Greinasafn fyrir merki: forréttadiskar

Kirkjuplattar

Á fjölsóttum heimilum til sjávar og sveita er gott að eiga marga diska. Prestur sem hefur sótt um lausn frá embætti og er á þriðja æfiskeiði lætur flest frá sér og grisjar stíft. En með hækkandi aldri leyfir maður sér að verða skrítnari en áður. Og ég safna kirkjuplöttum og nota þá sem forréttadiska. Margir fagrir og merkilegir hafa verið gerðir en mig vantar í safnið. Svona diskar eru dásamleg samtalsefni um mikilvægi kirkjustaða og kirkjuhúsa 🙂  Ég stefni að mikilli matseld og mörgum veislum og bæti í ef ég held heilsu og andlegu atgervi. Því er þörf á fleiri kirkjudiskum.

Ég á þegar þessa: Akureyrarkirkja; Bústaðakirkja; Glerárkirkja; Hjarðarholtskirkja; Hvalsneskirkja; Hveragerðiskirkja; Ólafsvíkurkirkja; Reyðarfjarðarkirkja; Sauðárkrókskirkja; Setbergsprestakall -Grundarfjarðarkirkja; Skálholtskirkja; Stykkishólmskirkja (hin eldri vígð 1879); Stykkishólmskirkja (við byggjum kirkju); Stykkishólmskirkja (vígð 1990); Úlfljótsvatnskirkja; Þykkvarbæjarklausturskirkja.

Kirkjuplattar eru margir listilega gerðir og hluti af menningarsögu Íslands. Ef lesendur þessar greinar vita af fleiri kirkjuplöttum kaupi ég gjarnan, styrki kirkjurnar og vek athygli á staðasögu, menningarsögu og sögu kirkjunnar.

Ég á þrjá Stykkishólmsplatta og meðfylgjandi er mynd af forrétti á einum. Gerið mér greiða og verði ykkur að góðu. 

s@sigurdurarni.is eða í s. 8622312