Greinasafn fyrir merki: Geir Helgi Geirsson

Geir Helgi Geirsson

Útför frá Neskirkju 14. desember 2007. Minningarorðin eru hér að neðan. 

Geir las alltaf notkunarleiðbeiningarnar! Á sálmaskránni er dásamleg mynd af honum að skoða kort og gögn. Hann vildi vita hvernig hlutir voru gerðir og hvernig ætti að fara með þá til að vel gengi og skemmdum væri varnað. Gilti einu hvort það voru notkunarleiðbeiningar Lister-ljósavéla, bíls, þvottavélar eða DVD-spilara. Geir var sjálfur öflugur framkvæmdamaður og mat gott verk, en grunnur þess var að hann flanaði ekki að neinu. Fagmennska er að þekkja gerð og ferla og gera hlutina vel.

Biblían er leiðarvísir um gott líf. Hana þarf að lesa og nema boðskap hennar til að allt gangi vel upp. Þar er rætt um tilgang lífsins og tengslin við þann sem stýrir þessari stóra veraldarskipi. Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og barn, sem starir hrifið upp í glitrandi næturhvelfinguna.

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”

Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum ótrúlega stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg strandflutningaferð milli tveggja fjarða, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður, þessi sem við köllum Guð? Sálmaskáldið forna var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:

 „… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri…
Drottinn, Guð vor,            
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“

Foreldrar og fjölskylda

Já Geir fæddist inn heim elskunnar. Og sá heimur var líka veröld farmennskunnar. Pabbinn var vélstjóri á Fossunum og þjónaði Eimskipum. Eybí sá um, að börnin þeirra Geirs Jóhanns fengju gott veganesti, hún hélt vel um hópinn sinn. Allur skarinn fór svo niður að höfn þegar pabbi kom. Þá voru dýrðardagar, þá var hægt að gleðjast þó engin væri hátíð í öðrum húsum.

Þau Geir Jóhann Geirsson (31.10. 1917 – d. 2.8.2005) og Eybjörg Sigurðardóttir, eða Eybí, (10.04. 1926) eignuðust fyrst Þorvald (13. október 1952). Síðan kom Geir Helgi (18. desember 1953), Lovísa er næst-yngst (21. janúar 1956) og Valgerður yngst (16. maí 1962). Hálfsystir Geirs Helga og elsta barn Geirs Jóhanns er Nína (1. maí 1946).

Fjörug bernska

Þeir Þorvaldur og Geir Helgi sýndu snemma, að þeir voru efni í farmenn, létu sig stundum hverfa skyndilega og lögðu upp í miklar ferðir, frá Hagamel og síðan upp alla Hofsvallagötu í átt til afa og ömmu á Brunnstíg. Þetta voru engar skyndiferðir heldur drógu þeir vörubílinn sinn í gengum alla polla og verklegar fyrirstöður á leiðinni. Það má vera gaman á ferðalögum. En mamma þeirra var þó stundum hrædd. Og myndin af þessum litlu ferðamönnum er heillandi. Stundum undrast maður að börnin lifi af allar hættur bernskunnar!

Hagarnir og Melarnir voru undraland fyrir uppvaxandi ungviði. Barnafjöldin var mikill, ströndin var nærri – upplagt að skella gúmmítuðru á flot. Svo var flugvallarsvæðið líka spennandi vettvangur og höfnin líka. Margt var brallað og engin takmörk hvað gáskafullir krakkar geta upphugsað. Þeir bræður náðu jafnvel að blása upp gúmmíbát inn í flugskýli. Svo var auðvitað dásamlegt að eiga systurnar til að gantast við.

Skólar og atvinna

Geir fór í Melaskólann og svo í Hagaskóla. Eftir að skyldunámi lauk tók Geir að lokum frumlega ákvörðun. Hann ætlaði til starfa í sömu vélsmiðju og faðir hans áratugum fyrr, vestur á Þingeyri. Þar með hafði hann kastað sínum lífsteningum. Hann lærði handverkið, fór svo í Vélskóla Íslands og útskrifaðist sem vélstjóri árið 1975. Eins og faðir hans þjónaði hann Eimskipum, byrjaði í sumarafleysingum árið 1972 og var fastráðinn vélstjóri frá 1976. Hann þjónaði svo þessu óskabarni þjóðarinnar allt til lífsloka, fór um heiminn, flutti lífsnauðsynjar til landsins og út það sem skapaði þjóð og fólki tekjur. Hann var í þjónustu okkar. Á síðari árum urðu ferðirnar styttri, en kannski ekki auðveldari. Þegar bilanir urðu og fárviðri geisuðu reyndi á vélstjóra. Þá var reynt í öllu stálið, mönnum og tækjum. Og vélstjórinn mátti alls ekki bregðast, annars væri voðinn næsta vís.

Mér hefur verið falið að bera ykkur kveðju starfsmanna Eimskipa. Mörg skip eru á sjó og margir félagar Geirs hefðu viljað vera hér í dag en eru fjarri og þó í huga nærri. Eimskip þakka samstarf frábært starf Geirs í 32 ár. Sömuleiðis biðja Auður Rafnsdóttir og Júlíus Bjarnason fyrir kveðjur, en þau eru erlendis.

Helga – hamingjudísin hans Geirs

Það var einn kaldan desemberdag, að Helga var með systur sinni að keyra fram hjá Þórskaffi. Þá sá hún mann standa í nepjunni fyrir utan. Ekki veit ég hvaða pick-up línu hún notaði, en hún kippti manninum upp í bílinn og keyrði hann heim. Geir hefur sjálfsagt þótt talsvert um framtak hennar, alla vega vildi hann hitta hana þegar hann var búinn að hugsa um hana í heilan túr. Hann hringdi og svo byrjuðu þau að draga sig saman. Systkinum hans þóttu þetta mikil tíðindi, enda hafði Geir ekki verið í útstáelsi. Og hinar góðu fréttir bárust hratt í fjölskyldunni. Þótt Helga væri ekki alveg viss um stöðu sína fann hún fljótt, að hún var velkomin, enda var og hefur heimili Eybíar og Geirs Jóhanns eldri alltaf verið örugg friðarhöfn. Mosfellssveitarfjölskylda Helgu tók Geir jafn vel og Vesturbæjarfjölskyldan henni. Samheldnin einkenndi báða vængina og það er auðvitað ómetanlegt lífslán að eiga góða að, sem kunna að rækta samhug og gott samkomulag. Það er höfuðstóll, sem nýtist þegar áföllin verða.

Fyrst bjuggu Geir og Helga í Markholtinu og svo fengu þau lóð á Leirutanganum í Mosfellsbæ og fóru að byggja. Geir var sjálfbjarga á öllum sviðum og svo nutu þau allra hjálpandi ættingja í báðum fjölskyldum. Guðjón og bræður Helgu grófu. Geir lét verkin tala og húsið reis ótrúlega hratt. Svo fluttu þau inn og margt var ógert. Ekki voru allar dyr komnar og Geir hafði engar áhyggjur af þó vaskar og klósett væru ekki tengd þegar þau fluttu inn. Hann bara kippti snarlega slíkum smámálum í lag. Helga þurfti ekki að kvaka í lífinu. Geir gekk í verkin og kunni til allra framkvæmda. Svo færði hann út kvíarnar, studdi Helgu í garðavinnunni og féll að lokum alveg fyrir útivinnunni, við umhirðu runna, trjáa og beða. Veikur var hann í sumar þegar hann var á fullu í að arfahreinsa beðin. Hann var á undan sinni samtíð og smíðaði m.a. fallega beðakanta. Það þarf ekki glöggt auga til að sjá hversu allt er vel og haganlega unnið í Leirutanganum, til að sjá hversu góður verkmaður Geir var. Og svo eru allar hans framkvæmdir líka vitnisburður um heimilismanninn. Hann hafði á heimsferðum sínum lært að meta gæði hins heimafengna, fólksins síns, heimarammans. Hann naut þess að vera heima, naut þess að sýsla við hið einfalda heimilislíf, sjá fólkið sitt, tala við það, vera með því. Atið var nægilegt í vinnunni, og svo þegar hann kom heim skildi hann vinnuna eftir á hafinu og í skipunum. Hann hafði enga þörf fyrir að færa í sögur hættur, rosa og áföll. Hann þurfti að hvíla sig ef ferðirnar höfðu reynt á, en svo var hann algerlega kominn heim, var til reiðu fyrir fólk og verk. Í því er Geir okkur hinum mikil fyrirmynd.

Helga og Geir voru ástfangið hamingjufólk og nutu barnaláns. Helga var hamingjudísin hans Geirs. Hún kom með Guðjón Reyr Þorsteinsson (18.9. 1978) í sambúðina og Geir gekk honum í föður stað. Síðan eignuðust þau Eybjörgu (5.3. 1982). Hennar sambýlismaður er Tómas Haukur Richarðsson og þau eiga Alexander Aron, sem var augasteinn afa síns. Nína Björk kom svo (4.10. 1983). Hennar sambýlismaður er Pétur Óskar Sigurðsson. Geir Jóhann (20.08. 1993) er yngstur. Leirutangaheimilið einkenndist af samstöðu. Helga og börnin hafa misst mikið. Guð geymi ykkur í ykkar sorgarför.

Samstaða

Það hefur verið hrífandi að heyra börnin tala um pabba sinn og tengslin við hann. Guðjóni reyndist Geir ráðhollur faðir og var alltaf til reiðu þegar Guðjón þarfnaðist hans með. Svo var hann föður sínum traustur vinur þegar Geir veiktist og sigldi sína kröppu veikindasiglingu. Þá gat Guðjón miðlað af því hvað hafði orðið honum til hjálpar og þeir ræddu líka um trú, um Guð, um hvað maður getur gripið í þegar allt er komið í strand. Það er ekki sjálfgefið að ástvinir kunni til svona samtals og gagnkvæmrar styrkingar, en gott þegar svo er.

Geir var stoltur af börnum sínum og hafði efni á því, gladdist þegar vel gekk, studdi þegar þörf var á, fagnaði þegar sigrar unnust, og var þeim stuðningur og gagnrýnir þegar þess var þörf. Hann var samstiga Helgu í að skapa festu í heimilislífinu, beitti sér til að fólkið hans lærði góð samskipti og að læra að leysa mál með friði en ekki látum. Það var góð skikkan á öllum málum. Geir var kannski ekki besti kokkur í heimi, hélt sig við það sem hann vissi að hann gæti gert skammlaust. En hann skilaði sínu af heimilisstörfunum með meiri ágætum en flestir jafnaldrar hans!

Hæfni og eigindir

Það er góð samfella og heilindi í lífi Geirs. Hann valdi sér lífsstarf sem heillaði hann, gat notað hæfni sína til að verða öflugur í sínu fagi. Hann hafði áhuga á farmennsku, notaði tímann til að fræðast um lönd og menningu. En á bak við hinn kunnáttusama farmann, vélstjóra og heimilismann var hinn íhuguli Geir. Á tímum asasóttar kunni Geir manna best að núllstilla. Hann gat sest niður í fullkominni yfirvegun, leyst krossgátu, jafnvel tölvuleik, en hæfni hans kom kannski best fram í vinnu við eitthvert ofurpúslið. Geir, fagmaðurinn, kom sér meira að segja upp púslaðstöðu, kenndi sínu fólki þessa góðu slökunaraðferð og Alexander Aron skilur orðið hvað maður gerir og hvernig maður þarf að beita hugsun, yfirsýn og útsjónarsemi.

Geir kom sér líka upp annarri gæðalind sem var arininn sem þau Helga höfðu í stofunni. Arininn var notaður og Geir kveikti upp, jafnvel á hverjum degi. Allir eldmenn heimsins vita hve dásamlegt er að fylgjast með leik glóðar, stara í litaspilið, hrífast af dansi loganna og nema hlýjuna sem sækir út og inn í húð og huga. Við elda hefur menning heimsins orðið til, sögur verið sagaðar og lífsspeki verið miðlað. Við elda farmanna heimsins hefur kunnátta breiðst út meðal fólks. Við eldinn geta glöggir menn séð í djúp eigin tilveru, numið hvað er gott og hvað má kyrrt liggja.

Geir hafði í sér eigindir til að rækta innri mann og ná kyrru. Þar með gat hann verið góður og öflugur maki, góður faðir, fagmaður, ferðamaður – já góður maður. Öll erum við kölluð til að skila góðu dagsverki á heimili og í vinnu, en mest og best er að vera góð manneskja, vera það sem maður er í grunninn, iðka það sem maður er kallaður til og hefur hæfni til. Þannig var Geir Helgi Geirsson.

Hin mikla för

Geir Helgi fór og farmaðurinn kom alltaf aftur. Nú er hann farinn í ferð, sem er mesta ferð mannsins, ferðin inn á haf eilífðar. Hann vissi að hverju dró. Hann hafði starað upp í himininn, séð tungl og stjörnur, hrifist og verið snortinn, en vissi líka vel að engin ferð verður nákvæmlega með því móti sem menn hugsa sér, allar ferðir verða með öðru móti en áætlað hefur verið. Í því er viska förumannsins fólgin. Ferðir í þessum heimi eru líka æfingar fyrir ferðina inn á haf ljóssins. Munið að leiðbeiningarrit veraldar, Biblían, segir okkur að “vélbúnaður” himinsins er meira en sem við sjáum með berum augum, miklu stórkostlegri. Nú má Geir njóta gangverks eilífðar. Það er gott verkefni og “manualarnir” væntanlega skemmtilegir aflestrar!

Geir var mikill lýsingarmeistari. Á aðventunni dró hann mikið safn af vírum og ljósaseríum fram, kom fyrir í garðinum sem ljómaði á þessum myrka tíma. Á þessari aðventu gat hann ekki sinnt því skemmtiefni og nú tóku börnin hans við. Kynslóðir koma og fara svo. Nú var það þeirra hlutverk að splæsa saman víra og læra lýsingarlistina. Það var Geir örugglega sárt að finna til vanmáttar síns, en hann vissi vel, að börnin hans höfðu hlotið gott veganesti, gott uppeldi, þau megna öll að axla ábyrgð – í þessu sem öðru. Nú er það þeirra að lýsa, leyfa ljósinu að mæta nóttinni, leyfa ljósinu að minna sig á að pabbi þeirra er í ljósinu himneska.

Geir kom alltaf til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann er í ljósríki Guðs, siglir á hafi elskunnar. Í því er undur kristninnar að boða elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, leiðir og blessar. Guð huggi ykkur sem syrgið. Guð geymi Geir Helga Geirsson um alla eilífð.

Jarðsett í Lágafellskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. Fjóla Haraldsdóttir, djákni, las lexíu og bað bæn. Jónas Þórir sá um undirleik. Einsöngur Sigrún Hjálmtýsdóttir og Hanna Guðný Hallgrímsdóttir. Gítarleikur Emil Hreiðar Björnsson. Kórsöngur Karlakórinn Stefnir.