Handaþvottur og sprittun, bil á milli fólks og lokanir fyrirtækja eru til að tryggja sem besta sjúkdómavörn. Þetta er tími varna gegn vírusnum. Við vöndum okkur í samskiptum. Hvaða varnir eru mikilvægar og hver eru grunnatriðin?
Börnin mín og fjölskyldur þeirra eru dýrmæti lífsins. Þegar yngstu drengir mínir, tvíburar, fæddust uppgötvaði ég að börn breyta heiminum. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu þeirra hleyptum við, eldra fólkið á heimilinu, engri streitu að okkur. Váleg tíðindi og vondum fréttum var haldið utan húss. Löngunin að kveikja á sjónvarpsfréttum þvarr og útvarpsfréttir hljómuðu lágstemmt. Það var helst að ég fletti netmiðlum á skjánum til að skima yfir fréttayfirlitin, þó ekki væri nema til að fylgjast með gengi minna manna í boltanum.
Magnea Þorkelsdóttir var helg kona. Hún kom í mitt hús til að fagna nýfæddum drengjum og blessa þá. Hún sagði þessa setningu: „Þar sem er engill í húsi er ekki hægt að hugsa neitt vont.“ Þessi kyrrláta speki hefur lifað með mér æ síðan. Hið vonda og skelfilega fær ekki sama aðgang að lífi manna þegar englar búa í húsi. Þau, sem eiga að vernda aðra, verða að hafa hlutverk sitt á hreinu og vera heil í afstöðu verndarinnar. Illar hugsanir, ill tíðindi og streituvaldar eiga ekki að ná til barna. Raunar erum við öll börn hið innra og höfum sömu grunnþarfir. Við njótum hins hreina og friðsamlega. Á máli trúarinnar heitir það helgi eða heilagleiki.
Í ævintýrum er oft sagt frá álögum í tengslum við smábörn. Til að forðast ill álög þarf að rækta innri mann. Trú hefur um aldir verið besta heimavörnin í þeim efnum. Grikkir töluðu forðum um kaþarsis, sem varðar hreinsun og tæmingu. Í trúræktarsamhengi er kaþarsis þegar einstaklingur losnar undan álögum, illvilja, vondum minningum og illum hugsunum. Tvíburarnir mínir urðu mér tilefni tæmingar og endurmats. Að baki var og er þrá að vanda umönnun hins unga lífs, að leyfa ekki vonsku að seytla um sálir heimilisfólksins, síast í sængurföt barna og spilla lífi þeirra.
Litlum börnum fylgja vitaskuld álag, missvefn og oft áhyggjur. Altækt varnarleysi barna brýnir okkur, sem eldri erum, að gæta að hreinlæti og sóttvörnum. Hindra að félagsleg, líkamleg og tilfinningaleg mengun komist inn á heimilið og í fólkið í fjölskyldunni. Fjölþættar sóttvarnir eru til verndar hinu varnarlitla lífi.
Börn koma, vaxa, þroskast og fara síðan út í heim. En lífshvatar þeirra mega lifa í öllum húsum. Tilveran með engil í húsi er afstaða þroskans. Vitundin um átök lífsins hverfur ekki, heldur aðeins streitan. Nú sinnum við ytri sóttvörnum, en þurfum líka að sinna andlegum sóttvörnum. Engill í húsi er eftirsóknarverður og englar í húsum eru guðsgjöf. Handspritt notum við og virðum góðar samskiptareglur. En grunnvörn okkar varðar frið, öryggi og trú.
Íhugun, birtist í Morgunblaðinu 1. apríl, 2020. Myndskeið með sama efni er að baki þessari smellu.