Ég axlarbrotnaði í lok janúar. Það var sárt og hafði ýmsar afleiðingar hvað varðar líðan, verkagetu og samskipti. Ég hef því nokkra innsýn og mikla samúð með Jakobi, ættföður Ísraela og heimsbyggðarinnar því hann varð fyrir því óláni að fara úr mjaðmarlið. Það hefur sárt og skelfilegt – ekki síst vegna þess að hann átti í stappi við Guð. Jakobstextinn er lexía næsta sunnudags og er svona:
„Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“
Í þessari frásögu fyrstu Mósebókar breyttist Jakob og umbreytingin var alger. Hann varð fyrir skelfilegri reynslu, glímdi aleinn í næturmyrkri við ókunna veru. Frá þeim slag kom hann annar maður, með nýtt nafn og nýja vitund um hveer hann væri. Sjálfsmynd hans var breytt. Hvernig eigum við að skilja þessa sögu og hefur hún einhverja merkingu fyrir okkur nútímafólk? Og er einhver tilgangur með því að ræða um svona forneskju í kirkjum heimsins?
Frásögnin getur verið táknsaga um innri baráttu okkar allra – glímu okkar við sjálfsmynd, fortíð, ótta og vonir. Í lífinu lendum við stundum í aðstæðum sem neyða okkur að horfast í augu við okkur sjálf, jafnvel þó það geti verið afar sársaukafullt, jafnvel verra en stórfellt líkamstjón. Jakob slaðaðist í slagnum en reynslan varð honum þó til góðs – það sem kallast blessun á máli Biblíunnar. Með hliðstæðum hætti getur persónuleg þjáning, kvíði, efasemdir eða mótlæti leitt okkur til dýpri skilnings og umbreytingar sjálfsins.
Jakob sleppti ekki taki á verunni sem hann barðist við fyrr en hann var blessaður. Í mótlæti og erfiðleikum lífsins eigum við alltaf val. Annað hvort getum við gefist upp eða haldið fast í von um að af glímunni spretti fram ný vera, nýtt líf – sem sé nýtt nafn. Að verða Ísrael þýðir að hafa staðið af sér storminn, að hafa tekist á við sjálfan sig og Guð en samt haldið lífi. Til þess konar glímu þarf styrk, þrautseigju og trú.
Axlarbrot, mjaðmarmeiðsli eða tilfinningalegar og félagslegar áskoranir eru ekki alltaf óyfirstíganlegar hindranir, heldur geta jafnvel orðið tækifæri til vaxtar. Hvers eðlis er innri glíman? Í hvað þurfum við að halda fast þar til við skiljum eða viðurkennum blessunina sem slagið getur leitt til? Þegar við stöndum augliti til auglitis við okkur sjálf og dýptir tilveru okkar getum við fundið nýja merkingu, nýjan tilgang. Þá fáum við nýja sjálfsvitund, ný tengsl og nýtt nafn.
Hér að neðan er mynd Chagall af glímu Jakobs og Guðs.