Greinasafn fyrir merki: ganga

Ertu á leið í langa göngu?

Hvernig á maður að undirbúa göngu á Jakobsveginum, Laugavegsgöngu, suðurgöngu til Rómar eða Santíagó-göngu frá Portúgal? Jú, með því að ganga sig upp, þjálfa skrokkinn, taka til lágmarksfarangur og afla hagnýtra upplýsinga. En er eitthvað fleira sem vert er að gera? Hvað með fararblessun?

Fyrir nokkrum vikum komu hjón í Hallgrímskirkju. Þau voru á leið til útlanda í mjög langa göngferð og fannst mikilvægt að tengja alveg inn í himinn og báðu því um fararblessun. Ég las fyrir þau pílagrímatextann í 121. Davíðssálmi. Svo krupu þau við altarið og ég bað fyrir þeim og blessaði þau. Þau fóru létt í spori út úr kirkjunni. Þau gerðu afar góða ferð og gengu nærri tvær og hálfa milljón skrefa. Skömmu síðar kom svo maður í messu í kirkjunni og hann bað um fararblessun líka. Hann var líka á leið í ofurgöngu. Hann var blessaður á bak og brjóst. Þegar hann fór út úr Hallgrímskirkju sagði hann: „Nú er ferðin byrjuð.“ Nú gengur hann langa leið í suður-Evrópu.

Bílferðir eru góðar, hjólaferðir skemmtilegri en löngu gönguferðirnar bestar. Ég hef farið margar Íslandsgöngur og oft gengið Laugaveginn. Og mér þótti skemmtilegast þegar við hjónin fórum með tvíburum okkar þegar þeir voru sex ára. Ég hef líka gengið hluta Jakobsvegarins og nú langar mig að ganga meira í Evrópu og jafnvel líka í Ísrael. Göngur eru ekki bara líkamlegar áreynsluferðir, heldur fremur reisur andans. Margir ganga langt til að vinna úr lífsreynslu, áföllum og sjúkdómum. Önnur marka skil á ævigöngunni og leita að merkingu handan hins yfirborðslega.

Stækkandi hluti þjóðarinnar leggur því upp í pílagrímareisur. Prestar og djáknar þjóðarinnar taka á móti fólki, sem vill fara í kirkjuna sína og þiggja blessun til ferðar. Við Hallgrímskirkjuprestar skírum við æviupphaf og blessum líka fólk þegar það finnur til þarfar, þegar það stendur á krossgötum eða byrjar nýja reisu í lífinu. Ertu að fara af stað? Blessun er í boði. Ferðabæn Hallgríms Péturssonar er líka dásamleg:

Ég byrja reisu mín,

Jesú í nafni þín.

Höndin þín helg mig leiði.

Úr hættu allri greiði.

Jesú mér fylg í friði,

með fögru englaliði.

 

 

Hjálp!

Ég var að lesa bók um göngu ungrar konu á Jakobsveginum á Spáni. Bókin heitir Vegur vindsins og höfundur hennar er Ása Marin. Sagan greip mig strax og hélt mér föngnum. Þetta er skáldsaga um unga, íslenska konu. Hún fékk þær hræðilegu fréttir að hún væri með krabbameinvarp í brjósti. Hörmungarfréttin varð til að hún lagði upp í göngu á Jakobsveginum við norðurströnd Spánar – til að vinna með áfallið, með sjokkið, meinið innra. Hún vildi ganga með sjálfri sér áður en hún segði öðrum frá  – kærastanum, foreldrum og fjölskyldu – að hún væri að fara í uppskurð. Sagan er sögð af hispurslausri einlægni og stíllinn er teprulaus. Vegur vindsins er vel skrifuð saga um hvernig vinna megi með áfall og breyta sjúkdómsferli í bataferli.

Íhugunargöngur eru komnar í tísku og Jakobsvegurinn heillar. Pílagrímagöngur eru tákngöngur og við erum öll pílagrímar í veröldinni. Við örkum æviveginn, stuttan eða langan. Og við veljum sjálf hvernig við lifum, hvort við erum þolendur eða öxlum ábyrgð, hvort það er gaman hjá okkur eða hvort við nöldrum okkur í gegnum lífið? Á göngu og í lífinu mætum við sjálfum okkur og glímum við líkamlegar takmarkanir, veikindi og átök. Á göngu og í lífi skella á okkur öldur tilfinninga. Ef við verðum undir öldunni er hætt við að við skröpum botninn. En við getum valið hinn kostinn að mæta öldunum, stinga okkur í gegnum þær og vinna visku úr flóðinu.

Á göngu og í lífi opnast dýptir hinna stóru spurninga. Af hverju lifi ég? Hver eru gildi mín, hvernig vil ég bregðast við samferðafólki – og misskemmtilegu? Hvaðan kem ég og hvert stefni ég? Hvað á ég að gera með stóru spurninguna – um Guð? Trúi ég? Og ef ég vil trúa – hverju get ég trúað svo sátt verði í hjarta en líka skynsemi hugans? Stríð milli trúar og vísinda er tilganslaust og skaddar báðar systurnar, trú og skynsemi.

Ása Marin skrifar listilega um leit einstaklingsins að djúpri sátt í Vegi vindsins. Bókin tjáir skýrt vanda nútímamannsins gagnvart trú. Fólk þolir ekki skinhelgi en leitar samt hins heilaga. Fólk vill ekki úrelta lífsafstöðu en þráir að undur lífsins sé dýpra og stærra en krónur, klink og hlutir. Krabbinn í sögunni er tákn um kreppu karla og kvenna samtímans. Við erum á leið lífsins en með æxli hið innra, í leit að lækningu. Hvernig getum við fengið lausn vandans? Hvað er heilagt og hvernig kemur það okkur við?

Sá blindi

Þá snúum við okkur að Bartíemeusi blinda, sem sat við veginn til Jeríkó. Hann er íhugunarefni dagsins. Karlinn var í vanda. Á Jesútíma var fjörlegt helgihald í Jeríkó og fjöldi presta starfaði þar. Þetta var trúarlegur höfuðstaður og því eðlilegt að Jesús kæmi þar við á Jersúsalemgöngu sinni.

Ég hef einu sinni komið til Jeríkó, sem er í dalnum við Jórdaná. Dagur var að kvöldi kominn og yfir fjöllunum í vestri, yfir Jerúsalem, skáru stórkostlegir sólstafir dökka skýkjabakka. Litadýrðin og ljósdrama var meira en ég hef séð í öðru samhengi.

Bartímeus sat þarna en aldrei varð hann orðið vitni að sjónarspili sólstafa. Aldrei hafði hann heldur séð hina dásamlegu liti þríburablómsins, Bougainvillea, sem teygir sig um alla veggi borgarinnar. Hann hafði bara upplifað ljósaganginn innan í sér og þrá sína um lausn úr myrkri prísundinni. En svo var þessi lækningamaður Jesú kominn í bæinn.

Ertu Bartímeus?

Saga um blindan mann sem leitar lækningar er skiljanleg. En nafn mannsins er hins vegar dularfullt. Við vitum að að fyrri hlutinn – bar – þýðir einfaldlega sonur. Nafnið Bartímeus merkir því sonur Tímeusar og Bartímeus er því ekki eiginlegt skírnarnafn. Við vitum ekki hvað blindi maðurinn hét – hann var bara kunnur af viðurnefni. Kannski var hann nafnlaus og virðingarlaus neðst í metastiga samfélgsins og aðeins þekktur af samhengi sínu. Flestar biblíusögur eru á mörgum plönum og það er áhugavert að ein merking orðins Tímeus er skítur, óhreinindi, drulla. Ef það er merkingin eru skilaboðin að hann væri barn óhreinleikans. Í djúpum skít. Blindur maður fastur í drullu. Og þá er hann orðinn tákn. Ef menn samþykkja að við séum ekki fullkominn er Bartímeus tákn um alla. Við erum öll Barímeus.  

Lifa vel

Bartímeus vissi að enginn myndi beina athygli Jesú að honum, nafnlausum drulludela. Hann var staðráðinn í að láta ekki hjálpina fara hjá án þess að ná sambandi. Bartímeus æpti og lét sig engu varða þótt fólk reyndi að þagga niður í honum. Hann vildi ná athygli Jesú. Þegar Jesús spurði hvað hann vildi stóð ekki á svarinu: “…að ég fái aftur sjón.” Svo féll dómurinn, “…far þú, trú þín hefur bjargað þér.” Sjónin kom og líka viljinn til að lifa vel.

Hjálp

Bartímeus æpti: “…miskunna þú mér.” Þetta er ein frægasta bæn kristninnar. Hún er beðin í öllum öllum messum hér í Hallgrímskirkju. Kyrie eleison, Drottinn miskunna þú mér. Kristur miskunna þú mér. Við Íslendingar erum ekki ein um að þessa bæn heldur hljómar hún í flestum messum heimsins. Allir kórar, sem syngja einhver kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison, Drottinn, miskunna þú mér.

Þegar okkur líður illa sprettur þessi sama bæn upp í djúpi sálarinnar. Þegar við æðum á spítala með börnin okkar fárveik er það þessi gerð bænar sem flengist fram. Líka þegar við lendum í ástarsorg, missum ástvin í dauðann – þegar við erum að sökkva í myrkur, veikindi, drullu heimsins þá æpum við hið innra: Hjálp. Og það er þessi hjálparbeiðni sálarinnar sem er inntakslega hið sama og bænin: Drottinn, miskunna þú mér. Kyrie eleison.

Bæn og ósk

Þegar Elísa gekk Jakobsveginn var hún með krabbamein í líkama sínum. Henni fannst hún vera sokkin í drulluna. Hún var Bartímeus og æpti á hjálp, vonaði að hún fengi raunverulegan bata, þráði stuðning að ofan þó hún væri ekki guðstrúar.

Hún sagði frá því að þegar hún var lítil hefði hún ekki beðið til Guðs en hún hefði hins vegar kunnað að óska sér. Þegar hún handsamaði fiðrildi notaði hún þá óskasstund til að nefna það sem hana langaði í. Þegar hún fann fjögurra blaða smára óskaði hún sér líka. Og þegar hún taldi sig vera undir regnboganum var tími óskanna. Þegar hún henti pening í gjá á Þingvöllum þá var tími til að óska líka – þar er óskabrunnur.

Elísa gerði sér grein fyrir mun á ósk og bæn og segir á einum stað: „Ég kann ekki að biðja en ég kann að óska mér.“ Og það er munur á bæn og óskum. Við óskum okkur hluta, upplifana, að vera á einhverjum draumastað og að komast í einhverjar aðstæður. Óskir okkar eru eitthvað sem við okkur langar í. En bæn er ekki röð af óskum. Bæn varðar hið stóra og mikla, – það sem varðar líf og hamingju. Barnið óskar sér en lífið biður. Bartímeus var ekki með óskalista einhverra smámála sem hann gæti hugsað sér. Mál hans var mál lífsins. Hann bað frá dýpsta grunni sálar, huga og líkama. Hjálp – gefðu mér von, ljós og breytingu.

Bæn varðar alltaf líf og biður um líf. Bæn er ekki ósk um eitthvað yfirborðslegt, smæðarlegt og sjálfhverft. Elísa bað um að fá að vera laus við sorann og Bartimeus bað um sjón – svo hann gæti losnað úr skítnum.

Hjálpin nærri

Sagan um Bartímeus er saga um okkur öll. Og göngusaga Elísu á Jakobsveginum er heillandi saga sem getur opnað fyrir okkur möguleika í lífinu. Hver verður með sjálfum sér lengst að fara. Ertu að sökkva í skítinn? Herja veikindi á þig? Líða ástvinir þínir? Þú mátt kalla á hjálp. Jesús er við eldhúsborð og rúmstokka – líka hér í Þingholtunum – er nærri þér í angist þinni og við hlið þér á Landspítalanum. Jesús Kristur heyrir þegar fólk æpir og kemur. Við ákveðum sjálf hvort við viljum að lífið sé skítt eða lífið sé bataferli. Á okkar valdi er hvernig við lifum og göngum. En Jesús er besti samferðamaðurinn – dregur okkur upp úr soranum og gefur sjón.

Kyrie eleison. Kristur hjálpa þú. Drottinn – miskunna þú.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, annan sunnudag í föstu, 12. mars, 2017.

Textaröð: B

Lexía: 2Mós 33.12-13
Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“

Pistill: Heb 5.7-10
Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Guðspjall: Mrk 10.46-52
Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.