Greinasafn fyrir merki: Elísabet Jökulsdóttir

Límonaði frá Díafani

Ella Stína fór til Köben og síðan áfram til Grikklands, alla leið til Díafani á eyjunni Karpaþos milli Krítar og Rhodos. Hún var átta ára þegar Jóhanna Kristjónsdóttir og Jökull Jakobsson fóru utan með börn sín. Bókin Límonaði frá Díafaní er í hinu ytra um þá ævintýraferð. En hið innra er hún uppgjör roskinnar konu um fjölskyldudrama, tilfinningar, viðbrögð og úrvinnslu stúlkubarnsins hið innra.

Elísabet Jökulsdóttir er búin að skrifa um foreldra sína og fjölskyldu í bókunum, Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda. Og nú heldur hún áfram að greina þætti uppvaxtar og óhamingjusamrar fjölskyldu. Ramminn er Grikklandsárið. Í Eyjahafinu var flest með öðrum stíl en á Seltjarnarnesinu. Glóaldin uxu á trjánum, geitur röltu um með bjöllur um hálsinn og litlu guðshúsin virtust sérbyggð fyrir börn. Ella Stína fór víða meðan foreldrarnir voru uppteknir við skriftir, eigið innra líf, Bakkus (eða var það Díonysos) og uppgjör við hvort annað. Löngu seinna kom Ella Stína aftur til Grikklands í rannsóknarferð sálar og uppgjörsferð.

Límonaði frá Díafani er eiginlega nýtt bindi í uppgjöri Elísabetar við foreldra sína og fjölskyldu. Ég hreifst sérstaklega af Saknaðarilmi og skrifaði um þá bók. Nýja límonaðibókin er mun síðri en lyktarbókin. Hún er vissulega lipurlega skrifuð og ferðin rammar inn minningar og uppgjör. Setningar hrífa og íhuganir hitta í mark. Myndin af grísku eyjalífi er vel teiknuð. En ég spurði sjálfan mig ítrekað hve lengi og hversu langt væri hægt að teygja lopa marinnar fjölskyldu. Hve mörg bindi má skrifa um fjarlægan en leiftrandi föður og snjalla móður með útþrá? Þrjár, fimm eða fimmtán? Frægir foreldrar, rithöfundar, stjórnmálamenn, vísindafólk, geta verið höfuðstóll góðra penna en það eru takmörk fyrir hve lengi á eða hægt er að taka af þeim sjóði. Ef farið er of langt er farið að blóðmjólka. 

Með þokkalegri einbeitni er hægt að lesa bókina á rúmlega klukkutíma. Umbrotsaðilinn hefur þurft að hafa talsvert fyrir að teyja bókina í 91 blaðsíðu. Langt er á milli málsgreina, letrið stórt og línubilið talsvert. Margar myndir eru í bókinni og lítið lesefni er á hverri síðu. En bókin slær sítrónuilmi fyrir vit og kallar fram eyjatilfinningar okkar sem elskum Grikkland. Að lestri loknum óskaði ég þess að barnið Ella Stína leysi fjötra konunnar og rithöfundarins Elísabetar. Sólgos sálna í nútíma eru ekki síður áhugaverð en gömul gos. 

Saknaðarilmur

Hvernig er lyktin af sorg og látinni móður? Hvernig er lyktin af ást? Saknaðarilmur er saga Elísabetar Jökulsdóttir og er um móðurmissi og tilfinningar og minningar sem vakna við uppgjör og úrvinnslu. Sagan teiknar upp flóknar persónur dóttur og móður og hvernig þær lifðu og höfðu víxlverkandi áhrif á hvora aðra. Sagan er átakanleg frásögn um sorgardýptir og blæbrigði. Saknaðarilmur hreif mig. Hún tjáir að höfundur hefur unnið með vanda sinn og náð sátt. Þetta er átakanleg bók en líka hrífandi uppgjör sem allir geta lært af.

Í Saknaðarilmi gerir dóttir upp við móðurina, gjafir hennar, umhyggju en líka hörku og kulda í samskiptum. Myndin sem Elísabet dregur upp af móður sinni er mótsagnakennd. Harkan í samskiptum þeirra særir en ástarleitin hrífur. Stundum er elskan harðhent og jafnvel ofbeldisfull. Andstæður persónu móðurinnar ríma síðan í túlkun á þverstæðum í persónu Elísabetar. Sannleikurinn í samskiptum þeirra var ekki einnar víddar heldur marglaga.

Mikill hraði er í málsmeðferð og stiklað er á milli tíða og skoðunarefna. Sumir kaflarnir eru aðeins nokkrar línur en aðrir lengri. Flestir ljóðrænir og merkingarþrungnir og sumir expressjónískir. Saman teikna þessi kaflabrot mynd  af erfiðum uppvexti, áföllum, misskilningi, baráttu, gjafmildi, hæfileikum, harðræði, misþroska, sálarkreppum, margræðum persónum í samskiptum og svo öllu hinu venjulega líka.

Saknaðarilmur er líka saga um hvernig áföll hafa kreppt að fólki og lemstrað. Herpt fólk á erfitt með að rækta ást og þegar allur tími og athygli fer í að bregðast stöðugt við nýjum vanda vorar seint. Ástarteppa eða ástarherpingur er slæmur uppvaxtarreitur hamingjunnar.

Saga Elísabetar tjáir með mikilli einlægni harkalega reynslu og kreppt samband móður og dóttur. Bókin er ekki aðeins vel skrifað bókmenntaverk heldur ljómandi samtalsefni fyrir fólk sem hefur áhuga á samskiptum kynslóða og menningu fjölskyldna. Svo er bókin merkilegt rit um framvindu sorgar og hvernig má vinna með og jafnvel græða kalbletti sálarinnar. 

Ég velti vöngum yfir hvernig erfið lífsbarátta mótar fólk og jafnvel afmyndar. Fátæka Ísland bjó til krumpað fólk sem skilaði herpingi aldanna áfram til framtíðarkynslóða. Syndir mæðra og feðra bárust og berast áfram, ekki bara í erfðamengi heldur líka í menningu fjölskyldna, ætta og þjóða. Barátta Íslendinga við fátækt skilaði fátækt í samskiptum, fáum faðmlögum og fátækt í ástartjáningum. En þrátt fyrir allt er manneskjan mesta undrið og elskan leitar upp í okkur öllum. Þá ilmar.