Greinasafn fyrir merki: fyrirgefnin

Viðsnúningur – fyrirgefðu

Í gamla daga var talað um iðrun – og iðrun er það að úthverfa því sem er hið innra. Við getum notað ýmis orð um þetta ferli. Við getum talað um viðsnúning, sem verður í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti, og við þurfum að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – og varðar ákveðna þætti lífsins og ekki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Strákurinn í Eyjum

Einu sinni svindlaði strákur á prófi. Mamman komst að glæpnum. Drengurinn varð skömmustulegur og sagði við hana. “Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” “Já, það er ljómandi,” sagði mamma. “En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrun er ekki alvöru nema hún hafi áhrif á atferli og samskipti. Iðrun er ekki privatmál heldur hefur samfélgsvídd. Iðrun er ekki einkamál.

Við gerum öll eitthvað rangt, sem hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað, sem særir og jafnvel grætir. Við hittum fyrir viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki? Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið?

Bergmann
Einu sinni horfði ég í beit á flestar kvikmyndir Ingmar Bergman og síðan á ítarefni og þar á meðal viðtal við hann. Bergmann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði gagnrýnt mjög verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða um þennan mann og hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með sig, hvernig honum leið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu. Gagnrýnandinnn var uppteiknaður sem vondur maður. En sá hafði enga möguleika til varnar því hann var löngu dáinn. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman. Sem sé fullkomið hatur. Þú hefur væntanlega hitt fólk sem hatar og getur alls ekki fyrirgefið. Hvað með það?

Svo eru þau sem eru siðblekkt eða siðblind og sjá engan skilsmun á góðu og illu – og tjá því enga iðrun. Og þessi hópur er líklega 1- 2% fólks. Áföll slíkra manna eru aðeins að fá ekki vilja sínum framgengt. En er hægt að fyrirgefa, þegar engin afsökunarbeiðni berst? Er hægt að fyrirgefa ef engin iðrun er að baki og ekkert hjartanlegt “fyrirgefðu.”

Iðrun og fyrirgefnin

Fyrirgefning varðar margt og er alls konar. Hvað átti  að gera við gamla komma austurblokkarinnar eftir fall kommúnismans? Þeir játuðu sumir brot sín með vörunum og töldu það nóg til að þeir fengju syndakvittun og möguleika til nýs pólitísks lífs. Í Suður Afríku komu margir fyrir Sáttanefndina sem þeir Mandela og Tutu stofnuðu til. Margir þráuðust við – iðruðust ekki. Oft er það svo að iðrun verður ekki fyrr en augu hinna seku eru glennt upp, eins og sjá má af iðrunarmynd Einars Jónssonar í Hnitbjörgum.

Ófyrirgefanlegt?

En svo eru tilvikin þegar krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf. Margt verður og fellur utan við mannlega fyrirgefningu; engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar fólk var að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir að til er eilíf sekt. Horkheimir og Adorno sögðu að Guð væri “nauðsynlegur” eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr glæpum nasismans. Þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Afstaða Jesú – átrúnaður fyrirgefningar

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.