nýju hlutverki, nýrri senu við Gullna hliðið og hellti úr reiðiskálum sínum yfir Guð. Hugrakkur maður sem mótmælir illum einræðisherra. Hvernig lyki slíkri senu og svar Guðs væri áhugavert. En er það Guð sem Fry á orðastað við? Er Guð svona illur?

Hverjum að kenna?

Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar er Guð þegar dauðinn slær? Er bölið Guði að kenna? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir á snjóflóðið sem steypist yfir byggð manna og fjöldi fólks ferst? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki svo það deyr? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.

Í tvo áratugi hef ég spurt yfir þúsund fermingarungmenni í Reykjavík spurningarinnar um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fermingarbörn í Reykjavík mun síður. Það er kraftur í ákæru hans en ég held að hann misskilji guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er misskilningur á valdi. Margir telja að guðsmynd kristninnar sé gegnsýrð valdi. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð. En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti, vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru ástvinar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hvern annan með gífuryrðum elskunnar. Almætti er ekki um mátt heldur ást.

Fólk er gjarnan upptekið af valdi – hinu ytra toppavaldi. Það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Þeir töluðu um þetta sín í millum og voru í samkeppni um vald. Þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar. Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið “almætti” þar – eða hvað?

Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beygja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo – ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.  Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt og eðlilegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job sem sagt er frá í Jobsbók og aðrir höfundar sálma biblíunnar hafa möglað og mótmælt allsráðandi Guði og molað þar með úr slíkri guðsmynd. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.

Myndin af Guði

Guðsmyndir manna eru gjarnan tjáning á þrá og því klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd eða eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur.

Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Ég vil ekki trúa á hann. Ég trúi ekki að slíkur Guð sé til. Slíkur Guð væri fáránlegur. Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég er með þér, nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í öllu lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar.

Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir: „En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“

Amen.

Meðfylgjandi mynd sáþ – góðviðrisdagur við Skerjafjörð

A few words on the sense of the sermon. Where is God in wars, avalanches, earthquakes, disasters and tragedies. Is God responsible? Is that the meaning of almighty? Those accusing God for being cruel are right if almighty means causing everything. But the so-called attributes of God are not philosophical definitions of God but rather statements of love and utterings of veneration. God‘s way of dealing with the world is not to exercise power but rather to love. I don‘t believe in a cruel despot. That type of a tricky god is not worthy of trust or faith. The God Jesus Christ revealed is a caring and loving being not causing evil but supportning humans and life fighting evil. God is not the tyrant of the world but rather the lover of the world.

  1. sunnudagur í föstu.

Lexía: 1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-34

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

 

Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.

Guð er Bónus

Veistu hvaða ljóðabók hefur verið söluhæst síðustu árin. Það er sálmabók þjóðkirkjunnar. Þar finna allir örugglega eitthvað við hæfi og sér til gagns. En þó margt sé í sálmabókinni er alveg áreiðanlegt, að þar auglýsir ekkert fyrirtæki á Íslandi. Ekkert stórfyrirtæki hefur komið að óbeinni auglýsingu í einhvern sálminn, ekki flugfélög, útgerðarfélög, verslunarkeðja eða stórfyrirtæki. En þó engar séu auglýsingarnar eða nafn kostunarfélags er þó eitt íslenskt fyrirtæki nefnt í einum sálmi sálmabókarinnar, fyrirtæki sem margir versla við og sumir í hverri viku ársins. Hvaða fyrirtæki, hvaða verslun, skyldi vera nefnd í sálmbók þjóðkirkjunnar? Meira um það síðar.

Faðir smásögunnar

Jesús er frægur fyrir margt. Hann var kunnur fyrir virðingu fyrir utangarðsfólki. Hann var alræmdur í sjálfhverfu karlaveldissamfélagi fortíðar fyrir að virða manngildi kvenna, útlendinga, barna og erlendra hermanna setuliðs. Hann varð frægur fyrir frábærar ræður, merkilega siðfræði, guðstraust, leiðtogahæfileika, spekiorð og djúpsæknar bænir. Svo er hann auðvitað kunnastur fyrir að hegða sér allt öðru vísi en dauðum mönnum var og er skylt og tamt. Hann fylltist lífi efir að hafa legið í gröf sinni í meira en sólarhring. Flest sem Jesús sagði var í frásögur færandi. Eitt af því, sem mörgum yfirsést, er hve frábær smásagnahöfundur hann var. Líkingasögurnar, sem hann sagði, eru auk alls annars bókmenntaperlur, sem enginn bókabéus lætur fram hjá sér fara.

Þrúgur tíndar

Saga dagsins er ein af þessum dásemdarsögum. Aðstæðurnar voru þær, að vinir Jesú, sem fylgdu honum, voru að velta vöngum yfir launum sínum og spurðu áleitinna spurninga eins og: Heyrðu Jesús. Hvað græði ég nú á öllu þessu brölti með þér, öllu veseninu, fjarri einfaldri hamingju venjulegs fólks? Þeir voru reyndar skynugir og vissu, að fé og frami var ekki á launamiða guðsríkisins. En hvað var það þá? Til að svara Pétri og hinum vinunum sagði Jesús þeim sögu um víngarðseigandann. Það var komið að uppskerutíma, sem er reyndar stórkostlegur tími á öllu Miðjarðarhafssvæðinu, þegar stórir flotar af fólki halda út á akrana til að týna þrútin berin. Ég hef upplifað slíka hátíð í Toscana á Ítalíu og hef séð hve gleðin er mikil, bros í augunum og alvöru hátíð. Réttarstemming í íslenskum sveitum jafnast við slíkt. Líka þegar okkar lið í íþróttum ná á toppinn. Jesús segir frá því, að víngarðseigandinn hafi ráðið til sín vinnufólk á mismunandi tímum, þá fyrstu í dögun, síðan fleiri þremur tímum síðar. Þannig hélt hann áfram allan daginn og þeir síðustu komu til starfa um það leyti sem verkum dagsins lauk. Þeir fyrstu fengu loforð um ákveðið og eðlilegt dagkaup, sem þeir voru fullsáttir við. Svo var byrjað að borga laun í verklok. Þeir, sem síðastir komu, fengu óskert dagkaup og þá þótti þeim sem fyrr komu útlitið gott og ímynduðu sér, að þeir hlytu að fá margfalt kaup á við þá, sem síðastir komu. En þegar allir höfðu fengið sitt kaup voru allir með sömu upphæð í hendi. Þá byrjaði möglið og þeir, sem höfðu puðað daglangt, þótti að þeir hefðu verið órétti beittir.

Órétti beittir?

Víngarðseigandinn tók eftir bullandi reiðinni og spurði hvort þeir hefðu ekki fengið það, sem um var samið? Jú, þeir viðurkenndu það. En þeir voru bara ósáttir við, að hinir hefðu fengið jafn mikið en hefðu þó unnið minna. Hver getur ekki sett sig í spor mannanna? Samanburður er meginþáttur allra kjarasamninga. Það er í samræmi við almenna réttlætisvitund, að laun eigi að vera í hlutfalli við vinnuframlag. En víngarðseigandinn fór allt öðru vísi að, minnti á að hann ætti þetta fé og mætti borga hinum síðustu jafn mikið og hinum. Hann væri ekki að brjóta neina kjarasamninga þótt hann borgaði þeim meira en þeir hefðu unnið fyrir. „Ég er góður” sagði hann. Svo kom hið áleitna en torskilda, að hinir síðustu verði fyrstir.

Það eru til ýmsar skýringar á merkingu sögunnar. Tilgangur Jesú væri að gera upp við forréttindahyggju samferðamanna sinna. Hann vildi benda þeim á, að þeir sem hefðu lengi verið samferðamenn Guðs í veröldinni fengju ekki neinn aukabónus í himnaríki vegna tímalengdar. Þau, sem hefðu slegist í hópinn á síðustu stundu, væru jafnmiklir Guðsvinir og hin, sem hefðu verið það alla ævi. Trúarleg stéttaskipting er ekki til í kenningu Jesú. Forréttindamenn í himnaríki eru ekki til þó menn vilji gjarnan búa til virðingastiga þar líka og verða trúarleg yfirstétt eða kirkjueigendafélag.  Virðing, laun og gildi eru öðru vísi í hinu andlega ríki en í veröldinni. Stéttakerfi er ekki hægt að varpa yfir á himininn. Ekkert kvótakerfi þar eða kvótakóngar. Menn eiga enga kröfu á hendur Guði. Verk okkar, líferni, vitund okkar um eigin gæði verða ekki yfirfærð yfir í himneskan gjaldmiðil. Það er ekkert veðkall til á hendur Guði og lífeyrissjóði eða eigum við að segja lífernissjóði himinsins. Við byggjum ekki upp kröfugerð og útborgun hinum megin eins og við byggjum upp lífeyri hinum megin við starfslok okkar. Þetta benti siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther á og öðrum betur.

Laun himins

Hvað segir þá sagan? Smásöguhöfundurinn Jesús kunni að segja sögu á mörgum plönum og hana er hægt að túlka í ýmsar áttir. Gagnvart Símoni Pétri í samningahrotu um eilífðarumbun er svarið skýrt. Laun himinsins eru söm og jöfn fyrir alla. Engu skiptir hvort menn hoppa á eilífðarvagninn snemma eða seint, allir ná sama marki. Þetta voru mikilvæg skilaboð í frumkirkjunni. Menn skyldu ekki setja sig á háan hest þótt þeir hefðu snemma orðið fylgjendur Jesú. Þetta varðar síðan alla kirkjumenn. Broddur Jesú er gegn kirkjueigendum allra tíma. Enginn er yfir annan settur þegar eilífðarlaunum er útdeilt, allir eru jafnir. Síðan er líka elskudjúp í þessari sögu. Enginn er of seinn eða útilokaður frá guðsríkinu hvar svo sem menn hafa verið, hvað sem þeir hafa gert og hversu djúpt þeir hafa sokkið. Í sögum Jesú er djúp og einbeitt umhyggja gagnvart fólki. Enginn er settur hjá, guðsríkið er allra.

Menn hafa löngum velt vöngum yfir hverjir komist til Guðs, hverjir verði hólpnir. Hvað verður um óskírt barn sem deyr? Margir hafa grátið yfir þeirri spurningu. Hvað verður um þau, sem tilheyra öðrum trúarbrögðum? Spurningar af þessu tagi eru margar. Þegar við svörum er mikilvægt, að við stöldrum við og spyrjum okkur hvers konar Guð við trúum á og hvers konar Guð Biblían túlkar og Jesús Kristur birtir okkur. Dæmisagan um gjafmilda bóndann er um Guð, sem útdeilir jafnt þeim sem koma seint og hinum sem koma snemma. Við getum séð í henni og ýmsum öðrum sögum Jesú túlkun á elskuríkum Guði, sem er mun stærri og meiri en smáguð ættbálks eða þjóðar eða guðfræðilegrar einsýni eða bókstafshyggju. Sá Guð er skapari alls sem er, djúp allrar elsku, ljós alls ljóss, brunnur fegurðarinnar, forsenda manngildisins, hinn mikli húmoristi, sem skapar litríka fjölvíddaveröld og elskar þig heitt og ákaflega.

Upprisa allra – vonarmál trúmannsins

Kristinn maður, sem trúir á slíkan stórguð, hlýtur að vona ákveðið, að allir megi njóta himinvistar, óháð ætt, uppruna og fyrri störfum! Það er ekki til nein kirkjuleg dogma, kenning, um að allir hljóti óhjákvæmilega að komast til himins, en kristin kirkja biður hins vegar fyrir upprisu allra. Múslimum, hindúum, kristnum, trúlausum og trúarveikum mætum við með þeirri bæn til Guðs, að Guð geymi hann, hana, já okkur öll. Þetta er hin vonarríka afstaða. Þetta er líka ástæða þess, að maður sem tekur Jesú Krist alvarlega getur ekki leyft sér að trúa því að heimur fari versnandi, að allt fari á versta veg, að öllu fari aftur, að lífið sé leiðinlegt. Kristindómur bannar mönnum ekki að gagnrýna og greina milli góðs og ills. En kristnin bannar mönnum, að loka augunum fyrir fegurð, möguleikum, nýsköpun og gleði og að Guð er frábær.

Afstaða hins óvænta

En hvernig var með íslenska fyrirtækið, sem er nefnt í sálmabókinni? Áður en gátan er leyst er þarft að við hugsum um hvað einkennir Jesú Krist, sögur hans, afskipti af fólki og veru hans. Hann var maður hins óvænta. Hann hegðaði sér oftast öðru vísi en búast hefði mátt við. Hann bar ekki bara virðingu fyrir þeim, sem nutu almennrar virðingar, heldur bar líka óvænt virðingu fyrir þeim, sem voru fyrirlitnir. Allir menn áttu möguleika í samskiptum við Jesú. Hann var meistari hinna óvæntu endaloka í smásögum sínum. Sneri jafnan uppá sögurnar og jafnvel á hvolf. Sögur hans enda gjarnan með óvæntu móti eins og brandarar. En hnykkurinn eða snúningurinn í lokin var það, sem Jesús vildi að yrði mönnum til íhugunar og yrði til að menn hugsuðu mál sín að nýju, afstöðu, trú og siðfræði. Jesús sagði ekki aðeins sögur hins óvænta heldur var slíkur sjálfur. Upprisa hans var ótrúleg, hið algerlega óvænta en alveg í samræmi við allt sem hann var og sagði. Allt var þetta til að opna líf fólks, efla það og bæta.

Bonus – Guð

Þá er komið að fyrirtækinu sem nefnt er óvænt í sálmabókinni, söluhæstu ljóðabók ársins. Það er ótrúlegt nokk – bonus. Það er satt, að bonus kemur raunverulega fyrir í sálmi sem að vísu er á latínu. Þar segir

Confitemini Domino
quoniam bonus.
Confitemini Domino.
Alleluia!

Og þýðingin er svona:

Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor,
því þú ert góður.
Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor.
Hallelúja!

Ég spurði Jóhannes Jónsson sem stofnaði Bónus hvort hann vissi að Bónus teygði anga sína inn í sálmabók þjóðkirkjunnar? Hann viðurkenndi hissa, að hann hefði ekki gert sér grein fyrir að ítök Bónuss væru svona gífurleg. Það væri ekki skrítið, að stjórnmálamenn yrðu smeykir þegar jafnvel sálmabókin væri farin að boða bonus! En hvað merkir bónus í hinu trúarlega samhengi? Það er ekki bara kjarabót, sérstakt happ, lottóbónus eða launaplús, heldur merkir það góður. Guð er bónus, Guð er góður. Þess vegna er þakkað í sálminum. Sjálfsagt er að þakka ef verslunin Bónus býður lægsta verðið. En það eru ekki eiginlegu bónusarnir. Það er meira segja ekki hinn eiginlegi bónus lífsins að hækka launin. Það er ekki bónus heldur réttlætismál að laun séu góð. Bónus lífsins, hver er hann? Hann verður ekki keyptur í neinni búð. Kristinn maður veit að bónusinn er Guð og sálmurinn í sálmabókinni segir að Guð sé góður. Guð á fleiri ráð en við þekkjum. Lífeyrissjóður himinsins er ekki gulltryggður heldur guðstryggður, sem er betri öðrum tryggingum. Meginstarfsregla þess sjóðs er gjafmildi. Greiðslur eru ekki samkvæmt innlögn heldur umhyggju Guðs og þörf manna. Guð hefur sjálfur lagt allt til hins mikla sjóðs, lífið í Jesú Kristi, sem er höfuðstóllinn sjálfur. Guð er gjafmildur, gefur lífið, af því að Guð er bonus, Guð er góður. Engir peningar, engar kjarabætur, enginn hagnaður þessa heims er nokkuð í samanburðinum við þann bónus, það er bónus lífsins.

A-röð Lexía: Jer. 9.23-24. Pistill: 1Kor. 9.24-27. Guðspjall: Matt. 20.1-16