Greinasafn fyrir merki: gríma

Tveir metrar – minna eða meira?

Hvað megum við hleypa fólki nærri okkur á þessu COVID-tíma? Hversu mikil má nándin vera? Þessa dagana ríkir óvissa um hvernig fólk á að heilsast og kveðja. En við erum flest hætt að rjúka á fólk til að faðma og kyssa. Og við reynum að halda tveggja metra fjarlægð. En svo er fjarlægðarreglan að linast. Margir stökkva óhikað í kösina í heitu pottunum. En þrátt fyrir þennan slaka gildir fjarlægðarreglan þó enn þar sem líf liggur við, t.d. í lyfjabúðum og lífshúsum kirkjunnar. Við Hallgrímskirkjufólk reynum að tryggja að þau geti komið til kirkju sem vilja og líka verið viss um að geta haldið sig í tryggri fjarlægð frá öðrum.

En hin menska tveggja metra regla er eitt, en svo er nánd Guðs allt annað. Guð er ekki háður reglum almannavarna. Guð er ekki langt í burtu heldur innan tveggja metranna, innan við skinnið á okkur, líka innan við líffæri, hugsanir og tilfinningar. Guð er innar en innræti okkar, nær okkur en bæði meðvitund og undirmeðvitund. Guð er hin eiginlega nánd. Guð smitar ekki heldur er uppspretta lífsins.

Sannleiksandinn og huggarinn

Textar dagsins er um náin tengsl Guðs og manna. Til að skýra merkingu nándar talar Jesús um Anda Guðs. En hvers konar andi er það? Jesús kallar hann sannleiksanda og segist senda hann. Hann bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra? Væru þeir eitt? Já, en hvað merkir það?

Jesús kallar Andann líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki er parakletos(παράκλητος). Það þýðir m.a. verjandi, sbr. lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos líka merkt leiðtoga, slíkan aðila sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandann, kallar til fylgis og árangurs. Andinn er því bæði í sókn og vörn – og alltaf til sigurs fyrir líf og fólk.

Fólk segir stundum: „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna.“ Vissulega eru hugmyndir aldanna um þrenninguna flóknar. Og stundum hefur þrenningarkenningin verið svo nördalega túlkuð, að fólki hefur þótt kenningarnar bara flækjast fyrir aðalmálinu, guðsnándinnni, trúnni. Þegar mest hefur gengið á hafa sprottið fram hreyfingar í kristninni vegna mismunandi túlkunar guðseigindanna. Sumir hafa jafnvel talið, að Jesús talaði um Heilagan anda sem Jesú nr 2, sem myndi koma á eftir númer 1. Og slíkar túlkanir teygja sig yfir í Islam. Múslimar kenna t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning

En kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði guðsbirtingur, avatar, einn af mörgum guðsfulltrúum, né heldur að nýir frelsarar kæmu, nýir Jesúsar. Í kristninni er ekki trúarlegur glundroði varðandi Jesú. Hann er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra væru best túlkuð sem eining.

Auðvitað vöknuðu spurningar um röðun, mikilvægi, jöfnuð eða valdskiptingu vídda Guðs. Til að skýra innri tengsl guðdóms kristninnar var notað leikhúsmál. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, setti upp mismunandi grímur sbr. það sem gert var í leikhúsum til forna. Í þeim leikhúsheimi táknuðu grímur persónur, enda var heitið persona notað um þessar andlitsskýlur. Og vitundin um eitthvað framan í fólki skerpist svo sannarlega á þessum tíma þegar andlitsgrímur eru að verða staðalbúnaður. Á miðöldum þurfti að þýða þessa grímu-persónu-túlkun úr grísku og latínu vestrænnar kristni og yfir á þjóðtungur. Þá var t.d. orðið persona þýtt á íslensku með orðinu grein. Þess vegna segir um guðdóminn í helgikvæðinu Lilju: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum. Guð væri eining en kæmi fram í mismunandi birtingarmyndum.

Mismunandi tíðir og þarfir hafa sem sé leitt fram mismunandi túlkanir. En guðshugtak kristninnar er breitt, hátt og djúpt. Hið ríkulega guðshugtak kristninnar er ekki til óþurftar, heldur hefur það merkingarplúsa, dýptir sem hafa komið til móts við þarfir hvers tíma. Guð er alltaf meira en það sem skerðingar manna benda til.

Í langan tíma hafa nýjar þarfir og áherslur verið að þroskast í heimsbyggðinni. Einhæfingar fjölmiðlunar og yfirborðsleg auglýsingamennska nútímasamfélaga þjóna ekki vel djúpþörfum fólks. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist og tilfinningu fyrir tilgangi og merkingardýpt, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Og íslenskur almenningur er opinn fyrir að túlka reynslu í náttúrunni sem merkingarbæra, trúarlega reynslu. Fólk segir stundum við okkur prestana að það hafi farið í náttúrukirkjuna. Fundið fyrir Guði í grjóti og titrandi, tárvotum smáblómum háfjallanna. Sem sé Guð sé í gaddavírnum og klettakirkjum rétt eins og í kirkjuhúsunum.

Það er mikilvægt að opna fyrir, að Andi Guðs sé alls staðar. Heilagur andi tengist ekki aðeins tilfinningum, reynslu í helgihaldi eða hrifningu einstaklinga á listviðburðum, heldur er Andinn nærri þegar við verðum fyrir sterkri reynslu í samskiptum við fólk eða hefjum augu til fjalla, jökla, fossa eða skynjum leik birtu. Andi Guðs er öko-andi. Jesús er parakletos allrar náttúruverndar. Andinn vekur reynslu og eflir fólk til að græða sár náttúrunnar. Margir kristnir eru ekki aðeins sannfærðir um að náttúran sé heilög, heldur sé best að tala um hina sköpuðu veröld sem líkama Guðs. Sem sé, heilags-anda-guðfræði varði ekki bara persónulíf okkar hið innra, heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf – af því allt er í Guði.

Breytingarskeið

Erindi kirkju og guðfræði er að mæta djúpþörfunum og túlka nánd Guðs í splundruðum og ráðvilltum heimi. Áföll í samfélögum manna, náttúrumengun og aukin vitund um getuleysi ráðakerfa heimsins er að ala af sér nýtt skeið í menningu veraldar. Á breytingatíð megum við að þora að stækka alla okkar trúaríhugun. Kirkjulíf heimsins er að breytast og guðfræði er þróast. Stóru kirjudeildirnar sem leggja áherslu á form hafa veiklast og eru að tæmast. Kall fólks varðar inntak, merkingu og nánd. Kirkjan, guðfræði og prédikun sem og starfshættir eiga að svara raunverulegum þörfum fólks sem og málum menningar og náttúru. Þegar fjarlægð vex á milli fólks, tortryggni vex í menningu og samskiptum vex skynjunin um Guð sem hina hreinu nánd.

Merkir þetta, að við þurfum að breyta kirkjustarfi okkar til að svara kalli tímans og líka svara kalli Anda Guðs? Já. Boðskapur og erindi dagsins er að Jesús Kristur sendir huggarann, anda sannleikans, nánd Guðs. Guð er í sókn og vörn. Við þurfum að gæta að metrum og heilbrigði, en Guð er komin lengra og kallar okkur til starfa í lífsvinsamlegu guðsríki.

Amen.

Prédikun á 6. sunnudegi eftir páska, 24. maí, 2020

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill:  1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

Ímyndir og raunmyndir

Hver ertu og hvernig er myndin af þér? Hvað sést þegar á þig er horft? Hvað viltu að sjáist? Viltu leyfa hrukkunum, vörtunum, andlishárunum að sjást? Er þér annt um að sjást eins og þú raunverulega ert? Eða viltu breyta í raun eða mynd. Með forritum getum við breytt útliti fólks á ljósmyndum, lagað nefstærð, hnikað til eyrnasneplum, minnkað eða stækkað, teygt og togað svo myndin verði nær þeirri ímynd, sem fólk vill að sjáist. Við erum ekki bara raunmynd heldur einnig ímynd. Og sumum reynist raunmynd eigin sjálfs og lífs svo þungbær, að líf þeirra verður stanslaus fegrun og endurhönnun ímyndar. Útlitsaðgerðir geta jafnvel deytt fólk. Leikrit geta orðið til dauða. 

Breska skáldið C. S. Lewis skrifaði m.a. Narnia-barnasögurnar og ritaði einnig bók um grísku gyðjurnar og systurnar Pcyche og Orual. Nafn hinnar fyrri er varðveitt í vestrænum heitum á sálfræði, psykologi og psychology. Psyche var sögð traust í lífsraunum og fögur. Hún fangaði hjarta elskuguðsins Erosar. Saga Psyche er fyrirmyndar- eða kennslu-saga um þroskaleit sálar. Órúal var ólík systurinni ástríku. Hún hafði veika sjálfsmynd og fyrirvarð sig fyrir útlit sitt. Hún faldi andlitið á bak við grímu, sótti í völd og sölsaði undir sig konungsríki föður síns. Landsmenn Órúal sáu grímuna og ímynduðu sér að hún væri fögur. En engum kom til hugar að gríman væri vörn hryggðarmyndar.

Veldi Órúal féll, hún var svipt stöðu, klæðum og grímu og að lokum leidd berstrípuð fyrir guðlegan dómstól. Þegar varnir voru fjarlægðar kom keipakrakki í ljós. Hún vældi yfir að veröldin væri ekki eins og hún vildi. Sagan er um grímulausa sjálfshverfingu og þar með frekju. Sagan segir síðan hvernig Órúal gekk í sig, náði þroska og gerði sér grein fyrir að til að ávinna allt varð hún að sleppa. Til að þroskast varð hún að fleygja hækjum lífsins. Til að vitkast varð hún að viðurkenna sjálfa sig og útlitið líka. Narcissistar eru með grímur og til að koma til sjálfs sín og lifa verða þeir að fella þær.

Sagan um Órúal er ekki aðeins um fólk í fornöld heldur einnig í nútíma. Líf margra er leit að grímum og ímyndum. Svo er líka úrvinnslan úr grímuleik fjölskyldu og menningar uppvaxtarins. Versti verknaður mannsins er að dýrka aðeins eigin ásýnd, eigin ímynd og eigin draum. Þá er ímyndin orðin að sannleika og raunveran orðin að lygi. Ásjónur eru okkur mönnum mikilvægar. Eðlilegur barnsþroski er tengdur andlitum. Við spáum í og lærum að greina í andlitum reiði, gleði, voða og vegsemd. Andlit eru mikilvæg en eru þau mennsk andlit eða sýndarmyndi?

Fólk í öllum sögum, líka í Biblíunni, er fólk sem leitar myndar sinnar. Kristnir menn hafa af reynslu sagt að besti sálarspegillinn sé Jesús Kristur. Þar sé mynd Guðs í mannsmynd. Því stórkostlegri ímyndum, sem við komum okkur upp um sjálf okkur – því lengra erum við frá raunmynd okkar. Því betur sem við leyfum grímum að falla af okkur því betur og nær komum við sjálfum okkur, mynd Guðs.

Hvar ertu Adam spurði Guð? Spurningin hljómar enn. Ertu með sjálfri þér? Ertu í essinu þínu? Eða er Guðsmyndin þín flekkuð, falin á bak við grímu sem þarf að fella, til að þú verðir sönn og sannur. Okkar mesta mál í lífinu er ekki hvort Guð hafi mennska ásjónu, hafi orðið maður, heldur hvort við séum mennsk. Við eigum mennska ásjónu í Jesú Kristi, sem við megum horfa á, innlifast og læra af. Þegar við horfum á Jesú getum við séð önnur andlit, aðrar sálir á nýjan hátt, séð fjölskyldumót allra, hvernig sem þau eru lit eða löguð. Öll heimsbyggðin stynur af þörf fyrir að við sjáum, sjáum hina guðlegu ásjonu hvers manns, að við sjáum sjálf að við erum í mynd Guðs og litríki og fjölbreytni náttúrunnar ber einnig fingraför – mynd – Guðs.

Bæn

Kenn okkur að greina myndir veraldar, myndir okkar og mynd þína – Guð. Hjálpa okkur í myndasókn okkar. Gef okkur mynd af okkur sjálfum, raunmynd en ekki ímynd, mannsmynd en ekki glansmynd.

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Amen. 

Íhugun 17. okt. 2019.

Gríma, sál og systir

IMG_0688Að baki vestrænum heitum fræðigreinarinnar sálfræði er nafn grísku gyðjunnar Psyche. C. S. Lewis skrifaði ekki aðeins ævintýrabækur um Narníu heldur um bókmenntir og trúarefni og m.a. um systurnar Psyche og Órúal. Psyche var sögð traust í lífsraunum og fögur. Hún fangaði hjarta elskuguðsins Erosar. Saga Psyche er fyrirmyndar- eða kennslu-saga um þroskaleit sálar. Órúal var ólík systurinni ástríku. Hún hafði veika sjálfsmynd og fyrirvarð sig fyrir útlit sitt. Hún faldi andlitið á bak við grímu, sótti í völd og sölsaði undir sig konungsríki föður síns. Landsmenn Órúal sáu grímuna og ímynduðu sér að hún væri fögur. En engum kom til hugar að gríman væri vörn hryggðarmyndar.

Veldi Órúal féll, hún var svipt stöðu, klæðum og grímu og að lokum leidd berstrípuð fyrir guðlegan dómstól. Þegar varnir voru fjarlægðar kom keipakrakki í ljós. Hún vældi yfir að veröldin væri ekki eins og hún vildi. Sagan er um grímulausa sjálfshverfingu og þar með frekju. Sagan segir síðan hvernig Órúal gekk í sig, náði þroska og gerði sér grein fyrir að til að ávinna allt varð hún að missa. Til að þroskast varð hún að fleygja hækjum lífsins. Til að vitkast varð hún að viðurkenna sjálfa sig og útlitið líka.

Sagan um fólk bæði í fornöld og nútíma. Líf margra er æðisgengin leit að grímum og ímyndum. Er það kannski versta fíkn mannsins að dýrka eigin ásýnd, eigin ímynd og eigin draum? Þegar svo er komið er ímyndin orðin að sannleika og raunveran orðin að lygi.

Ásjónur eru okkur mönnum mikilvægar. Eðlilegur barnsþroski er jafnvel tengdur andlitum. Fólk í öllum sögum, líka í Biblíunni, er fólk sem leitar myndar sinnar. Kristnir menn hafa af eigin reynslu sagt að besti sálarspegillinn sé Jesús Kristur. Þar sé mynd Guðs í mannsmynd. Því stórkostlegri ímyndum sem við komum okkur upp því lengra erum við frá raunmynd okkar. Því betur sem við leyfum grímum að falla af okkur því betur og nær komum við sjálfum okkur, mynd Guðs.

Verkefni föstutímans er að spegla sálina. Tilgangurinn er að undirbúa innri mann fyrir atburði kyrruviku og páska. „Spegill, spegill herm þú mér.“ Allt sem segir okkur satt um okkur sjálf verður okkur sannleiksspegill, Passíusálmar, píslarsagan, goðsögur, barnaspeki, kvikmyndir eða bókmenntir. Verkefni föstu er: Fella grímu og spegla sál.

Pistill í Fréttablaðinu 4. mars, 2013