Guð ég þakka þér fyrir lífið og þessa undursamlegu litríku veröld. Takk fyrir síkvika verðandi spriklandi af möguleikum, fyrir dansandi sól, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað. Guð ég þakka þér hljóma heimsins, hvísl stráanna, ýlið í gluggum húsanna, blæstrokur í hári, alla tónlist heimsins. Guð ég þakka þér fyrir foreldra og tilraunir þeirra til uppeldis hvort sem þær tókust eða ekki, afa og ömmur, vini, börn og félaga. Takk fyrir elskuna sem við höfum notið í lífinu, gáfurnar sem þú hefur gefið okkur rausnarlega, hæfileikana, hjartsláttinn, hugsanirnar, lífsplúsa og púlsa. Takk fyrir vetur og árstíðir, breytilegan ljósgang, djúpmyrkur og jólaljós, matarlykt í nefi og bragðundur í munni. Takk fyrir getuna til máls og hugsunar og líka fyrir hendur til að gæla við ástvini, þvo þvotta, elda mat, prjóna, smíða, þrífa, skapa listaverk og músík. Takk fyrir krydd lífsins og munnsins, ljóð og sögur, ævintýri, gleðiefni og hlátra. Takk fyrir leik barnanna, spilandi kátínu daganna, styrka hönd í áföllum og faðm þinn í dýpstu sorgum. Takk fyrir dagana sem við njótum, tilfinningar, tengsl og gjafir sem þú og vinir lífsins gefið. Takk fyrir að við megum vera í þessari miklu fylkingu lífsins sem veitir af sér, miðlar og þakkar …
Greinasafn fyrir merki: fegurð
Fegurst í heimi
Er Hallgrímskirkja falleg kirkja? Hvað sýnist þér? Þegar þú horfir í kringum þig, inn í kór, upp í hvelfingarnar, hver er þá niðurstaðan? Er kirkjan fögur? Hvað finnst þér um staðsetningu kirkjunnar í borgarlandslaginu? Hvernig líkar þér þegar þú kemur frá Keflavík og sérð Hallgrímskirkjuturninn og kirkjuskipið nánast sigla ofar borginni? Í vikunni keyrði ég um Kjalarnesið og mér þykir alltaf heillandi þegar Hallgrímskirkjuturn ber nákvæmlega við Keili. Þá verður samstilling formanna og kraftanna.
Hvað er falleg kirkja? Fegurð má vissulega skilgreina með margvíslegu móti og frá öðrum sjónarhólum en hinum fagurfræðilegu – estetísku. Er Hallgrímskirkja falleg? Kirkjuhúsið kitlar augu margra. Ljósflæðið hrífur og formfegurðin líka. Mörgum þykir kirkjan vera bæði fjarskafögur og innanfögur. Arkitektaskólar eru farnir að senda fólk til Íslands til að skoða kirkjuna og byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Mörgum í sókninni þykir vænt um kirkjuna og eiga dýrmætar minningar héðan um stóratburði lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir og minnast annarra hátíða og viðburða. Sum þeirra tala líka um hvað það hafi verið gaman að klifra í stillönsunum. Fjöldi Íslendinga, utan sóknar, sækir þjónustu til þessarar kirkju.
38
Meðal ferðafólksins er kirkjan vinsæl og aðdráttarafl. Fjölmiðlar heimsins og matsaðilar hafa lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi t.d. hið heimsþekkta Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. Ári síðar útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum í heimi. Ferðavefurinn Big Seven Travel birtir árlega lista yfir fimmtíu fallegustu byggingar heims. Listi þessa árs, 2021, hefur nú verið birtur og Hallgrímskirkja er í 38. sæti á listanum. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á listann.Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er skv. þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkja er fyrir ofan það á listanum.
Hvað er falleg kirkja?
Fyrir nokkrum árum kom ég í Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Thorvaldsensskúlptúrar kirkjunnar eru hrífandi og gerð byggingarinnar er laðandi. Ég var á kirkjufundi í Kaupmannahöfn. Við stóðum saman uppi á svölum tveir samverkamenn í fjölþjóðlegum kirknasamtökum og ræddum um kirkjuna. Ég spurði vin minn, finnskan biskup: „Finnst þér þetta falleg kirkja?“ Hann horfði á mig hugsi, blikkaði augum meðan íhugaði spurninguna og svaraði svo brosandi og ákveðið: „Þetta er hús Guðs. Þetta er kirkja. Þar með er hún falleg.“ Ég spurði frá sjónarhóli fagurfræði og bygingarlistar og um smekk mannsins. En sá finnski svaraði guðfræðilega. Viðmiðið hans var trúarlegt. Það sem þjónar Guði er fallegt. Og slík er afstaða hins kristna. Það sem þjónar Guði, þjónar lífi, eflir gæði í lífi fólks. Og frá sjónarhóli Guðs er fallegt skilgreint róttækt. Við þurfum að temja okkur þennan trúarsnúning til að skerpa smekk, augu, skynjun, tengsl og túlkun. Hver er smekkur Guðs?
Hlutverkin og aðalmálin
Hallgrímskirkja er margt og gegnir mörgum hlutverkum. Hún er pílagrímastaður. Vegna þess að hún er orðin fræg um allan heim koma hingað ferðamenn. Hún er leiksvið ljóss og skugga og gott ómhús tónlistar. Í þessu hliði himins hefur fólk svo náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga þegar kirkjan er opin sækir fólk í þetta hlé til að tengja við djúpið. Hér er gott að íhuga, gott samband. Það sem mikilvægast er að hér er Guð, friður, Andi Guðs. Við sem hér störfum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þjóna fólki, vera fólki útréttir armar himins, eyru hins hjálpandi kærleika, augu hins umhyggjusama. Hlutverkin eru margvísleg og flókin. Oft erum við ekki viss um hvaða leið eigi að fara. En þegar allt er skoðað og skilgreint er meginhlutverkið skýrt. Kirkjan er hús Guðs. Hún er falleg því hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er ekki utan þjónustusvæðis heldur getur fólk tengt.
Smekkur Guðs
Smekkur fólks er mismunandi. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir.Við deilum ekki um smekk. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll þröng og einstaklingsbundin viðmið. Guðsdýrkunin og guðstengslin skilgreina allt. Og það er raunar stórkostlegt að breyta um fegurðarskyn og merkingartúlkun, og læra að horfa á allt með hætti guðssýnarinnar, endurskoða gildi alls sem er í kringum okkur og í okkur líka. Ertu fallegur? Ertu falleg? Fegurðardrottning heimsins? Á topplistanum? Já, þannig horfir Guð á þig – þú ert djásn í heimi og lífi.
Alla daga og á öllum árum þarf kirkja Jesú Krists að fara yfir hvað er við hæfi í lífi kristninnar og þar með kirkjunnar. Er þjónusta við ferðamennina í samræmi við hlutverk kirkjunnar og hvernig megum við efla tjáninguna um að fólk sé elskað og Guð sé nær fólki en vitund og hjartsláttur þess? Er hægt að styrkja eitthvað í kirkjustarfinu til að þjóna betur hamingjuleit fólks á ferð? Geta sýningar, tónleikar, listin og reksturinn þjónað mönnum og Guði betur? Getum við bætt þjónustu við söfnuðinn með nýjum starfsþáttum og starfsháttum? Er mannahaldið í samræmi við að þetta er fallegt hús Guðs?
Mér þykir Hallgrímskirkja falleg kirkja, en fallegust er hún þegar hún verður því fólki sem sækir kirkjuna heilagur staður. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Hallgrímskirkja er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn, 38. fegursta hús heims skv. smekk fjölda ferðamanna. Ytri ásýnd kirkjunnar er mikilvæg en fegurð kirkjunnar verður best skilgreind í ljósi trúar og guðstengsla. Guð er fegurðin í fyllingu sinni. Allur heimur og allt líf þiggur fegurð og merkingu frá þeirri uppsprettu. Að húsið er hús fyrir bæn merkir að kirkjan er heitur reitur tengsla Guðs og manna. Þegar kirkja er vettvangur faðmlags Guðs og lífs er kirkja bænahús.
Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt? Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En smekkur Guðs er annar og um hann verður ekki deilt heldur. Þegar Guð horfir er fólk fallegt. Guð býr ekki til lista yfir fallega fólkið og svo hina sem ekki eru falleg. Við erum elskuð, falleg, á topplista Guðs. Þegar Guð horfir á okkur erum við stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn. Já kirkja er falleg því hún þjónar Guði en svo er það makalausa að Guð elskar fólk meira en hús. Þú komst í fallegt hús en við megum vita að við í okkur býr fegurð himinsins. Þú ert fögur og fallegur því þú ert ástvinur Guðs. Já musteri Guðs.
Hallgrímskirkja 5. september. 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Aðalfundur Hallgrímssafnaðar.