Greinasafn fyrir merki: gildi

Forrest Gump

Kvikmyndin um Forrest Gump er viðburðasaga fremur en þroskasaga. Forrest litli tekur út lítinn vitsmunaþroska en rambar í hvert stórævintýrið á fætur öðru. Hann slampast í gegnum allt og uppsker ríkulega. Gæskuríkur Forrest Gump nýtur elskusemi flestra, enda stefnt út í veröldina af miklum kvenskörungi, mömmunni. Æskuástin frá skóladögum verður þó ekki hans nema stuttan tíma áður en hún deyr. Varla er nokkuð stórmál í bandarískri sögu sem Gump tengist ekki með einum eða öðrum hætti. Forrest Gump verður stjarna í amerískum fótbolta, hetja í Víetnam, borðtennisjöfur, vellauðugur útgerðarmaður, hlaupastjarna og nokkurs konar spámaður, áður en hann ástarmær lífs hans fellur honum í faðm og þau eignast afkomanda sem heldur sögunni áfram.

Umfjöllun um sögu og trúarstef

Þrjú ofurmáttarvöld eru í þessari mynd: Mamma Forrest Gump (Sally Field); bernskuvinkonan Jenny (Robin Wright) og Guð. Þau eru burðarstoðir eða þrenning myndarinnar. Og mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta er kvenleg þrenning sem Forrest lifir af, í og fyrir. Jenny og móðir Forrest eru sem guðlegar ásjónur. Myndin snertir því kvenímynd Guðs og kvenútgáfu guðdómsins. Hins vegar verður þessi mynd aldrei kennd við rótttæka kvennaguðfræði því hún boðar ekki byltingarboðskap eða breytingatillögur. Myndin kann engan feminisma af nútímatagi og predikar ekki góð kvennatíðindi. En hún er engu að síður innlegg í kvennaumræðu þar sem konurnar eru styrkar og magnaðar. Við kíkjum í myndinni í sértækan túlkunarheim í Bandaríkjunum og fáum innsýn í þá konugervið “southern belle” sem ræður mörgu og notar sínar eigin aðferðir í samræmi við stefnuna að tilgangur helgi meðalið. Móðir Forrest Gump er bellukona!

Meginstef myndarinnar, sem unnið er með ýmsu móti, er sátt og sáttargerð. Þrátt fyrir fákænsku verður Forrest Gump hvarvetna farvegur sátta og lífs. Hann hjálpar Jenný til flýja alkóhólíseraðan og ofbeldisfullan föður og styður hana til uppgjörs í lok myndarinnar. Hann styður vin sinn, Dan liðþjálfa, til að gera upp reiðina frá Víetnam. Þótt hann beri nafn stofnanda Ku Kux Klan byggir hann brýr milli hvítra og svartra og gerir ekki upp á milli fólks eftir litarhætti (sbr. Bubba rækjujarl). Konur metur hann jafn mikils og karla og skilur ekki eða virðir að vettugi skiptingar samfélagsins og baráttu hópa, kynþátta og kynja.

Viðsnúningur ímyndanna

Myndin er æfing í viðsnúningi gilda. Að vera efstur í píramída stjórnmála eða samfélags er ekki aðalatriði. Skilaboðin eru einföld. Allt sem fólk sækist eftir á opinberum vettvangi er allt eftirsókn eftir vindi ef heilindi og sannleika skortir. Greind er engin trygging fyrir hamingju því sælir eru fátækir í anda. Stríð mannanna eyðileggja. Baráttuhópar af hvaða tagi sem þeir eru þjóna eigin hag fremur en umbjóðenda sinna. Gildir einu hvort það er fólk sem berst fyrir friði eða réttindum blökkumanna. Að benda á þessi erfðasyndaratriði í öllum hreyfingum og mönnum er ofurlítið framlag til félagsgagnrýni. Myndin er sem sé ekki óraunsæ eða á skjön við lífið heldur dæmisaga til íhugunar og eftirbreytni.

Gumpísk sögugreining

Forrest Gump tengist flestum stóratburðum Bandaríkjanna frá frumbernsku. Hann kennir Elvis að rokka, er fastur gestur í Hvíta húsinu og hittir alla forseta amerísku þjóðarinnar frá og með Kennedy til Nixon. Hann er við hliðina á George Wallace, síðar forsetaframbjóðanda, í frægu uppgjöri um skólagöngu blökkumanna í Alabama. Hann verður allt í einu ræðumaður á mótmælafundi gegn Víetnamstríðinu í Washington og kemur við í sellu Black Panthers. Hann fjárfestir í Apple sem hann hélt að væri ávaxtafyrirtæki. Myndin er því fléttuð útgáfa trúðsins og sakleysingjans af bandarískri sögu. Í því er hún mikilvæg andsaga stórveldis og hjálpar könum og okkur að sjá söguna í dempaðra samhengi en bandarískir haukar túlka. Forrest Gump er barnaútgáfa Bandaríkjamanna, hið titrandi sjálf á bak við grímur, ímyndir og blekkingar. Með hjálp fíflsins og skopsins er sagan endurtúlkuð. Túlkun sögu er með margvíslegu móti í bandarísku samfélagi. Í þessari kvikmynd er gefið sjónarhorn þeirra sem ekki meta fólk meira en vald, umhyggju meira en styrk, elskusemi og samstöðu meira en yfirgang. Hin mjúku gildi eru í túlkun myndarinnar mikilvægari, betri og kraftmeiri en hin hörðu.

Myndmál og líkingar

Nettar myndlíkingar ramma inn þessa mynd sem er norstursamlega klippt og meðvituð í myndmáli sínu. Gump situr á bekk í byrjun og er eiginlega að segja sögu sína á þessum bekk myndina út. Fiðrildi flögrar inn í myndina í upphafi og út í lokin og gefur tilfinningu fyrir hinu óræða. Nálægð hins yfirskilvitlega er líklega tjáð með þessu flögri. Í seinni hluta myndarinnar verður rækjubáturinn að tákni um björgun sem kemur Dan á lappirnar að nýju. Á bátnum er uppgjör Dans og Guðs og þeir Forrest lifa af mikið óveður, þegar megnið af rækjuflotanum ferst. Svo er skip grunntákn kristninnar. Rútur koma oft við sögu og tákna firringu því þar er Forrest yfirleitt hafnað og hann niðurlægður. Í myndlok hættir hann við að fara í strætó og hleypur til konunnar sem hann elskar. Í ljós kemur að hann hefur eignast barn með henni. Mikið er af alls konar tilfærslutáknum í myndinni, brúm, ökrum, götum, rennandi vatni og öðrum slíkum til að leggja áherslu á hrynjandi og ferli lífsins. Allt er á hreyfingu, fólk er á ferð á lífsvegunum. Svo má heldur ekki gleyma konfektkassanum, sem Forrest skilur sem tákn um fjölbreytilegt líf. „Lífið er eins og súkkulaðikassi. Maður veit aldrei hvernig mola maður fær.”

Skilaboð og mat

Myndin er m.a. um tengsl fólks og leit að hamingju og merkingu. Samband móður og sonar er nærfærið og vel túlkað, ennfremur tilraunir Forrest til að nálgast aðra og vera öllum góður og gjöfull þrátt fyrir andlega fötlun sína. Þá er ljóst að Forrest getur verið einstæður faðir og forsjáraðili þrátt fyrir að vera vitgrannur. Veganesti frá mömmunni er siðaboðskapur: „Heimskur er maður aðeins í verkum sínum.” Það merkir að maður er ekki heimskur í sér heldur fyrst og fremst ef maður hegðar sér heimskulega. Hinn gáfaði getur verið hreinn og klár heimskingi í lífi sínu en hinn vitgranni verið hinn mesti gæfumaður og hegðað sér dásamlega. Þau sem eru álitin lítilmótleg eru kannski þau sem gefa mest, bjarga flestu og eru stórmennin. Kanski má kreista svolítið líkinguna af konfektkassanum. Maður veit aldrei hvað verður úr fólki, hæfileikarnir sem fólk fær í vöggugjöf eru engar tryggingar um hamingjuna. Sitthvað er gæfa og gjörvileiki.

Forrest Gump er góð mynd og hrífur flesta. En auðvitað munu þau sem vilja að tilveran sé túlkuð algerlega út frá þeirra vitsmunalega sjónarhól verða fyrir vonbrigðum og þykja myndin ekki rísa undir nafni og vera jafnvel á mörkum hins væmna. Myndin er notkunarvæn fyrir hópa, sem vilja ræða um hamingjuna, tilgang lífsins, klisjur í menningunni, söguskoðanir, blekkingar, siðferði, ástina og Guð. Leikurinn er loflegur, Tom Hanks og Sallie Field eiga góðan leik, meistarataktar á öllum póstum. Kvikmyndin er konfekt og klassík. 

Bandaríkin, Ísland, Guðsríkið

Í dag höldum við hátíð í Hallgrímskirkju. Við göngum að borði Drottins. Fyrsta altarisgangan eftir meira en árshlé, raunar hlé í meira en fimmtán mánuði. Svo er líka þjóðhátíðardagur vinaþjóðar okkar vestan hafs. Textar messunnar varða guðsríkið. Íhugunarefni dagsins eru gildi, menning Íslands, Bandaríkjanna og Guðsríkisins. Það er merkileg þrenna. Öll jarðnesk ríki þarfnast heilbrigðrar gunnfestu og skipulags til góðs fyrir fólk. Guðsríkið er fyrirmynd um viðmið.

Er til nokkur góður maður?

Mér eru Bandaríki Norður Ameríku kær. Eftir guðfræðipróf frá HÍ stundaði ég framhaldsnám í Tennessee, sem er eitt af suðurríkjunum sem eiga sér mikla og marglita sögu. Mér þótti vera gefandi og heillandi. Eftir fyrsta veturinn vestra kom kom ég heim í sumarfrí og átti tal við konu hér í borginni. Hún vissi af námslandi mínu, horfði á mig djúpum áhyggjuaugum og spurði svo: „Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum?” Spurningin var frá hjartanu, heiðarleg og alls ekki sögð í gamanskyni eða af kaldhæðni. Henni var alvara. Konan hafði sterkar skoðanir í pólitík, á fólki og þjóðum. Hún var raunverulega sannfærð um, að þjóðfélag Bandaríkjanna væri illt og vegna gerðar hins ameríska samfélags væru íbúarnir skemmdir því samfélagið væri kerfislega spillt og íbúarnir þar með líka. Ég furðaði mig á fordómunum og ákvað að svara viðmælanda mínum. En rök mín breyttu engu. Það var engin leið til að fá konuna til að breyta klisjuhugsun sinni.

Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum? Spurningin hefur lifað með mér og vitjar mín reglulega þegar einhver vitleysan gengur fram af mér. Hún er tákn um einfeldningshátt sem því miður margir temja sér og rækta með sér. Jú, það er eðlilegt og nauðsynlegt að gefa sér forsendur í lífinu en vondar og vitlausar forsendur ala klisjur, fordóma og ofstæki. Og í krafti rangtúlkunar verða til falsfréttir, hleypidómar, ótti, vond pólitík, einangrunarhyggja og múgæsing. Afkvæmi slíkrar afstöðu eru mannhatur, ofbeldi, kúgun, manndráp og stríð.

Er til nokkur góður maður? Fordómar sem búa til slíkar spurningar búa í fólki sem dæmir aðra ranglega. Einstaklingar, hópar, félagasamtök, kynþættir, trúarhópar og öðru vísi fólk og jafnvel heilu þjóðirnar eru flokkuð í betri og verri, normal og ónormal, gott og vont. Til verður andstæðan við og þið.

The Declaration of Independance

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna rifja ég upp spurninguna um meinta illsku Ameríkana. Margt merkilegt er í sögu þeirrar þjóðar. Ekkert samfélag er fullkomið, hvorki hið bandaríska né íslenska. En margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. 4. júlí er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Sjálfstæðiyfirlýsingin er klassík, eitt af djásnum Bandaríkjanna og líka heimsmenningarinnar. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Mannvirðing er uppspretta yfirlýsingarinnar og skjalið túlkar kristin grunngildi og mannréttindi sem heilbrigður átrúnaður túlkar og styður.

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er magnað plagg sem fjallar um gildi og frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Þegar stjórnvöld bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa þeim. Grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda er skilgreind og viðurlög brota stjórnvalda ákveðin. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja gæði og einstaklinga. Þessa visku megum við gjarnan taka til okkar, læra af.

Viskurof

Sjálfstæðisyfirlýsingin er viðmið og stefnuvaki bandarískar menningar. Í menningarhefð okkar Íslendinga er líka hliðstæð mannsýn og lífsleikni sem við þurfum að rækta og njóta. Viskan er ekki síst tjáð í trúarhefðinni. Í íslenskum trúarritum okkar er kennt að við séum ekki bara óháðir einstaklingar sem lifum bara fyrir eigin þarfir og langanir heldur séum við meðlimir stórfjölskyldu. Hlutverk okkar er ekki að belgja okkur ekki út heldur virða samspil, kunna okkur hóf, seilast ekki of langt, iðka hið góða, gæta að mörkum okkar og köllun til að lífinu sé vel lifað og það verði farsælt. Sú hófstillingarhugsun er líka tjáð í þjóðsögunum. Boðskapur í postillum, hugvekjum, sálmum kristninnar eins og Passíusálmum er að við séum tengslaverur og ættum að sjá hlutverk okkar í stóru samhengi við náungann og Guð. Þá farnast okkur vel. Menn ættu ekki að gera efnislega hluti, fjármuni, stöðu og ytri dýrmæti að keppikefli lífsins, að hjáguðum, heldur leggja sig eftir góðu og gjöfulu sambandi við Guð og menn, sinna skyldum sínum í smáu og stóru, iðka réttlæti og seilast eftir farsæld – en ekki fé og frama. Jákvæð mannhugsun er tjáð í klassík Bandaríkjanna og Íslands.

Erindi lestranna

Þá að Biblíutextum sem eru bæði á íslensku og ensku í ljósrituða sálmayfirlitinu. Í dag er vísað í stóru málin. Lexían varðar að fólk er kallað út úr hinu þrönga samhengi og til hins stóra. Kall Guðs varðar að fara pílagrímaferð til nýrrar tilveru. Þegar Guð kallar reynir á hugrekki: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera.“ Hver þorir að slíta sig í burtu, fara?

Þetta var kall þeirra sem fóru frá heimaslóð til að flytjast til Íslands á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Og staða þeirra sem fóru til Bandaríkjanna á sinni tíð til að setjast þar að. Það þarf mikið þrek og hugrekki til að bregðast við boði um að taka sig upp og fara inn í nýjar aðstæður og til nýrrar tilveru. Stef lexíunnar er síðan endurunnið í pistilinum sem varðar að efla nýtt samfélag þar sem alls konar og ólíkt fólk er leitt saman. Hið nýja og óvænta verður þegar Guð kallar fólk frá hinu gamla, hinu hefðbundna, líka fordómum og til hins nýja. Til verður samfélag á grundvelli nýrra gilda, nýrrar mannhugsunar og nýrrar samfélagshyggju. Guðspjallið dregur svo saman að guðsríki Jesú Krists er hið nýja mannfélag elskunnar, samheldni, virðingar og kærleiksríkrar umhyggju. Í guðspjallinu er farið að baki fordómum. Hið illa má og þarf að hverfa. Illa anda, þ.e. hvers konar illsku og mannskemmandi afstöðu, þarf að kveða burt. Í endurvinnslu guðsríkisins skal hið illa fjarlægt. Segja skal skilið við það sem eyðileggur mannvirðingu, virðingu fyrir lífinu, fyrir öðrum. Guðstrú kallar fólk til virðingar fyrir sköpun Guðs, samfélögum, öðru fólki og eigin lífi.

Hver er vinsemd þín?

Og þá er komið að þér og vinsemd þinni. Hver eru gildi þín og hvernig bregst þú við þeim sem eru þér ólík og koma að utan? Ertu til í að leyfa fólki að njóta sannmælis? Ríkir í þér mannvinsemd, sjálfsvinsemd og lífsvinsemd? Slík vinsemd er tjáning trúar á Guð sem elskar fjölbreytni. Eru í þér fordómar um að þau sem ekki hugsa eins og þú séu annars flokks? Er komið að endurskoðun? Þarftu að endurskoða klisjur þínar, jafnvel fordóma um þitt eigið sjálf og persónu? Þarftu að heyra kall lexíunnar að þú þurfir að halda í merkilegra ferð sem Guð kallar þig til? Þarftu að leyfa Guðs góða anda að næra vinsemd þína til eigin lífs, eigin sjálfs, til annarra, samfélagsins, heimsins sem við búum í og náttúrunnar sem umvefur þig með svo ljúflegu móti?

Guðstrú varðar að stækka tilveru okkar. Guð er ekki handbendi og málsvari hins smáa, héraðs, menningar eða þjóðar. Guð er skapari heimsins, sem kallar okkur til að virða sköpun sína, náttúruna, annað fólk. Við erum ekki kölluð til klisjulegrar einfeldni heldur til virðingar fyrir grunngildum, góðu samfélagi, friði og réttlæti. Köllun okkar allra er að tengja lífið við Guð með þeim hætti að við verðum fulltrúar Guðs í heimi. Okkar hlutverk er að þjóna fólki vegna þess að það er lífsafstaða trúmannsins að gera öðrum gott því Guð vill þessum heimi gott.

Er nokkur góður maður í Ameríku? Er nokkur góður maður á Íslandi? Er nokkur góður maður í þessu húsi í dag? Velferð Bandaríkjanna og lífsgæði á Íslandi eru háð því að við iðkum mannvirðingu. Við erum kölluð til að vera borgarar Guðsríkisins, abyrgir fulltrúar ríkis Jesú Krists. Amen.

Prédikun í messu í Hallgrímskirkju 4. júlí 2021. Fimmti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð. Myndina af drengjunum tók ég fyrir sex árum. Hattarnir og hálsfestin voru gjöf sendiherra BNA en drengirnir Guðsgjöf. 

Lexía: Fyrsta Mósebók 12.1-4a
Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum.

Pistill: Rómverjabréf 16.1-7
Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.

Guðspjall: Lúkasarguðspjall  8.1-3
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Frelsið eða dauðinn

Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Við komum bílnum fyrir í skugga frá stóru tré á bílastæðinu við Arkadiouklaustrið og röltum að hliðinu. Klaustrið stendur á lítilli sléttu í fimm hundruð metra hæð yfir sjó. Útveggir eru sem virkisveggir, klaustrið ferhyrnt og klefar og salarkynni klaustursins við útveggina. Við fórum um hliðið, greiddum elskulegum klausturverði aðgangseyri og gengum inn í klausturgarðinn. Við Elín Sigrún höfðum komið þarna fyrir mörgum árum og það var ljóst að margt hafði verið gert síðan til fegrunarauka og fræðslu. Vel hirtar rósir, kryddrunnar, ávaxtatré, margar tegundir blóma og vínviður glöddu augu. Svo var komið glæsilegt safn, sem gaf innsýn í sögu klaustursins. Og tíminn varð eiginlega þykkur.

Við gengum úr einni vistarverunni í aðra, dáðumst að húsum, munum og málverkum. Presturinn íhugaði mun vestrænnar og austrænnar kristni, helgimyndagerð – íkónógrafíu Grikkja og klausturskipulagið. Svo komum við að norðvesturhorni klaustursins og fórum alveg inn í horn. Þar var gangur og hlið og þar stoppuðum við. Þar vorum við komin að einum átakanlegasta stað Krítar. Og drengirnir mínir upplifðu þungan nið sögunnar og skelfingu stríðs.

Grikkir og Tyrkir hafa barist um aldir. Á nítjándu öld var Krít stríðssvæði. Árið 1866 flýði hópur í skjól í klaustrinu undan framsókn Tyrkja. Fimmtán þúsund hermenn á vegum Tyrkja sóttu að því. Þó klaustrið væri víggirt væri ekki hægt að verjast ofurefli. Engin hjálp barst að utan og Tyrkirnir brutu allar varnir. Augljóst var að blóðbaðið yrði ægilegt og fólkinu yrði misþyrmt og það vanhelgað. Og þá voru kostirnir tveir heldur aðeins einn: Dauði. Börn, konur, munkar og hermenn, á níunda hundrað manns, söfnuðust í gamla vínkjallarann. Þar voru tunnur með því púðri sem eftir var. Þegar Tyrkirnir komu hlaupandi var kveikt í púðrinu. Sprengingin var svo öflug að steinhvelfingar yfir þessum sal dauðans splundruðust og grjót og brak dreifðist víða. Dauðinn kom skjótt.

Tyrkirnir þóttust hafa unnið mikinn sigur, en dauði píslarvottanna hleypti lífi í frelsisbaráttu Krítverja og varð sem tákn fyrir alla Grikki. Rendurnar í fána Grikkja eru tákn um kostina sem einstaklingar og þjóðin hafa orðið að velja, frelsi eða dauða. Það var þrúgandi að standa á þessum stað þar sem svo margir létu lífið. Þjáningin var nánast yfirþyrmandi. Sótið er enn á veggjunum og eins og blóðlyktin hefði ekki alveg horfið. Miklir steinveggir, engin hvelfing heldur aðeins opinn himinn. Og við fórum inn í kirkjuna í miðjum klausturgarðinum, kveiktum kerti fyrir fórnarlömb grimmdar og stríða, táknkerti um rétt manna til að búa við öryggi og frið.

Hverjar eru hugsjónir okkar? Eru gildi algerlega sveigjanleg og afstæð? Eða er eitthvað svo mikils virði að án þess tapi lífið gildi? Er grimmd einhverra svo skelfileg, að skárri kostur sé að sprengja sig og börnin sín í loft upp? Foreldrum fyrri tíðar hefur það verið skelfileg siðklemma. 

Fyrir tæpum sautján árum (11. september) vorum við Elín Sigrún á þessum sama stað og íhuguðum frið og stríð, átök þjóða og hlutverk okkar. Á þeim degi var flugvélum rænt og m.a. flogið á tvíburaturnana í New York. Það var einkennilegt að koma frá klaustrinu og heyra um árásirnar í Bandaríkjunum. Þá sprungu flugvélar í okkur öllum. Hvaða gildi getum við gefið drengjunum okkar og iðkað svo þeir hafi veganesti til lífgjafar en ekki grimmdarverka? Við vildum sýna þeim þetta gríska klaustur sem væri tákn um baráttu fólks á öllum öldum. Þetta var ekki skemmtiferð, sem við fórum, heldur ferð á vit gilda, hugsjóna og lífsgæða. Þegar bænakertin ljómuðu inn í kirkjunni kviknaði bál tilfinninga hið innra. Aldrei aftur Masada, aldrei aftur Arkadiou, aldrei aftur Verdun, aldrei aftur Sýrland… Gegn dauðanum stendur alltaf frelsið, eini valkosturinn. 

11. júní 2018

Aldrei aftur París

Sonur minn horfði á móður sína og sagði: „Mér finnst allt vera breytt.“ Drengurinn tjáði okkur að honum þætti veröldin væri önnur eftir morðin í París. hann fann að foredlrum hans var brugðið og skelfdist það sem hann heyrði í fjölmiðlum um voðaverk óðra manna. hann óttaðist að þriðja heimsstyrjöldin væri hafin. 

129 manns létu lífið í París í fyrradag. 352 særðust og þar af eru um eitt hundrað í lífshættu. Við kveiktum ljós fyrir allt þetta fólk í gær á kyrrðarstund í kirkjunni og komum þeim fyrir í kórtröppunum. Ljósin voru óhugnanlega mörg og þöktu efstu tröppurnar. Smátt og smátt erum við að fá tilfinningu fyrir umfangi, dýpt og hryllingi þessara voðaverka glæpamanna sem standa fremur með dauðanum en lífinu.

Þau sem létu lífið eru í bænum okkar, ástvinir þeirra og franska þjóðin. Og hverjir voru þessir glæpamenn sem myrtu saklaust fólk með köldu blóði, skutu fólk sem sat úti fyrir kaffihúsum og á tónleikum og sprengdu sprengjur – og sjálfa sig með – m.a. við þjóðarleikfang Frakka, Stade de France. Það voru ekki einhverjir gamlir, vitskertir, siðblindir kallar heldur fyrst og fremst ungir menn, sumir voru unglingar, aðeins 15-18 ára gamlir. Þessi drengir hafa verið aldir upp í og heilaþvegnir til að standa fremur með dauðanum en lífinu. Hvers konar afstaða er það? Hvers konar viðhorf og siðhrun er það? Öll heimsbyggðin er agndofa gagnvart hryllingnum. Allt er skelfilegt varðandi hörmungaratburðina í París.

Og hvað eigum við að gera? 

Hvernig getum við brugðist við? Samfélagsmiðlarnir loga og margt er þar vel sagt. Mikil samúð er tjáð, fólk speglar samstöðumyndir með Parísarbúum og Frökkum, litar prófílmyndirnar á facebook í frönsku fánalitunum og smellir inn friðarmynd af Eiffelturninum með krossi í miðju. En svo eru önnur sem bregðast við með gífuryrðum og hella úr skálum reiði sinnar með því að tengja ófriðinn við fólk sem hefur ekkert til saka unnið. Það þjónar ekki réttlæti eða friði að uppteikna alla múslima sem djöfulóða öfga- og glæpamenn. Er það hjálplegt í þessum hryllilegu aðstæðum að fella alla múslima í einn hóp? Búa til úr þeim hóp sem eru allt annað en “við?” Nei, allir múslimar eru ekki ábyrgir fyrir þessum hryllingi frekar en að ég og þú eigum sök á fjöldamorðunum í Útey í Noregi. En það þjónar hins vegar ekki friði eða réttlæti að bregðast við með því að afneita alvöru málsins. Stríð í Austurlöndum nær eru stríð sem okkur varða og vandi íbúa þeirra einnig. Fólkið sem flýr Sýrland til Evrópu er að flýja sömu glæpamennina og sama drápshópinn og réðst á Parísarúa. Átökin eru ekki aðeins átök stríðandi hópa sem berjast til valda. Stríðin varða afstöðu til lífsins, siðferði, rétt minnihlutahópa, hvort úrelt hugmyndakerfi fái ráðið.

Hvað eigum við að gera? Hvernig eigum við að bregðast við? Við getum margt lært af viðbrögðum Norðmanna við fjöldamorðunum í Noregi fyrir fjórum árum. Þá létu Norðmenn ekki dauðann ráða heldur lífið og lífsástina. Gegn hatri og grimmd létu Norðmenn hatur og ótta ekki ráða för heldur kærleika og mannúð. Forystumenn múslima og kristinna, húmanista, trúmanna og vantrúarmanna tóku höndum saman um að treysta frið og eindrægni í samfélaginu. Haldnar voru fjöldasamkomur í kirkjum og á torgum, í moskum og félagsmiðstöðvum til að fólk gæti sameinast um lífið til að dauðinn fengi ekki sigrað.

Prófið mikla

Nú er komið að miklu prófi menningar Vesturlanda. Hvernig eiga franska þjóðin og okkar heimshluti að bregðast við dauðasveitunum? Hvað er best og ábyrgast að gera? Er það valkostur að Vesturlönd fari í stríð við Islamistanna? Hófst þriðja heimstyrjöldin í París? Margir halda að svo sé en við eigum ekki að láta ofbeldismennina ráða, við eigum aldrei að láta eða leyfa glæpamönnum að stjórna samfélögum eða lífi okkar. Okkar köllun og okkar skylda er fyrst og fremst að standa með lífinu en ekki dauðanum. Standa með rósemi en ekki ótta. Efla friðinn en ekki óreiðu og órétlæti.

Fellur aldrei úr gildi

Kæru fermingarungmenni sem sitjið á fremstu bekkjunum í kirkjunni í dag. Hvaða afstöðu ætlið þið að taka? Hvað ætlið þið að gera í ykkar lífi? Hvaða stefnu ætlið þið að taka? Hvernig gildi viljið þið temja ykkur? Og þær spurningar varða okkur líka sem eldri erum.

Tíma einfeldninnnar er lokið um hvað trú og siður sé. Það skiptir máli hver eru gildi okkar og lífsafstaða. Við höfum alist upp í menningu sem er gegnsýrð og mótuð af kristindómi, kærleiksboðskap Jesú, umburðarlyndi, tillitssemi, fyrirgefninu og kærleika. Sá boðskapur fellur aldrei úr gildi. Kristin gildi eru leikreglur vestrænna samfélaga og hafa haft áhrif á viðmið, uppeldi, samskipti, menntunarstefnu og löggjöf. En mörgum hefur sést yfir í hraða og erli síðustu ára hve kristnin er samofin mestu dýrmætum menningar okkar. Nú er komið að krossgötum. Viljum við frelsi, jafnrétti og bræðralag sem er slagorð frönsku byltingarinnar sem jafnframt eru gildi kristninnar? Eða eitthvað annað? Það er ekki valkostur að afskræma trú og menningu annarra og það er ekki valkostur að afskræma hinn kristna sið og gildi heldur.

Ræða stóru málin

Við þurfum hugrekki til að ræða trú og sið, menningu og ómenningu opinskátt og í almannarými samfélagsins. Við þurfum að ræða málin í skólum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlunum og í almenningnum. Við megum gjarnan vera eins og Jesús Kristur og horfa á alla með augum ástarinnar, með hlýju en fullkomnu raunsæi og einbeittri skynsemi. Nú flæða inn í vestræn samfélög, og brátt okkar líka, fólk með allt öðru vísi mótun, annan hugsunarhátt og viðhorf. Móttökur okkar eiga að vera kærleiksríkar en skynsamlegar. Við megum og eigum að gera kröfur um að fólk virði leikreglur vestrænna samfélaga, vestrænnar gagnrýni, vestrænnar löggjafar – hins vestræna vefs menningar.

Aldrei aftur París

Já, það er allt breytt. Við stöndum á krossgötum og þurfum að hugsa okkur um og taka stefnu, án ótta, með upplýstri trú og af kærleiksríkri einurð. Fjöldamorðin í París eru árás á gildi, trú, menningu og stefnu vestrænna þjóða. Stríðsyfirlýsing gagnvart siðum og venjum Vesturlanda. Skipta þau okkur máli? Tíma einfeldninnar er lokið. Við stöndum með Frökkum. Við erum öll Parísarbúar þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa skothríðinni í París að hræða og beygja okkur? Nei. Glæpur var unnin á frönsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki fólk deyja til einskis, heldur heiðrum þau með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur París.

Íhugun í Hallgrímskirkjumessu 15. nóvember, 2015

Hjarta og hugrekki

hjarta2Vilborg Arna Gissurardóttir fór alla leið á pólinn. Hún hefur grunngildi sín á hreinu og skráði þau á heimasíðu sína. Hún skrifaði þau innan á tjaldið sitt líka. Þau blöstu því við henni alla daga og minntu hana á hver hún væri og í krafti hvers: „Með gildi mín: jákvæðni, áræðni og hugrekki ætla ég að ná markmiði mínu.“ Stefnan var því skýr og í samræmi við innri afstöðu. Ofurkuldi, slæm færð, stórviðri, veikindi, svengd og kal brutu ekki niður, heldur urðu fremur verkefni Vilborgar til að vinna með. Lesa áfram Hjarta og hugrekki