Guðbjörg Þorvarðardóttir – 30. mars 1951 – 28. ág. 2022
Gauja var orðin dýralæknir á Hólmavík. Enginn vissi hvernig konan, sem hafði orðið fyrsti héraðsdýralæknirinn, myndi reynast. Væri hún gunga eða myndi hún duga við erfiðar aðstæður? Gæti hún læknað skepnurnar? Það voru jú aðallega stórgripir sem hún yrði að sinna í sýslunni. Gæti kona tekið á kúm og hestum og komið þeim á lappir? Væri henni treystandi til vetrarferða á svelluðum, fáförnum vegum í blindhríð og myrkri? Áleitnar spurningar voru bornar fram við eldhúsborð Strandamanna. Kraftatröllin sáu svo að hún tók til hendinni. „Það er töggur í henni“ – var hvíslað. Gauja keyrði ekki útaf og hún kom þegar kallað var. Hún hafði líka fræðin á hreinu og svaraði skýrt þegar spurt var um hvað ætti að gera. Virðingin óx.
Svo var hluti af starfi hennar að vera heilbrigðisfulltrúi og framfylgja lögum og reglum um hollustuhætti. Gauja kom í kaupfélagið og sá sér til furðu að kjöt og grænmeti voru ekki aðgreind í búðinni. Blóðvessar fara illa með salatinu. Hún talaði við kaupfélagsstjórann. Hann lofaði að klára málið og tryggja að farið yrði að reglum. Svo leið tíminn. Gauja kom í búðina að nýju. Þegar hún var að smella vörum í körfu sá hún að ekki hafði verið lagfært. Allt var við það sama, ekki hafði verið hlustað á heilbrigðisfulltrúann. Hún bölvaði, sem ég ætla ekki að hafa eftir, rauk upp og til kaupfélagsstjórans og talaði svo kröftuga íslensku að maðurinn lak niður í stólnum, andmælalaust. Sýsli kom, kaupfélagsbúðinni var lokað og hún innsigluð. Fréttirnar bárust með eldingarhraða um sýsluna. Nýi héraðsdýralæknirinn – já stúlkan – hafði lokað stórveldinu. Ekki var opnað aftur fyrr en úrbætur höfðu verið gerðar. Strandamenn eru sagðir hafa grátið þegar Gauja færði sig um set og fór í annað umdæmi. Þeir og dýrin höfðu misst bandamann.
Gauja var leiðtogi. Á hana var oftast hlustað og henni var fylgt. Gauja átti í sér styrk til að veita forystu og í þágu annarra. Hún ræktaði með sér sjálfstæði. Systkini hennar treystu henni. Hún var útsækinn þegar á barnsaldri, sótti út í náttúruna og til dýranna. Hún var glögg á möguleika en líka hættur. Gauju var treystandi til að marka stefnu og hópur af börnum fór gjarnan á eftir henni um mýrar og engi, móa og börð og vitjaði dýra og ævintýra. Gauja fór á undan og hin á eftir. Hún setti kúrsinn. Það var vissara og líka betra að treysta henni.
Enn ein minning: Þegar Tumi var á Hólmavík hjá fóstru sinni einhverju sinni var hann ekki kominn með bílpróf. Í dreifbýlinu hefur unglingunum frá upphafi vélaaldar á Íslandi verið trúað fyrir dráttarvélum, heyvinnutækjum og að keyra bíla. Gauja treysti sínum manni fyrir bílnum en áminnti hann að fara ákveðna leið, virða óskráðu reglurnar og alls ekki keyra aðalgötuna. Í gleði stundarinnar sinnti hann ekki fyrirmælum fóstru sinnar og keyrði út af vegi. Og kom heldur lúpulegur heim. Hún skammaði hann ekki og kunni þó vestfirsku líka. Drengurinn hafði átt von á yfirhalningu en kenndi til djúphljóðrar sjáfsásökunar fyrir að hafa brugðist Gauju. Hann lærði lexíu fyrir lífið. Það var betra að treysta dómgreind Gauju, hlýða henni. Hún var ekki aðeins leiðtogi heldur eiginlega máttarvald.
Arfur, umhverfi og nám
Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Einarsdóttir og Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson. Það var meira en bara ættartré sem blasti við Gauju þegar hún ólst upp. Vegna fjölda barna og í mörgum húsum mætti jafnvel fremur tala um ættaskóg. Alsystkini Gauju eru: Einar; Sigríður; Margrét og Þorsteinn. Hálfsystkini Guðbjargar, sammæðra, eru Þorkell Gunnar; Sigurbjörn; Kristín og Björn. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður; Þórunn; Dagbjört Þyri; Ólína Kjerúlf og Halldóra Jóhanna.
Gauja bjó í foreldrahúsum fyrstu árin. Foreldrar hennar skildu og hún fór fimm ára gömul með móður sinni að Kiðafelli í Kjós. Þar var hún í essinu sínu, leið vel með skepnunum og við sjóinn. Hún naut einnig góðrar skólagöngu. Vegna búfjáráhugans fór hún í búfræðinám í Borgarfirði. Hún var eina stúlkan í stórum strákahóp á Hvanneyri. Þeir gripu ekki í flettur hennar og hún gaf þeim ekkert eftir í námi og störfum. Alla virti hún og fann sig jafnoka allra. Gauja var aldrei í neinum vandræðum með að umgangast bændur á löngum dýralæknisferli. Í henni bjó yfirvegaður styrkur. Hún útskrifaðist sem búfræðingur frá bændaskólanum árið 1968. Hún hafði verið við nám í MR um tíma en ákvað að fara í MT, Menntaskólann við Tjörnina, og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1971. Í stúdentsbókinni Tirnu kemur fram að hún hafði hug á dýralæknanámi og er teiknað hross á myndinnni við hlið hennar. Í textanum er spáð að hún muni nota hrossasóttarlyf við bráðapest í lömbum! Spá samstúdentanna um námsstefnu rættist en hún hún varð meira en hrossadoktor í fjárhúsum. Gauja útskrifaðist árið 1981 sem dýralæknir frá KVL, Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Gauja var heimsborgari og fór til Nýja Sjálands til dýralæknastarfa og þar á eftir lærði hún röntgenlækningar í Sidney í Ástralíu. Þá setti hún stefnuna heim.
Störfin
Eftir störf í Strandasýslu gegndi hún dýralæknastöðum á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Svo togaði Reykjavík. Hún ól með sér þann draum að setja á stofn eigin dýraspítala. Hún hafði með öðrum keypt hús Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, sem er nr. 35 við Skólavörðustíg. Við hlið hússins var skúr sem Gauja reif og byggði þar hátæknispítala fyrir dýr. Húsið vakti mikla athygli og aðdáun borgarbúa fyrir búnað og hönnun. Hluti þess var blýklæddur til að varna geislun. Gauja hafði jú lokið röntgennámi og vildi nota nýjustu tækni við greiningu á dýrunum sem hún bar ábyrgð á. Gauja var dr. Dolittle og Dagfinnur dýralæknir okkar gæludýraeigenda í Reykjavík. Það var alltaf gott að koma til hennar. Hún bar ekki aðeins virðingu fyrir dýrunum heldur líka fyrir sálarbólgum eigendanna sem komu stundum hræddir og oft í mjög dapurlegum erindagerðum.
Fjölskyldulíf Gauju var litríkt. Systkinin voru mörg og ættboginn stór. Gauja hafði lært að vera öllum söm og jöfn, talaði við alla með sömu virðingunni. Hún var glaðsinna, ræðin og lagði gott til. Hún var vinsæl, virt og eftirsótt til ábyrgðarstarfa. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands í mörg ár og starfaði m.a. í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið. Gauja hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum og réttlætismálum nær og fjær. Hún tók m.a. þátt í starfi Kvennalistans og var mörgum eftirminnileg í þeim störfum. Gauja talaði við börn sem fullorðna.
Tumi
Þegar hefur verið nefndur til sögu fóstursonurinn Kjartan Tumi Biering. Hann laðaðist að Gauju í Kaupmannahöfn þegar móðir hans og Gauja voru þar í námi. Milli þeirra Tuma og Gauju varð strengur sem aldrei slitnaði og hann var langdvölum hjá fóstru sinni – í Strandasýslu, á Húsavík og víðar. Hún studdi hann, kenndi honum að keyra og að gera kartöflumús, sem er kostur að kunna í lífinu.
Juliette
Kona Gauju var Juliette Marion. Gauja bjó þegar á Skólavörðustígnum þegar þær kynntust og Juliette flutti inn til Gauju. Þær urðu par og gengu síðar í hjónaband. Þær vou góðar saman, gáfu hvor annarri styrk og samhengi og sköpuðu fagurt heimili. Þökk sé Juliette að veita Gauju ástríkan hjúskap.
Hver var Gauja?
Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Hvernig eigum við að lifa? Þetta eru setningar sem hafa verið sagðar á fundum mínum með ástvinum Gauju. Hver var hún og hvaða mynd skapaði hún með orðum sínum, gerðum og tengslum? Hver er mynd hennar í þínum huga? Jú, hún var kát, gjöful, barngóð, bóhem, frábær dýralæknir, umhyggjusöm, vísindamaður, lífskúnstner, nákvæm, skynsöm, sjálfstæð, hugrökk, nærfærin, umhyggjusöm, stórlynd, gæflynd, höfðingi, dýravinur, mannvinur, ættrækin, félagsvera, mannasættir, gleðisækin, fróð, vitur – þetta eru allt lýsingar sem hafa verið tjáðar síðustu daga og þið getið enn bætt í sjóðinn.
En Gauja var þó ekki flekklaus dýrlingur – en við skil verða plúsarnir mikilvægastir, gullið, en ekki hvort einhver blettur var hér eða þar. Í bernsku og gegningum lífsins hafði Gauja unnið með gildi, stefnumál sín og sig sjálfa. Hún hafði sín mál að mestu á hreinu, hvort sem um var að ræða kynhneigð, fjölskylduáföll, gildi eða tengsl. Þó hún væri húmoristi hafði hún ekki mikla þolinmæði gagnvart óréttlæti. Hún beitti sér gegn málum og kerfum, ef hún taldi þau gölluð og ekki síst ef þau gætu valdið skaða mönnum, málleysingjum eða náttúru. Þegar ég kom til Gauju með hundinn minn fékk ég tilfinningu fyrir kyrrlátum styrk hennar og félagslegri getu. Því fleiri sögur sem ég heyri og les dýpkar myndin af Gauju.
Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Það er tilfiningin fyrir djúpum missi sem Juliette, systkini og ástvinirnir tjá. Mér virðist að Gauja hafi verið meira en hæfur einstaklingur. Hún átti í sér getu og mátt sem var meira en bara orð, gerðir og tengsl. Af því hún var heil og óspungin var hún meira en væn manneskja. Hún var máttur sem hægt var að teysta – eiginlega fjallkona. Gena-arfurinn og dýptarmildi áa og edda skipta máli en einstaklingar ákveða sjálfir og velja hvernig unnið er úr og hvernig brugðist er við í lífinu. Gauja var mikil af sjálfri sér. Hún hafði í sér áunninn styrk og nýtti þau gæði í þágu annarra, með því að lifa vel, gleðjast, njóta, opna og vera. Hvað er það sem þú saknar mest í Gauju? Þið sjáið öll á bak miklum persónuleika og mætti til mennsku. Missirinn er sár. En hún er fyrirmynd okkur öllum um svo margt. Fjallkona.
Himinmyndir
Nú er hún farin að Kiðafelli eilífðar. Hún hlær ekki framar með þér, spilar við þig Kings Quest eða bridds, býr til forrit eða app, býður þér heim eða kemur skepnunni þinni á fætur að nýju. Hún leikur ekki jólasvein framar eða fer í annað bæjarfélag til að kaupa bensín af lægstbjóðendum. Hún heldur engan fyrirlestur oftar um galla vindmylla eða launamál dýralækna. Áramótin hennar eru komin og rífa í. Ofurgestgjafarnir Gauja og Juliette opnuðu heimili sitt oft og galopnuðu við áramót. Skrallað var á gamlárskvöldum, svo voru skaup lífsins, flugeldar og gleði. Þar á eftir fóru margir inn til þeirra Gauju. Þær úthýstu engum. Allir voru velkomnir. Laðandi og hlý mennskan stýrði. Gauja var jú söm við alla. Er það ekki þannig sem djúp-réttlætisþrá okkar uppteiknar guðsríkið – að gefa séns, opna, leyfa, henda helst engum út. Nú er partí á himnum eftir ármót – á þessum skilum tíma og eilífðar. Við þökkum fyrir líf Gauju og fyrir hana sjálfa. Því verður skrallað í Gamla bíó eftir þessa útfararathöfn. En munum að hún er ekki í því gamla, heldur farin yfir í nýja bíó – nýja lífið á himinum. Sem góður vísindamaður, sem virti mörk þekkingar og mat lífsplúsana, var hún var opin gagnvart hinu óræða. Þær víddir hafa ýmsir bóhemar lífsins kallað Guð. Við felum Gauju þeim Guði. Ég bið Guð að vera með ykkur ástvinum og vinum. Nú er það Kiðafell eilífðar eða vonandi fær Gauja að beisla himneskan fák og spretta yfir eilífðargrundirnar.
Kveðjur: Snorri Sveinsson og Þorsteinn Paul Newton.
Minningarorð SÁÞ við útför-bálför Guðbjargar Önnu Þorvarðardóttur, Háteigskirkju, 13. september, 2022, kl. 15.
Æviágrip – yfirlit
Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið.