Greinasafn fyrir merki: Ferming

IHS – fermingin

„Sæll og kærar þakkir fyrir flottu ferminguna og bókina og takk fyrir að vera svona skemmtilegur við okkur.“ Þessi fallega þakkarkveðja kom í tölvupósti og nokkrar myndir með frá fermingarstúlku eftir sumarfermingu í Hallgrímskirkju.

Ísabella Helga Seymour kom fljúgandi frá Ameríku til að fermast í Hallgrímskirkju sunnudaginn 18. júlí. Viktoría, mamma hennar, og Margrét Helga, yngri systir, komu með henni í messu viku fyrir fermingardaginn. Það var gaman að kynnast þeim, allar svo jákvæðar og kraftmiklar. Ísabella Helga tók því vel að útdeila í altarisgöngunni með okkur Ágústu Þorbergsdóttur. Svo báru móðir hennar og systir ljósin út í lok messu. Ísabella Helga valdi vers úr Rómverjabréfinu: „Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. … Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“

Í ávarpinu til Ísabellu var talað um nafnið hennar, merkingu og hún var minnt á að skammstöfun nafns hennar væri IHS. „Sú skammstöfun er algeng í kirkjum heimsins, í kirkjulistinni sem og munum, skreytingum kristninnar í húsum, bókum og miðlunarefni. Á fyrstu öldum kristninnar urðu til alls konar styttingar, nk. emoji þess tíma. IHS var eitt af þeim. Upprunalega var IHS stytting á Iesus Hominum Salvator, sem er latína og þýðir: Jesús frelsari mannkyns. Þegar þú sérð IHS í kirkjulist heimsins máttu muna að Guð er nærri, elskar, gefur líf, ástvini sem elska þig, fjölskyldu, vonir og lífskraft. Þú mátt vera vinur IHS – bæði sjálfrar þín og mannkynsfrelsarans. Svo vil ég minna þig á að ein merking nafnsins Isabella er að vera eiðsvarin Guði, vilja vera Guðs. Fermd Guði með jái. Nafnið Helga er tengt helgi, sem er ekki föstudagur til sunnudags heldur að vera heilög. Það merkir að vera tengd Guði og lifa fallega og vel. Nafnið, viðburðurinn í dag hvetur þig að lifa alltaf vel. Iðkaðu sjálfsvinsemd og Guðsvinsemd.“

Ísabella Helga Seymour er fermd og fékk Passíusálma að gjöf. Í kirkjunni var hún sjálf gleðigjafi, hrósaði fólki sem brást vel við þessari ungu og geislandi konu. Já og Ísabella Helga sendi mér þessar líka fínu myndir og þakkaði fallega fyrir sig. Það er rækt í svona sjálfstæði og þakkarafstöðu. Svo kemur hún vonandi aftur þegar hún staldrar við á Íslandi í framtíðinni. Svo samverkar allt til góðs í lífi hennar og hún á í Guði öflugan bandamanna. Sumarfermingar eru líka skemmtilegar. IHS.

Með á kennimyndinni, efstu myndinni, er Matthías Harðarson sem var orgelleikari dagsins. Til heiðurs Ísabellu Helgu spilaði hann Ungi vinur, sem er lag Oddgeirs Kristjánssonar við hvatningarljóð Ása í Bæ.

Hamingjuleitin er aðalmálið

Ferming – sérblað Fréttablaðsins. Ýmislegt hefur breyst frá því Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist fyrir tæpum 53 árum í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur. Í ár fermast yngstu börnin hans tvö.

Tæp 53 ár eru síðan Sigurður Árni Þórðarson,  sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist en í ár fermast yngstu börnin hans, tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Starfsins vegna hefur hann séð fermingar þróast undanfarna áratugi betur en margir og segir þær snúast í æ meira mæli um upplifun og innlifun. „Ferming var siður í samfélaginu og flestir fermdust áður fyrr. Kirkjan var eins og skólinn, stofnun sem var nýtt og sótt. Áherslan í fermingarundirbúningnum var því á fræðslu en er í dag meiri á upplifun og innlifun, sem getur orðið á kostnað fræðslu. Það er mjög áberandi hvað fermingarungmenni eru upptekin af hamingjunni. Ég hef í fimmtán ár kannað viðhorf fermingarungmenna og hamingjuleitin er þeim aðalmál. Það er æviverkefni að vinna að lífshamingjunni og fermingartíminn er mikilvægt skref á þeim vegi.“

Spyrja gagnrýninna spurninga

Sjálfur fermdist Sigurður árið 1966 og hefur margt breyst síðan þá. „Menningarsamhengið hefur breyst, einhæfnin er rofin og fjölbreytnin er meiri. En inntakið í fermingarundirbúningnum er jafn áleitið og fyrrum. Mér þótti allt fermingarferlið merkilegt og sagði alvöru já við Guði og lífinu. Fermingarungmenni nútímans grufla af miklum heilindum, spyrja gagnrýninna spurninga og skoða mál trúar með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við mennsku sína og þar með Guð. Og nú er framundan ferming tvíbura minna. Ég dáist að því hvað þeir eru tengdir sjálfum sér og opna fyrir lífsreynslu og hugsa stóru málin.“

Guð gefur lífið

Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna segir Sigurður, heldur já, já, já Guðs. „Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum stundum Guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.“

Mættust á miðri leið

Ferming Sigurðar var eftirminnileg, ekki síst þar sem hann var yngri en hinir krakkarnir auk þess sem þau voru bara tvö fermingarbörnin í fermingarathöfninni í Neskirkju. „Ég var ekki fermdur að vori heldur haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði fermingu sinni og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumst því á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri sem komu úr Hagaskóla en ég var úr Melaskóla. Í fermingarfræðslunni lærði ég 23 sálma, biblíuvers og fræði Lúthers og við vorum ágætlega undirbúin.“

Sannkölluð tertuveisla

Fermingarveislan var haldin heima á Tómasarhaga og segir Sigurður hana hafa verið eins og framlag Íslands í heimsmeistarakeppni í tertugerð. „Stórfjölskyldan og fjölskylduvinir komu og m.a. biskupshjónin sem bjuggu hinum megin götunnar, Magnea og Sigurbjörn. Þau gáfu mér Biblíu sem Sigurbjörn skrifaði fallega í. Veislan endaði á eftirminnilegri myndasýningu um náttúruperlur Hornstranda en við systkinin vorum ekki spurð um útfærslu veislunnar en hún varð þó eftirminnilegur menningarviðburður.“

Var sítengdur Guði

Eftir á að hyggja var kannski ekki skrýtið að Sigurður skyldi hafa valið sér þennan starfsvettvang. „Ég var sem barn sítengdur við Guð. Efni og andi, tími og eilífð, hafa alla tíð verið mér eining. Ég sótti að og í sjóinn við Ægisíðu og var á fjöllum og kafi í veiði og náttúrupplifunum í sveitinni. Náttúra og yfirnáttúra voru systur og aldrei andstæður í lífi mínu. Fermingarfræðslan varð eitt af mörgum skrefum í minni lífsframvindu. Á menntaskólaárunum hætti ég við að verða læknir og ætlaði að læra líffræði en tók u-beygju varðandi náms- og starfs-val um tvítugt og þá vegna veikinda.“

Grein í sérblaði Fréttablaðsins – Fermingar, 26. febrúar 2019. Ljósmyndina af okkur feðgum tók Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari. 

Frá vinstri: Jón Kristján, SÁÞ og Ísak. 

Ferming Svansí ömmu

Svanfríður Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 22. mars 1910.  Í dag er því 107 ár frá fæðingu hennar. Þórður, sonarsonur hennar, tók þetta viðtal við hana árið 2003 þegar leið að fermingu hans. Og þau sátu saman, hún á tíræðisaldri og hann á leið inn í manndómsárin. Það var heillandi sýn. Í aðdraganda fermingar er merkilegt að strekkja tímann og sjá allt í stóra samhenginu. 

Svanfríður fermd á Völlum

Ég fermdist þegar ég var fjórtán ára.  Það voru nú allir fermdir á þeim aldri þá. Ég fæddist 1910 svo þetta hefur verið 1924. Ég var fermd á hvítasunnu. Ég hafði gengið til prestsins á Völlum fyrir ferminguna. Pretsturinn, sr. Stefán Kristinsson, spurði okkur út úr í kirkju og hlýddi okkur yfir. Ég kunni nú marga sálma, milli fjörutíu og fimmtíu sálma. En sumir krakkarnir kunnu fáa sálma. Flestir fermingarkrakkarnir höfðu metnað og vildu kunna sem flesta, því presturinn vildi það nú líka.

Fermingarmessurnar voru alltaf fjölmennar. En á þessum hvítasunnudegi var hríðarveður. Það var nú troðfull kirkja samt og þurfti að setja inn aukastóla. Börnin voru miklu fleiri í sveitinni þá en nú er orðið. Systkinin voru mörg á öllum bæjum.

Ég var í hvítum kjól og mér var kalt. Kjóllinn var svo þunnur og fínn. Ég átti ekki kjólinn og hann var fenginn að láni. Fermingarkjólarnir voru hvítir og ónothæfir fyrir aðra daga og voru því lánsföt. En ég fékk svo sparikjól fyrir önnur tilefni. Og þetta var áður en kyrtlarnir komu. Ég var í dönskum skóm, sem kallaðir voru. Þeir voru svartir og ágætir. Við fórum út að Völlum þar sem presturinn bjó og svo skiptum við stelpurnar um föt inn á kontór prestsins. Vinkona mín var með kyrtil og í skautbúning.

Þegar við vorum búin að fara í fermingarfötin gengum við út í kirkju með fjölskyldum okkar. En við fengum sérstakt sæti í messunni. Þegar stólræðan var búin var sunginn fermingarsálmur: “Lát þennan dag, ó Drottinn, nú.” Þá færðum við okkur upp að altarinu og settumst þar. Presturinn hélt ræðu númer tvö, fermingarræðuna, og talaði beint til okkar allra. Svo vorum við fermd. Við þurftum ekki að svara prestinum með öðru en jáyrði því yfirheyrslur voru búnar í spurningum. Svo tók presturinn í hönd okkar um leið og hann var búinn að ferma. Það var engin altarisganga í guðsþjónustunni, en svo var í vikunni á eftir gengið til altaris.

Þetta var eftirminnilegur dagur og ég tók ferminguna mjög alvarlega. Við vinkonurnar – og ég held allir krakkar á þessum tíma – tóku fermingarheitið alvarlega. Við vildum tilheyra Guði og vera hans. Það var engin veisla. En börnunum, sem fermdust, og foreldrum þeirra var boðið inn á prestssetrið. Svo þegar við vorum komin heim skipti ég um föt. Það var nú sauðburður á þeim tíma svo allir voru að sinna skepnunum. Ég fór að ná saman kindunum sem voru úti. Það var ekki vonskuveður en nauðsynlegt að koma skepnunum inn.

Það var ekki til siðs að gefa margar gjafir á þessum tíma. En ég fékk fermingarkort og Gísli bróðir hafði keypt notað úr, sem hann gaf mér. Pabbi og mamma gáfu mér kind. 

Já, hver er nú óskin til Þórðar? Jú ég vil að fermingardrengurinn haldi það sem hann lofar, haldi sér við Guð og verði góður og nýtur maður. Það er mest hamingjan að gera það.

Þórður Sigurðarson tók þetta viðtal við Svansí ömmu, 5. apríl, 2003, daginn fyrir fermingu hans. Hún var fermd á Völlum í Svarfaðardal og hann í Neskirkju í Reykjavík. Viðtalið var birt í minningabók um Svanfríði Kristjánsdóttur. Myndin af Þórði hér að ofan var tekin á gönguferð á  Rima, en amma hans hafði oft farið áður upp á þetta mikla fjall. Brosmyndin af mömmu er tekin sumarið 1953. Kristín, systir mín, stendur hjá móður sinni óléttri og fagnandi við Litlabæjarhlöðuna við hlið húss okkar við Tómasarhaga. Yfirlitsmyndin við upphaf greinar er af Rimum. Þar má sjá bæina sem tengjast fjölskyldu og sögu Svanfríðar, Brautarhól þar sem hún er fædd, Gröf, Skriðu, kirkjustaðinn Velli, næst utan við Brautarhól, Uppsali, Hánefsstaði og síðan aðra bæi utar í dalnum. Hinum megin ár glittir í Húsabakka og kirkjustaðinn Tjörn.