Greinasafn fyrir merki: framtíð

Aftur já, – en líka fram

Sagt er að margir Vesturlandabúar komi til kirkju timbraðir í dag og illa fyrir kallaðir. Fastan hefst. Gleðskapur hefur ríkt liðna daga áður en föstuaðhaldið í mat og drykk byrjar. En ég get ekki séð merki um höfuðkvalir þegar horft er fram í kirkjuna! Fastan er merkilegur tími íhugunar, tími Jesúferðar til Jerúsalem og tími til að hugsa um tímann sjálfan og hvernig við dönsum við takt tímans.

Tíminn í grafhýsi

Ég var einu sinni í stórum hópi Íslendinga í Westminster Abbey í London sem við þekkjum m.a. af stórviðburðum í bresku þjóðlífi, konunglegum giftingum og útförum. Það er einkennileg kirkja. Í henni eru um þrjú þúsund og fimm hundruð grafir, legstaðir konunga, skálda, vísindamanna og þjóðhetja. Þó er þessi hvelfing dauðans líka kirkja fyrir lífið. Íslenski hópurinn sat í glæsilegri stúku og komið var að kvöldsöng. Drengjakór gekk inn með kirkjuþjónum og prestum. Kyrrð féll á. Túristarnir voru farnir og aðeins þau eftir sem vildu taka þátt í kvöldsöng. Við höfðum góðan tíma til að horfa og vorum umvafin djúprödduðum ómi hinna miklu hvelfinga. Hugurinn leitaði inn á við. Á tíðagerðarblaðinu var formáli um tímann og afstöðu kirkju og kristinna manna til hans. Þar stóð að kirkjan lifði í fortíð og gamlir lestrar væru lesnir í messum og helgihaldi, textar úr sögu Ísraels. Jú, það er rétt að flestir textar í lífi kirkjunnar urðu til fyrir löngu síðan. En ef fortíðarhyggjan ræður verður allt gamaldags. Það er einmitt hlutverk okkar að skilja hið úrelta frá hinu sem er gilt og klassískt. Það er verkefni hvers manns sem leitar þroska og líka vökullar kirkju.

Kall til framtíðar

Svo stóð þarna á blaðinu að líf kirkjunnar sé líka mál framtíðar. Textar Nýja testamentisins varða framtíð og draga fram verk Guðs. Þeir benda okkur á vonarefnin og beina sjónum fram á veginn. Þeir minna okkur á að við megum snúa okkur fram. Aftur já, – en líka fram. Verðum við ekki rótlaus ef við missum sjónar á fortíðinni? Verðum við sem einstaklingar ekki grunnfærin þegar við hættum að læra af hinu liðna? Jú, svo sannarlega. Svo er það reynsla kynslóðanna að þau sem ekki þekkja og skilja sögu sína eru dæmd til að endurtaka mistök fortíðar. Hinir öfgarnir eru að þegar við lifum bara í fortíðinni og erum hætt að opna gagnvart framtíð og nútíð þá erum við deyjandi. Við þurfum að þola þá spennu að lifa í fortíð og framtíð, því sem var og því sem verður. Þegar kólfurinn er hættur að sveiflast milli framtíðar og fortíðar dofnar allt og deyr að lokum. Aftur og fram, aftur og fram er taktur kirkju og kristins manns og raunar taktur fyrir lífið.

Jesúreisan til Jerúsalem

Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíusálmunum? Ferð Jesú til Jerúsalem sem alltaf er líka lífsreisur allra einstaklinga og kynslóða. Við erum samferða Jesú. En menn voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til að hún yrði ferð til sigurs og að þeirra lið ynni og Jesús yrði þar með þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi að hlutverk hans væri annað en það sem aðdáendur hans og klapplið vildu. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús horfði aftur, þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum væri ætlað að þjóna. Aftur og fram. Ferð Jesú var ekki túristaferð. Hann var ekki í huggulegri kirkjuskoðun. Ferð hans var upp á líf eða dauða. Hann hefði getað látið undan freistingunni og forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar. Eða hvað?

Gamalt og nýtt

Í ískaldri höll erkibiskupsins, Lambeth Palace í London, héldu nokkrir fræðimenn fyrirlestra um þróun kirkjulífs í Bretlandi, ensku kirkjuna, helgihaldssögu þeirrar kirkju og kirkjusögu. Í kuldanum fór ég að velta vöngum yfir hver væri God’s frozen people, Íslendingar eða Englendingar. Margir kirkjusöfnuðir í Englandi hafa lent í miklum vandræðum þegar fólkið styður ekki starf þeirra lengur. Kirkjur hafa verið seldar. Þeim hefur verið breytt í flottar íbúðir eða skrifstofuhúsnæði. Eina kirkju hef ég séð sem var orðin að stóru bílaverkstæði. Víða hefur safnaðarfólkið gengið í sjálft sig og þorað að spyrja hvort ekki væri kominn tími til að breyta. Það er ekki nóg að eiga glæsibyggingar og að baki mikla sögu, hefð og fína texta. Ef safnaðarlífið gengur ekki verða menn að taka upp nýja stefnu og jafnvel selja kirkjuhúsin. Kirkja er ekki hús heldur fólk. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan sem kristin kirkja lifir stöðugt í og verður að þola. Þegar breytingar verða í samfélagi eiga kristnir menn að að opna dyr en loka ekki að sér í fortíðarhyggju. Það getur verið pínlegt að ganga í sig og breyta. Hvað um fortíðina? Hvað um framtíðina? Ætlum við að lifa bara í hefðinni og endurtaka það sem alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Niðurstaðan er að best sé að fortíð og framtíð samþættist. Kristnin lifir í krafti fortíðar, lítur til baka og tekur mið af sögunni og hefðinni. En hún hangir ekki bara í hinu liðna heldur horfir fram og verður að opna. Verkefni kristnins fólks er að íhuga hvernig við getum brugðist vel og með ábyrgð í verkefnum lífsins. Okkar viðbrögð spanna bæði fortíð og framtíð. Ef við erum bara annað hvort bregðumst við og erum óábyrg. Ef Jesús hefði bara lifað í fortíð hefði hann aldrei farið upp til Jerúsalem. En hann þorði. Því erum við hér í dag af því hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Aftur en líka fram. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Kannski fastar þú ekki þennan tíma en farðu inn á við og inn í þig. Er eitthvað sem eru bara leifar úr fortíð sem mega hverfa? Getur verið að nú sé komið að pistlinum í lífinu og þú snúir þér 180° og opnir líf þitt mót framtíð og guðskallinu? Til að þú getir lifað í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð. Gott líf er flétta fortíðar og framtíðar.

Sunnudagur í föstuinngangi. Jes. 50. 4–10. 1. Kor. 1. 18-25. Lúk. 18. 31-34.

Myndina tók ég blessunarkveðju á vegg höfuðkirkju Englendinga, Westminster Abbey.

Stela framtíðinni

Ég var barn í vesturbæ Reykjavíkur þegar Kúbudeilan geisaði í byrjun sjöunda áratugarins. Fréttaflutningurinn um yfirvofandi heimsenda náði til okkar barnanna. Ég varð óttasleginn og gerði mér grein fyrir að heimsendaógnin væri til framtíðar þó heimsenda hafi reyndar ítrekað verið frestað. Meðan ég enn var barn varð niðurstaðan, að ég ætti aldrei að eignast börn. Mér fannst það væri óábyrgt, ósiðlegt, að fæða börn inn í svo hættulega veröld. En Guð er húmoristi og ég hef eignast fimm börn. Guð opnar alltaf klemmdan tíma. Ég á þrjú barnabörn sem ég horfi í augun á og hugsa um framtíð þeirra og hamingju. Hvernig verður hún? Hvað get ég gert í þeirra þágu?

Nú eru áramót og hugleiðinar um fortíð og framtíð laumast inn í vitundina. Er tíminn opinn og ekkert nema möguleikar framundan á nýju ári? Eða er tími mannanna að læsast og líf heimsins í kreppu? Ég minnist margra samtala við ungt fólk á árinu. Það sem situr helst í mér eru hinar djúpu áhyggjur sem þetta framtíðarfólk hefur af velferð heimsins, náttúrunnar sem er húsið, sem við búum í. Og ég tek alvarlega framtíðarkvíða æsku heimsins og líka að mín kynslóð hafi gert hrapaleg mistök á kostnað fólks og framtíðarlífs plánetunnar. Er framtíðin ógnvængleg? Hvað er til ráða?

Fyrr á árinu söfnuðust framhaldsskólanemar hér fyrir framan Hallgrímskirkju. Unga fólkið hélt á slagorðaspjöldum – um mikilvægi loftslagsverndar. Spjöldin voru með litríkum setningum um náttúruvernd, verkefni okkar og tímann. Boðskapur þeirra hafði djúp áhrif á mig og leitar reglulega upp í hugann. Ég tók myndir af spjöldunum og fór að skoða þær aftur í vikunni. Þar segir meðal annars: „Framtíð okkar er í húfi.“ „Tíminn er á þrotum.“ „Það er löngu kominn tími á aðgerðir.“ „Það er engin planet B.“ Þetta eru ábendingar nokkurra spjaldanna. Hin sænska Greta Thunberg hefur dýpkað áhyggjur æskufólks og beinlínis ákært forystufólk heimsins fyrir að stela tíma og framtíð barna heimsins. Á loftslagsráðstefnu í haust sagði hún við sextíu þjóðarleiðtoga: „Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með innantómum orðum ykkar.“Þegar við berum saman einróma viðvaranir vísindasamfélagsins og aðgerðir stjórnmálamanna skiljum við þunga ákærunnar og Greta Thunberg hefur rökin sín megin. Hvað með stuld framtíðar?

Loftslagsvá, plastmengun hafanna, brennandi Ástralía og skelfilegir gróðureldar á öðrum hlutum jarðarkúlunnar. Mengun hefur breytt lífkerfum heimsins og veldur streitu í samskiptum sem leiða til styrjalda og þjóðflutninga. Ótti læðist um í samfélögum heimsins og nær tökum á æ fleirum og kemur fram í alls konar skrítnum óttamyndum. Mannótti, hræðsla við aðkomna og flóttamenn, neikvæð þjóðernishyggja og vonskuathugasemdir nettrölla á samfélagsmiðlum eru tákn um aukna streitu og að menningarmengunin er líka að aukast. Framtíðin verður æ ógnvænlegri. Það er eins og dans tímans sé að hægjast. Börn heyra fréttir, unnið er með þær í skólum og æ fleiri taka viðvaranir alvarlega um klemmda eða lokaða framtíð. Hvernig getum við brugðist við, hvað eigum við að gera? Framtíðarkvíði – skiptir trú á Guð einhverju máli?

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður og kall tímans. Jesús segir kennslusögu, sem er skiljanleg – líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré, sem ekki ber ávöxt? Bændur veraldar fella slík tré. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðusett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva, en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn.

Jesúmeiningin er, að Guð er langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að öllu lífi er ætlað að bera ávöxt – skila sínu láni. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvað í samfélagi okkar er árangurslaust? Hvað á að skera niður? Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og heimsbyggðarinnar? Og hvað með framtíðina? Eru ábyrgðarmenn heimsins geld tré sem bara stela næringu en bera ekki ávexti?

Framtíð – og Greta Thunberg

Samkvæmt Time Magazine er Greta Thunberg maður ársins 2019 og hún hefur reyndar fengið margar viðurkenningar síðasta árið. Og hafir þú ekki enn lesið bókina um Gretu Thunberg og fjölskyldu hennar hvet ég til að þú náir þér í JPV-bókina Húsið okkar brennur. Þar er sögð merkileg saga flókins fjölskyldulífs, sem skýrir af hverju Greta er hert í eldi lífsreynslunnar. Það er hjartagrípandi bók um lífsbaráttu, en ekki bara um loftslagsmál. Greta Thuberg hefur dregið saman og bent á margar viðvaranir vísindasamfélagsins, sem er nánast einróma í ályktunum. Greta hefur orðið fyrirmynd og rödd framtíðarfólksins. Málflutningur hennar er skýr. Skólaverkfall hennar, borgaraleg óhlýðni, hefur orðið fyrirmynd um aðgerðir. Unga fólkið á Vesturlöndum hefur vaknað til vitundar um skyldur sínar gagnvart framtíð heimsins. Þessi lágvaxni risi hefur minnt leiðtoga veraldar á, að gömlu aðferðir þeirra hafi ekki skilað neinu. Of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Og hún hefur ítrekað bent á að fólk heimsins, stjórnmálaleiðtogarnir, leiðtogar þjóðanna, segist elska börnin en steli samt framtíð þeirra, möguleikum þeirra.

Blessunin er alls konar

Hvað þýðir svona boðskapur við áraskil? Er nýtt ár möguleiki? Er staða Boeing-samstæðunnar orðin táknmynd um svik, blekkingar, slys og hrun heimsbyggðarinnar? Er neysla okkar, óréttlát skipting gæðanna slík, að framtíðin er að lokast mönnum? Erum við forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís en tökum bara til okkar en skilum engum ávöxtum. Erum við á fjórða ári dómsins? Og svo endir? Greta Thunberg og framtíðarfólkið minnir okkur á, að við höfum brugðist svo harkalega að við rænum börnin okkar, líka barnabörnin okkar framtíðinni.

Tvíhyggja eða eining?

Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð skiptir sér af efnaferlum í eldfjöllum, sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum og mengunarmálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk-kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Loftslagsvá, mengun náttúrunnur og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í. Þegar unga fólkið talar skýrt og vísindasamfélagið einnig heyrum við rödd Guðs.

Og þá hið nýja ár. Já, framtíðin kallar. En þeim tíma er lokið, að við mannkyn höfum leyfi til að dæla árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið. Við höfum ekki lengur leyfi til að drepa eina milljón fugla og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr árlega vegna plastsóðaskapar. Hið sama gildir um útblástur sem eyðileggur jafnvægi veðurkerfa og hið fínstillta jafnvægi lífvíddanna.

Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér nú á eftir streymir dásamlegt vatn frá uppsprettu lífsins. En fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan og jafnvel algeran vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Jörðin er heilög, helgur garður Guðs, og það verður fellt sem spillir eða skilar ekki ávexti. Hið hræðilega er þegar fólk segist elska börnin sín og barnabörn en stelur samt af þeim. Hvað um Guð og opnun tímans?

Ant­onio Gutier­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, hefur ítrekað minnt á, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims. Það merkir á máli trúar, að gott fólk er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og okkur forréttindafólki vestursins hættir til. Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Við sem einstaklingar getum ekki bjargað heiminum, en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum atkvæði okkar og notum peninga. Ef stjórnmálamenn og leiðtogar okkar eru geldir eins og ávaxtalaust tré eru þeir búnir að fella axardóm sjáfra sín.

Tíminn er kominn. En hvað um framtíðarkvíðann? Eigum við að játast vonleysi dómsdags? Nei. Guð er aldrei í fortíð eða bara í nútíð. Guð er lífsglaður húmoristi. Og Guð kemur alltaf úr framtíð, opnar möguleika þar sem engir voru fyrir. Guð er í lífi, lífsbaráttu, góðum verkum og lífsgöngum unga fólksins. Guð kemur þar sem vonleysið er rammast, opnar og blæs krafti í fólk. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð Guðs. Í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar vona og hugstyrkingar. Guð gefur börnum líf gegn heimsenda. Í hvert einasta sinn er ég horfi í augu barna dáist ég að lífmætti Guðs, sem hefur ekki snúist gegn tímaþjófum heims.

Boðskapurinn er einfaldur: Dauðinn dó en lífið lifir. Leggðu af meðvirkni og hættu afneitun. Opna hug þinn og hjarta. Snúðu þér til framtíðar. Fjórða árið er hafið. Við erum kölluð til verka, að bæta það sem við höfum misgert og bera ávöxt. Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Guð kallar fram líf og nærir. Boðskapur kristninnar er upprisuboðskapur Guðs og talar til framtíðarkvíðans. Við megum gjarnan taka stefnu en Guð hefur unnið það mikilvæga áramótaheit að standa með okkur við að opna framtíð lífs á jörðu og kynslóða framtíðar.

Amen – Í Jesú nafni.

Við, prestar Hallgrímskirkju, þökkum ykkur – söfnuði, starfsfólki, sjálfboðaliðum, tónlistarfólki, vinum og nærri milljón erlendum gestum samfylgdina á árinu 2019. Verið velkomin til helgihalds og samvera í kirkjunni. Nýtt ár mikilla ævintýra er að líða og annað ár kemur. Við erum bjartsýn vegna þess að Guð opnar tíma. Lífið lifir og Guð er nærri. Komi hið nýja ár. Hlið himins er fyrir lífið og í þágu lífs.

Gamlársdagur 2019 – Hallgrímskirkja

Lexía: Hlj 3.21-26, 40-41
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.

Pistill: Róm 8.31b-39
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? … Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 13.6-9
Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

Framtíðin í núinu

Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.

Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.

Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.

Lífmagn lexíunnar

Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.

Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?

Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.

Bæði gamalt og nýtt


Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði.

Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð


Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.

Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.

Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?

Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti.

Amen

Íhugun í Hallgrímskirkju 12. júlí, 2015

2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð – textaröð: B

Lexía: Jes 42.5-7


Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, 
sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
 Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
 Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina 
til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi
 og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19


Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.