Greinasafn fyrir merki: Grikkland

Það liðna er ekki draumur – Theodor Kallifatides

Ég hef lært gamla biblíugrísku og get lesið á götuskiltin í Grikklandi en ég skil ekki nútímagrísku. Ég hef lesið klassísk rit Grikkja og hef áhuga á fornaldarsögu þeirra en þekki lítið í nútímasöguna sem mig hefur langað til að skoða betur. En svo las ég bókina Það liðna er ekki draumur – nýþýdda bók Theodor Kallifatides. Hún varð mér persónuleg og heillandi túlkun á sögu Grikklands eftir seinni heimsstyrjöld.

Theodor Kallifatides var átta ára þegar körlunum í Molai, þorpinu hans á Pelópsskaga, var raðað upp svo herforinginn gæti valið úr þá sem fasistarnir ætluðu að drepa. Drengurinn slapp en lík hinna myrtu fundust ekki. Afi drengsins tók í hönd þess stutta, leiddi hann út úr þorpinu og sleppti ekki fyrr en þeir voru komnir alla leið til Aþenu. Frumbernskunni var lokið og lífið í borginu varð allt öðru vísi en í þorpinu, líf í skínandi efnislegri fátækt og mannhafi Aþenuborgar. Síðar gerði hann sér grein fyrir að hann átti sér enga framtíð í Grikklandi, kastaði svörtu steinunum bak við sig og tók lestina norður og alla leið til Stokkhólms. Þar hélt hann áfram námi, kvæntist, kenndi og skrifaði. Það var þriðji kaflinn og um hann er lítið fjallað í þessari bók, sem er um gríska sögu en ekki sænska.

Í bókinni segir Theodor Kallifatides frá uppvexti sínum, fjölskyldu, menntun, tengslum, áhrifum, vinum og óvinum, pólitík, bókmenntum, heimspeki, trú og menningarsögu. Við kynnumst átökum sem ríktu í grísku þjóðlífi eftir hernám Þjóðverja, andstæðum fylkingum í pólitík, ofbeldi, átökum og áhrifum á einstaklinga og fjölskyldur í Grikklandi. Við kynnumst líka menningarpólitíkinni. Með nærfærnum og yndislegum hætti lýsir hann móður sinni, föður og bræðrum, tengslum þeirra, persónum og viðbrögðum. Eftir fyrri heimstyrjöld voru Tyrklandsgrikkir, ein og hálf milljón, reknir frá heimahögum sínum í Litlu Asíu. Faðir Theodors var flæmdur frá Trabzon á Svartahafsströnd Tyrklands og lenti í Molai, fæðingarþorpi mömmu hans á Pelópsskaga. Þar varð hann kennari, kynntist konu sinni og varð hluti nýrrar fjölskyldu. Pabbinn var útlendingur eða aðkomumaður allt lífið. Það litaði líf hans og fjölskyldunnar og kannski sonarins líka. Heimilislífið var elskulegt þótt samfélagið væri yfirspennt. Með því að segja uppeldis- og fjölskyldusögu nær höfundur að lýsa grískri samfélagsþróun seinni hluta tuttugustu aldar. Ég vissi um hinar skelfilegu þjóðernishreinsanir Tyrkja á tuttugustu öld, vissi um fjöldann og dramatíkina en í þessari sögu fáum við innsýn í áhrif á flóttamennina og tilfinningu fyrir líðan þeirra. Það er eftirminnileg mynd sem Theodor Kallifatides segir af föður sínum, lífshlaupi hans og samspili elskandi foreldra.

Bókin er bersögul, hispurslaus og kímileg. Mamma höfundarins sagði honum að hún gæti aðeins lesið bækurnar hans á bak við hurð því í þeim væri svo mikið af kynlífi! En það er ekkert klúrt eða klént í þessari bók. Í henni segir höfundur frá áhrifum, einstaklingum, fólki, viðmælendum, spekingum, trú, tilfinningum, ástamálum, vonum og sorgum, efasemdum og átökum. Þetta er mannelsk bók, rit um blóðríkt og áhugavert fólk, rembingslaust rit um lífsbaráttu og leit að inntaksríku lífi í upplausn samfélags. Kallifatides greinir frá kynhlutverkum, hlutverkum fjölskyldu og tengslum foreldra og barna, hlutverkum skóla, stofnana og hreyfinga. Flæðið er eðlilegt og þrátt fyrir áföll og ágengar spurningar eru engir óþarfa reiðidómar felldir í garð fólks og stofnana. Lýsingarnar eru laðandi og jafnvel lyktin af mat gýs upp. Við lesturinn fann ég oft lykt af grísku tómatasalati og alvöru ólífuolíu. Á leiðinni til Stokkhólms kom Kallifitatides við á veitingahúsi og þar gerði landi hans sér grein fyrir að hann hlyti að vera Grikki – bara af tímíanlyktinni!

Hvenær er maður heimamaður og hvenær ekki? Hver er merking uppvaxtar og má skilja sögu og fjölskyldu með nýjum og skarpari hætti? Er minning einföld og rétt eða alltaf túlkuð? Hvað og jafnvel hvar er heima og er maður alltaf á leið til baka, heim? Getur grísk upphafssaga orðið til að skerpa sýn Íslendings á áttræðisaldri á eigin bernsku? Já. Aldraður fór Kallifatides til baka, skoðaði að nýju gil bernskunnar með myllum og fornri vatnsleiðslu. Hann vitjaði Aþenu og endurskoðaði sögu þjóðar sinnar, hugsaði um via Egnatia, tókst á við fordóma og hleypidóma, þorði að spyrja og líka vitja falskra minninga. Hann var lánssamur því hann hafði tækifæri til þess og hafði líka þjálfað hæfni sína og yddað vel blýantana sína þegar hann fór að skrifa minningarnar. Því er þessi saga hans glimrandi, skörp og áhrifarík.

Fjölskyldusögur og persónuuppgjör geta líka verið lykilsögur til að skýra fyrir utanaðkomandi inntak þróunar og þjóðfélagsbreytinga. Kallifatides fór frá Grikklandi því þar var honum allt lokað. Sonur kommúnistans var geislavirkur. En hann eignaðist nýtt líf í Svíþjóð. Hann var heimamaður í Grikklandi en eignaðist líka nýjan sjónarhól áhorfanda sem nýttist honum til að teikna skarpa mynd af sögu Grikkja og segja þroskasögu sjálfs sín og litríka fjölskyldusögu sem opnar inn og út. Ég er ákveðinn að lesa fleiri bækur hins evlalíska og vel skrifandi Kallifatides.

Þýðing Halls Páls Jónssonar er góð. Mér þótti þó miður að Gagnrýni hreinnar skynsemi I. Kants skyldi ruglað saman við Gagnrýni hagnýtrar skynsemi. Svo er óþarfi að Símeon súlubúi skyldi tilgreindur að sænskum hætti en ekki grískum eða íslenskum því svo oft hefur verið skrifað um karlinn á íslensku. Gera þarf kröfu um nákvæmni í frágangi staðreynda og slíkra tilvísana. Uppfletting á vefnum hefði nægt til að fyrirbyggja slíka skugga á annars vel unnu verki. Dimma er afbragðs forlag.

sáþ 14. jan. 2025

Límonaði frá Díafani

Ella Stína fór til Köben og síðan áfram til Grikklands, alla leið til Díafani á eyjunni Karpaþos milli Krítar og Rhodos. Hún var átta ára þegar Jóhanna Kristjónsdóttir og Jökull Jakobsson fóru utan með börn sín. Bókin Límonaði frá Díafaní er í hinu ytra um þá ævintýraferð. En hið innra er hún uppgjör roskinnar konu um fjölskyldudrama, tilfinningar, viðbrögð og úrvinnslu stúlkubarnsins hið innra.

Elísabet Jökulsdóttir er búin að skrifa um foreldra sína og fjölskyldu í bókunum, Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda. Og nú heldur hún áfram að greina þætti uppvaxtar og óhamingjusamrar fjölskyldu. Ramminn er Grikklandsárið. Í Eyjahafinu var flest með öðrum stíl en á Seltjarnarnesinu. Glóaldin uxu á trjánum, geitur röltu um með bjöllur um hálsinn og litlu guðshúsin virtust sérbyggð fyrir börn. Ella Stína fór víða meðan foreldrarnir voru uppteknir við skriftir, eigið innra líf, Bakkus (eða var það Díonysos) og uppgjör við hvort annað. Löngu seinna kom Ella Stína aftur til Grikklands í rannsóknarferð sálar og uppgjörsferð.

Límonaði frá Díafani er eiginlega nýtt bindi í uppgjöri Elísabetar við foreldra sína og fjölskyldu. Ég hreifst sérstaklega af Saknaðarilmi og skrifaði um þá bók. Nýja límonaðibókin er mun síðri en lyktarbókin. Hún er vissulega lipurlega skrifuð og ferðin rammar inn minningar og uppgjör. Setningar hrífa og íhuganir hitta í mark. Myndin af grísku eyjalífi er vel teiknuð. En ég spurði sjálfan mig ítrekað hve lengi og hversu langt væri hægt að teygja lopa marinnar fjölskyldu. Hve mörg bindi má skrifa um fjarlægan en leiftrandi föður og snjalla móður með útþrá? Þrjár, fimm eða fimmtán? Frægir foreldrar, rithöfundar, stjórnmálamenn, vísindafólk, geta verið höfuðstóll góðra penna en það eru takmörk fyrir hve lengi á eða hægt er að taka af þeim sjóði. Ef farið er of langt er farið að blóðmjólka. 

Með þokkalegri einbeitni er hægt að lesa bókina á rúmlega klukkutíma. Umbrotsaðilinn hefur þurft að hafa talsvert fyrir að teyja bókina í 91 blaðsíðu. Langt er á milli málsgreina, letrið stórt og línubilið talsvert. Margar myndir eru í bókinni og lítið lesefni er á hverri síðu. En bókin slær sítrónuilmi fyrir vit og kallar fram eyjatilfinningar okkar sem elskum Grikkland. Að lestri loknum óskaði ég þess að barnið Ella Stína leysi fjötra konunnar og rithöfundarins Elísabetar. Sólgos sálna í nútíma eru ekki síður áhugaverð en gömul gos. 

Frelsið eða dauðinn

Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Við komum bílnum fyrir í skugga frá stóru tré á bílastæðinu við Arkadiouklaustrið og röltum að hliðinu. Klaustrið stendur á lítilli sléttu í fimm hundruð metra hæð yfir sjó. Útveggir eru sem virkisveggir, klaustrið ferhyrnt og klefar og salarkynni klaustursins við útveggina. Við fórum um hliðið, greiddum elskulegum klausturverði aðgangseyri og gengum inn í klausturgarðinn. Við Elín Sigrún höfðum komið þarna fyrir mörgum árum og það var ljóst að margt hafði verið gert síðan til fegrunarauka og fræðslu. Vel hirtar rósir, kryddrunnar, ávaxtatré, margar tegundir blóma og vínviður glöddu augu. Svo var komið glæsilegt safn, sem gaf innsýn í sögu klaustursins. Og tíminn varð eiginlega þykkur.

Við gengum úr einni vistarverunni í aðra, dáðumst að húsum, munum og málverkum. Presturinn íhugaði mun vestrænnar og austrænnar kristni, helgimyndagerð – íkónógrafíu Grikkja og klausturskipulagið. Svo komum við að norðvesturhorni klaustursins og fórum alveg inn í horn. Þar var gangur og hlið og þar stoppuðum við. Þar vorum við komin að einum átakanlegasta stað Krítar. Og drengirnir mínir upplifðu þungan nið sögunnar og skelfingu stríðs.

Grikkir og Tyrkir hafa barist um aldir. Á nítjándu öld var Krít stríðssvæði. Árið 1866 flýði hópur í skjól í klaustrinu undan framsókn Tyrkja. Fimmtán þúsund hermenn á vegum Tyrkja sóttu að því. Þó klaustrið væri víggirt væri ekki hægt að verjast ofurefli. Engin hjálp barst að utan og Tyrkirnir brutu allar varnir. Augljóst var að blóðbaðið yrði ægilegt og fólkinu yrði misþyrmt og það vanhelgað. Og þá voru kostirnir tveir heldur aðeins einn: Dauði. Börn, konur, munkar og hermenn, á níunda hundrað manns, söfnuðust í gamla vínkjallarann. Þar voru tunnur með því púðri sem eftir var. Þegar Tyrkirnir komu hlaupandi var kveikt í púðrinu. Sprengingin var svo öflug að steinhvelfingar yfir þessum sal dauðans splundruðust og grjót og brak dreifðist víða. Dauðinn kom skjótt.

Tyrkirnir þóttust hafa unnið mikinn sigur, en dauði píslarvottanna hleypti lífi í frelsisbaráttu Krítverja og varð sem tákn fyrir alla Grikki. Rendurnar í fána Grikkja eru tákn um kostina sem einstaklingar og þjóðin hafa orðið að velja, frelsi eða dauða. Það var þrúgandi að standa á þessum stað þar sem svo margir létu lífið. Þjáningin var nánast yfirþyrmandi. Sótið er enn á veggjunum og eins og blóðlyktin hefði ekki alveg horfið. Miklir steinveggir, engin hvelfing heldur aðeins opinn himinn. Og við fórum inn í kirkjuna í miðjum klausturgarðinum, kveiktum kerti fyrir fórnarlömb grimmdar og stríða, táknkerti um rétt manna til að búa við öryggi og frið.

Hverjar eru hugsjónir okkar? Eru gildi algerlega sveigjanleg og afstæð? Eða er eitthvað svo mikils virði að án þess tapi lífið gildi? Er grimmd einhverra svo skelfileg, að skárri kostur sé að sprengja sig og börnin sín í loft upp? Foreldrum fyrri tíðar hefur það verið skelfileg siðklemma. 

Fyrir tæpum sautján árum (11. september) vorum við Elín Sigrún á þessum sama stað og íhuguðum frið og stríð, átök þjóða og hlutverk okkar. Á þeim degi var flugvélum rænt og m.a. flogið á tvíburaturnana í New York. Það var einkennilegt að koma frá klaustrinu og heyra um árásirnar í Bandaríkjunum. Þá sprungu flugvélar í okkur öllum. Hvaða gildi getum við gefið drengjunum okkar og iðkað svo þeir hafi veganesti til lífgjafar en ekki grimmdarverka? Við vildum sýna þeim þetta gríska klaustur sem væri tákn um baráttu fólks á öllum öldum. Þetta var ekki skemmtiferð, sem við fórum, heldur ferð á vit gilda, hugsjóna og lífsgæða. Þegar bænakertin ljómuðu inn í kirkjunni kviknaði bál tilfinninga hið innra. Aldrei aftur Masada, aldrei aftur Arkadiou, aldrei aftur Verdun, aldrei aftur Sýrland… Gegn dauðanum stendur alltaf frelsið, eini valkosturinn. 

11. júní 2018