Hrísgrjón eru jafnan betri bökuð en soðin og hrísgrjónabökun heppnast oftast. Bragðið er fíngert en fágað og því er réttara að velja sósu með af vandvirkni. Ég eldaði þennan rétt um síðustu jól og hann var dásamlegur og svo aftur nú eftir páska og þá var Jón Kristján, dugmikill hjálparkokkur. Rétturinn, sem er frá Ottolenghi, er fagur og hægt að bera fram með alls konar meðlæti, grænmeti, kjötrétttum eða fiski.
Fyrir sex.
Hráefni
400 gr basmatihrísgjón
50 gr smjör
800 ml sjóðandi vatn
40 gr minta
150 gr fetaostur – skorinn í 1 cm bita
Salt og pipar
Salsa
50 gr grænar ólífur, þunnt skornar
1 granatepli – fræ úr einum ávexti – ca 90 gr
50 gr valhnetur, saxaðar og þurrristaðar lítillega á pönnu
3 msk ólífuolía
1 tsk sæta (t.d. stevía eða hunang)
10 gr minta
2 hvítlauksrif – marin
Matreiðslan
1 Forhita ofninn í 230°C
2 Setja hrísgrjónin í fat með háum köntum. Krydda með ca 1 tsk af maldonsalti og pipar. Hella vatninu yfir og koma smjörinu fyrir líka. Raðið mintunni yfir og lokið með álpappír (eða loki fatsins ef það er til). Setja í ofninn og baka í 25 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru fullbökuð og vökvinn að mestu horfinn úr botninum.
3 Útbúa salsað – en bíða með að setja mintuna yfir.
4 Taka hrísgrjónin úr ofninum fullbökuð. Taka burt álþynnuna (lokið). Taka mintuna af, henda stilkunum en nota mintublöðin og setja yfir réttinn. Smella fetaostinum yfir hríusgrjónin og salsað þar yfir. Svo er afgangnum af mintunni dreift yfir.
Bera fram heitt og ráð að njóta þessa augnayndis og bragðgæðanna – og vert að þakka fyrir.
Borðbænina samdi Sigurður Ægisson, Siglufjarðarprestur:
Þökk fyrir matinn, Guð minn góður.
Gefðu að hverri systur, bróður,
sem að hér gengur út og inn
ávallt hann bendi’ á kærleik þinn.
Verði ykkur að góðu.