Greinasafn fyrir merki: Gerður Kristný

Jarðljós

Gerður Kristný kom í gættina hjá okkur, brosti og rétti fram nýjustu ljóðabókina, Jarðljós. Bókin brosir við manni og opnar faðminn ákveðið og innilega. Ég las bókina alla í gærkvöldi og svo aftur í dag. Og stefni að því að lesa hana alla á morgun því hún hún á margþætt erindi. Og þannig eru góðar bækur og allar sem við köllum klassískar.

Það er kyrra í þessari bók, ekki stilla eða lognmolla heldur fremur laðandi dýpt. Bókin er ekki ljóðabálkur heldur í stefjum og hlutum. Gerður Kristný fer víða. Hún vitjar hörmulegra atburða, náttúruundra, níðingsverka, ljóðar um kraftaverk og ljósbrunna lífs og veralda. Hún er snillingur merkingarsnúninga – alvöru skáld hefur smekk og getu til slíks. Gott dæmi er ljóðið Blíða:

Himinsvellið brestur

sólin laugar sveitir

leysir ísa

stuggar burt skuggum

 

Enn erum við minnt á

að við fæðumst úr myrkri

og hverfum um síðir

þangað aftur

 

Um stundarsakir

lögum við okkur

að ljósinu

Gerður Kristný vinnur oft með sögulegt efni og líka inntakið í goðsögum. Þegar hún vísar til einstaklinga er merking þeirra og lífs fléttuð svo sagan verður ávirk og kemur okkur við. Mér þótti vænt um hve mörg ljóðanna voru táknsterk. Ljóðlist Gerðar Kristnýjar er marglaga og djúpið að mínu viti í þeim er trúarlegt, ekki í þröngri merkingu heldur víðfeðmri. Veröld Gerðar Kristnýjar er ekki einföld heldur litrík og þrungin merkingu. Í henni eru undrin ekki gestir. Og minni trúarbragðanna eru nýtúlkuð og smellt í skapandi samhengi. Þessi ljóð smætta ekki heldur opna möguleika og leiðir. Biblíuleg dauða- og lífs-saga verður í meðförum hennar hnyttin nútímasaga. Í þessari bók er laðandi efni sem á örugglega eftir að rata í jólahugleiðingar. Frábær bók og ég segi takk fyrir mig og mun áfram ausa af þessum ljósabrunni.